Í tveimur heimum sama daginn

Í hádeginu fór ég í heimsókn á elliheimili hér á Akureyri.  Ég var að heilsa upp á gamlan bónda og fræðaþul framan úr Eyjafirði.  Maðurinn að auki skáldmæltur vel.  Ég hafði hitt hann hér um árið í Hveragerði og átti við hann erindi, sem ekki verður rakið hér.

 

Þessi ágæti bóndi er níræður að aldri.  Heyrnin er farin að gefa sig og fæturnir orðnir óstyrkir.  En gamli maðurinn var glaður í bragði.  Hann hefur skilað lífsverki sínu og er sáttur við Guð og menn.

 

Í kvöld horfði ég á fréttir í Stöð 2.  Þar var sagt frá umfjöllun danskra fjölmiðla um útrásarvíkingana íslensku. Jón Ásgeir Jóhannesson kom mjög við sögu í umfjöllun Dananna og hann talinn höfðupaur glæpaklíku, sem knésett hefði þjóð sína efnahagslega. 

 

Eftir að hafa lesið fréttina, lét fréttakonan þess getið, að Jón Ásgeir væri einn af aðaleigendum Stöðvar 2.  Var blessuð stúlkan að auglýsa meint hugrekki sitt eða hitt, hversu lýðræðislega þenkjandi umræddur Jón Ásgeir er; að láta tala svona um sig í sínum eigin fjölmiðli?  Ég veit það ekki.

En hitt veit ég, að fjölmiðlafólk með sjálfsvirðingu, lætur stýrast af því einu í sínum störfun, hvað sé títt og í hvaða samhengi tíðindin eru.

 

Ég veit ekki, hvort ég var alveg í sama heiminum í hádeginu og í kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband