Annað stig byltingarinnar

Allar byltingar hefjast með friðsömum mótmælaaðgerðum almennings gegn ófyrirleitinni valdastétt.  Bregðist valdastéttin við, með því að sýna iðrun, gangast við gjörðum sínum og bæta fyrir þær, fellur allt í eðlilegt horf.  En sýni hún hroka og yfirlæti og dengi afleiðingum misgjörða sinna yfir alþýðuna, hefst annað stig byltingarinnar.  Þá er ekki lengur hægt að treysta því, að allt fari friðsamlega fram.

 

"Icesave samningurinn" er í raun skilyrðislaus uppgjöf.  Samkvæmt honum er íslenskri alþýðu ætlað að bera fulla ábyrgð á meintum glæpum ófyrirleitinna lukkuriddara þeirrar valdastéttar, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skópu með auðhyggjunni.  Samfylkingin ber þar einnig sína ábyrgð með stjórnarsamvinnu við Sjálfstæðisflokkinn á lokaspretti auðhyggjunnar.  Í raun eru þessir þrír flokkar því úr leik í íslenskum stjórnmálum.

 

En hvað þá um Vinstri-græna?  Formaður þeirra, núverandi fjármálaráðherra, hefur með gjörðum sínum í Icesave-málinu, svarað þeirri spurningu á viðhlítandi hátt.  Vinstri-grænir eru úr leik.

 

Vera má, að málum hafi einfaldlega verið svo háttað, að hin skilyrðislausa uppgjöf í Icesave málinu hafi verið óhjákvæmileg.  Það er raunar harla sennilegt.  En þá ber ríkisstjórninni að segja það, undanbragðalaust.

 

Við núverandi aðstæður er Alþingi ganglaust.  Íslenska þjóðin á maraþonhlaup í vændum, vilji hún komast úr þeim vandræðum, sem hún er nú í.

 

Alþingi er farlama stafkarl, sem ekki getur tekið þátt í slíku hlaupi.

 

Fjórflokkurinn er úr leik.  Hann hefur ekki einu sinni getað séð til þess, að meintir sökudólgar hrunsins mikla séu settir í gæsluvaðhald, meðan mál þeirra eru í rannsókn, þó ekki væri nema til að hindra að þeir komi sönnunargögnum undan.

 

Mótmælin á Austurvelli í gær og kurteislegar innheimtuaðgerðir unga fólksins á Fríkirkjuvegi 11 eru upphaf annars stigs byltingarinnar.

 

Nú verður ríkisstjórnin að segja af sér, mynda ber þjóðstjórn og kjósa til stjórnlagaþings, til að hægt sé að rétta þjóðarskútuna við, ekki aðeins í efnahagslegum heldur fyrst og fremst siðferðilegum efnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Mér finnst þú dæma Steingrím full hart.    Hann sagði í Kastljósi að hann væri enn sömu skoðunar og meðan hann var í stjórnarandstöðu - þetta væri vondur staða og samningur, en sá besti sem völ væri á.    Hann nefndi að afleiðingarnar af að semja ekki gætu t.d. orðið að við yrðum rekin úr EES og það lokaðist á samskipti við aðrar Evrópuþjóðir eða svo skildi ég hann.    Vextir 10 ára skuldabréfalána í Bretlandi eru 3,68%.     Fyrir vondan skuldara eins og okkur eru þá 5,5 % vextir ásættanlegir.  

    Ég er sammála þér um að vinna þarf að því að koma á stjórnlagaþingi og endurskoða stjórnarskrá en er það ekki á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar þó það verk hafi ekki hafist enn - það er margt að gera á stóru heimili og sumt þarf að hafa forgang.    Ég vil nú segja að það að elta "þjófana og glæpamennina", sparka útrásarhyskinu úr bönkum og skilanefndum og skoða starfsemi endurskoðenda ætti að hafa algeran forgang - þar liggur krafan um réttlæti og ábyrgð. 

Mér finnst allt byltingartal vera allt of snemmt, það er verið að vinna með algerlega gjaldþrota þjóð og væri undarlegt ef það kæmi ekki við neinn!   Leyndin sem yfir öllu hvílir er hins vegar forkastanleg - mikið af þessu leinimakki á að koma upp á borðið þó einhver atriði verði etv. að fara leynt!  

Kveðja,

Ragnar

Ragnar Eiríksson, 9.6.2009 kl. 13:21

2 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Já ég er sammála Ragnari að íslendingar séu gjaldþrota þjóð og þeir eru það jafnvel þó ICESAFE hefði ekki verið á herðunum líka. Það er vondur málflutningur að byrja á því að afneita staðreyndum. Núll er núll og skuld er skuld sama hvað maður reynir að fylla það með miklum orðavaðli.

Steingrímur verður að stunda stjórnmál sem eru í tengslum við raunveruleikann sem er skelfilegri en við getum ímyndað okkur. Ég er viss um að hann verður sá leiðtogi þjóðarinnar sem fer með okkur inn í ESB. Svona skelfilegt er ástandið gott fólk.

Stjórnmál eru mikill ábyrgðarhluti og fyrrum leiðtogar okkar trúðu á 'markaðsstýringu' nánast allra skapaðra hluta og að hlutverk stjórnmálamanna bara það að þvælast ekki fyrir. Þeir stóðu sig vel í því en það hefur afleiðingar fyrir 'alþýðuna' og hún verður að borga brúsann enda engir aðrir tiltækir. Þó maður nái í skottið á einhverjum útrásardólginum þá verður það ekki upp í nös á ketti. Því miður.

Gísli Ingvarsson, 9.6.2009 kl. 14:48

3 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Gísli!

Það er ekki peningarnir sem ég er að hugsa um - það er hefndin!      Þetta fólk er búið að plata okkur upp úr skónum, stela öllu steini léttara, svíkja fjölda manns og plata, t.d. ræfils útgerðarmennina sem tóku lán í góðri trú á himinháan gróða!   Nei það er hefndin - að sparka í þá sem eiga það skilið!

Kveðja,

Ragnar

Ragnar Eiríksson, 9.6.2009 kl. 17:43

4 Smámynd: Finnur Bárðarson

Þó ég sé annálað próðmenni hallast ég að skoðun Ragnars. Ég er búinn að fá nóg af silkihönskum og vil sjá jármglófana.

Finnur Bárðarson, 9.6.2009 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband