Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Smekklaus auglýsing Símans

Þá er Síminn farinn að nota síðustu kvöldmáltíðina til að auglýsa vörur sínar og þjónustu.  Að vísu virðist málið ekki alveg á hreinu, því að sögn höfundar auglýsingarinnar, er hér ekki um auglýsingu að ræða, heldur einhverskonar trúboð og listaverk að auki.

Um fyrra atriðið er fátt eitt að segja, enda boða menn trú, hver með sínum hætti.  Það verður þó að teljast nokkuð undarlegt trúboð, að nota tækifærið og auglýsa ákveðna vöru í leiðinni.  Einhvern veginn á ég erftitt með að sjá, að Mammon fari saman við heilaga kvöldmáltíð, sem raunar er hvorki meira né minna en upphaf kristinnar kirkju.

Hinn listræni þáttur þessara auglýsingar er smekksatriði.  En á hitt má benda, að list getur leitt ýmislegt af sér og ekki allt gott.  Þannig efast menn ekki um listræna hæfileika Lenu Riefensthal, en hún gerði sem kunnug er áróðursmynd fyrir Hitler á flokksþingi nasista í Nurnberg árið 1934 og þótti takast vel frá listrænu sjónarmiði séð. 

Vonandi má líta svo á, að barnaskapur hafi ráðið ferðinni við gerð umræddrar auglýsingar, enda ljóst, að ekki ber að leggja nafn Drottins Guðs við hégóma, svo vitnað sé í boðorðin. 

Aðeins eitt ráð til höfundar þessarar auglýsingar: Forðastu auglýsingagerð í þeim löndum, þar sem múslímsk lög gilda!


Óheppileg yfirlýsing páfa, sé rétt eftir honum haft

Samkvæmt fréttaþætti Ríkisútvarpsins, Speglinum, í gærkvöldi, hefur Benedikt páfi XVI heldur betur hlaupið á sig. Páfi, sem eins og menn vita er þýskur að kyni, hefur  reitt landa sína í hópi lútherstrúarmanna til reiði, með því að lýsa því yfir, að samfélag þeirra sé í raun ekki kirkja, heldur trúarsamfélag.  Að minnsta kosti eru ýmsir, sem túlka orð hans svo.

Að vísu má færa viss rök fyrir því, að sú stofnun, sem ekki viðurkennir þann gjörning Krists, að stofna almenna, þ.e. kaþólska kirkju, heldur klýfur hana og stofnar til einskonar sértrúarkirkju, sé á villigötum.  En þótt ég sé kaþólskur, er mér bæði ljúft og skylt að játa, að kaþólska kirkjan er ekki allskostar laus við að hafa stöku sinnum arkað um slíkar götur sjálf. 

Vissulega eru lútheristar margir hverjir blindaðir af veraldarhyggju.  En þeir eru ekki einir um það.  Og ansi er ég smeykur um, að páfi þurfi að útskýra það fyrir hinum kristna heimi, hver sé munurinn á kirkju og kristnu trúarsamfélagi.  Að vísu er sá munur augljós, t.d. þegar kaþólska kirkjan er borin saman við trúarofstækissöfnuði, sem stjórnað er af einum manni, í krafti einkatúlkunar hans á kristinni trú.  En hræddur er ég um, að málið verði öllu flóknara, sé trú kaþólikka og lútherista borin saman.  

Aðalatriði þessa máls hlýtur þó að vera það, að nú, á tímum trylltrar efnishyggju og taumlausrar nautnadýrkunar, er rík þörf á samstöðu kristinna manna, en ekki einhverju orðastagli um hluti, sem hvort eð er fara fyrir ofan garð og neðan hjá flestum.


Athyglisvert viðtal

Í morgun flutti Ríkisútvarpið, Rás 1 síðasta samtalsþátt Ævars Kjartanssonar um trúmál, undir heitinu Lóðrétt eða lárétt.  Að þessu sinni ræddi Ævar við herra Sigurbjörn Einarsson biskup.  Þarna kom margt fram, sem þarft er, að fólk taki til íhugunar.  Hægt er að smella hér til að hlusta á þáttinn. Gaman væri fá viðbrögð við þættinum.


Sjónarhóll

Ætla mætti, að enginn yrði fyrir annarri eins hugljómun og þeirri, þegar hann í frumbernsku er borinn út fyrir veggi heimilis síns?  Í fyrsta sinn á ævinni sér hann heim, sem er stærri en herbergið, sem hann hefur fram til þessa verið í hverju sinni.    Auðvitað gerir kornabarnið sér ekki grein fyrir þessum miklu tíðindum.  En smám saman rennur það upp fyrir því, að heimurinn er stærri, en þess eigið sjónarsvið.  Það er þá sem hún hefst, leitin að upplýsingunni; menntunin.  "Mamma, hvers vegna sé ég ekki í gegnum fjallið?"

Til að byrja með reikar hugur hvers manns um þær lendur, sem honum eru sýnilegar.  Síðar leggst hann í flakk um allt það svið mannlegrar tilveru, sem hann veit að er til, án þess þó hann hafi borið það augum.  Sveitastelpan veit, að enda þótt hún hafi aldrei séð borgina, þá er borgin samt til.  Og þar gerast ævintýri.  Sá dagur rennur upp í hennar lífi, að hún fer í skólann frammi í dal.  Og einn góðan veðurdag er hún kominn í framhaldsskóla fjórðungsins.  Heimur hennar stækkar.  Loks kemur svo að því, að borgin, sem hún hefur í mesta lagi séð sem gestur, verður henni ekki lengur framandi ævintýraland; hún er sest það að og jafnvel komin í framhaldsnám til útlanda fyrr en varir.  Hún kynnist nýju fólki, nýjum viðhorfum og ef til vill framandi menningu.  Samt er hún enn innan marka þess sýnilega, þess áþreifanlega.  Hún er enn ekki farin að sjá í gegnum fjallið.

Já, fjall bernskunnar fylgir okkur hvert fótmál og byrgir okkur sýn.  Það þarf ekki endilega að heita Tindastóll eða Esja.  Það þarf ekki einu sinni að vera gert úr grjóti og mold, eins og títt er um áþreifanleg fjöll.  En það er þarna samt og skuggi þess er okkar heimur.  Og það er sama, hversu víðlesin við erum eða víðförul; við sjáum aldrei gegnum fjallið.

En viti menn.  Ef við horfumst í augu við þá staðreynd, að við sjáum ekki gegnum fjallið, þá er til sjónarhóll, þaðan sem sér í gegnum fjallið og nýr heimur blasir við augum.  Þetta er að vísu óræður heimur, sem vekur fleiri spurningar en svör.  Og hann er svo undarlegur, að þar smækka menn sem nemur því, sem þeir stækka.  Hinir síðustu verða meira að segja fyrstir.  Þetta er heimur trúarinnar.

Þeir sem nálgast þennan heim, meðvitað eða ómeðvitað, koma að úr ýmsum áttum og á ólíkum forsendum.  Sumir taka á sprett upp hólinn þann arna, sem fyrr en nefndur og sjá þegar í stað í gegnum fjallið.  Aðrir fara sér hægt á göngunni, setjast niður af og til og kasta mæðinni.  Og þegar þeir komast loks upp á hólinn, tekur það þá jafnvel nokkurn tíma, að sjá í gegnum fjallið.  En það skiptir ekki máli.  Það sem máli skiptir er það, að leiðin upp hólinn er andleg þroskaleið.  Við skulum svo bara sjá til, hvað er handan fjallsins, og aldrei að vita, nema hver maður sjái það sínum augum.


Smekkagjöf í Grafarvogskirkju

Eins og fram kemur í Blaðinu í dag, er farið að afhenda foreldrum skírnarbarna smekk með áletraðri bæn að gjöf frá tryggingafélaginu VÍS og fylgir með auglýsingapési um barnastóla í bifreiðar, en einmitt slíka stóla, selur tryggingarfélagið.

Nú ætla ég ekki að fella þann dóm, að Grafarvogskirkja hafi verið gerð að ræningjabæli (sbr. Lúk. 19; 45 og 46) enda þótt tryggingarfélag afhendi foreldrum nýskírðara barna smekk með bæn á og láti fylgja með auglýsingabækling um vöru, sem það selur.  En væri nokkuð úr vegi, að sá prestur, sem fyrir þessu stendur, leiddi að því hugann, hvers vegna Jesú velti um söluborðum prangaranna í helgidóminum.  Ef til vill áleit hann þá ekki alla beinlínis ræningja, þótt hann notaði það orð um þá.  Er ekki hugsanlegt, að hann hafi einfaldlega verið að benda á það, að ekki yrði tveimur herrum þjónað, þ.e.a.s. Drottni og Mammon?

Sölumennska getur tæpast talist synd sé hún innan eðlilegra marka, en hugsi menn málið til enda hlýtur þeim að verða ljóst að hún fer ekki vel saman við sakramenti kirkjunnar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband