Færsluflokkur: Ferðalög

Gönguför

Hér í Hveragerði ríkir sú sérviskulega málvenja, að tala um, að fara „upp í dal", þegar farið er í Gufudal.  Sennilega er ástæðan sú, að Gufudalur stendur nokkuð hærra en Hveragerði. 

Nema hvað, þangað lá leið mín í dag.  Það var kalt í veðri en fagurt á að líta.  Ég gekk norður fyrir Hamarinn og því næst vestur fyrir hann.  Þar eru Kambar í vesturátt.  Að því búnu gekk ég upp vegslóða, sem liggur upp á Hamarinn.  Í suðvestri logaði hafið í sólsetrinu.  Lengra í austurátt sá til Vestmannaeyja, líkt og í dulúð.  Þar á milli kúrðu hafið, Ölfusið og Flóinn.  Ingólfsfjall stóð sína vakt í austri og Reykjafjall nær.  Friður lagðist yfir hauður og haf.  Hvers meira verður krafist í upphafi nýs árs?


Út til Eyja

 P7060961

Í gær, sunndag, fór ég ásamt Færeyingi, vini mínum, til Eyja.  Ekki var þetta þó vegna goslokahátíðarinnar, þótt það hefði svo sem verið ærið tilefni.  Okkur langaði einfaldlega til Eyja.  Herjólfur lagði af stað úr Þorlákshöfn á hádegi og var kominn til Eyja um það bil þremur stundum síðar.

Það var undarleg tilfinning að stíga á land í Vestmannaeyjum, enda hafði ég ekki komið þangað í 34 ár.  Þó er ég fæddur í Eyjum og faðir minn var þaðan ættaður í móðurætt.  En ég var innan við eins árs gamall, þegar foreldrar mínir fluttu upp á fastalandið.  Tengsl mín við Eyjar eru því ekki sterk.

Og þó.  Þegar við félagarnir gengum um bæinn og út í Herjólfsdal, var ekki laust við, að mér þætti, sem ég væri á heimaslóð.  Ég ákvað að leita að AKOGES-húsinu, því þar átti ég heima þar til fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur.  Húsið var auðfundið og ekki nóg með það, á jarðhæðinni stóðu opnar dyr og sýnilega margt um manninn.  Þarna var þá málverkasýning.  Við fórum inn.  Þar lenti ég í samræðum við eiginkonu listmálarans, sem var að sýna.  Og viti menn; konan reyndist vera barnapía mín frá því hér um árið.  Heimurinn er ekki tiltakanlega stór!

Merkilegt þótti okkur félögunum, að ganga um hraunið.  Því verður raunar ekki með orðum lýst.  En maðurinn er heldur smár.

Klukkan 23.20 skreið Herjólfur út úr hafnarkjaftinum í Eyjum.  Líklega tók ég eitthvað með mér frá fornri heimaslóð og ég veit ekki, hvort ég er allur kominn upp á fastalandið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband