Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Risaflugur á fréttastofu RÚV

Nú er vorið komið og blessaðar flugurnar farnar að gera vart við sig.  Á mínum heimaslóðum eru þær ósköp temmilegar að stærð, nokkrir millimetrar á lengdina og breiddin ívið minni. 

En á fréttastofu Ríkisútvarpsins gegnir öðru máli.  Þar flögra risaflugur um sali.  Stærð þeirra er slík að í sjónvarpsfréttum í kvöld, var sagt frá tveimur flugum, sem nýlega komu til landsins, klyfjaðar fleiri kílóum af kókaíni.  Vitanlega voru flugur þessar algjörlega utan við lög og rétt, enda kókanínið smyglvarningur.

Ekki er ósennilegt, að fréttamaðurinn hafi átt við, að kókanínið hafi komið til landsins með tveimur flugvélum.  Ég ætla að minnsta kosti rétt að vona það, ég hef nefnilega alltaf verið svolítið hændur að flugum og þær að mér.

Annars er Ríkisútvarpið ekki eitt um þetta ofmat á stærð flugna.  Ég er ekki frá því, að allir fjölmiðlar landsins hafi undanfarna daga fullyrt, að „frestur hafi orðið á flugum" vítt og breitt um Evrópu vegna gossins í Eyjafjallajökli.  Sem sagt, flugurnar komast hvorki lönd né strönd.


Undarleg fyrirsögn á forsíðu Moggans

Nokkuð þótti mér hún undarleg, fyrirsögnin á forsíðu Moggans í dag, þar sem stóð „Mannfall í ofsaveðri í vesturhluta Evrópu".  Ég er vanur því, að orðið „mannfall" tengist styrjöldum og orrustum en ekki veðurfari.  Þar tel ég réttara að nota orð eins og „mannskaðaveður".  Ég hef að minnsta kosti aldrei heyrt talað um „mannfallsveður".

Ég get þessa hér, vegna þess, að mér þykir gæta nokkurrar málfarslegrar fátæktar í þessari fyrirsögn.  Því miður hef ég víðar orðið hennar var, einmitt í þessu samhengi, í fjölmiðlum undanfarið.

Það er gott, þegar blaðamenn skrifa ekki aðeins skiljanlegan texta, heldur nýta sér einnig blæbrigði tungunnar.  Þannig verða blöðin ekki aðeins upplýsandi, heldur og sæmilega læsu fólki til nokkurrar upplyftingar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband