Nokkur orð um „kvikmyndagagnrýni" Fréttablaðsins

Skyldi ekki mega telja listgagnrýni hluta þessarar menningar, sem sumir kjósa að skrifa með stóru „emmi"?  Best gæti ég trúað því.  Og þá skýtur þeirri hugsun upp, að íslensk menning sé, þegar öllu er á botninn hvolft, nokkuð góð hugmynd, sem einhverra hluta vegna hefur láðst að koma í framkvæmd.

Því leiði ég hugann að þessu, að í dag birti Fréttablaðið meinta gagnrýni um kvikmyndinda „Boðberinn", sem ég fjallaði um í síðasta spjalli mínu. 

Ekki kannast ég við nafn „gagnrýnandans" og hirði ekki um, að nefna það hér.  En sýnilegt er, að ekki fellur honum umrædd kvikmynd vel í geð.  Hvort þar koma til hans eigin hvatir, eða sú staðreynd, að hann skrifar í málgagn Baugsfeðga, skal ósagt látið.

Nú er það svo, að mönnum er vitanlega bæði frjálst og skylt, að taka afstöðu til þess, sem fyrir augu ber.  Og líki kvikmyndagagnrýnanda ekki við kvikmynd, ber honum að greina frá því.  Þó hlýtur þess að verða krafist af lesendum, að rök fylgi skoðun.  Því fer fjarri, að svo sé í þessu tilfelli.

Svo mjög er „gagnrýnandanum" umhugað um, að rakka kvikmyndina niður, að hann lætur sig ekki muna um, að nota orð eins og „biblíukjaftæði", auk þess, sem eitthvað, sem hann kallar „heimspekivaðal Gunnars Dal" virðist fara sérstaklega fyrir brjóstið á honum.  Ekki færir hann þó nokkur rök fyrir því, hvaða „kjaftæði" sé að finna í Biblíunni, né heldur hinu, í hverju „heimspekivaðall" Gunnars Dal felist og á hvern hátt hans gæti í umræddri kvikmynd.

Þá leikara „Boðberans", sem ekki teljast til fræðgðarmenna íslenskrar leiklistar, afgreiðir „gagnrýndandinn" með því að kalla þá „nóbodía".  Þó undanskilur hann í því sambandi einn, með eftirfarandi orðum:  „Í raun er minn góði kunningi Þráinn Bertelsson eini maðurinn sem heldur hér haus í örsmáu hlutverki ráðherra í ríkisstjórn.  Leikur hans ber svo af að maður á þá ósk heitasta að hann vippi sér bak við myndavélina og reddi þessu".

Ég verð að játa, að það er skilningi mínum ofvaxið, að kunningskapur umrædds „gagnrýnanda" og Þráins Bertelssonar hafi nokkra þýðingu í þessu samhengi.  En óneitanlega leitar orðið smjaður á hugann.

Vonandi á umræddur „gagnrýnandi" eftir að gera sér það ljóst, að enda þótt hjúum beri að þjóna húsbændum sínum dyggilega, er ekki þar með sagt, að þeim sé skylt, að rugla saman eigin hugsunum og þeirra, sem allra náðasamlegast láta molana hnjóta af borðum sínum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr ! Heyr ! !

Gunnar Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 20:46

2 identicon

Nú hlakka ég enn meira til að sjá þessa mynd. Hugsa að ég reyni að komast á mánudaginn.

Grefill (IP-tala skráð) 11.7.2010 kl. 02:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband