Dulítil áramótakveðja

Tæpast dylst nokkrum manni, að Icesavessamningurinn er í raun nauðung.  Það er sigruð þjóð, sem nú lýtur erlendu valdi og greiðir bætur, fyrir skuldir, sem fáir einstaklingar hafa skapað.  „Sjaldan hafa jafn margir, goldið jafn háa skuld, fyrir jafn litlar sakir", svo snúið sé út úr orðum Churchill forðum tíð.  Og svo haldið sé áfram í sama dúr, þá er orrustan um frjálshyggjuna töpuð.  En orrustan um Ísland er rétt að byrja.

Því miður verður það að segjast eins og er, að frjálshyggjan, sem svo er kölluð, dró ótrúlega marga Íslendinga á asnaeyrunum.  Menn yfirgáfu sitt daglega líf og gengu draumum á hönd.  Og það voru ekki draumar um æðri þroska, dýpri skilning á lífinu og tilverunni eða innri frið.  Nei, þetta voru draumar sýndarmennskunnar; draumar um stærri hús, kraftmeiri jeppa og aðra sýndarmennsku.

Því skal þó ekki gleymt, að ekki tóku allir þátt í dansinum kringum gullkálfinn; síður en svo.  Og ýmsir vöruðu við.  En á þá var ekki hlustað.  Þess vegna verður öll þjóðin nú, að axla ábyrgðina.

Einn ömurlegast þátturinn í þeim hildarleik, sem nú hefur knésett þjóðina, er þjónusta forseta Íslands við þá, sem drógu þjóðina á asnaeyrunum.  Sá maður hefur ekki úr háum söðli að falla.  Og þó ber hann sig nú borginmannlega og þykist þurfa tíma, til að huga að því, hvort hann eigi að skrifa undir lögin um ríkisábyrgð á gengdarlausu peningasukki Björgólfsfeðga í Bretlandi og Hollandi.  Væri ekki frekar ráð, að hann hugaði að flutningi frá Bessastöðum?

Annað er það, sem erfitt er sætta sig við í þessu máli.  Það er sú staðreynd, að allir forkólfar bankasukksins ganga enn lausir.  Meðan svo er, getur Ísland ekki talist réttarríki.  Og eins og til að kóróna smán þjóðarinnar, þá situr höfuðpaur frjálshyggjunnar; maðurinn sem gaf bankana vildarvinum sínum í félagi við annan slíkan, sem nú gegnir norrænu samstarfsembætti í Kaupmannahöfn, já nú vermir þessi maður ritstjórastól Morgunblaðsins og þykist þess umkominn, að dæma lifendur frá dauðum.

Ekki veit ég, hvort þessi þjóð mun ná áttum.  En svo mikið veit ég, að það mun ekki gerast, nema menn geri sér grein fyrir eigin ábyrgð á því, hvar við erum nú stödd.  Það er kraftur í þessari þjóð, rétt eins og í landinu, sem hún byggir.  En henni verður að lærast, að beisla þann kraft í auðmýkt gagnvart sjálfri sér og öðrum, náttúru landsins og Guði.  Að öðrum kosti verður hún aldrei verð eigin tilveru.

Félögum mínum á blogginu, sem og öðrum, óska ég árs og friðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Gleðilegt ár

Haraldur Bjarnason, 1.1.2010 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband