Jónas Jónasson látinn

Margir hafa þegar orðið til að minnast Jónasar Jónassonar útvarpsmanns, en hann lést í fyrrakvöld.  Er þar litlu við að bæta.  Þó skal þess minnst, að árið 1978 fór Jónas til Norður-Írlands, en þar geisaði þá borgarastyrjöld, og gerði útvarpsþætti um ástandi þar.

Ekki vantaði nú fréttaflutninginn frá Norður-Írlandi á þessum tímum.  Sjálfur hafði ég farið þangað sjö árum fyrr og skrifað greinar í Þjóðviljann um ástandið, eins og það kom mér, unglingsstautnum, fyrir sjónir.  Ég læt þessa getið vegna þess, að ég hefði betur farið þangað eftir þætti Jónasar, en ekki fyrir þá.

Í stuttu máli sagt, voru þessir Norður-Írlandsþættir Jónasar langbesta efnið, sem unnið hefur verið fyrir íslenska fjölmiðla um styrjaldafár og aðrar hörmungar í hinum stóra heimi.  Ástæðan var sú, að í stað þess að ræða við stjórnmálamenn, herforingja og embættismenn, eins og fjölmiðlafólki er tamt, talaði Jónas við almenna borgara, sem líða máttu fyrir hörmungar stríðsins.  Og hann ræddi við fólkið af þeim næmleika og þeirri hlýju, er honum var eðlislæg.

Þessir þættir Jónasar voru endurfluttir, að mig minnir fyrr á þessu ári.  En það er ekki nóg, Ríkisútvarpið ætti að gefa þá út á diski, þeir eru sígillt útvarpsefni.

Sé Jónas Jónasson kært kvaddur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband