Tryggja prófkjör lýðræði?

Þegar stjórnmálaflokkarnir tóku að raða á framboðslista með prófkjörum á áttunda áratug síðustu aldar, töldu menn, að þar með væri stigið stórt skref í lýðræðisátt.  Draga mundi úr ofurvaldi flokksleiðtoga, þar eð þeir hefðu ekki lengur úrslitaáhrif á niðurröðun á framboðslista.  Lýðræðið yrði því öflugra en fyrr.

Því miður gekk þetta ekki eftir.  Eins og önnur mannleg viðfangsefni krefjast stjórnmál reynslu.  Gamla kerfið, þar sem kjörnefndir gerðu tillögu um framboðslista, tryggði alla jafna, að þingmenn og fulltrúar í sveitastjórnum hefðu reynslu.  Þetta breyttist með prófkjörum.

Reynslan sýnir okkur, að prófkjörin tryggja þeim frama í stjórnmálum, sem fólk veit hvernig lítur út.  Hvað skyldu margir hafa farið á þing eða í borgarstjórn, út á það eitt, að hafa verið sjónvarpsfréttamenn?

Ég man vel eftir einu dæmi.  Ég starfaði þá hjá ónefndum stjórnmálaflokki.  Kemur þá einn vinnufélaga minna og biður mig að koma á skrifstofu sína.  Þar kynnti hann mig fyrir manneskju, sem ég hafði aldrei séð.  Ég hafði þá búið utanlands um tíma og það því farið framhjá mér, að hér var „sjónvarpsstjarna" á ferðinni.  Þegar hún var farin, spurði vinnufélagi minn, hvernig mér litist á viðkomandi í framboð.  Ég vissi ekki almennilega hverju svara skyldi.  Þá benti félagi minn mér á, að þar sem um vær að ræða „sjónvarpsstjörnu", mundi það spara flokknum 7.000.000 króna í kynningarkostnað, að bjóða hana fram.  Er þetta lýðræði?

Önnur hætta, sem af prófkjörum stafar, er mútustarfsemi.  Það kostar peninga að bjóða sig fram í prófkjöri.  Sumir eyða milljónum í tilstandið; milljónum, sem þeir eiga ekki sjálfir.  Þá koma auðmenn og fyrirtæki þeirra til skjalanna og reiða fram féð.  Er einhver svo barnalegur á Íslandi enn þann dag í dag, að halda, að þeir geri það endurgjaldslaust?

Nú um helgina kynntu Sjálfstæðismenn og Samfylkingarmenn í Reykjavík frambjóðendur til prófkjörs vegna komandi hreppskosninga þar í bæ.  Það eitt, að þeir skuli halda sig við prófkjörsniðurröðun á framboðslista, bendir sterklega til þess, að þessir flokkar hafi ekkert lært af því, sem gerst hefur í landinu undanfarin misseri.  Það er skaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið rétt, Pjetur, best væri að kjósendur gætu raðað frambjóðendum sjálfir í kjörklefanum.  Þannig fengju sitjandi frambjóðendur frammistöðumat og nýliðun tryggð.

lydurarnason (IP-tala skráð) 18.1.2010 kl. 08:48

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Gleðilegt nýtt ár Pétur. Hvað eg er sammála þér um prófkjörin. Þeir sem hafa aðgang á fé og helst miklu fé. En eru þeir bestir? Á því er oft afar mikill vafi. Oft eru þeir hæfustu ekki sérlega glúrnir að afla fjár og verða auðveldlega undir í prófkjörum.

Grikkir til fornu og síðar Rómverjar notuðu ekki prófkjör. Til þess fannst þeim hlutkesti vera auðveldara og fyrirferðaminna.

Með hlutkesti eiga allir að hafa jafnan möguleika að ná árangri. Skiptir engu hvort menn hafi fulla vasa fjár eða skítblankir heiðursmenn. Sama má segja um gáfurnar. Jafn möguleiki er á að gáfumaður verði valinn og sá vitlausasti.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 18.1.2010 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband