Færsluflokkur: Ljóð

Ný ljóðabók eftir Jón Bjarman

Jón Bjarman sendi frá sér nýja ljóðabók í lok síðasta árs, Svefnvindadraumur, nefnist hún, gefin út af Skálholtsútgáfunni.  Þarna getur bæði að líta frumort ljóð og þýdd.  Eins og Jóni er tamt, eru ljóðin ort af íhygli og nokkurri festu.  Þar er enginn gassagangur á ferð.  Fyrsta ljóð bókarinnar, er minningarljóð um Þorgeir Þorgeirson og nefnist Mælt eftir Þorgeir.  Það hljómar svo:

 

Þorgeir kenndi mér að fara varlega
með ábendingarfornöfnin
þau varpa sök á annan
get ég ásakað saklaust fólk

Ef réttlætið var í húfi
beitti hann sjálfur
fornöfnum fimlega
jafnt öðrum orðum

Hertogi var hann
í stríði við ranglætið
forheimskuna grimmdina
oft án fylgis

Hann leit aldrei um öxl
skeytti ekki um liðskönnun
þekkti góðan málstað
sannfærður liðsmaður hans

 


Ei kemur nótt

Fyrir nokkrum dögum (1. febrúar s.l.) fékk ég sent hér á blogginu, ljóð eftir sænska skáldið Werner Asperström (1918 til 1997).  Bestu þakkir fyrir það.  Nú hef ég snarað ljóðinu, enda höfðaði það strax til mín.  Svona er ljóðið  frá minni hendi nú, hvað sem síðar verður.

Ei kemur nótt
þótt augað ekki blindist.
Ei kemur nótt
í háum setruslundi,
hvar látnir hvíla
hver við annars hlið
sem hvítvoðungar gugnir
hvar þeir bíða.
Því aðrar luktir
hanga þar á trjánum
og seiða jurtir fram
með annarlegum glampa,
og fiðringi, úr gráu
reifi flugna,
drekki þær vinda
sem ei á jörðu finnast.
Ei kemur nótt
þótt augað ekki blindist.
Ei kemur nótt
þótt sökkvi sól til botns.

 


Tanka ort í minningu Helga Hálfdánarsonar

Lágt ber við himin
vetrarsól úr vesturátt.
Við bíðum vorsins
en glaður máni heilsar
öldruðum förumanni.


Jól

Myrkrið sveipar djúpa kyrrð,
þögnin landið hylur.

Einir vaka draumar
þá dimmu nótt.

Sofðu, sofðu,
sofðu rótt.

Brátt mun rísa stjarna
í austurvegi.

Þá skal vakna drótt
er lýsir af degi,
lýsir af björtum dagi.


Helsi

Ó, lukta sál

hve frjáls er login stund,

er gengur þú

á blekkinganna fund?

 

En líkt og skurnin

hylur eggsins kjarna,

að sönnu frelsi lygin

mun leið þér varna.

 

Því allt er goldið

gulli jafnt sem tómi,

hvar myrkrið eitt

er hjartans skæri ljómi.


Vorkvæði um Ísland eftir Jón Óskar

Jón Óskar (1921- 1998) var eitt af öndvegisskáldum nútíma ljóðagerðar á Íslandi, fyrir nú utan þýðingar hans á frönskum ljóðum og endurminningar hans, en þær eru gullnáma fyrir alla þá, sem vilja kynnast upphafi og framrás módernismans á Íslandi.  Þetta hygg ég, að sé flestum ljóðaunnendum ljóst.  Hitt vita ef til vill færri, að hann var ekki aðeins skáld, heldur einnig liðtækur píanóleikari og spilaði m.a. djass á sínum yngri árum.  Ég er ekki frá því, að tónfallið, sem er einkenni margra ljóða hans, sé þaðan runnið, í það minnsta leyna tengslin sér ekki.  Eitt af þekktustu ljóðum hans, „Vorkvæði um Ísland", sem ort er í tilefni af 10 ára afmæli lýðveldisins og birtist í bókinni „Nóttin á herðum okkar", er gott dæmi um þetta, a.m.k. að mínu mati.  Hvað finnst ykkur?

 

Vorkvæði um Ísland

Einn dag er regnið fellur

mun þjóð mín koma til mín

og segja manstu barn mitt

þann dag er regnið streymdi

um herðar þér og augu

og skírði þig og landið

til dýrðar nýjum vonum

þann dag er klukkur slóu,

ó manstu að þú horfðir

á regnið eins og spegil

sem speglar þig og landið

í kristaltærum dropum

þann dag er lúðrar gullu

með frelsishljóm, ó, manstu

þann dag er regnið streymdi

og regnið var þinn spegill

og regnið var þitt sólskin

um herðar þér og augu

þann dag er landið hvíta

varð frjálst í regnsins örmum

og gleðin tók í hönd þér

í sólskinsörmum regnsins.

 

Einn dag er regnið fellur

mun þjóð mín koma til mín;

einn dag er regnið fellur.


Upplestur á bretónskum ljóðum

Á laugardaginn var fór ég á skemmtilega ljóðasamkomu á krá eina við Lækjargötu.  Þar voru saman komin nokkur skáld frá Bretaníuskaga og lásu ljóð á tungu þarlendra.  Nú eiga flestir Íslendingar, þ.á.m. ég, það sammerkt, að tala ekki það tungumál, né heldur skilja það.  En Ólöf Pétursdóttir bætti úr því, hún hefur nefnilega þýtt ljóð þessara skálda og voru þýðingarnar lesnar, ýmist af þýðandanum eða öðrum.  Reyndar gaf Ólöf út fyrir skömmu kver, sem hún kallar „Dimmir draumar", en þar má lesa ljóðaþýðingar hennar frá Bretaníuskaga.  Óvitlaust að líta í það á góðri stundu, nú þegar fuglar kveðast á í móum og mýrum.


Jesús Maríuson, ljóð Jóhannesar úr Kötlum

Jóhannes úr Kötlum átti fleiri strengi í sinni ljóðahörpu en ýmsir aðrir.  Ekki skulu þeir tíundaðir hér, aðeins birt eitt ljóða hans í tilefni föstudagsins langa.  Það heitir Jesús Maríuson og birtist í Sjödægru, sem kom út árið 1955.

 

Sjödægra

Jesús sonur Maríu er bezti bróðir minn:

hann býr í hjarta mínu

--þar kveikir hann í rökkrinu rauða margt eitt sinn

á reykelsinu sínu.

 

Og jafnan þegar allir hafa yfirgefið mig

og enginn vill mig hugga

þá birtist hann sem stjarna í austri og sýnir sig

á sálar minnar glugga.

 

Og þó hef ég ei beitt slíkum brögðum nokkurn mann:

ég hef brennt á vör hans kossinn

og hrækt síðan á nekt hans og nítt og slegið hann

og neglt hann upp á krossinn.

 

En hvað svo sem ég geri er hann mín eina hlíf

er hrynur neðsta þrepið

því hvað oft sem hann deyr þá er eftir einhvert líf

sem enginn getur drepið.

 

Og Jesús sonur Maríu mætir oss eitt kvöld

sem mannlegleikans kraftur:

æ vertu ekki að grafa ´onum gröf mín blinda öld

--hann gengur sífellt aftur.


Lítið kvæði um gjafir til góðgerða

Séra Helgi Sveinsson prestur í Hveragerði þótti skáldmæltur vel og ekki laust við, að stundum væri nokkur broddur í kvæðum hans og vísum.  Hér kemur eitt dæmi:

 

Þegar sektin sækir að

sálarfriði manna,

flýja þeir oft í felustað

frjálsu góðgerðanna.

 

Til að öðlast þjóðarþögn,

þegar þeir aðra véla,

gefa sumir agnarögn

af því, sem þeir stela.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband