Norræn velferð á Íslandi?

Það hefði einhvern tíma þótt tíðindum sæta, að öryrki, og það  lamaður gamall maður, þyrfti að hóta að svelta sig í hel, til að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda, að fá aðstoð við sitt hæfi. Þetta eru nú samt örlög Alberts Jensen öryrkja í Reykjavík.

Og þeir eru fleiri, öryrkjarnir, sem búa við skert mannréttindi í "norræna velferðarkerfinu" á Íslandi. Maður, rétt tæplega þrítugur, hefur svipaða sögu að segja og Albert. Hann er einnig lamaður. Hann kvíðir því, að lifa við núverandi kerfi næstu hálfu öldina, nái hann aldri Alberts. Því miður eru dæmin mun fleiri.

Þegar fréttamenn ganga á fulltrúa kerfisins, en til þess virðist þurfa sjálfsmorðshótun öryrkja, eru viðbrögðin jafnan á sömu lund; menn sveipa sig dularblæ "faglegs mats" og telja sig þar með lausa allra mála.

Hugtakið "faglegt mat" er í raun aðeins skjöldur þess fólks, sem þjáist af sálarkulda. Það kemur sér upp ómennsku kerfi, ekki af illmennsku, heldur vegna andlegs doða og skorts á mennsku, sem stundum tekur á sig mynd hrokans.

Þau dæmi, sem hér hafa verið nefnd eru úr Reykjavík. Þar situr trúður í stóli borgarstjóra. Og það má hann eiga trúðurinn sá, að ekki reynir hann að leyna eðli sínu. En í þessum stóli situr hann fyrir tilverknað Samfylkingarinnar, hins íslenska jafnaðarmannaflokks, hvers formaður telur sig stuðla að norrænni velferð.

Á þessi flokkur rétt á atkvæðum fólks?

 


Hannes Pétursson áttræður

Trumbusláttur og lúðrablástur er ekki viðeigani á áttræðisafmæli Hannesar Péturssonar.  Til þess er skáldskapur hans of sannur og tær í hógværð sinni.

Hannes er hvorki metsöluskáld né stjörnusafnari í orðagjálfri fjölmiðla.  Ljóð hans votta djúpa íhugun og fegurðarþrá.  Eins og hann sjálfur bendir á í viðtali í Fréttablaðinu í dag, er hann ekki þjóðskáld; tími þeirra leið við andlát Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.  Eigi að síður hefur þjóðin vaxið nokkuð við skáldskap hans.


Gleymdur Skúli fógeti 300 árum eftir fæðingu hans

Með vissum rökum má líkja sögunni við fljót, sem streymir endalaust.  Ef vel á að vera, felst þróun mannlegs samfélags í því, að sem flestir skilji nátturu þessa fljóts og freisti þess, að komast yfir það.  Að nema staðar á fljótsbakkanum er stöðnun.

Það fólk sem sagt er, að setji svip sinn á söguna, hefur í raun brúað  þetta fljót.  Ýmist leiðir það okkur á villigötur eða skilar okkur fram veginn til gæfu og gengis.  Þetta er hin sögulega þróun.

Víst getur sá sem ekki þekkir söguna lifað bærilega hamingjusömu lífi.  En hann verður þess aldrei umkominn, að taka þátt í þróun lýðræðislegs samfélags.  Því verður að gera þá kröfu á hendur lýðfulltrúum, að þeir skilji og virði söguna, umfram þá, sem láta hverjum degi nægja sína þjáningu. 

Í ljósi þessa verður það að teljast heldur bagalegt, að nú í dag, þegar þrjár aldir eru liðnar frá fæðingu Skúla fógeta, skuli ríkja algjör þögn um nafn hans.

Þorsteinn Pálsson fjallaði um þessi merku tímamót í helgarblaði Fréttablaðsins og er það vel.  En borgarstjórn virðist alls óvitandi um það, hver kallaður er „faðir Reykjavíkur".  Félög iðnrekanda og iðnaðarmanna hafa sýnilega gleymt því, hver átti stærstan þátt í upphafi iðnaðar á Íslandi.  Þeir fjölmörgu, sem að verslun koma virðast ekki muna eftir þætti Skúla í baráttunni gegn einokuninni og þar með þætti hans í upphafi íslenskrar verslunar.  Og ekki verður betur séð, en að kennarar sagnfræðideildar Háskóla Íslands minnist þess ekki lengur, að Skúli fógeti er einn verðugasti fulltrúi upplýsingaaldar á Íslandi. 

Þessi gleymska Íslendinga á Skúla fógeta er tákn okkar eigin sjálhverfu.  Sjálfhverfum manni tekst aldrei að brúa það mikla fljót, sem sagan er.  Um leið og hann kemur að fljótsbakkanum, er hugur hans bundinn við það eitt, að spegla sína eigin mynd á vatnsfleti þess.

 


Þurfa diplómatar ekki að tryggja eigur sínar?

Heyrst hefur, að skotið hafi verið inn í fjárlagafrumvarpið, 75.000.000 króna bótum til starfsmanns utanríkisþjónustunnar, vegna þess að listaverk, sem hann var að flytja til Ameríku, hafi eyðilagst í hafi.

Er þetta ekki misheyrn, eða eru starfsmenn utanríkisþjónustunnar undanþegnir því, að þurfa sjálfir að tryggja eigur sínar, hverjar svo sem þær eru?


Enn um kristna trú og grunnskólana

Ekki veit ég, hvort þeir sem setja sig upp á móti kennslu í kristnum fræðum í grunnskólum, misskilja málflutning okkar, sem erum öndverðrar skoðunar, eða snúa vísvitandi út úr orðum okkar.  Sennilega er hvoru tveggja til í dæminu.

Ég fyrir mitt leyti, tel það ekki hlutverk skólanna, að stunda trúboð; þar eiga heimilin og einstök trúarsamtök að koma að málum.  En fram hjá hinu verður ekki litið, að íslensk menning er að svo verulegum hluta mótuð af kristinni trú, að án nokkurrar þekkingar á kristindómi verður hún vart skilin.  Að ætla sér að útiloka kristin fræði úr grunnskólum, er eins og að fjalla ekki um strandlengju landsins í landafræði Íslands.

Í umræðum um þessi mál er gjarnan blandað saman trúfélögum og einhverju, sem menn kalla "lífsskoðanafélögum".  Merking síðarnefnda orðsins er mér ekki fyllilega ljós.  Hygg ég þó, að notkun þess eigi sér þann tilgang, að draga úr mikilvægi trúar í mannlegu samfélagi.

Nú er það svo, að trú á guðdóm er flestum eðlislæg í einhverri mynd.  Vissulega skipar hún misjafnlega stóran sess hjá mönnum, en hún er samt til staðar hjá flestum.  Það breytir ekki því, að sumir hafna slíkri trú.  Vitanlega hafa þeir fullan rétt á því.  En það þýðir þó ekki, að sá agnar litli minnihluti eigi að geta hindrað eðlilega fræðslu um trú flestra landsmanna í grunnskólakerfi landsins.


Aðventan og trúmálin í grunnskólum Reykjavíkur

Í dag er fyrsti sunnudagur í aðventu.  Í fyrsta sinn frá því skólarekstur hófst í þessu landi, liggur nú bann yfirvalda við því, að minnast á Jesú Krist í skólum.  Til allrar hamingju nær þetta bann ekki til landsins alls.  En borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem um þriðjungur þjóðarinnar býr, hefur bannað slíkt tal.  Börnin fá þó allra náðasamlegast að fara í kirkju á vegum skólans fyrir jól og meiga, fyrir náð borgarstjórnar, syngja „Heims um ból".

Nú er ég ekki svo fróður, að þekkja hugmyndafræði Besta flokksins, ef einhver er.  Nafn flokksins bendir þó óneitanlega til þess, að ekki byggist hún á tiltakanlegu lítillæti.  Aftur á móti tel ég mig sæmilega að mér varðandi jafnaðarstefnuna.  Ég nefni það vegna þess, að það er Samfylkingin, sem heldur þessum borgarstjórnarmeirihluta gangandi.  Og ég veit ekki betur, en fylkingin sú vilji láta orða sig við jafnaðarmennsku, þótt ég eigi nú stöðugt erfiðara með að átta mig á forsendum þess.

Ég veit ekki hvernig á því stendur, en ég hef alltaf fundið vissan samhljóm milli kristindóms og jafnaðarstefnu.  Játa þó fúslega, að trú er yfir stjórnmál hafin, rétt eins og nokkur stærðarmunur er á eik og strái eða fjalli og sandkorni.  En hvað um það; ég held það væri ráð, að borgarfulltrúar Samfylkingar í henni Reykjavík, huguðu ögn að því, hvort mannúðarhyggja jafnaðarstefnunnar eigi sér ekki, a.m.k. að verulegu leyti, rætur í kristindómnum.  Að þeim vangaveltum loknum gæti þetta góða fólk svo velt því fyrir sér, hvort Guðs orð sé sérlega skaðlegt börnum og unglingum.

 

 


Sigurður dýralæknir

Mikið fjandi var gaman á Sunnlenska bókakaffinu í gær, þar sem kvæðamaðurinn og lífskúnstnerinn Sigurður Sigurðarson dýralæknir kynnti fyrra bindi endurminninga sinna og fór með stemmur í leiðinni í kompaníi með konu sinni Ólöfu Erlu Halldórsdóttur.  Hygg ég, án allrar illkvittni, að við Sigurður getum verið sammála um, að þar fari hans betri helmingur.

Í nokkrum stemmum komu fleiri til leiks, þar á meðal húsbóndinn á bókakaffinu, skrollarinn Bjarni Harðarson, sem sló hinn rétta tón, merkilegt nok.

Nú jæja, ég er byrjaður að glugga í bókina þá arnaOg víst er Sigurður sagnamaður góður.  En þá er ósvarað þeirri spurningu, hvað geri menn að góðum sagnamönnum.   Svarið er að finna í þessari bók; það er græskulaust gaman, sem varpar ljósi, jafnt á léttleika sem alvöru lífsins.  Slík kallast í senn falsleysi og mennska.

Hafi Sigurður bestu þakkir fyrir upplífgandi lesningu.

 


Jónas Jónasson látinn

Margir hafa þegar orðið til að minnast Jónasar Jónassonar útvarpsmanns, en hann lést í fyrrakvöld.  Er þar litlu við að bæta.  Þó skal þess minnst, að árið 1978 fór Jónas til Norður-Írlands, en þar geisaði þá borgarastyrjöld, og gerði útvarpsþætti um ástandi þar.

Ekki vantaði nú fréttaflutninginn frá Norður-Írlandi á þessum tímum.  Sjálfur hafði ég farið þangað sjö árum fyrr og skrifað greinar í Þjóðviljann um ástandið, eins og það kom mér, unglingsstautnum, fyrir sjónir.  Ég læt þessa getið vegna þess, að ég hefði betur farið þangað eftir þætti Jónasar, en ekki fyrir þá.

Í stuttu máli sagt, voru þessir Norður-Írlandsþættir Jónasar langbesta efnið, sem unnið hefur verið fyrir íslenska fjölmiðla um styrjaldafár og aðrar hörmungar í hinum stóra heimi.  Ástæðan var sú, að í stað þess að ræða við stjórnmálamenn, herforingja og embættismenn, eins og fjölmiðlafólki er tamt, talaði Jónas við almenna borgara, sem líða máttu fyrir hörmungar stríðsins.  Og hann ræddi við fólkið af þeim næmleika og þeirri hlýju, er honum var eðlislæg.

Þessir þættir Jónasar voru endurfluttir, að mig minnir fyrr á þessu ári.  En það er ekki nóg, Ríkisútvarpið ætti að gefa þá út á diski, þeir eru sígillt útvarpsefni.

Sé Jónas Jónasson kært kvaddur.


Undarlegar viðurkenningar

Fyrir skömmu sá einhver nefndin, með forstöðumann Orðabókar Háskóla Íslands í broddi fylkingar, ástæðu til að heiðra útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins.  Tilefni þess var, að hann hafði ákveðið, að framlag Íslands til evrópsku söngvakeppninnar skyldi sungið á íslensku.  Undarlegt er, að menn skuli hljóta viðurkenningu fyrir það eitt, að gera sér grein fyrir þjóðerni sínu.

Á s.k. "Degi íslenskrar tungu", 16. nóvember fengu svo afdankaðir skallapopparar, sem áttu sitt blómaskeið fyrir hartnær hálfri öld, sérstaka viðurkenningu menntamálaráðherra, fyrir að hafa alla tíð sungið á móðurmáli sínu.  Var af því tilefni rætt við einn þeirra í fjölmiðlum, hvar hann hefnur nokkurt yndi af að sýna sig.  En það er önnur saga.

Í máli þessa skallapoppara kom fram mikil sjálfsánægja og taldi hann sig og félaga sína hafa synt á móti straumnum, með því að syngja á íslensku á áttunda áratug síðustu aldar.  Þetta er alrangt.  Nefna má fjölda dægurlagahljómsveita og skyldra fyrirbæra, frá þessum tímum, sem sungu lög sín á íslensku: Ríó tríó, Þokkabót, Þrjú á palli, Nútímabörn, Áhöfnina á Halastjörnunni o.s.frv, o.s.frv.

Hvers vegna taldi menntamálaráðherra sérstaka ástæðu til að heiðra Stuðmenn í tilefni dagsins?  Ekki veit ég.  Hitt veit ég, að daginn eftir hélt sá þeirra félaga, sem hældi sér og sínum í fjölmiðlum í tilefni þessa vafasama heiðurs, veislu til að fagna útkomu ævisögu sinnar.  Er Kata litla í menntamálaráðuneytinu ef til vill farin að vinna í hjáverkum á auglýsingastofu skallapoppara?


Dagur íslenskrar tungu

Dagurinn í dag, 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar,  er helgaður íslenskri tungu.  Að því tilefni ræddi Ríkisútvarpið Rás 2, við Önnu Þorbjörgu Ingólfsdóttur lektor í íslensku við Háskóla Íslands, nú í morgun.  Þar kom fram, að staða íslenskrar tungu innan kennaradeildar Háskólans er slæm og áhugi yfirstjórnar Menntavísindasviðs á móðurmálinu takmarkaður.  (Raunar nægir það eitt, að stofnun skuli bera ónefni eins og "Menntavísindasvið", hverjum manni með grunnþekkingu á íslensku, til að staldra við.  "Vísindin efla alla dáð", kvað Jónas forðum og urðu þau orð fleyg.  Hvað ef hann hefði sagt: "Menntavísindin efla alla dáð"?)

Sannleikurinn er sá, að færni í móðurmálinu er grunnur allrar menntunar.  Hver sá, sem ekki hefur góðan skilning á móðurmáli sínu og getur tjáð sig á því á sómasamlegan hátt, er illa menntaður, burt séð frá því, hvaða prófgráðum hann getur státað sig af.  Og illa menntaður maður með prófgráður er hættulegur, bæði sjálfum sér og öðrum.  Honum hættir til, að belgja sig út umfram brjóstmál.  Slíkt háttarlag getur að sönnu verið spaugilegt ásýndum, en reynslan sýnir, að til lengdar hefur það ósjaldan haft í för með sér ógnvænlegar afleiðingar.

Til er þýskt orðatiltæki, er hljómar svo: "Svín fór yfir Rín og kom aftur svín".  Mættu ýmsir hugleiða þessi orð í góðu tómi.

Sjálft lýðræðið byggir á tjáskiptum.  Færni kennara í móðurmáli sínu er því ekki aðeins forsenda þess, að þeir geti kennt nemendum lestur og leitt þá sómasamlega um heim bókmennta.  Hún er beinlínis undirstaða þess, ásamt söguþekkingu, að komandi kynslóðir séu þess umkomnar, að þróa lýðræðislegt samfélag í landinu.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband