Kosningaspjall

Nútíma lýðræði á sér rætur í upplýsingastefnu 18. aldar.  Á þeim tímum tók vaxandi borgarastétt Evrópu að efast um guðlegt vald kónga og keisara og sú hugmynd tók að læðast að mönnum, að betur sæju augu en auga.  Í upphafi voru hugmyndir þeirra um lýðræði þó harla þröngar.  Þeir einir skyldu njóta kosningaréttar og um leið kjörgengis, sem ættu tilskildar lágmarkseignir eða væru menntamenn.  Fór það oftast saman, því aðeins eignamenn höfðu ráð á menntun.  Og svo var kosningarétturinn auðvitað bundinn við karla.

Eftir því sem á 19. öldina leið, rýmkuðu hugmyndir manna um kosningarétt og kjörgengi.  Borgaraleg frjálslyndisöfl og enn frekar róttæk öfl, sem börðust fyrir auknum mannréttindum verkalýðs gerðu sér grein fyrir því, að ekki væri samhengi milli eigna og lýðræðis.  Auk þess tóku konur í vaxandi mæli að krefjast réttar síns.

Svo fór, að í þeim ríkjum, sem á annað borð kenndu sig við lýðræði, var almenn og víð skilgreining þess ofan á.  Konur öðluðust kosningarétt og eigna- og menntunartakmarkanir kjósenda og frambjóðenda voru afnumdar.  Lengi vel stuðlaði þetta að því, að þær stofnanir, sem kosið var til, þjóðþing, sveitarstjórnir o.s.frv. fólu í sér ákveðna stéttarlega breidd, mis mikla að vísu. 

Nú er eins og þessi þróun sé að snúast aftur til fámennisstjórnar eins og hún var í upphafi borgaralegs lýðræðis.  Að vísu halda menn kosningarétti sínum, burtséð frá prófgráðum, en frambjóðendur verða sífellt einslitari hópur.  Og þá gerist nokkuð merkilegt.  Rökin fyrir menntunarkröfum frambjóðenda og kjósenda í upphafi borgarlegs lýðræðis voru eðlileg á þeirra tíma vísu.  Upplýsingastefnan krafðist þess, að þeir sem með völdin fóru, hefðu ákveðna lágmarks þekkingu á þjóðfélaginu.  Að öðrum kosti gætu þeir ekki tekið þátt í stjórn þess.  Slíkar hugmyndir voru eðlilegar á tímum frumlýðræðis. 

En menntun er reynsla og hún fæst víðar en í skólum.  Og nú á síðari árum hefur háskólanám að stórum hluta breyst úr víðu akademísku námi í þrönga fagþjálfun.  Því er það svo, að á meðan háskólanemum fjölgar, útskrifa háskólarnir í raun stöðugt færri menntamenn í klassískum skilningi þess orðs.  Háskólarnir hafa að hluta, leyst iðnskólana af hólmi.  Um leið hefur æskudýrkun nútímans blindað mönnum sýn.  Ungu og reynslulitlu fólki er stöðugt treyst fyrir viðameiri þáttum samfélagsins.  Hver man ekki eftir unga bankafólkinu, sem að stórum hluta leiddi þjóðina fram að hengiflugi hrunsins?  Maður var ekki allt viss um, hvort sá mannskapur ferðaðist um í lúxusjeppum eða barnavögnum.

Nú virðast stjórnmálaflokkarnir, allir sem einn, stíga sama dansinn.  Ótrúlega hátt hlutfall frambjóðenda allra flokka og fljótt á litið í öllum eða a.m.k. flestum sveitarfélögum,eru með leyfi að segja ungir og reynslulitlir sérþjálfaðir tæknikratar, í stíl við þann mannskap, sem notaður  er sem millistjórnendur á bankakontórum.  Þetta hefur svo leitt til slíkrar málefnafátæktar, að frambjóðendur keppast við að lofa góðu veðri.  Pólitískum álitamálum sem uppi eru í sveitarfélögum úti um allt land, eins og láglaunastefnu, vaxandi neyð öryrkja og gamals fólks, evrópumeti í brottfalli nemenda úr skólum o.s. frv. er ýtt til hliðar.  Slík mál eru einfaldlega of flókin og óþægileg fyrir reynslulausa tæknikrata.  Þeim lætur best að sjúga snudduna sína í barnavagninum og berjast fyrir bættu veðurfari.

 (Birtist í Sunnlenska fréttablaðinu 14. maí 2014)

 

 


Hugleiðingar um stjórnmál

Kristjáni frá Djúpalæk lét það léttar en flestum öðrum skáldum, að komast að kjarna málsins með einföldum og skýrum hætti. Í ljóðabókinni Þrílækir, sem hann sendi frá sér árið 1972 gefur að líta lítið ljóð, undir titlinum „Flokkar“. Það hljóðar svo:

„Flokkur“ er fólk,
segja „flokkar“ okkur.
Aftur á móti
er fólk ekki flokkur.
En forusta „flokka“
er fyrirtak.
Öllum miðar þeim áfram
afturábak.

Á þeim tímum þegar Kristján frá Djúpalæk orti þetta ljóð, heyrðust að vísu þær raddir, sem sögðu lýðræðið og flokksræðið fara heldur illa saman. Samt hafði orðið „stjórnmálastétt“ ekki enn heyrst á tungu nokkurs manns. Nú, aðeins rúmum fjörutíu árum síðar, eru meira að segja stjórnmálamennirnir sjálfir farnir að tala um sig sem sérstaka „stétt“; stjórnmálastétt.

Ætti þetta ekki að vekja almenning til umhugsunar og umræðna um það, hvað lýðræði er? Getur hugsast, að eftir allt það tjón, á sviði stjórnmála, efnahagsmála en fyrst og fremst í siðferðilegum skilningi, sem orðið hefur á undanförnum árum, séu menn enn reiðubúnir til að túlka lýðræðið á þann hátt að það feli ekkert í sér, annað en „rétt“ almennings til að afsala sér völdum í hendur stjórnmálaflokka á fjögurra ára fresti.  

Góðu heilli má sjá viss merki breytinga. Almenn þátttaka í „störfum“ stjórnmálaflokka er svo hverfandi, að þeir eru farnir að auglýsa eftir hugmyndum síðustu vikur fyrir kosningar. Félagsstörfin sem stjórnmálaflokkarnir höfðu áður að stærstum hluta í sínum höndum, hafa nú færst til fjölmargra áhugamannahópa, m.a. um einstök velferðarmál, náttúruvernd og önnur hugðarefni.   Er ekki ráð, að menn leiði hugann að því, hvort ekki megi með einhverjum hætti tryggja aðkomu slíkra hópa að stefnumótun og ákvarðanatöku varðandi þau málefni, sem þeir einbeita sér að?  Ég er ekki frá því, að þetta væri tilraunarinnar virði.

 (þessi grein birtist í Sunnlenska fréttablaðinu þann 7. maí s.l.)


Til umhugsunar

Nú nálgast sveitarstjórnarkosningarnar og er því tímabært að hrista af sér doðann og velta fyrir sér hvaða þýðingu kosningar sem þessar hafa fyrir hvert og eitt okkar. Stutt er síðan þjóðin upplifði hrun drauma sinna og veruleika. Í kjölfar þess hefur mikið verið rætt um lýðræði – lýðræðislega umræðu, sem skortir – og ábyrgð okkar kjósenda á því umboði sem við veitum stjórnmálamönnum með atkvæði okkar. Öll þurfum við að velta því fyrir okkur hvaða kröfur við gerum til frambjóðenda og stjórnmálaflokka, sem og hvaða kröfur við kjósendur þurfum að gera til okkar sjálfra.

Hvað snýr að því fyrra er ljóst að heiðarleiki og auðmýkt eru grundvallarkröfur sem við eigum að gera til frambjóðenda. Reynslan hefur sýnt að þar er víða pottur brotinn. Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um gagnsæi í pólitík – hefur það sýnt sig vera skrúðmælgi ein, enda eru kjötkatlar ekki gegnsæir. Atkvæði okkar á að vera varðstaða okkar um lýðræðið, þess vegna má aldrei kjósa af gömlum vana. Það er veikleikamerki á lýðræðinu ef einstakir flokkar eða frambjóðendur telja sig geta gengið að atkvæði okkar vísu. Almenningur á ekki að þurfa að óttast stjórnmálamenn en á að gera þá lámarkskröfu að þeir sanni sig verðuga þess trausts að vera kosnir, því það er mikil ábyrgð í því fólgin að véla um annarra manna mál hvort heldur er í litlu eða stóru samfélagi. Það sem er hættulegast lýðræðinu er þegar stjórnmálamenn telja sig geta gengið að atkvæði okkar vísu. Hver sá sem greiðir atkvæði í kosningum gegnir því meginhlutverki að standa  vörð um lýðræðisleg gildi. Sá sem býður sig fram til þjónustu við almenning á ekki að komast upp með það að brosa framan í fólk fjórða hvert ár, hann á að svitna í fjögur á samfleytt.

 (Þessi pistill birtist í Sunnlenska fréttablaðinu þ. 30. apríl s.l.)


Gengur menntun út á samkeppni?

Nú hefur ný Písakönnun leitt í ljós afleitan árangur grunnskólakerfisins hér á landi.  Ekki skal ég neitt um það segja að sinni, hvað veldur.  En þetta er grafalvarlegt mál.  Viðbrögð ónefnds borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við könnunni, valda mér nokkrum heilabrotum.  Hann hefur mestar áhyggjur að því, að samkeppnishæfni nemenda (væntanlega þegar þeir koma úr skóla) muni skerðast. 

Ég hélt að Sjálfstæðisflokkurinn aðhylltist einstaklingshyggju.  Ef marka má orð borgarfulltrúans er það misskilningur; það á sýnilega ekki að mennta börn til að auka andlegan þroska þeirra, heldur til að gera þau að vel smurðum tannhjólum í atvinnulífinu.

Vitanlega þarf menntun að hluta til, að auka möguleika nemenda til að afla sér lífsviðurværis.  En þeir möguleikar aukast sjálfkrafa með auknum þroska þeirra.  En ef til vill snýst málið um hina eilífu spurningu: Hvort kemur fyrst, eggið eða hænan?


Kaþólska kirkjan á Íslandi

Kaþólska kirkjan á Íslandi

Að skýla þeim er myrðir
barnsins sál,
er hvassara
en böðulsaxar stál. 

Og þegar þagað er
um níðingsverkin grimm,
þá verður veröld öll
hörð og dimm.

Og ljóssins vald
sem Kristur færði oss,
á vörum presta verður
Júdasarkoss. 


Álitamál?

Eftirfarandi fullyrðingu rakst ég á í bók einn: "Menn geta gert góðverk án þess að vera í eðli sínu góðir, en menn geta ekki framið illvirki á þess að vera vondir."

Þetta er nokkuð merkilegri fullyrðing, en fljótt á litið mætti ætla, enda vekur hún þanka.  Því má t.d. velta fyrir sér, hvort góðverk stafi ekki af góðum huga og hlýtur sá, sem gerir góðverk þá ekki að teljast góður?  Samkvæmt því ætti síðari hluti fullyrðingarinnar að standast, það er, að aðeins vondur maður geti framið illvirki.  En þá vaknar spurningin um rót illvirkisins.  Sé hún beinlínis illur vilji, er augljóst, að sá sem það fremur er illur.  En getur hennar ekki verið að leita í vanþroska, fáfræði eða beinlínis sturlun?

Nóg í bili. 


Úr vöndu að ráða

Nú er úr vöndu að ráða, a.m.k. fyrir þá, sem vilja velja milli "stóru" stjórnmálaflokkanna.  Í grófum dráttum má segja, að valið standi milli þess að kjósa brennuvargana, sem kveiktu í húsinu okkar eða slökkvuliðið sem kallað var á vettvang, en gleymdi að taka með sér slöngurnar.

Sá á kvölina sem á völina!


Dauð atkvæði eru ekki til

Ekki man ég hvort það var í sveitarstjórnarkosningunum 1990 eða þingkosningum árið eftir.  Í báðum þessum kosningum sá ég um utankjörstaðaatkvæðagreiðsluna fyrir Alþýðuflokkinn í Reykjavík.  Dag nokkurn var hringt frá kosningaskrifstofu krata vestur á fjörðum.  Þeim sem hringdi var mikið í mun, að ég færi á elliheimilið Grund og kæmi konu einni, sem hann sagði búa þar, á kjörstað.  Það var auðvitað ekkert mál.  En til að hafa vaðið fyrir neðan mig, hringdi ég á elliheimilið til að grennslast fyrir um það, hvort blessuð gamla konan væri ferðafær.  Hún reyndist þá hafa lagt upp í sína hinstu för fyrir þremur mánuðum.  Ég hringdi auðvitað vestur og sagði þeim, sem hringt hafði, að það væri nokkuð seint, að koma konunni á kjörstað.

Vestfirðingar eru eins og menn vita, skjótráðir menn og sjást stundum ekki fyrir.  Svarið sem ég fékk var í þeim anda:  "Mér er andskotann sama, hvort kerlingin er lifandi eða dauð, þú ferð á elliheimilið og kemur henni á kjörstað," hvein í mínum manni fyrir vestan.  Svo skellti hann á en ég skellti upp úr.

Í þessu tilfelli var sannanlega um að ræða "dautt atkvæði."  En hinir látnu eru líka þeir einu, sem hægt er að kalla "dauð atkvæði."

Stóru flokkarnir halda því gjarnan á lofti, að atkvæði greidd litlum flokkum séu "dauð atkvæði."  Er þá átt við, að viðkomandi flokkur fái tæpast og jafnvel alls ekki mann kosinn á þing.  Vissulega er hægt að leiða líkum að því, hvort einhver flokkur nái þingsætum eður ei.  En með atkvæði sínu tjá kjósendur skoðun sína, eins þótt kosningarnar séu leynilegar.  Og þeir hafa fullan rétt á því, að kjósa án tillits til þess, hversu miklar líkur eru á, að atkvæði þeirra "nýtist" viðkomandi flokki.  Það er kjarni málsins.


Baldur Óskarsson minning

 

Baldur Óskarsson

 

 Þær leita á mig minningarnar um þann dula mann, sem gjarnan sló harla torræða takta á ljóðahörpu sína.  Hún var nefnilega nokkuð torsótt, slóð sveitapiltsins suður, eins og það er kallað þegar menn halda í höfðuðstaðinn, úr hvaða átt sem þá ber að.  Og jafn dulur og hann var, tamdi hann sér að yrkja í gátum.  Brá þó vissulega út af þeim vana sínum á stöku stað.    Þess vegna eru flest ljóða hans torræð til skilnings, en að sama skapi opin skynjun þeirra, er gefa sér tóm til að njóta dýptar og fegurðar.  En þá er nokkurs krafist; það skal játað.

            Örlögin höguðu því svo, að samskipti okkar Baldurs urðu stopul þegar á leið.  Síðast bar fundum okkar saman á Austurvelli í sumar leið.  Þetta var á sólríkum degi, en maðurinn með ljáinn hirðir ekki um veður, einn sláttumanna.  Og mig grunaði að oftar mundu leiðir okkar ekki liggja saman, hvað heldur ekki varð.

            En menn deyja sjaldnast að fullu; verkin lifa og minningin með.  Og nú, þegar maðurinn Baldur Óskarsson er allur, hygg ég, að samnefnt skáld muni ganga í endurnýjun lífdaga.  Í smiðju hans hafa jafnt ljóðaunnendur sem yngri skáld, margt að sækja.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.)

 

            


Ljóð og ljúfir tónar í Sunnlenska bókakaffinu

Jane Ade SutarjoGrétar Geir Kristinsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ljóð og ljúfir tónar í Sunnlenska bókakaffinu

Ljóð og ljúfir tónar nefnist dagskrá, sem verður í Sunnlenska bókakaffinu, í dag klukkan 15.00. Þar ætla ég að lesa úr nýútkominni bók minni, þar sem er að finna ljóð, frumort og þýdd, auk smásagna. Bókin nefnist Ljóðasafn og sagna 1972 til 2012 og er gefin út af bókaforlaginu Skruddu.

Ekki verð ég þó einn á ferðinni, því ég er bara nettur hluti af þríeykinu Ljóð og ljúfir tónar. Þarna munu nefnilega spila hjónin Jane Ade Sutarjo píanóleikari og fiðluleikari, sem mun spila á píanó og Grétar Geir Kristinsson, sem spilar á gítar. Þau eru bæði kennarar við Tónlistarskóla Árnesinga.

Dagskráin hefst klukkan 15.00 og eru allir velkomnir, meða húsrúm leyfir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband