"Ekkert markvert gerðist dag"

Þann 14. júli 1789 réðust Parísarbúar á Bastilluna og rifu hana til grunna; franska byltingin var hafin.  Sama dag gekk liðsforingi nokkur á fund Lúðvígs konungs XVI og færði honum tíðindin.

„Já, en þetta er uppreisn." sagði konungur.

„Nei, yðar hátingn,"  svaraði liðsforinginn „þetta er bylting."

Um kvöldið ritaði konungur í dagbók sína: „Ekkert markvert gerðist í dag."

Hvernig stendur á því, að forysta Sjálfstæðisflokksins kýs að sveipa sig skikkju Lúðvígs XVI eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í gær?


Enn um landnámsstíginn.

Í gær brá ég mér yfir heiðina og skundaði sem leið lá að horni Vonarstrætis og Tjarnargötu.  Ég þurfti að sjá það með eigin augum, að landnámshellurnar, sem ég skrifaði um á miðvikudaginn, væru horfnar.  Það reyndist rétt.

Ég hef haft samband við fulltrúa í borgarstjórn, en þeir kannast ekki við neitt.  Lofa þó að kanna málið.  Ég mun fylgjast með framvindu mála og blogga jafnharðan og mér berast fréttir.


Þetta getur ekki verið satt!

Það ætla ég rétt að vona, að ég hafi ekki verið með ráði og rænu, þegar ég horfði á sjónvarpsfréttir áðan.  Ef svo er, þá hafa fornleifafræðingar komið niður á hellulagðan stíg frá upphafi landnáms á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu, tekið hann upp og ætla sér að raða hellunum annars staðar, sennilega á Árbæjarsafninu.  Að sögn fornleifafræðins, sem rætt var við (hafi ég verið með sjálfum mér) verður svo hægt að sjá þessar elstu mannvistarleifar á Íslandi í margmiðlunarformi.

 


Til hamingju Akureyri, settlegasta dama norðan Alpafjalla

Hin settlega dama við Eyjafjörð, ungfrú Akureyri á afmæli í dag.  Það eru sem sagt liðin 150 ár frá því hún hlaut kaupstaðaréttindi, að vísu í síðara skiptið, en við tölum ekki meira um það.  Slíkt er ekki við hæfi.  Það var undir handarjaðri þessarar settlegustu dömu norðan Alpafjalla, sem ég fyrst man eftir mér.  Afi minn og amma bjuggu þá í Skipagötunni, eftir að hús þeirra við Hafnarstræti 66 brann til kaldara kola, árið sem ég fæddist.   Þaðan fór ég í nokkra könnunarleiðangra um hinn stóra heim, eins og ungum sveinum er tamt.

Eitt sinn fór ég ásamt félaga mínum í þríhjólaleiðangur upp í Brekkuna.  Ég veit ekki hve lengi sá leiðangur stóð.  Hitt man ég, að loks komu laganna verðir á svörtu Maríu og komu okkur í hús.  Við fengum að vera á reiðskjótum okkar aftur í bílnum, það var mikið ævintýri, að þeytast um bílgólfið á hjólunum.  Og auðvitað urðum við hetjur dagsins fyrir vikið.

Síðar lögðum við út á refilstigu vísindanna.  Það var þannig, að okkur hafði verið sagt, að áðnamaðkar væru tvíkynja.  Karlsins vegna þótti okkur það ekki nógu gott; aumingja hann, að geta aldrei losnað frá kerlingunni!  Við urðum okkur úti um vasahníf og veiddum áðnamaðk.  Nú skyldi frelsa karlinn frá kerlingunni.  Og í þeim göfuga tilgangi skárum við maðkinn í tvo hluta.

Við vorum auðvitað hróðugir af björgunarstarfinu.  En það stóð ekki lengi.  Hvað nú ef báðir hlutarnir væru eftir sem áður tvíkynja?  Við þessu var aðeins eitt ráð; við skárum þá báða í tvennt.  Og þannig héldum við áfram, þar til áðnamaðkurinn hafði nánast verið bútaður í frumeindir sínar.

Seinna varð félagi minn í þessu mjög svo vísindalega björgunarstarfi læknir.  Ég hef ekki haft aðrar spurnir af honum í áratugi, en þær, að hann starfar úti í hinum stóra heimi.  En ég þykist vita, að hann hafi ekki haldið áfram á sömu braut.  Og þó, erum við ekki alltaf að búta tilveruna í smá búta, til að kryfja tilveruna til mergjar.  En það er allt önnur saga.

 

Ég var á fimmta ári, þegar afi minn dó.  Atvikin höguðu því svo, að við amma og móðir mín fluttum suður.  Amma var nefnilega krónískur Reykvíkingur.  En það er eins og hjartað verði gjarnan eftir, þar sem ræturnar liggja, að minnsta kosti að nokkru leyti.  Og enn blundar hann í mér, Akureyringurinn, sem ferðaðist skríkjandi um í löggubíl að loknum landkönnunarleiðangri og bjargaði síðar áðnamaðki undan ágangi femínismans, sem hann hafði reyndar aldrei heyrt minnst á.


Hvers eiga gamlir að gjalda?

Enn hefur Kári Stefánsson stigið á stokk og segist hafa komist að því, að þeim mun eldri sem menn eru, þegar þeir geti af sér börn, þeim meiri líkur séu á því, að ýmsir sjúkdómar herji á börnin, geðrænir jafnt sem líkamlegir.  Nefnir hann m.a. einhverfu í því sambandi.  Fullyrðir Kári, að einhverfa hafi aukist á undanförnum árum, samfara því, sem karlar séu að geta börn, lengur fram eftir ævinni en áður.

Báðar þessar fullyrðingar þarfnast nánari athugunar.  Annars vegar er þess að gæta, að hugtakið einhverfa er tiltölulega nýtt af nálinni.  Því er með öllu óvíst, hvort einhverfu fólki hafi fjölgað eður ei.  Annað er hitt, að sú fullyrðing Kára Stefánssonar, að karlar nú til dags, séu að geta börn, lengur á lífsröltinu en áður, er vægast sagt hæpin.  Það þarf ekki neitt sérstaka þekkingu í ættfræði, til að sjá, að þessi fullyrðing stenst ekki nánari skoðun.

Íslenskir fjölmiðlar, þ.á.m. Ríkisútvarpið gera mikið úr þessari "uppgötvun" Kára og segja hana hafa vakið heimsathygli.  Í kvöld horfði ég á frétt um málið í sænska sjónvarpinu.  Þar á bæ gerðu menn góðlátlegt grín að þessari nýju uppgötvun.

 


Ferðagleði forsetans

"Gamla konu langar í ferðalag", segir Laxness í Íslandsklukkunni um móður þess mæta manns, Jóns Hreggviðssonar.  Sjálfur fór Jón víða, sem kunnugt er, óð hið blauta Holland, arkaði yfir Þýskaland og gerðist loks soldát vors arfakóngs.

Hvorki eigum við Íslendingar lengur neinn Jón Hreggviðsson né arfakóng.  Aftur á móti eigum við forseta, sem ekki er síður ferðafús en kotbóndinn á Rein forðum tíð og virðist auk þess telja sig til krýndra fursta.  Í það minnsta er nokkur hátignarbragur á forseta vorum og er það vel.  Það er nefnilega gott, þegar ekki þarf endilega vegsemd til að auka virðingu manna; stundum dugir vegleiðin ein.  Eða þannig.

En merkilegt er það, að í ljós hefur komið, að hinir þrír handhafar forsetavalds, þiggja árlega tíu milljónir króna fyrir að undirrita plögg meðan forsetinn ferðaglaði arkar um lönd og álfur.  Þetta skotsilfur, sem er langt yfir launum venjulegs launafólks, bætist ofan á bærileg laun, sem þetta fólk nýtur þess utan. 

Þessar aukaþóknanir handhafa forsetavalds, forseta hæstaréttar, forseta alþingis og forsætisráðherra dragast vel að merkja ekki frá launum forseta, enda þótt hann sér gjarnan í einkaerindum á sínu heimshornaflakki og ætti því með réttu, að vera launalaus á meðan.  En sjálf sagt þykir ekki kurteisi að ræða slíkt, né heldur hitt, að arfakóngi fylgir vitanlega arfaaðall, þótt sjálfskipaður sé.


Jón Óskar, ljóðaúrval

Jón Óskar, ljóðaúrval

 

Loks er komið út úrval ljóða Jóns Óskars.  Tæpast mátti það nú seinna vera, en hann lést árið 1998.  Jón Óskar var í hópi þeirra skálda, sem ruddu nútímanum braut í íslenskri ljóðagerð um miðja síðustu öld.  Það gerði hann raunar ekki aðeins með frumortum ljóðum, heldur einnig með ljóðaþýðingum úr frönsku.  Þeirra sér því miður ekki stað í þessari bók.  Með þeim þýðingum opnaði hann þó Íslendingum dyr, sem flestum voru luktar.

Vissulega er fengur að ljóðaúrvali Jóns Óskars.  En vonandi er það aðeins upphaf þess, að heildarsafn ljóða hans komi fyrir almennings sjónir, bæði frumort ljóð hans og ljóðaþýðingar.

Raunar fékkst Jón Óskar ekki aðeins við ljóðagerð og þýðingar.  Hann þýddi skáldskap í lausu máli og ekki má gleyma endurminningabókum hans.  Þar fjallar hann ekki síst um andrúmsloftið í bókmenntaheiminum hér á landi á tímum kalda stríðsins.  Þessar bækur urðu bæði mér og ýmsum jafnöldrum mínum til nokkurs gagns og þroska.  En eins og gengur og gerist á landi hér, varð Jón Óskar að gjalda fyrir þær skoðanir, sem þar koma fram.  Íslensk menning er því miður ekki það stór í sniðum, að innan hennar rýmist gagnrýnin umræða.

En hvað um það; "laufin, trén og vindarnir," nefnist þetta ljóðaúrval Jóns Óskars.  Senn mun laufið auðga litbrigði jarðar, trén lúta hausti og vindar gnauða, jafnt um stræti sem tún.  Á meðan hygg ég, að margur muni eignast vin í þessari ágætu bók. 


Ný bók, Ljóðasafn og sagna 1972 - 2012

Nýútkomin bók 

Tíminn lætur ekki að sér hæða.  Og nú eru fjórir áratugir frá því ég sté fram á þennan marg umtalaða ritvöll, hvern ég raunar hef aldrei augum litið.  Já, og verð víst sextugur í sumar, ef Guð lofar, eins og gamla fólkið segir.

En hvað um það; í tilefni ársins er komin út bók með úrvali ljóða minna, frumortum og þýddum og smásagnaúrvali að auki.  Ljóðasafn og sagna 1972 - 2012 heitir ritið.  Bókaútgáfan Skrudda gefur út.

Á morgun fer ég til Vestmannaeyja, þar sem ég er fæddur.  Þar mun ég lesa upp úr bókinni á Goslokahátíðinni, nánar tiltekið í bókasafninu.  Hlakka til að sjá sem flesta.

 


Kjósið ekki hetju!

Það var hér um árið, um það leyti sem blessaður presturinn, hann séra Jón Þorvarðarson lét mig fara með eitthvað fallegt upp við altarið í Háteigskirkju og fermdi mig að svo mæltu, að ég hlustaði á leikrit í útvarpinu sem oftar.  Þetta leikrit er eftir Bertolt Brecht og fjallar um það, þegar kaþólska kirkjan neyddi Galeleo Galelei til að draga til baka þá kenningu sína, að jörðin snérist umhverfis sólina en ekki öfugt.

Allir þekkja þá sögn, sanna eða logna, að þegar gamli maðurinn gekk út úr réttarsalnum hafi hann tuldrað í barm sér þessi fleygu orð: "Hún snýst nú samt." 

Brecht tekur sér dulítið skáldaleyfi, en slíkt leyfi er oftar en ekki nauðsynlegt, til að nálgast sannleikann.  Hann lætur einn af lærisveinum meistarans ganga að honum, að mig minnir á leiðinni út úr réttarsalnum og segja:  "Aumt er það land, sem á enga hetju."  En sá gamli vissi betur og svaraði: "Nei, aumt er það land, sem þarf á hetjum að halda."

Nú eru liðin 46 ár, síðan ég heyrði þetta leikrit í útvarpinu.  Og þessi orð, sem Brecht leggur Galeleo Galelei í munn, eru mér enn í fersku minni.

Því nefni ég þetta nú, daginn fyrir forsetakosningarnar, að ég óttast, að stór hluti þjóðarinnar sé að leita sér að hetju; hinum sterka manni.  Slík leit er hættuleg.  Engin þjóð, hvorki fær né verðskuldar leiðtoga, sem býr yfir meiri styrk en hún sjálf.  Því bið ég ykkur, sem hyggist kjósa á morgun, þess lengstra orða, að kjósa ekki hetjuímynd yfir þjóðina.  Það hefur víða verið reynt, með hörmulegum afleiðingum.   


Hvað er mannorð þingmanns á milli vina?

Samkvæmt breytingum, sem samþykktar voru á þingsköpum undir lok þings, fá alþingismenn greidd gleraugu, heyrnartæki, krabbameinsleit og líkamsrækt sjá hér

Mörður Árnason gerði athugasemd við þetta og benti á, að almennir launþegar fá þessa hluti og þjónustu að hluta til greidda af stéttarfélögum sínum, sem þeir að sjálfssögðu kosta með félagsgjöldum.  Þingmenn fá hinns vegar allt greitt frá ríkinu.

Birgir Ármannsson, sem sæti á í þingskaparnefnd, svaraði þessum athugasemdum, með því að benda á, að þessar nýju reglur sköpuðu óverulegan kostnað.

Það má vel vera, að kostnaðurinn við þessi forréttindi sé óverulegur í krónum talið.  En hann kostar alla þá þingmenn, sem samþykktu þessi forréttindi, sjálfum sér til handa, annað sem þeim virðist ekki annt um.  Það kostar þá mannorðið! Hér má sjá hvernig atkvæði féllu: sjá hér

Ps.

Meðal annarra orða; hvers konar gleraugu gagnast siðblindu fólki og hverrar gerðar eru þau heyrnartæki, sem duga stjórnmálamönnum, sem heyra ekki rödd fólksins, sem hefur álpast til að kjósa þá?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband