Skortur á íslenskumenntun kennara

Ég verð að játa, að mér hefur lengi þótt ýmislegt skorta á, varðandi grunnskólakennslu á landi hér.  Alþjóðlegar kannanir sýna, að Íslendingar verja tiltölulega miklu fé í barnafræðslu en um leið, að námsárangurinn rétt slefar í meðallagi og varla það.  Þarna er á ferðinni misræmi, sem leita verður skýringa á.

Sjaldan er ein báran stök, og því sennilegt, að þarna sé skýringa víða að leita.  En grunnur allrar fræðslu hlýtur þó að vera menntun kennara.  Nú hefur komið í ljós, m.a. í yfirlýsingu Íslenskrar málverndar, sem flutt var í fréttum Ríkisútvarpsins nú í hádeginu, að hægt er að komast í gegnum kennaranám á Íslandi, með full réttindi til íslenskukennslu í grunnskólum, án þess að læra íslensku.  Þetta er beinlínis ógnvekjandi.  Enginn, sem hvorki kann þokkaleg skil á bókmenntum eigin þjóðar, né þekkir harla vel grunn móðurmáls síns, getur talist menntaður maður.  Sama gildir vitanlega um sögu, en ég veit, að í þeirri grein er víða pottur brotinn meðal grunnskólakennara.

Menntun er ekki fólgin í háskólagráðum, nema því aðeins, að fyrir þeim sé innistæða.  Innistæðulaus menntun er eins og hlutabréf í útrásarfyrirtæki; einskis virði.  Þó er sá munur á, eins og reynslan sýnir, að hafi menn slegið lán fyrir hlutabréfunum, má afskrifa þau.  En menntun verður ekki afskrifuð.  Hennar sér stað eða ekki!  Síst af öllu þarfnast þessi þjóð menntunarlausra barnakennara. 

Barnakennslan er grunnur allrar fræðslu.  Menn verða að átta sig á því, að veikur grunnur fær ekki borið neinar stoðir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Þessu er einnig svona farið í öðrum greinum. Ástæðurnar eru nokkrar og ég kem hér inn á nokkrar.

Skólastjórar þurfa ekki að setja kennara með menntun í tilteknu fagi í kennslu í þeirra fagi. Kennari sem hefur próf í íslensku frá HÍ kemst kannski ekki í að kenna hana á unglingastigi ef fyrir á fleti eru kennarar sem eru vanir að kenna fagið án þess þó að hafa menntun til þess. Sama er að segja um aðrar greinar. Þarna er raunverulegt og mikið vandamál á ferðinni. Sorglegt að menntamálaráðuneytið skuli ekki gera sér grein fyrir því, segir kannski mikið um hve öflugt fólk er þar að störfum!

Í annan stað vantar mjög að foreldrar séu látnir bera ábyrgð á börnum sínum. 1-2 erfiðir nemendur í bekk geta eyðilagt kennslu fyrir öðrum í bekknum og skólinn hefur engin raunveruleg úrræði til að bregðast við. Hægt er að hafa samband við foreldra en oftar en ekki eru þeir ástæða þess að nemandinn kann sig ekki í skólastofunni. Menn gleyma því að samfélagið er að fjárfesta í einstaklingum til framtíðar, svo þeir verði gagnlegir samfélagsþegnar og ekki er líðandi að örfáir einstaklingar skemmi þessa fjárfestingu.

Einnig þarf að gera eðlilegar kröfur í skólum. Í löndum víða í kringum okkur er  fellt í grunnskóla. Hér er hægt að fá 0 í öllum fögum alltaf án þess að það hafi neinar afleiðingar í för með sér. Hvernig undirbúningur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi er það? Allir hafa gott af eðlilegu aðhaldi.

Jon (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband