Vangaveltur út frá auglýsingu

„Við styðjum lagningu Suðurlandslínu til að reisa megi álver í Helguvík" eða eitthvað á þá leið segir í auglýsingu, sem ég heyrði í morgun í Ríkisútvarpinu.  Undir þetta skrifuðu nokkur fyrirtæki, þ.á.m. Bílasprautun Magga Jóns. og Norðurál.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr Bílasprautun Magga Jóns., síður en svo.  En grunur minn er sá, að í stjórnmálalegu og efnahagslegu tilliti, sé nokkur munur á vægi þess fyrirtækis annars vegar og vægi Norðuráls hins vegar.

Óneitanlega hljómar þessi auglýsing eins og stórlaxinn (Norðurál) sé að nota litla manninn (Bílasprautun Magga Jóns.) til að sýna hvað hagsmunirnir séu nú öllum sameiginlegir, hvar í flokki sem þeir standa.

En er það svo?  Ég efast.  Reynslan, bæði okkar sjálfra og annarra þjóða, sýnir, að það er smár og meðalstór atvinnurekstur, sem ber uppi atvinnulíf hverrar þjóðar.  Halda menn, að það sé einber tilviljun, að Vesturlönd eru sem óðast að losa sig við álverksmiðjur og koma þeim fyrir í vanþróuðum ríkjum?

Og vaknar þá önnur spurning, sem óneitanlega tengist Hruninu og auknum kröfum um fleiri álver á Íslandi.  Er Ísland í raun þróunarríki?

Að ýmsu leyti held ég, að svara verði þeirri spurningu neitandi.  Þrátt fyrir allt höfum við velferðarkerfi, almenna menntun og þokkalegar samgöngur.  Á hinn bóginn er því ekki að neita, að hugarfarslega minnum við um margt á vanþróaðar þjóðir þriðja heimsins.  Þannig erum við frumstæð veiðimannaþjóð að því leyti, að við höfum ekki þroska til að koma okkur saman um nýtingu fiskimiðanna, þótt við séum þróuð veiðimannaþjóð, hvað varðar flota og veiðarfæri.

Og er það ekki einmitt kjarni málsins?  Erum við ekki eins og telpuhnáta á sjötta ári, sem laumast inn í fataskáp móður sinnar og klæðir sig í sparikjólinn hennar?

Hvað skyldi þetta koma Norðuráli og Bílasprautun Magga Jóns. við?  Ja, það gæti verið fróðlegt í þessu sambandi, að bera saman stöðu  og styrkþessara tveggja fyrirtækja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband