6.10.2009 | 22:54
Össur og viska þagnarinnar
Jæja, þá er ár liðið frá þeirri merku stundu, þegar Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra uppgötvaði það, að jafnvel væri til máttugra afl en Davíð Oddson. Þann dag snéri hann sér milliliðalaust til Guðs almáttugs í beinni sjónvarpsútsendingu og bað hann blessa Ísland.
Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ríkisstjórn Geirs Haarde, þ.e. samsteypustjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar var í bókstaflegri merkingu barin frá völdum með pottahlemmum og sleifum. En áður en að því kom, hafði hún sótt um lán til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Það lán erfði svo ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, enda þótt síðar nefndi flokkurinn hafi frá upphafi verið andvígur þessari lántöku.
Nú eru verulega líkur á því, að ríkisstjórnin springi vegna Icesavemálsins og því, hvernig Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn tengir það mál láni sjóðsins til Íslendinga. Í fréttum í gær mátti sjá og heyra, að Össur Skarphéðinsson á orðið erfitt með að hemja sig vegna þessa máls. Megi Guð gefa honum visku þagnarinnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.