Lævísi refsins og bolabröð tuddans

Það er dulítið undarlegt, að hlusta á formann Sjálfstæðisflokksins hreykja sér af því, að flokkurinn hafi stuðlað að breyttum skilyrðum fyrir ríkisábyrgð á Icesave-samningnum.  Allir eru sammála um, að þarna sé í raun ekki um samninga jafn rétthárra aðila  að ræða, heldur nauðungarsamninga, þar sem knésett þjóð verður að taka því, sem að höndum ber.  Bjarni Benediktsson virðist hins vegar ekki skilja, hvað kom okkur í þessa stöðu.

Á föstudaginn birtist svo grein í Morgunblaðinu eftir einhvern Kjartan Gunnarsson lögfræðing.  Enda þótt með grein þessari fylgi ljósmynd af Kjartani Gunnarssyni fyrrum varaformanni bankaráðs Landsbankans og framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, er því líkast, sem þar sé um tvo menn að ræða.  Í lok greinarinnar gengur Kjartan svo langt, að fullyrða, að ríkisstjórnin gangi „erinda Breta af meiri hörku og óbilgirni en dæmi eru til".

Enda þótt það sé Kjartani Gunnarssyni lögfræðingi hulið, þá veit Kjartan Gunnarsson fyrrum varaformaður bankaráðs Landsbankans og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins það mæta vel, að núverandi staða þjóðarinnar er afleiðing botnlausrar græðgi, sem fegruð var með fáránlegri hugmyndafræði.  Það var sú hugmyndafræði, sem hann sjálfur vegsamaði og tróð ásamt félögum sínum upp á þjóðina, ýmist með lævísi refsins eða bolabrögðum tuddans.  Ekkert hæfir slíkum mönnum betur en þögnin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein og menn verða að muna að "það bylur oftast hæst í tómri tunnu".

Sigurður Þórarinsson (IP-tala skráð) 17.8.2009 kl. 19:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband