Samstaða gegn hatri

Kærleikurinn er flestum eðlislægur.  Við viljum lifa í sátt og samlyndi við annað fólk, hverjar svo sem skoðanir þess eru, þjóðerni, trúarbrögð, eða önnur þau atriði, sem greina okkur í sundur.   Ólíkur bakgrunnur fólks, eykur við mannlífsflóruna, flestum til gagns og gleði.

Auðvitað er til það fólk, sem hverjum og einum lyndir ekki við.  Slíkt afgreiðum við einfaldlega með því að draga úr samskiptum, sé annars ekki kostur.  En því fylgir ekki hatur.

Hatur er meinsemd í hjarta hvers þess, sem því er haldinn.  Við skulum því varast, að tala um "sjúkt hatur"; hatur er alltaf sjúklegt ástand!  Það er ekki til neitt, sem kallast "heilbrigt hatur".

Það sem gerðist í Noregi á föstudaginn, var afleiðing af langvarandi og djúpstæðu hatri.  Birtingarmyndin var ótti við skoðanir vinstrimanna og trú og siði múslima.  Þetta er ekkert nýtt.  Öll þekkjum við dæmi þess að öfgafullir vinstrimenn hafi myrt hægrimenn. Og víst hafa ofstækismenn úr röðum múslima myrt kristna í nafni trúar sinnar.  En voðaverk sem þessi hafa ekkert með trú eða stjórnmál að gera.  Þau eru einfaldlega afleiðing haturs.

Viðbrögð sumra Íslendinga á blogginu og sjálfsagt víðar, sýna, að hatrið er víða að finna.  Gegn því verður að hamla, eins og kostur er. 

Kynþáttafordómar og trúarbragðahatur eiga sér sína áhangendur á Íslandi, rétt eins og í Noregi og í öðrum löndum.  Þess vegna þarf að nýta alla hugsanlega möguleika gegn slíkri hatursógn. 

Hvað trúarbragðafordóma varðar er þess að gæta, að við vinnum ekki gegn þeim, með því að hafna eigin trú.  Getur trúlaus maður borið virðungu fyrir trú annarra, hver sem hún er?

Ég þekki þess engin dæmi, að trúarbrögð orsaki hatur.  Hitt er annað, að misnotkun þeirra leiðir oft til haturs.  Það sem kallað er trúarbragðastríð á sér jafnan efnahagslegar rætur.  Það er nauðsynlegt, að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.

Íslendingar og Norðmenn eru ekki aðeins bræðraþjóðir.  Samfélagsgerð beggja þessara þjóða grundvallast á sömu gildunum. Þess vegna eigum við Íslendingar að íhuga alvarlega, það sem gerðist í Noregi.  Það getur gerst hér.  

Nýtum nú kirkjuna og önnur trúarsamfélög, skólana, sveitafélögin, félagasamtök, vinnustaði, stjórnmálaflokka og allt annað, sem nýtilegt er, til að koma saman, ræða málin og efla samstöðu gegn hatri. 

Minnumst orða Norðmannsins, sem sagði eftir óðæðið á föstudaginn: "Fyrst einn maður gat sýnt af sér slíkt hatur, hvílíkan kærleika getum við þá öll ekki sýnt saman".

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband