Undarleg fyrirsögn á forsíðu Moggans

Nokkuð þótti mér hún undarleg, fyrirsögnin á forsíðu Moggans í dag, þar sem stóð „Mannfall í ofsaveðri í vesturhluta Evrópu".  Ég er vanur því, að orðið „mannfall" tengist styrjöldum og orrustum en ekki veðurfari.  Þar tel ég réttara að nota orð eins og „mannskaðaveður".  Ég hef að minnsta kosti aldrei heyrt talað um „mannfallsveður".

Ég get þessa hér, vegna þess, að mér þykir gæta nokkurrar málfarslegrar fátæktar í þessari fyrirsögn.  Því miður hef ég víðar orðið hennar var, einmitt í þessu samhengi, í fjölmiðlum undanfarið.

Það er gott, þegar blaðamenn skrifa ekki aðeins skiljanlegan texta, heldur nýta sér einnig blæbrigði tungunnar.  Þannig verða blöðin ekki aðeins upplýsandi, heldur og sæmilega læsu fólki til nokkurrar upplyftingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Tek undir þetta með þér Pétur Hafstein, fjölmiðla fólki virðist heldur hraka að þessu leiti og tala um andlát í styrjöldum og mannfall í slysum.

Hrólfur Þ Hraundal, 1.3.2010 kl. 23:38

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Góð ábending. Fjölmiðlafólk vinnur undir mikillri tímapressu. Það merkir ekki að það sé ábyrgðarlaust af að skrifa á góðu og vönduðu máli.

Fyrrum voru fjölmiðlarnir n.k. gróðrarstía góðrar og vondrar íslensku. Margir mjög góðir íslenskumenn voru blaðamenn og höfðu góð áhrif. Svo voru einnig skussarnir þar og var kannski of snemma sleppt lausum að skrifa fréttirnar sem settar voru á forsíðu eða annan áberandi stað í blöðunum.

Fyrir langt löngu ritaði Bjarni Vilhjálmsson þjóðskjalavörður og cand mag., faðir Vilhjálms viðskiptafræðings sem hefir getið sér afburða orðstírs í baráttunni við braskarana, grein í tímarit. Þar tók Bjarni ýmsar algengar málvillur og ambögur fyrir sem óðu uppi í fjölmiðlum. Hann las hvern einasta stafkrók í öllum dagblöðunum í heila viku og gerði úttekt á, hvaða blað var afleitast í þessum málum. Fróðlegt væri að draga þessar niðurstöður fram og birta enn á ný þó ekki væri nema glefsur af þeim fjölmörgu dæmum sem Bjarni tiltók.

Þá er íslenskan sem önnur tungumál að breytast mjög mikið. Fyrir nokkru var vikið að þessu í Kastljósi sjónvarpsins. Í stað þess að nota sögn í nútíð og 1. persónu er farið að tíðkast allfurðulegur samsetningur orða sem eldra fólk botnar oft ekkert í.

Eitt besta rit um lifandi íslensku eru Málkrókar eftir Mörð Árnason. Þessi bók ætti að vera skyldulesning allra þeirra sem koma nálægt fjölmiðlum.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 2.3.2010 kl. 09:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband