Færsluflokkur: Menning og listir

Þökk fyrir Gunnar Þórðarson

Rétt í þessu var mannskapurinn að klappa út síðustu tónana í tónleikum Gunnars Þórðarsonar í Ríkissjónvarpinu.  Ég get nú ekki talist sérlega músíkalskur maður.  En þakka þér fyrir Gunnar, það var mennska í þessum lögum þínum.


Arne Dørumgaard - meistaraþýðandi úr austurlandamálum

Heimurinn hefur heldur svona skroppið saman frá dögum Alexanders mikla og er ósköp lítið um það að segja.  Á síðari árum hefur áhugi vestrænna ungmenna á Austurlöndum aukist til muna og er það vafalaust gagnkvæmt.  Nálægð og fjarlægð renna saman.

Eitt af því sem ungt fólk hér á Vesturlöndum hefur sótt í, austan úr heimi, er skáldskapur.  Nú er það svo, að tungumál setja þar nokkrar skorður.  Því langar mig til að benda þeim, sem áhuga kynnu að hafa á, að í Þjóðarbókhlöðunni er að finna þrjár bækur með þýðingum Norðmannsins Arne Dørumgaard á fornum japönskum ljóðum.  Þess utan þýddi Dørumgaard kínversk ljóð og ljóð frá Kóreu.  Hann ritaði og ítarlega formála með þýðingum sínum, sem ljúka upp heimi austurlanda fyrir lesendum. 


Umfjöllun Kiljufélaga um Geir Kristjánsson

Það var vel við hæfi, að Egill Helgason og félagar skyldu í sjónvarpsþætti sínum, „Kiljunni"  í gærkvöldi, fjalla um bókina „Sögur, leikrit ljóð".  Að vísu er sú umfjöllun nokkuð seint á ferðinni, því bókin kom út árið 2001.  En látum það vera.

Þarna er um að ræða heildarsafn, (þó ekki að fullu), Geirs Kristjánssonar.  Ef marka má orð Egils og félaga, fékkst hann einungis við ljóðaþýðingar.  En það var nú öðru nær.  Í bókinni, sem Egill veifaði fimlega í þættinum, kennir ýmissa grasa.  Geir var nefnilega einn af okkar bestu smásagnahöfunum, þótt aðeins sendi hann frá sér eitt smásagnasafn, „Stofnunina".  Sú bók er í þessu heildarsafni, sem og ýmsar þýðingar hans á óbundnu máli.  Þá var hann og merkur leikritahöfundur.  Þannig hefur útvarpsleikrit hans, „Snjómokstur", verið flutt í útvarpsstöðvum víða um Evrópu.  Þetta leikrit, ásamt reyndar einu öðru, er í umræddri bók.

Það væri óskandi, að Egill Helgason og félagar beittu sinni snotru þekkingu á bókmenntum að dulítið meiri nákvæmni í umfjöllun sinni um rithöfunda og verk þeirra, hvort heldur þeir eru lífs eða liðnir.

 


Um ævisögu Agnars Þórðarsonar

Er loks að lesa ævisögu Agnars Þórðarsonar rithöfundar.  Fróðlegt verk og þroskandi lesning.  Var að ljúka við fyrra bindið, „Í vagni tímans", sm kom út árið 1996.

Eiginlega eru þetta ekki aðeins endurminningar, heldur einnig hugleiðingar.  Þannig eiga góðar endurminningar raunar að vera.  Lítið gaman af skýrslum.

Agnar kemur víða við, en að gefnu tilefni skal hér gripið niður í kafla, sem nefnist „Silfurtúnglið og Brecht".  Þar segir m.a.

„Eins og jafnan er alltaf til nóg af fólki sem fagnar nýjum kennisetningum til að sýna að það sé með á nótunum og viti hvað klukkan slær, þannig er alltaf til hópur af aftaníoss-fólki tilbúið að hylla berrassaðan kónginn.

Tímarnir hafa snúist öndverðir gegn klassíkinni, sennilega af tómri minnimáttarkennd og getuleysi.  Flestar listastefnur eiga sér skamma lífdaga, tilraunir til svokallaðra formbyltinga í bókmenntum hafa sjaldnast skilið mikið eftir sig en lognast út af án beinna afkomenda í listinni."

Eftir að hafa lesið þennan kafla fór ég á myndlistasýningu.  Enginn munur á því sem gerist í myndlistinni og bókmenntunum.  Þarna kenndi ýmissa grasa.  Þetta átti að vera yfirlitssýning yfir íslenska myndlist síðustu öldina eða svo.  Nú jæja.

Á einu salargólfinu lágu ryðgaðir rörbútar.  Listfræðingnum, sem fylgdi mér um sýninguna þótti mikið til koma.  Í mínum augum eru ryðguð rör bara ryðguð rör, burt séð frá hugmyndum þess, sem skrúfar þau saman.  En ég hef heldur aldrei skilið listina í andlistinni, ekki frekar en ég treysti mér, til að segja nokkuð um andlit þess, sem ég hef aðeins séð hnakkann á.

 


Stytta af Tómasi?

Nils Ferlin 1898-1961 by annsphoto.   Vinningstillagan að styttu af Tómasi Guðmundssyni.

Árið 2008 fagnaði borgarstjórn Reykjavíkur aldarafmæli Steins Steinarrs, með því að samþykkja tillögu Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa, um að reisa styttu af Tómasi Guðmundssyni.  Um leið og ég endurtek gagnrýni mína á þá ákvörðun, frá því hún var tekin, vil ég taka það fram, að fá skáld met ég umfram Tómas. Hitt er annað mál, að það má merkilegt heita, að sonur jafn inngróins kúltúrmanns í Reykjavík og faðir Kjartans, Magnús Þórðarson var, skuli sýna af sér slíkan menningarskort.  En það er nú svo, að standi eikin ofarlega í hlíð, vill eplið rúlla frá henni.

Efnt var til samkeppni um gerð minnismerkisins og var niðurstaða hennar kynnt nú í vikunni.  Því miður er styttan, sem reisa á við suðurenda Tjarnarinnar í sumar, harla lík styttu af sænska skáldinu Nils Ferlin, sem stendur, eða réttara sagt situr á bekk í sænska bænum Filipstad.  Hvort hér er um tilviljun að ræða eður ei, skal ósagt látið.  Raunar munu slíkar styttur standa víðar.  Veit ég þó ekki, hvort álíka algengt er að reisa skáldum styttur, þar sem þau sitja á bekk, eins og það, að upphefja kónga og herstjóra, sitjandi á hrossum víða um heim.

Einn er þó munur á styttunum; á styttunni af Nils Ferlin fer ekki milli mála, hver maðurinn er.  Ég sat á Mokka nú í vikunni og vorum við þar nokkrir, sem allir höfðum séð Tómas og sumir spjallað við hann, sammála um, að andlit hans væri óþekkjanlegt á styttunni.  Að vísu á styttan að sýna skáldið ungt að árum.  En ljósmyndir, sem ég hef séð af því frá því æviskeiði þess eru ekki líkar andlitinu á styttunni.

Höfundur styttunnar af Tómasi er ung myndlistakona.  Vonandi á hún eftir að þroskast í list sinni.  En hvorki henni né borgarbúum, að nú ekki sé talað um minningu Tómasar Guðmundssonar, er nokkur greiði gerður, með því að reisa verk hennar á almanna færi, áður en þeim þroska er náð.  Það hefur margt listamannsefnið farið fyrir lítið sökum ótímabærrar viðurkenningar.


Er Þjóðarbókhlaðn skólabókasafn?

Þegar Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið voru á sínum tíma sett undir sama þakið í Þjóðarbókhlöðunni, óttuðust ýmsir, að með tímanum tæki Háskólabókasafnið þar öll ráð í sínar hendur, þannig að úr yrði venjulegt  háskólabókasafn.  Þetta virðist að nokkru hafa gengið eftir.  Þannig er Þjóðarbókhlaðan t.d. lokuð í dag og tengist það væntanlega því, að háskólarnir hafa ekki enn tekið til starfa eftir jólafrí.

Þetta er óviðunandi ástand.  Vitanlega þurfa háskólastofnanir á góðu bókasafni að halda.  En Þjóðarbókhlaðan á að vera annað og meira en skólabókasafn.  Þarna eru ekki aðeins varðveittar bækur, heldur einnig skjöl, fræðimönnum og öðrum til aflestrar.

Satt best að segja, hvarflaði það ekki að mér, að opinber söfn væru lokuð í dag, nema þá ef finnast skyldi sérhæft safn, sem t.d. væri ætlað að varðveita tappa af gömlum gosflöskum eða sýnishorn af skóreimum.  En Þjóðarbókhlaðan; nei þökk.


Heimildarmynd um árásina á Goðafoss

Ríkissjónvarpið sýndi í kvöld fyrri þátt heimildarmyndar um kafbátaárásina á Goðafoss þann 10. nóvember árið 1944.  Að flestu leyti var þetta ágætur þáttur.  Nákvæmninnar vegna verð ég þó að leiðrétta það sem fram kom í upphafi hans, þegar gerð var grein fyrir styrjaldarstöðunni haustið 1944.  Þar var sagt, að Bandaríkjamenn hefðu sótt norður Ítalíu og var ekki annað að skilja, en þar hefðu þeir verið einir að verki.  Því fer þó fjarri.  Sókninn norður Ítalíu, sem hófst í september 1943 var sameiginlegt verkefni Breta og Bandaríkjamanna undir yfirstjórn breska marskálksins Harolds Alexander.  Reyndar tóku hermenn frá fleiri þjóðum þátt í sókninni.  Þannig voru það t.d. pólskir hermenn sem að lokum unnu sigur á Þjóðverjum í orrustunni um Monte Cassino, en það var harðasta orrusta þessarar sóknar. 

Að þættinum loknum kom auglýsing frá Eimskip og var þar sungið stef úr dægurlagi, sem hljómar svo: „Sértu velkominn heim, yfir hafið og heim".  Ég get ekki að því gert, að mér þykja þessi orð lítt við hæfi í þessu samhengi.  Árásin á Goðafoss var mannskæðasta styrjaldaratvikið í sögu Íslands, allar götur aftur til Sturlungaaldar.  Enn er á lífi fólk, sem á um sárt að binda vegna þessa.  Svona auglýsingaskrum særir.


Jón á Bægisá kominn út

Þá er komið út 13. bindi tímaritsins „Jón á Bægisá", sem ég hef reyndar aldrei getað sætt mig við, að ekki skuli heita „Séra Jón á Bægisá".  En það er önnur saga, sem ef til vill segir meira um mig, en útgefundurna.

Þetta hefti „Jóns á Bægisá" er að stofni til helgað minningu Helga Hálfdanarsonar, sem lést í árs byrjun.  Tímarit þetta er gefið út í þeim tilgangi, að kynna þýðingar á bókmenntaverkum.  Það er því í hæsta máta eðlilegt, að það skuli minnast Helga Hálfdanarsonar.  Þýðingar hans, hvort heldur er á grískum harmleikjum, Shakespear, japönskum tönkum og hækum eða kínverskum ljóðum, svo nokkuð sé nefnt, eru í senn ómetanlegur gluggi til bókmennta annarra þjóða og meðal kjörgripa íslenskra bókmennta.  Hafi ritnefnd og útgefandi þökk fyir framtakið


Íslensk gamanþáttaröð?

Já, það er þetta með kímnigáfuna; hún er auðvitað ekki á eina bókina lærð, frekar en annað það, sem að huganum snýr. Rétt í þessu var ég að horfa á Ríkissjónvarpið.  Þar var fluttur fyrsti hluti verks, sem kallast  „Stóra planið" og er, að sögn sjónvarpsins, gamanþáttaröð.

Ef marka má þennan „gamanþátt", virðist gamanið heldur grátt hjá Ríkissjónvarpinu.  Þátturinn byrjaði með því, að ungur drengur varð fyrir bifreið og dó.  Væntanlega mjög fyndið, eða hvað?  Það sem eftir lifði þáttar, var fremur afbrigðilegt sambland af andlegu ofbeldi í formi ógnana og barsmíðum í bland við klám og aulahátt þeirra, sem við sögu komu.

En kímnigáfan, jú, auðvitað er hún afstæð og aldrei að vita, nema þessi undarlega „gamansemi" hafi vakið kátínu einhverra.  Það er nú svo.


Norskar þýðingar á austrænum skáldskap

Fátt er nú með eðlilegum hætti á landi hér.  Ýmsir láta sem himinn og jörð séu að farast og er fátt um þá kenningu að segja, annað en það, að ekki er hún ný af nálinni.

Fyrir nokkrum árum andaðist norska tónskáldið og þýðandinn Arne Dørumgaard eftir langa og merka ævi.  Eftir hann liggjur merkilegt safn þýðinga á ljóðum frá Kína, Japan og Kóreu, allt aftur til upphafs kínverska keisaradæmisins, rúmum tveimur öldum fyrir Krists burð.  Þýðingum hans fylgja fræðandi skrif um menningu þessara þjóða.

Ekki veit ég aðra vestræna þýðendur á austrænum skáldskap standa Dørumgaard framar, þótt vera megi, að þá sé að finna.  Þrjár bækur hans eru til útláns í Þjóðarbókhlöðunni, allar með þýðingum á fornum japönskum ljóðum.  Hvet ég þá, sem áhuga hafa á skáldskap, til að líta í þessi rit.  Auk þess eru bækur Dørumsgaard fáanlegar í norrkænum fornbókaverslunum. 

Fjarri sé mér, að letja menn þess, að huga að þjóðfélagsmálum.  En ekki sakar, að hafa það hugfast, að fleira er til í heimi hér, en það eitt, sem mölur og ryð fá grandað.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband