Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samkeppni fjölmiðla í tillitssemi?

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær, var sagt frá bílslysi austur í Flóa og þess getið, að þá stundina væri verið að klippa tvær manneskjur út úr bifreið, er þar kom við sögu.

Nú er það svo, að margir eiga vini og ættingja, sem leið eiga um Flóann og hefur frétt þessi því valdið ýmsum kvíða og ótta.  Hvað lá á, að flytja fréttina?

Kunningi minn einn sagðist oft hafa samband við fjölmiðla vegna svona fréttaflutnings og jafnan fá það svar, að hér væri um samkeppni að ræða.  Sá fjölmiðill, sem fyrstur er með fréttina, er sem sagt bestur, samkvæmt þessari formúlu.  En geta fjölmiðlar ekki tekið upp samkeppni í tillitssemi?  Spurt er í ljósi þess, að fyrir ekki svo ýkja löngu var fréttaflutningur sem þessi af mörgum kallaður sorpblaðamennska.

 


Ja.is/Samtök kvenna í atvinnurekstri, eggjaskurn án innihalds

Hefur þjóðin ekkert lært af hruninu?  Þessi spurning vaknar óneitanlega, þegar Félag kvenna í atvinnurekstri sér ástæðu til að verðlauna Ja.is, skömmu eftir að það fyrirtæki rak 19 manns, þar af 18 konur úr starfi norður á Akureyri, fyrir nú utan svipuð „afrek" á Ísafirði og Egilsstöðum. 

Vissulega er Ja.is stjórnað af konum.  En er sérstök ástæða til að verðlauna fyrirtæki, sem gerir konur atvinnulausar, eins þótt því sé stjórnað af konum.  Og það af Félagi kvenna í atvinnurekstri?

Ofan á þessi tilþrif fyrirtækisins bætis svo símaskráinn 2011.  Þar er nokkrum litlum myndum af ungum konum á sundbolum og í ýmsum stellingum raðað kringum stóra mynd af tölvulöguðum staðalbúk umbúðaþjóðfélagsins.

Hvað skyldi það annars vera, sem kallað er „umbúðaþjóðfélag"?  Jú, það er sú tegund þjóðfélags, þar sem umbúðirnar skipta öllu en innihaldið engu.  Í slíku þjóðfélagi kaupir fólk eggjaskurn, sem hvítan og rauðan hafa verið blásin úr.  Annað heiti á eggjaskurn í þessu samhengi er „ímynd". 

Með því að verðlauna Ja.is hefur Félag kvenna í atvinnurekstri sýnt, að það er sama eðlis og Ja.is; eggjaskurn án innihalds.

Lára Hanna Einarsdóttir hefur sent frá sér frábært efni um þetta fyrirbæri á Eyjunni.is.  sem sjá má hér hér


Ísland í anda Dario Fo

Sú ákvörðun alþingis, að vísa frá frávísunartillögu við þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar um að fella niður ákæru gegn Geir Haarde fyrir landsdómi, er mjög í anda þess, sem menn eiga að venjast á landi hér.

Stjórnsýsla Íslands er án ábyrgðar.  Ef fyrirtæki verður uppvíst af því, að selja iðnaðarsalt til matvælaframleiðslu árum saman, þá skal því heimilað, að halda sölunni áfram, meðan birgðir endast.  Matvælaeftirlitið sér til þess.

Komi í ljós, að læknir noti iðnaðarsílikon við brjóstaaðgerðir, skal slíkt ekki haft í hámælum.  Landlæknir sér til þess.

Sé áburði með þungmálmum (kadmíum) yfir leyfðum mörkum, dreift á tún til áburðar, skal þagað þunnu hljóði.  Matvælastofnun sér til þess.

Og fari forseti lýðveldisins óravegu út fyrir valdsvið sitt, skal skorað á hann að bjóða sig fram til eilífðar nóns. 

Hugsanaefirlitið sér til þess.

Auðvitað er öllum ljóst, að Geir Haarde, ber einn og sér ekki ábyrgð á hruninu.  Það er augljóst, að þegar atkvæði voru greidd um kærurnar til landsdóms, átti að greiða sameiginlega atkvæði um þá fjóra fyrrverandi ráðherra, sem til umfjöllunar voru. Sú varð því miður ekki raunin.

Engu að síður er ljóst, að fyrst landsdómsmálinu gegn Geir Haarde hefur verið þinglýst, er aðkomu alþingis að málinu lokið. 

Um sekt eða sakleysi Geirs Haarde ætla ég ekki að fella dóm, enda er ég þess ekki umkominn.  En úr því sem komið var, átti hann fullan rétt á því, að verjast fyrir landsdómi og leiða rök að sakleysi sínu.  Það eru mannréttindi, en ekki hitt, að ætla að draga hann undan dómi eins og Bjarni Benediktsson vill.

Eins og sjá mátti í sjónvarpsfréttum á sínum tíma, beinlínis svamlaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á hundasundi undan landsdómi í tárum sínum á fundi Samfylkingarinnar.  Björgvin G. Sigurðssyni og Árna Matthíassen skolaði í skjól í sama táraflóðinu. 

Var til of mikils mælst, að karlinn í brúnni, einn manna, stæði fyrir sínu?

 

 

 


Undarlegur lagaskilningur varðandi landsdóm

Í Alþingistíðindum árið 1903 kemur fram, að á þinginu þar á undan, 1902 (alþingi kom saman annað hvert á þeim tímum), var frumvarp um landsdóm til umræðu. Flutningsmaður þess var Hannes Hafstein, en eins og fram kemur í málflutningi hans, var Lárus H. Bjarnason síðar lagaprófessor og enn síðar hæstaréttardómari, helsti höfundur frumvarpsins.

Núgildandi lög um landsdóm eru að meginstofni komin úr þessu frumvarpi. Og þar sem Lárus H. Bjarnason samdi lagafrumvarpið um landsdóm að mestu, hljóta orð hans að vega þyngra en annarra, varðandi túlkun á lögum um landsdóm.

Í því sambandi er fróðlegt að lesa fylgirit með Árbók Háskóla Íslands 1914. Fylgirit þetta nefnist Um landsdóminn og er eftir Lárus H. Bjarnason. Þar segir á bls. 33 og 34:

Þegar er sameinað alþingi hefur ályktað að kæra ráðherra fyrir landsdómi og kosið sóknara, á forseti þingsins að senda sóknara ályktun þess um ákæruna, bæði frumrit ályktunarinnar og eptirrit af henni. Þar með er alþingi úr málinu og sóknari kominn þess í stað. Málið heldur úr því áfram, þó að nýjar kosningar fari fram, hvort heldur af því að kjörtími er úti eða þing rofið. Þó mundi alþingi geta fellt ákæru niður, áður en málið væri komið í dóm fyrir landsdómi, en yrði þá að gjöra það með þingsályktun í sameinuðu þingi. (Undirstrikun mín).

Ljóst er, að lögsóknin gegn Geir Haarde er þegar komin í dóm fyrir landsdómi.  Alþingi getur því ekki gripið í taumana.  Sókn og vörn málsins verða því að hafa sinn gang, hver svo sem skoðun manna á ákærunni er.  Alþingi hlýtur því að vísa frá tillögu Bjarna Benediktssonar um að fella ákæruna niður.

Hins skyldu menn gæta, að Geir Haarde hefur ekki verið dæmdur sekur um það, sem á hann er borið og er því vitanlega saklaus að lögum, nema því aðeins að landsdómur telji hann sannan að sök.  Vissulega ber hann sem forsætisráðherra hrunastjórnarinnar og fjármálaráðherra hennar áður, vissa ábyrgð á því hvernig fór.  En málsbætur á hann sér ýmsar.  Hvers vegna ætti að svipta manninn réttinum á að fá um það úrskurð landsdóms, hvort vegur þyngra?

 


Óvirkt opinbert eftirlit

Matvælastofnun, landlæknisembættið eða hvað þeir nú heita, allir þessir opinberu eftirlitsaðilar á sviði heilbrigðismála, hafa vakið nokkra undrun landsmanna undanfarið.  Matvælastofnun er orðin uppvís af því, að heimila dreifingu Ölgerðar Egils Skallagrímssonar á iðnaðarsalti til matvælaframleiðslu, þrátt fyrir að slíkt sé bannað.  Þetta mun hafa gengið þannig fyrir sig í 13 ár.

"Skítt með það", segir mannskapurinn á Matvælastofnun og setur gæðastimpil á iðnaðarsaltið til manneldis.

Þá hefur Matvælastofnun lagt blessun sína á sölu Skeljungs á áburði, með kadmíuminnihaldi, sem er rúmlega tvöfalt á við það, sem leyfilegt er.  Þessum herlegheitum dreifðu bændur á tún, óupplýstir um innihaldið. 

Silíkonhneykslið sem nýlega kom upp er kapituli út af fyrir sig.  Auðvitað eru margar hliðar á því máli.   En eftirlitsleysið ætti að vekja menn til umhugsunar.

 


Norræn velferð á Íslandi?

Það hefði einhvern tíma þótt tíðindum sæta, að öryrki, og það  lamaður gamall maður, þyrfti að hóta að svelta sig í hel, til að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda, að fá aðstoð við sitt hæfi. Þetta eru nú samt örlög Alberts Jensen öryrkja í Reykjavík.

Og þeir eru fleiri, öryrkjarnir, sem búa við skert mannréttindi í "norræna velferðarkerfinu" á Íslandi. Maður, rétt tæplega þrítugur, hefur svipaða sögu að segja og Albert. Hann er einnig lamaður. Hann kvíðir því, að lifa við núverandi kerfi næstu hálfu öldina, nái hann aldri Alberts. Því miður eru dæmin mun fleiri.

Þegar fréttamenn ganga á fulltrúa kerfisins, en til þess virðist þurfa sjálfsmorðshótun öryrkja, eru viðbrögðin jafnan á sömu lund; menn sveipa sig dularblæ "faglegs mats" og telja sig þar með lausa allra mála.

Hugtakið "faglegt mat" er í raun aðeins skjöldur þess fólks, sem þjáist af sálarkulda. Það kemur sér upp ómennsku kerfi, ekki af illmennsku, heldur vegna andlegs doða og skorts á mennsku, sem stundum tekur á sig mynd hrokans.

Þau dæmi, sem hér hafa verið nefnd eru úr Reykjavík. Þar situr trúður í stóli borgarstjóra. Og það má hann eiga trúðurinn sá, að ekki reynir hann að leyna eðli sínu. En í þessum stóli situr hann fyrir tilverknað Samfylkingarinnar, hins íslenska jafnaðarmannaflokks, hvers formaður telur sig stuðla að norrænni velferð.

Á þessi flokkur rétt á atkvæðum fólks?

 


Gleymdur Skúli fógeti 300 árum eftir fæðingu hans

Með vissum rökum má líkja sögunni við fljót, sem streymir endalaust.  Ef vel á að vera, felst þróun mannlegs samfélags í því, að sem flestir skilji nátturu þessa fljóts og freisti þess, að komast yfir það.  Að nema staðar á fljótsbakkanum er stöðnun.

Það fólk sem sagt er, að setji svip sinn á söguna, hefur í raun brúað  þetta fljót.  Ýmist leiðir það okkur á villigötur eða skilar okkur fram veginn til gæfu og gengis.  Þetta er hin sögulega þróun.

Víst getur sá sem ekki þekkir söguna lifað bærilega hamingjusömu lífi.  En hann verður þess aldrei umkominn, að taka þátt í þróun lýðræðislegs samfélags.  Því verður að gera þá kröfu á hendur lýðfulltrúum, að þeir skilji og virði söguna, umfram þá, sem láta hverjum degi nægja sína þjáningu. 

Í ljósi þessa verður það að teljast heldur bagalegt, að nú í dag, þegar þrjár aldir eru liðnar frá fæðingu Skúla fógeta, skuli ríkja algjör þögn um nafn hans.

Þorsteinn Pálsson fjallaði um þessi merku tímamót í helgarblaði Fréttablaðsins og er það vel.  En borgarstjórn virðist alls óvitandi um það, hver kallaður er „faðir Reykjavíkur".  Félög iðnrekanda og iðnaðarmanna hafa sýnilega gleymt því, hver átti stærstan þátt í upphafi iðnaðar á Íslandi.  Þeir fjölmörgu, sem að verslun koma virðast ekki muna eftir þætti Skúla í baráttunni gegn einokuninni og þar með þætti hans í upphafi íslenskrar verslunar.  Og ekki verður betur séð, en að kennarar sagnfræðideildar Háskóla Íslands minnist þess ekki lengur, að Skúli fógeti er einn verðugasti fulltrúi upplýsingaaldar á Íslandi. 

Þessi gleymska Íslendinga á Skúla fógeta er tákn okkar eigin sjálhverfu.  Sjálfhverfum manni tekst aldrei að brúa það mikla fljót, sem sagan er.  Um leið og hann kemur að fljótsbakkanum, er hugur hans bundinn við það eitt, að spegla sína eigin mynd á vatnsfleti þess.

 


Þurfa diplómatar ekki að tryggja eigur sínar?

Heyrst hefur, að skotið hafi verið inn í fjárlagafrumvarpið, 75.000.000 króna bótum til starfsmanns utanríkisþjónustunnar, vegna þess að listaverk, sem hann var að flytja til Ameríku, hafi eyðilagst í hafi.

Er þetta ekki misheyrn, eða eru starfsmenn utanríkisþjónustunnar undanþegnir því, að þurfa sjálfir að tryggja eigur sínar, hverjar svo sem þær eru?


Enn um kristna trú og grunnskólana

Ekki veit ég, hvort þeir sem setja sig upp á móti kennslu í kristnum fræðum í grunnskólum, misskilja málflutning okkar, sem erum öndverðrar skoðunar, eða snúa vísvitandi út úr orðum okkar.  Sennilega er hvoru tveggja til í dæminu.

Ég fyrir mitt leyti, tel það ekki hlutverk skólanna, að stunda trúboð; þar eiga heimilin og einstök trúarsamtök að koma að málum.  En fram hjá hinu verður ekki litið, að íslensk menning er að svo verulegum hluta mótuð af kristinni trú, að án nokkurrar þekkingar á kristindómi verður hún vart skilin.  Að ætla sér að útiloka kristin fræði úr grunnskólum, er eins og að fjalla ekki um strandlengju landsins í landafræði Íslands.

Í umræðum um þessi mál er gjarnan blandað saman trúfélögum og einhverju, sem menn kalla "lífsskoðanafélögum".  Merking síðarnefnda orðsins er mér ekki fyllilega ljós.  Hygg ég þó, að notkun þess eigi sér þann tilgang, að draga úr mikilvægi trúar í mannlegu samfélagi.

Nú er það svo, að trú á guðdóm er flestum eðlislæg í einhverri mynd.  Vissulega skipar hún misjafnlega stóran sess hjá mönnum, en hún er samt til staðar hjá flestum.  Það breytir ekki því, að sumir hafna slíkri trú.  Vitanlega hafa þeir fullan rétt á því.  En það þýðir þó ekki, að sá agnar litli minnihluti eigi að geta hindrað eðlilega fræðslu um trú flestra landsmanna í grunnskólakerfi landsins.


Aðventan og trúmálin í grunnskólum Reykjavíkur

Í dag er fyrsti sunnudagur í aðventu.  Í fyrsta sinn frá því skólarekstur hófst í þessu landi, liggur nú bann yfirvalda við því, að minnast á Jesú Krist í skólum.  Til allrar hamingju nær þetta bann ekki til landsins alls.  En borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem um þriðjungur þjóðarinnar býr, hefur bannað slíkt tal.  Börnin fá þó allra náðasamlegast að fara í kirkju á vegum skólans fyrir jól og meiga, fyrir náð borgarstjórnar, syngja „Heims um ból".

Nú er ég ekki svo fróður, að þekkja hugmyndafræði Besta flokksins, ef einhver er.  Nafn flokksins bendir þó óneitanlega til þess, að ekki byggist hún á tiltakanlegu lítillæti.  Aftur á móti tel ég mig sæmilega að mér varðandi jafnaðarstefnuna.  Ég nefni það vegna þess, að það er Samfylkingin, sem heldur þessum borgarstjórnarmeirihluta gangandi.  Og ég veit ekki betur, en fylkingin sú vilji láta orða sig við jafnaðarmennsku, þótt ég eigi nú stöðugt erfiðara með að átta mig á forsendum þess.

Ég veit ekki hvernig á því stendur, en ég hef alltaf fundið vissan samhljóm milli kristindóms og jafnaðarstefnu.  Játa þó fúslega, að trú er yfir stjórnmál hafin, rétt eins og nokkur stærðarmunur er á eik og strái eða fjalli og sandkorni.  En hvað um það; ég held það væri ráð, að borgarfulltrúar Samfylkingar í henni Reykjavík, huguðu ögn að því, hvort mannúðarhyggja jafnaðarstefnunnar eigi sér ekki, a.m.k. að verulegu leyti, rætur í kristindómnum.  Að þeim vangaveltum loknum gæti þetta góða fólk svo velt því fyrir sér, hvort Guðs orð sé sérlega skaðlegt börnum og unglingum.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband