Gleymdur Skúli fógeti 300 árum eftir fæðingu hans

Með vissum rökum má líkja sögunni við fljót, sem streymir endalaust.  Ef vel á að vera, felst þróun mannlegs samfélags í því, að sem flestir skilji nátturu þessa fljóts og freisti þess, að komast yfir það.  Að nema staðar á fljótsbakkanum er stöðnun.

Það fólk sem sagt er, að setji svip sinn á söguna, hefur í raun brúað  þetta fljót.  Ýmist leiðir það okkur á villigötur eða skilar okkur fram veginn til gæfu og gengis.  Þetta er hin sögulega þróun.

Víst getur sá sem ekki þekkir söguna lifað bærilega hamingjusömu lífi.  En hann verður þess aldrei umkominn, að taka þátt í þróun lýðræðislegs samfélags.  Því verður að gera þá kröfu á hendur lýðfulltrúum, að þeir skilji og virði söguna, umfram þá, sem láta hverjum degi nægja sína þjáningu. 

Í ljósi þessa verður það að teljast heldur bagalegt, að nú í dag, þegar þrjár aldir eru liðnar frá fæðingu Skúla fógeta, skuli ríkja algjör þögn um nafn hans.

Þorsteinn Pálsson fjallaði um þessi merku tímamót í helgarblaði Fréttablaðsins og er það vel.  En borgarstjórn virðist alls óvitandi um það, hver kallaður er „faðir Reykjavíkur".  Félög iðnrekanda og iðnaðarmanna hafa sýnilega gleymt því, hver átti stærstan þátt í upphafi iðnaðar á Íslandi.  Þeir fjölmörgu, sem að verslun koma virðast ekki muna eftir þætti Skúla í baráttunni gegn einokuninni og þar með þætti hans í upphafi íslenskrar verslunar.  Og ekki verður betur séð, en að kennarar sagnfræðideildar Háskóla Íslands minnist þess ekki lengur, að Skúli fógeti er einn verðugasti fulltrúi upplýsingaaldar á Íslandi. 

Þessi gleymska Íslendinga á Skúla fógeta er tákn okkar eigin sjálhverfu.  Sjálfhverfum manni tekst aldrei að brúa það mikla fljót, sem sagan er.  Um leið og hann kemur að fljótsbakkanum, er hugur hans bundinn við það eitt, að spegla sína eigin mynd á vatnsfleti þess.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband