14.6.2011 | 23:00
Gjalla nú lúðrar Noregskonungs
Víða er þess getið í fornum sögum, að kappar íslenskir, gjarnan skáldmæltir, hafi þjónað Noregskonungum og fórnað blóði sínu þeim til samlætis. Nægir þar að nefna Þormóð kolbrúnarskáld er féll við Stilkastaði ásamt herra sínum og vini, Ólafi konungi helga. Varð það hans bani, svo sem lesa má í Fóstbræðrasögu, að hann fékk ör í brjóst sér. Dró hann örina út og sá, að feitt var á henni kjötið. Mælti hann þá hin fleygu orð: "Vel hefur konungurinn alið oss, hvítt er þessum karli um hjartarætur". Féll svo dauður til jarðar.
Enn á konungur Noregs í stríði, að þessu sinni austur í Afganistan. Er því að vonum, að honum verði nú hugsað til hinna hraustu frænda sinna norður hér og leiti fulltingis þeirra í ófriði þessum.
Ungir skulu kóngsmenn vera og hraustir vel og því eðlilegt, að konungur leiti sér kappa í menntaskólum. Þar er og skálda að vænta, þó tæpast sextán í fjórða bekk, eins og Tómas kvað um forðum. En allt er hey í harðindum. Skulu kóngar jafnt fyrir það líða sem aðrir.
Óhætt mun að segja, að oss Íslendingum sé heiður sýndur af höldi frænda vorra. Er því sómi af því, að sveinar hans afli honum liðsinnis í skólastofum, þar sem við menntum æskulýðinn. Sóttdauður skyldi sá einn, er ei fær vopnum valdið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2011 | 22:32
Slúður um harmleik
Þegar eftir harmleikinn í Heiðmörk, þar sem ungur maður varð sambýliskonu sinni að bana, birti Eyjan.is nafn hans. Það var að vísu tekið út fljótlega, en í staðinn var birt númer bifreiðarinnar, sem við sögu kom. Þess virðist ekki hafa verið gætt, að ef til vill hafði aðstandendum hlutaðeigandi ekki verið greint frá atburðinum á viðeigandi hátt. Má þó ljóst vera, að birting bílnúmersins jafngildir birtingu á nafni gjörningsmannsins og hinnar látnu.
Ritstjóri Eyjunnar afsakar þetta með því, að lögreglan hafi látið fjölmiðla fá upplýsingar um tegund bifreiðarinnar og þykist um leið hafa verið að forða eigendum slíkra bifreiða undan því að almenningur dæmdi þá seka um morð, alla með tölu.
Þetta er aumkunarverð rökleysa, sérstaklega í ljósi þess, að viðkomandi ritstjóri er ekki þekktur af kjánaskap. Í tilfelli sem þessu ber blaðamönnum, sem og öðrum, að sýna aðgát. Upplýsingar um það, hverjir þarna áttu í hlut, hlutu óhjákvæmilega að koma fram mjög bráðlega. Nafnleynd lögreglunnar hafði því sína ástæðu og því bar að virða hana.
Það vefst ekki fyrir góðum blaðamanni, að flytja lýtalausar fréttir af harmleik sem þessum. En sumum blaðamönnum er svo mikið í mun, að vera fyrstir með fréttina, að skrif þeirra verða slúður.
11.5.2011 | 23:41
Svipmyndir úr síldarbæ
Það er ekki sama, hvernig sagan er sögð. Sagnfræðin getur frætt okkur um hvað hafi gerst, hvar og hvenær. En slíkur fróðleikur er harla lítils virði, einn og sér. Maður þarf að geta gert sér hugmynd um andblæ þeirra tíma og atburða, sem um er lesið. Þetta vissu gömlu sagnfræðingarnir, menn eins og Sverrir Kristjánsson, Þorkell Jóhannesson og ýmsir fleiri.
Allir, sem komnir eru til vits og ára, hafa haft spurnir af síldarævintýrinu á Siglufirði, er hófst í byrjun síðustu aldar og lauk á árunum upp úr 1960. En hvers konar fólk stóð á planinu og saltaði síldinni? Hvernig var mannskapurinn um borð í síldarbátunum? Og hver var háttur grósseranna" á staðnum?
Örlygur Kristfinnsson safnstjóri Síldarminjasafnsins á Siglufirði lýsir þessu öllu og ýmsu fleiru í bráðskemmtilegri bók, sem bókaforlagið Uppheimar" á Skaganum gaf út í fyrra. Ég var rétt í þessu að leggja ritið frá mér og líkaði lesningin vel.
Örlygur dregur ekkert undan, heldur segir kost og löst á hverjum manni, sem um er fjallað. En handbragðið lýsir nærgætni og ást á viðfangsefninu; kynlegir kvistir eru annað og meira en furðufuglar. Þeir eru menn af holdi og blóði. Hver arkar sinn veg og göngulagið er í samræmi við örlög hvers og eins. Og ekki meira um það.
Eftir lestur þessarar góðu bókar er ég engu nær um síldaraflann, sem landað var á Sigló frá ári til árs. Söluverðmæti púðursykurs þar í bæ um miðja síðustu öld er mér sömuleiðis hulið. En ég geri mér í hugarlund gleði og sorgir fólksins, sem tók þátt í síldarævintýrinu mikla. Og þeir standa mér ljóslifandi fyrir sjónum, Gústi guðsmaður, sem réri í kompaníi við almættið, frændurnir Hinrik Thorarensen læknir og Aage Schiöth lyfsali, en þeirra beggja beið skipbrot í lífinu eftir glæsta siglingu og sá skrautlegi karakter, Hannes Beggólín auk margra annarra.
Í mínum huga hefur Siglufjörður öðlast nýtt líf. Bestu þakkir fyrir líflega umfjöllun um liðna tíð.
Smá athugasemd; nafnalisti hefði gjarnan mátt fylgja í lok bókar.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2011 | 17:28
Óskiljanleg vinnubrögð Útlendingastofnunar
Vitanlega eru þess dæmi, að fólk freisti þess, að fá pólitískt hæli utan síns heimalands á fölskum forsendum. Þá getur verið handhægt, að segja sig pólitískan flóttamann, sem hafi sætt pyntingum í heimalandi sínu. En því miður eru þessi dæmi tiltölulega fá; í flestum tilfellum hafa þeir, sem sækja um pólitískt hæli fulla ástæðu til þess.
Það er með ólíkindum, að það skuli hafa tekið Útlendingastofnun sjö ár, að fjalla um mál flóttamannsins frá Íran, sem gerði tilraun til að brenna sig lifandi á skrifstofu Rauðakross Íslands um daginn. Enn lygilegra er þó, að stofnunin skuli hafa krafist þess af manninum, að hann fengi vottorð upp á það, hjá írönskum stjórnvöldum, að þau hafi beitt hann pyntingum.
Telja yfirmenn Útlendingaeftirlitsins ef til vill, að böðlar gefi út nákvæm vottorð um starfsemi sína?
1.5.2011 | 12:39
1. mai
Í dag, 1. mai á baráttudegi verkalýðsins, er fróðlegt að líta yfir íslenskt þjóðfélag, tæpum þremur árum eftir hrunið 2008. En því miður; það sem er fróðlegt þarf ekki endilega að vera skemmtilegt.
Allir vita hvernig atvinnurekendur ganga erinda kvótaeigenda og láta eins og þeim hafi verið fært löggjafarvald þjóðarinnar á silfurfati. Auðvitað er slík framkoma út í hött. En hún er skiljanleg í ljósi þess, að fyrir hrunið pöntuðu þessir herramenn" lög á færibandi og fengu þau afgreidd hjá stjórnmálamönnum, sem hvort eð var voru búðarlokur þeirra. Og enn standa þeir margir, stimamjúkir við afgreiðsluborðið.
Auðvitað hafa kvótaeigendur fullann rétt á að berjast fyrir hagsmunum sínum, hvernig svo sem þeir eru til komnir. En þeim verður að lærast, að gera það innan lagalegra og siðferðislegra marka. Að nota viðræður um kjarasamninga er langt handan slíkra marka.
Þessa framkomu kvótaeigenda og félaga þeirra í Samtökum atvinnulífsins verður að skoða í ljósi þess, að verkalýðshreyfingin er í fjötrum hálaunaðra tæknikrata. Og hún hefur sjálf hamrað sér þá hlekki! Þessa hlekki verður hún að brjóta af sér, ef hún vill endurheimta sjálfsvirðingu sína og teljast marktækt afl í baráttunni fyrir jöfnuði í þjóðfélaginu.
6.4.2011 | 23:52
Forystusauðir og fylgisveinar
Ég minnist þess, að þegar ég var í barnaskóla, þótti ýmsum sá mestur, sem gat safnað um sig hirð skólafélaga og farið um með látum í skjóli hennar. Sumum þóttu þetta miklir kappar.
Stundum frétti ég af þessum strákum, sem auðvitað eru nú orðnir miðaldra karlar og eiga stutt í eftirlaunin. Flestir eiga þeir það sameiginlegt, að hafa farið illa út úr lífinu, eins og það er kallað. Það sama gildir um fylgisveina þeirra.
Það skyldi þó aldrei vera, að þeim hafi láðst að standa á eigin fótum? Ég skal ekki segja. En ég minnist þess, að þegar þeim varð eitthvað á, kenndu þeir jafnan öðrum um. Og fylgifiskar þeirra tóku undir sönginn.
Minnir þetta nokkuð á þjóðfélagsumræðuna nú?
5.4.2011 | 20:55
Dapurleg Icesave-umræða
Það hefur verið heldur dapurlegt, að fylgjast með umræðunni um Icesavekosningarnar. Á báða bóga er mönnum brigslað um landráð, birtar eru auglýsingar með myndum af fólki, sem opinberað hefur skoðanir sínar varðandi þetta mál og látið í veðri vaka, að vissara sé að leggja ásjónur þess á minnið; þetta sé stórhættulegt fólk.
Málatilbúnaður af þessu tagi á sér ekki stað meðal siðmenntaðra þjóða, nema þá á styrjaldatímum. Þetta er öllum, sem að koma til vansa. Og það sem verra er, maður fyllist efasemdum um, að þessi þjóð sé þess megnug, að stjórna sér sjálf.
Greinilegt er, að við höfum ekkert lært af hruninu 2008 og aðdraganda þess. Því miður hygg ég, að okkur hefði verið fyrir bestu að hætta sjálfstæðisbaráttunni þegar við fengum heimastjórn árið 1904. Við réðum við þá stjórn eigin mála, sem þá fékkst, en ekkert umfram það. Því miður.
13.3.2011 | 13:02
„Sumar raddir", Jónas Jónasson á Norður-Írlandi 1979
Okkur berast endalausar fréttir af styrjöldum og annarri óáran utan úr hinum stóra heimi. Nú orðið þykja beinar sjónvarpsútsendingar á manndrápum jafnvel ekkert tiltökumál. Við horfum á fólk drepið á götum Kabúl eða Bagdad, heyrum jafnvel neyðaróp þess, meðan það er að deyja. Það fer rétt bærilega um okkur, á meðan á þessu gengur og kaffið bragðast vel.
Þessar beinu útsendingar á dapurlegum örlögum meðbræðra okkar og systra, eru löngu hættar að hreyfa við nokkrum manni. Fyrir okkur er þetta bara eins og hvert annað sjónverpsefni, leikið eða ekki leikið.
Íslenskir fjölmiðlar eru ekki að hafa fyrir því, að fræða okkur um styrjaldasvæði, sem þeir flytja fréttir frá. Þessu er öðruvísi háttað á hinum Norðurlöndunum. Opinberar sjónvarpsstöðvar þar, flytja ýtarlega fréttaskýringaþætti um þau landsvæði, sem eru í fréttum hverju sinni, sérstaklega ef það er vegna styrjalda. Þess vegna eru sjónvarpsáhorfendur á hinum Norðurlöndunum upplýstir, meðan þeir eru óupplýstir hér á landi.
En stundum blikar ljós í myrkrinu. Mig minnir að það hafi verið árið 1979, að Jónas Jónasson útvarpsmaður, fór til Norður-Írlands, til að kynna hlustendum útvarpsins ástandið þar. Úr þessari ferð urðu nokkrir þættir, sem nú eru endurteknir á laugardagsmorgnum á Rás 1, Ríkisútvarpinu, í þættinum Sumar raddir".
Jónas fer þá leið í þættinum, að ræða við venjulegt fólk, sem á einn eða annan hátt varð fyrir barðinu á átökunum á Norður-Írlandi, sem þá höfðu staðið í rúman áratug. Ástæða er til að mæla með þessum þáttum Jónasar. En því miður er lítil von til þess, að þetta verði leikið eftir honum af íslenskum fjölmiðlum.
25.2.2011 | 08:51
Var vitlaust gefið?
Því er ekki að neita, að sú ákvörðun þingnefndar, að skipa kjörna fulltrúa á stjórnlagaþing, eftir að Hæstiréttur hefur úrskurðað kosningar til þingsins marklausar, minnir dulítið á eftirfarandi ljóð eftir Stein Steinarr:
Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.
(Og allt með glöðu geði
er gjarnan sett að veði).
Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það var nefnilega vitlaust gefið.
Já, hugsanlega væri ekki úr vegi, að hefja sérhvern þingfund á því, að lesa yfir þingheimi, eins og eitt vel valið ljóð.
23.2.2011 | 22:12
Merkileg siðfræði kvótakóngs
Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um fiskveiðar íslenskra skipa á landgrunni Vestur- Sahara. Veiðar þessar fara fram í skjóla samnings Evrópusambandsins við stjórnvöld í Marakó. Sem kunnugt er hernámu Marakómenn Vestur-Sahara, skömmu eftir að síðarnefnda landið losnaði undan stjórn Spánverja á áttunda áratug síðustu aldar. Síðan hafa íbúar landsins átt í blóðugri frelsisbarátti gegn hinum nýju kúgurum sínum, Marakómönnum.
Í umræddri frétt er vitnað í orð eins af kvótakóngunum hér á Íslandi, en skip í eigu útgerðar hans hafa stundað veiðar við Vestur-Sahara. Víkur hann sér undan því, að svara þeirri grundvallarspurningu, hvort rétt sé, að stunda þessar veiðar með tilliti til hernáms Marakómanna á Vestur-Sahara. Blessaður maðurinn kveðst ekki vilja blanda sér í innanríkismál.
Síðan hvenær fór hernám eins ríkis á öðru ríki, að flokkast undir innanríkismál?