Svipmyndir úr síldarbæ

Það er ekki sama, hvernig sagan er sögð.  Sagnfræðin getur frætt okkur um hvað hafi gerst, hvar og hvenær.  En slíkur fróðleikur er harla lítils virði, einn og sér.  Maður þarf að geta gert sér hugmynd um andblæ þeirra tíma og atburða, sem um er lesið.  Þetta vissu gömlu sagnfræðingarnir, menn eins og Sverrir Kristjánsson, Þorkell Jóhannesson og ýmsir fleiri.

Allir, sem komnir eru til vits og ára, hafa haft spurnir af síldarævintýrinu á Siglufirði, er hófst í byrjun síðustu aldar og lauk á árunum upp úr 1960.  En hvers konar fólk stóð á planinu og saltaði síldinni?  Hvernig var mannskapurinn um borð í síldarbátunum?  Og hver var háttur „grósseranna" á staðnum?

Örlygur Kristfinnsson safnstjóri Síldarminjasafnsins á Siglufirði lýsir þessu öllu og ýmsu fleiru í bráðskemmtilegri bók, sem bókaforlagið „Uppheimar" á Skaganum gaf út í fyrra.  Ég var rétt í þessu að leggja ritið frá mér og líkaði lesningin vel. 

Örlygur dregur ekkert undan, heldur segir kost og löst á hverjum manni, sem um er fjallað.  En handbragðið lýsir nærgætni og ást á viðfangsefninu; kynlegir kvistir eru annað og meira en furðufuglar.  Þeir eru menn af holdi og blóði.  Hver arkar sinn veg og göngulagið er í samræmi við örlög hvers og eins.  Og ekki meira um það.

Eftir lestur þessarar góðu bókar er ég engu nær um síldaraflann, sem landað var á Sigló frá ári til árs.  Söluverðmæti púðursykurs þar í bæ um miðja síðustu öld er mér sömuleiðis hulið.   En ég geri mér í hugarlund gleði og sorgir fólksins, sem tók þátt í síldarævintýrinu mikla.  Og þeir standa mér ljóslifandi fyrir sjónum, Gústi guðsmaður, sem réri í kompaníi við almættið, frændurnir Hinrik Thorarensen læknir og Aage Schiöth lyfsali, en þeirra beggja beið skipbrot í lífinu eftir glæsta siglingu og sá skrautlegi karakter, Hannes Beggólín auk margra annarra.

Í mínum huga hefur Siglufjörður öðlast nýtt líf. Bestu þakkir fyrir líflega umfjöllun um liðna tíð.

Smá athugasemd; nafnalisti hefði gjarnan mátt fylgja í lok bókar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband