30.8.2011 | 07:04
Kvaddur Gunnar Dal
Grýtt er urðin,
gróin spor,
göngu lokið.
Gróin undin,
blómstrar vor,
horfið okið.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2011 | 00:31
Síðsumarljóð
Tekið að skrjáfa í laufi
þegar vindur fer um það
þöndum vængjum.
Það boðar haust.
Þó dansa fuglar enn
um loftsali víða,
loftsali víða og bláa
meðan rifsberin roðna feimin
í garði mínum.
Já, víst boðar það haust;
það nálgast - nálgast
hægum en öruggum skrefum.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2011 | 20:18
Tónleikar í Selinu á Stokkalæk
Það er ekki á hverjum degi, sem maður fær tækifæri til að hlusta á tónleika tveggja frábærra ungra hljóðfæraleikara. Þetta gerðist þó í Selinu á Stokkalæk á laugardaginn, þar sem þær Jane Ade Sutarjo og Hulda Jónsdóttir léku saman, Jane á píanó en Hulda á fiðlu, auk þess, sem Hulda lék sónötu fyrir einleiksfiðlu.
Ég hef ekki fyrr verið viðstaddur tónleika í Selinu á Stokkalæk. Það verður að segjast eins og er, að hljómburðurinn er með ágætum og ekki spillir fegurð Rangárvalla og fjallasýnin fyrir þrátt fyrir öskufjúk; ósvikið samspil tóna og náttúru.
24.7.2011 | 19:21
Samstaða gegn hatri
Kærleikurinn er flestum eðlislægur. Við viljum lifa í sátt og samlyndi við annað fólk, hverjar svo sem skoðanir þess eru, þjóðerni, trúarbrögð, eða önnur þau atriði, sem greina okkur í sundur. Ólíkur bakgrunnur fólks, eykur við mannlífsflóruna, flestum til gagns og gleði.
Auðvitað er til það fólk, sem hverjum og einum lyndir ekki við. Slíkt afgreiðum við einfaldlega með því að draga úr samskiptum, sé annars ekki kostur. En því fylgir ekki hatur.
Hatur er meinsemd í hjarta hvers þess, sem því er haldinn. Við skulum því varast, að tala um "sjúkt hatur"; hatur er alltaf sjúklegt ástand! Það er ekki til neitt, sem kallast "heilbrigt hatur".
Það sem gerðist í Noregi á föstudaginn, var afleiðing af langvarandi og djúpstæðu hatri. Birtingarmyndin var ótti við skoðanir vinstrimanna og trú og siði múslima. Þetta er ekkert nýtt. Öll þekkjum við dæmi þess að öfgafullir vinstrimenn hafi myrt hægrimenn. Og víst hafa ofstækismenn úr röðum múslima myrt kristna í nafni trúar sinnar. En voðaverk sem þessi hafa ekkert með trú eða stjórnmál að gera. Þau eru einfaldlega afleiðing haturs.
Viðbrögð sumra Íslendinga á blogginu og sjálfsagt víðar, sýna, að hatrið er víða að finna. Gegn því verður að hamla, eins og kostur er.
Kynþáttafordómar og trúarbragðahatur eiga sér sína áhangendur á Íslandi, rétt eins og í Noregi og í öðrum löndum. Þess vegna þarf að nýta alla hugsanlega möguleika gegn slíkri hatursógn.
Hvað trúarbragðafordóma varðar er þess að gæta, að við vinnum ekki gegn þeim, með því að hafna eigin trú. Getur trúlaus maður borið virðungu fyrir trú annarra, hver sem hún er?
Ég þekki þess engin dæmi, að trúarbrögð orsaki hatur. Hitt er annað, að misnotkun þeirra leiðir oft til haturs. Það sem kallað er trúarbragðastríð á sér jafnan efnahagslegar rætur. Það er nauðsynlegt, að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.
Íslendingar og Norðmenn eru ekki aðeins bræðraþjóðir. Samfélagsgerð beggja þessara þjóða grundvallast á sömu gildunum. Þess vegna eigum við Íslendingar að íhuga alvarlega, það sem gerðist í Noregi. Það getur gerst hér.
Nýtum nú kirkjuna og önnur trúarsamfélög, skólana, sveitafélögin, félagasamtök, vinnustaði, stjórnmálaflokka og allt annað, sem nýtilegt er, til að koma saman, ræða málin og efla samstöðu gegn hatri.
Minnumst orða Norðmannsins, sem sagði eftir óðæðið á föstudaginn: "Fyrst einn maður gat sýnt af sér slíkt hatur, hvílíkan kærleika getum við þá öll ekki sýnt saman".
23.7.2011 | 11:25
Hörmunganar í Noregi
Fjöldamorðin í Noregi í gær eru tvímælalaust hörmulegasti atburður, sem yfir Norðurlönd hefur dunið frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Að hátt í hundrað manns og jafnvel fleiri skuli myrtir, flest varnarlaus ungmenni á útisamkomu í friðsælli náttúru, er óhugnanlegra, en orð fá lýst.
Auðvitað er samúð Íslendinga með bræðraþjóð okkar, Norðmönnum. En við getum lítið gert, annað en sýna hluttekningu okkar í verki. Mannslíf verða ekki bætt.
Flest bendir nú til, að einn maður hafi verið þarna að verki; hægrisinnaður öfgamaður, sem vildi valda Verkamannaflokknum sem mestum skaða, en ungmennin sem þarna voru myrt, tilheyrðu ungliðahreyfingu þess flokks.
Lýðræði hlýtur að byggjast á samræðum og virðingu fyrir skoðunum annarra, sem starfa vilja innan þeirra marka, sem lýðræðinu eru sett. Þess vegna geta lýðræðissinnar aldrei liðið ofbeldi, hvort heldur það birtist jafn nakið í Noregi í gær, eða klæðist dulargerfi lýðskrums í þágu auðhyggju eða annarra þeirra afla, er huga að hag hinna fáu á kostnað fjöldans.
Vonandi verður þessi hryllingur í Noregi til þess, að opna augu manna fyrir því, að lýðræði er ekki munaður, heldur nauðsyn hverju samfélagi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2011 | 00:36
Draugagangur í Ríkissjónvarpinu?
Getur hugsast, að það hafi ekki verið að slá út í fyrir mér, þegar ég horfði á fréttir Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi, nema það hafi verið í fyrrakvöld? Mér sýndist ég sjá þar sléttkembdan drengstaula frá greiningareild eins af bönkunum. Hann var að spá í spilin. Eða hefur mannskapurinn á fréttastofunni gleymt haustinu 2008 og aðdraganda þess?
27.6.2011 | 23:05
Bókmenntaborg?
Af einhverjum ástæðum hef ég aldrei skilið orðið "bókmenntaþjóð". Sennilega er þetta vegna þess, að ég tel bókmenntaáhuga bundinn við einstaklinga en ekki þjóðir. Það að skrifa bækur er verknaður einstaklings og lestur þeirra sömuleiðis. Að tala um þjóð sína sem "bókmenntaþjóð" er því merki um þjóðrembu. Og þjóðremba, eins og hver önnur remba, ber fyrst og fremst vott um minnimáttarkennd.
Nú skilst mér, að Reykjavíkurborg hafi sótt um það til UNESCO Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, að verða útnefnd "bókmenntaborg".
Með leyfi að spyrja; þarf sæmilega menntað fólk á alþjóðlegri viðurkenningu að halda fyrir það eitt, að lesa og skrifa bækur?
23.6.2011 | 23:32
Almennar vangaveltur um skáldskap
Það eru gömul sannindi og ný, að stundum er lífið lyginni líkast. Og skáldskapurinn? Hann er aðeins misjafnlega léttvæg tilraun til að lýsa lífinu. Og þó; stundum tekst svo vel til, að skáldskapurinn verður á sinn hátt, sannari lífinu sjálfu. Þetta gerist þó því aðeins, að hann færi lífinu nýja merkingu eða auki að minnsta kosti við þá merkingu þess, sem fyrir er; dýpki hana á sinn hátt. Þessa er þó ekki að vænta, nema því aðeins, að hugur þess, sem að baki skáldskaparins býr, sé frjáls.
Alexander Solsénitsín lét eitt sinn hafa eftir sér: "Mikill rithöfundur er landi eins og önnur ríkisstjórn. Þess vegna hefur engin rikisstjórn dálæti á miklum rithöfundum - bara litlum".
Ættum við ef til vill að yfirfæra orðið "ríkisstjórn" á víðara svið?
21.6.2011 | 20:14
Hugleiðingar vegna viðtals
Í gær, mánudag, birtist í Morgunblaðinu viðtal við Einar Má Guðmundsson rithöfund. Þar koma m.a. tvær fullyrðingar af hálfu Einars Más, sem gaman er að velta fyrir sér, þó ekki sé nema út frá tilgangi og eðli skáldskapar.
Fyrri fullyrðingin er þessi Við þurfum ekki skáldskap í dag, við bara lýsum veruleikanum. Þetta var leiðarstefið við Bankastræti núll og svo sem Hvítu bókinni líka. Í þeim skilningi á ég alltaf eitthvað ósagt og þess vegna er frásagnalistin alveg ótæmdandi brunnur.
Í hvaða skilningi er það, að rithöfundur, sem telur samtímann ekki hafa minnstu þörf fyrir skáldskap, telji sig einmitt þess vegna alltaf eiga eitthvað ósagt og að af sömu ástæðu sé frásagnalistin alveg ótæmandi brunnur?
Ég hefði nú haldið, að mannskepnan þyrfti alltaf á skáldskap að halda, þó ekki væri til annars, en að sjá lífið og tilveruna í dulítið öðru ljósi en því, sem við öllum blasir. Sammannleg reynsla krefst einstalkingsbundinnar sýnar og úrvinnslu. Um það hygg ég raunar að við Einar Már hljótum að vera á sama máli, nema hann sé að boða endurkomu sósíalrealismans, þ.e.a.s. hins félagslega raunsæis í skáldskap. Ekki veit ég. Hitt veit ég, að sú stefna fer gjarnan harla nærri mörkum skáldskapar og skýrslugerðar, þeirrar gerðar, sem betur sómir sér hjá Hagstofunni en í skáldverkum.
Síðari fullyrðing Einars Más í umræddu viðtali, sem ég hnaut um er þessi; ...en sannleikurinn er aldrei eins og alltaf að skipta um skoðun.
Sé sannleikurinn aldrei eins, hlýtur sú spurning að vakna, hvort hann sé til. Og sé hann ekki til vaknar önnur spurning, nefnilega sú, hver sé grundvöllur mannlegrar tilveru. Það skal þó fúslega játað, að menn geta séð sannleikann í nýju ljósi, standi þeir á öðrum sjónarhóli enn fyrr, ýmist vegna ytri aðstæðna eða vegna aukins þroska. En það er önnur saga, sem m.a. snýr að sannleiksleitinni.
Í hinni kunnu metsölubók, Biblíunni, (Jóhannesarguðspjalli 8:31) hefur guðspjallamaðurinn það eftir Kristi, að sannleikurinn geri menn frjálsa. Tæpast er þar um að ræða þann breytilega sannleika, sem Einar Már talar um í umræddu viðtali.
Ekki vissi ég það, að sannleikurinn hefði skoðun. Hitt er svo annað mál, að menn hafa misjafna skoðun á sannleikanum. Sumir kjósa að leita hans og fylgja honum, þegar þeir hafa fundið hann. Slíka menn köllum við leitandi og staðfasta. Ýmsir gætu jafnvel kallað þá þröngsýna. Svo eru þeir, sem hafna sannleikanum og víkja sér undan honum. Þannig ferst hinum ístöðulausu. Og ekki má gleyma efahyggjumönnum. Það skyldi þó aldrei vera, að þeir leiti sannleikans umfram aðra menn, en gefi sér það um leið, að þeir muni aldrei finna hann?
Hrunið árið 2008 mun vera Einari Má hugstætt nú um stundir. Ekki eru menn á eitt sáttir um orsakir þess. Flestum ber þó saman um, að hátt hafi boginn verið spenntur, áður en strengurinn brast.
Öllum má ljóst vera, að skortur á nægjusemi var orsök kreppunnar. Menn höfnuðu þeim einföldu sannindum, að best sé meðalhófið. En hvað eru sannindi, þar sem sannleikruinn er aldrei eins og alltaf að skipta um skoðun? Og hvers vegna að skrifa, ef aðeins skal lýst þeim veruleika, sem við öllum blasir?
17.6.2011 | 19:32
Ríkisútvarpið heldur slakt á vaktinni
Í dag eru liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar og 100 ár frá stofnun Háskóla Íslands. Maður hefði nú haldið, að Ríkisútvarpið, eini ljósvakamiðill landsins, sem hægt er að gera dulitlar kröfur til, hvað efni varðar, minntist slíkra tímamóta með viðeigandi hætti. Því miður brást Ríkisútvarpið þessum væntingum.
Að vísu var fluttur þáttur um Jón Sigurðsson í umsjón þess mæta sagnfræðings Einars Laxness. En þátturinn sá arna var endurtekinn, frá árinu 1979. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og ýmsir orðið til, að skoða Jón Sigurðsson og þjóðferlsisbaráttuna í heild sinni, í nýju ljósi.
Breyttar hugmyndir margra um fullveldishugtakið, hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu, væntanleg breyting á stjórnarskránni, hnignun háskólamenntunar o.s.frv.; allt kallar þetta á fræðslu og umræður, þar sem þáttur Ríkisútvarpsins ætti að vera stór.
Vissulega hefur Ríkisútvarpið sinnt þessum málefnum nokkuð, en allt er það þó í skötulíki. Og dagskrá þess í dag, er stofnunni ekki til sóma.