Hvers á Miðbærinn að gjalda?

Það er búið að rústa norðurströnd Reykjavíkur frá Kirkjusandi í austri og að gömlu höfninni í vestri, með ömurlega ljótum íbúðarblokkum og skriffinnabáknum.  Seinasta skemmdarverkið á þessu svæði er Harpan, sem rís eins og illa brenndur jaxl upp úr hafnarkjaftinum í gömlu höfninni. 

En ýmsum finnst ekki nóg að gert.  Nú vilja slíkir menn reisa spítalabákn á við fjórar Smáralyndir kringum gamla Landspítalann.  Þar með yrði Miðbærinn umkringdur ömurlegum ljótleika á tvo vegu.  Skyldu þeir ekki snúa sér næst að því að klastra upp Berlínarmúrum í Norðurmýrinni og Vesturbænum?

Hvers á gamli Miðbærinn eiginlega að gjalda; hefur hann gert þessum árásarher á fagurt og mennst umhverfi eitthvað til miska?


Baunagrasið á Grímstöðum á Fjöllum

Jæja, þá eru "greiningardeildir" bankanna aftur komnar á stjá og boða himnaríkissælu Mammons, rétt eins og þær gerðu fyrir hrun.  Allir vita hvað þar lá að baki, enda hafa bankarnir hag af efnahagsþenslu umfram þörf og getu þjóðarinnar, að vísu aðeins til skamms tíma, en hver hugsar út í það?  Og það merkilega er, að fjölmiðlarnir kyrja enn falsboðskap bankanna.  Þeir hafa sýnilega ekkert lært.

Nýjasti boðskapur Mammonsþrælanna kemur frá "greiningardeild" Arionbanka.  Þar á bæ telja menn sig hafa fundið út, að leið Íslendinga til eilífðarsælunnar liggi gegnum Grímstaði á Fjöllum, hvar ónefndur Kínverji hyggst rækta baunagras, sem vaxa muni til himna.

Trúi hver sem trúa vill!

 


Norræn velferðarstjórn?

Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð, veifuðu forystumenn hennar merkjum norrænnar velferðarstjórnar.  Því miður er sífellt að koma betur í ljós, að þar var talið betra að veifa röngu tré en öngvu.  Á sama tíma og hverri heilbrigðisstofnunni á fætur annarri er gert að skera niður inn að beini, eða þær eru beinlínis lagðar niður, lætur ríkisstjórnin sér sæma, að ausa enn tæpum milljarði króna í Hörpuna.  Þetta gerir hún í félagi við borgarstjórn Reykjavíkur, sem eins og menn vita starfar á ábyrgð Samfykingarinnar.  Er þá alls búið að kasta tæpum 30 milljörum í þetta tákn sýndarveruleikans.

Eins og Hjálmar H. Ragnars, rektor Listaháskólans hefur bent á, er Harpan víðsfjarri þeim hugmyndum, sem félag um byggingu tónlistahúss lagði á sínum tíma fram.  Harpan er því ekki til marks um framsækið listalíf; hún er tákn þjóðlegrar íslenskrar minnimáttarkenndar og þeirrar yfirborðsmennsku, sem henni fylgir.

Væri nú ekki ráð, að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna færu að huga að norrænni velferðarstefnu?

 


Skólar og trú

Nýleg könnun, sem birt var í Ríkisútvarpinu (sjónvarpi) nú í kvöld, sýnir, að álíka margir Reykvíkingar eru með og á móti banni borgaryfirvalda við starfsemi trúfélaga í skólum. 

Athyglisvert er, að könnunin leiðir í ljós, að ánægjan með bannið vex í hlutfalli við aukna skólagöngu aðspurðra.  Nú hefði ég haldið, að trúarlíf væri snar þáttur í menningu hverrar þjóðar.  Því vaknar sú spurning, hvort gjá sé að myndast milli menntunar og menningar í víðum skilningi síðara orðsins.

Vissulega er kristnifræðikennsla viðkvæmt mál og ekki sama hvernig að henni er staðið.  Það breytir ekki því, að kristin trú er einn af hornsteinum íslenskrar menningar.  Þrátt fyrir þetta hliðra ýmsir kennarar sér hjá kristinfræðikennslu í grunnskólum.  Fyrir vikið er hætt við því, að kennsla í Íslandssögu og sögu Vesturlanda brenglist.

Og hvað um önnur trúarsamfélög en kristin?  Getur þekking, t.d. á islamstrú skaðað skólabörn?

Spyr sá, sem ekki veit.

 


Steingrímur kaupir ríkisstjórninni atkvæði

Skipan Páls Magnússonar í forstjórastöðu Bankasýslu ríkisins hefur að vonum vakið hörð viðbrögð.  Piltur þessi var sem kunnugt er vikadrengur Valgerðar Sverrisdóttur, þáverandi viðskiptaráðherra, þegar stærsta bankarán Íslandssögunnar og þótt víðar væri leitað, einkavinavæðing ríkisbankanna fór fram. 

Athyglisvert er, að Bankasýsla ríkisins heyrir undir fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon.  Umrædda stöðuveitingu verður því að skoða í ljósi þess, að heldur hefur molnað úr þingliði stjórnarflokkanna undanfarið.  Hér virðist því vera um einföld hrossakaup að ræða; maddama Framsókn fær forstjórasól í Bankasýslu ríkisins, gegn því að tryggja stöðu ríkisstjórnarinnar á þingi.

Menn geta svo velt því fyrir sér, hvernig þetta samrýmist þeirri klassísku norrænu velferðar- og jafnaðarstefnu, sem heilög Jóhanna og Steingrímur boðuðu við myndun ríkisstjórnarinnar.


Fjárframlög til einkarekinna háskóla

Menntastofnair hafa gott af samkeppni.  Þess vegna er eðlilegt, að í landinu starfi svo sem einn einkarekinn háskóli, eins og t.d. Háskólinn í Reykjavík.  En einkarekstur slíks skóla á að sjálfsögðu ekki að vera nafnið tómt eins og nú er.  Það, að Háskólinn í Reykjavík (og Háskólinn í Bifröst), skuli fá greiðslur frá ríkinu út á hvern nemanda, líkt og Háskóli Íslands, að viðbættum skólagjöldum þeirra, sem skólann sækja, er einfaldlega út í hött.

Reyndar má velta því fyrir sér, hvort hausatölureglan í sambandi við opinber fjárframlög til háskóla yfirleitt, sé ekki vafasöm.  Leiðir hún ekki hugsanlega til þess, að fjöldi nemanda verði háskólunum meira keppikefli en gæði kennslunnar? 

Þessi spurning er ekki borin fram vegna andúðar á háskólamenntun; þvert á móti.  Háskólar, ásamt listum, verkalýðshreyfingu og atvinnurekstri, eiga að vera aflvaki samfélagsins.  En þá verða menn líka að gera kröfur til sjálfs sín.


Kínverskur viðskiptaleppur

Undarlegt er það með Íslendinga, hvað þeir eiga auðveldara með að trúa, en að hugsa.  Nýjasta dæmi þessa, er að maður einn austan úr Kína hefur knúið hér dyra og vill ólmur kaupa Grímstaði á Fjöllum fyrir milljarð króna.  Ef marka má gamlan skólafélaga hans, eiginmann fyrrverandi utanríkisráðherra, er maðurinn með þessu að þakka fyrir lopapeysu, sem hann þáði að gjöf fyrir margt löngu í Kína. 

Kínverji þessi birtist í erlendum fjölmiðlum nú í vikunni, með þær fréttir, að Íslendingar hefðu snúið sér til hans í peningahallæri og beðið hann að bjarga sér um aura.  Óvíst, hverjir þar voru á ferð, þótt birst hafi myndir af manninum með þeim mikla og einlæga vini útrásarvíkinga, Ólafi Ragnari Grímssyni.

Nú vill svo til, að í Kína ríkir alræði kommúnista.  Umræddur kaupahéðinn er fyrrum embættismaður flokksins og auk þess heiðursmeðlimur hans.  Hvað skyldi það nú þýða?


Gunnar I. Guðjónsson sjötugur

 

 Ja hérna, er ekki Gunnar I. Guðjónsson listmálari orðinn sjötugur, síungur ærslabelgurinn.  Og hélt að því tilefni sýningu í Gallerí Gásum í Ármúlanum um daginn. 

Því miður komst ég ekki á sýninguna fyrr en henni var rétt að ljúka og gafst því ekki tækifæri til að segja frá henni, meðan á henni stóð.  Það verður að hafa það. 

Hitt er annað Gunnar hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér.  Hann málar af fölskvalausri sköpunargleði, sem fáum er gefin nú, á tímum yfirborðsmennskunnar.  Myndir hans eru á sinn hátt, í nánari snertingu við náttúruna en gengur og gerist meðal íslenskra listmálara um þessar mundir.  Litagleðin er ósvikin, oft með suðrænum blæ, enda lærði kappinn kúnstina suður á Spáni forðum tíð.

Til hamingju með afmælið, gamli skarfur og haltu áfram þínum litglaða dansi um Ægissíðuna, Snæfellsnesið og aðrar undraperlur náttúrunnar.


11. september 1973 og 2001

11. september er svartur dagur á spjöldum sögunnar.  Þennan dag árið 1973 steypti herinn í Chile undir forystu Pinochets hershöfðingja löglega kjörinni stjórn sósíalista í landinu.  Valdaránið var gert í skjóli Bandaríkjanna og með dyggum stuðningi leyniþjónustu þeirra, CIA.

Auðvitað fylgdi þessum atburðum mikið blóðbað.  Þúsundir manna létu lífið meðan ógnarstjórn Pinochets sat að völdum til ársins 1990.  Auk þess varð landið tilraunastöð þess óhefta fjármálavalds, sem á máli hægrimanna kallast „frjálshyggja" og við Íslendingar súpum nú seyðið af, sem og fleiri þjóðir.

11. september árið 2001 urðu Bandaríkjamenn svo fyrir hryðjuverkaárás múslimskra öfgamanna, með árásunum á New York og Wasington.  Enn létu þúsundir saklausra manna lífið.

Báðir þessir atburðir, valdaránið í Chile 1973 og árásin á Bandaríkin 2001 ættu að kenna okkur, að það er sama hvaðan illt kemur; gegn því ber að vinna.

En það er ekki sama hvernig það er gert.  Mannleg reisn verður ekki varin með aðferðum þeirra, sem lúta svo lágt, að virða hana einskis.  Við þurfum að skilja eðli og orsakir ofbeldis, til að sigrast á því. 

Það væri barnaskapur að halda, að ekki sé þörf fyllsta öryggis, t.d. í samgöngumiðstöðvum og víðar.  En á sama tíma og þess er gætt, verður að forðast það, að hella olíu á eldinn, líkt og Vesturlönd gera nú í Afganistan, Írak og Lýbíu.  Og á sama tíma standa Rússar og Kínverjar vörð um ofbeldisstjórnina í Sýrlandi.

Það er sama hverju nafni stórveldi nefnast eða hvaða dularhjúpi þau sveipa hagsmunastreð sitt; þau eru ævinlega til bölvunar.

 


Parísarferð

Um daginn brá ég mér til Parísar í stutta ferð.  Ég hef aldrei áður komið til þeirrar borgar, en það veit sá sem allt veit, að þangað langar mig aftur og þá til lengri dvalar.  Það þarf dauðan mann, til að heillast ekki af þessari borg.

Auðvitað sá ég aðeins brot af París.  Þó fannst mér ég skynja ákveðna mótsögn í andblæ hennar.  Þarna er fjöldi halla, sem bókstaflega geisla af ofhlöðnu prjáli hins gamla konungsvalds.  Vissulega er þetta glæsilegt á að líta, en fáfengilegt um leið.

Þrátt fyrir frönsku byltinguna 1789 og eftirköst hennar 1830, 1848 og 1871 og þrátt fyrir rúmlega 140 ára sögu franska lýðveldsins, er eins og konungsveldið svífi þarna enn yfir vötnum, ekki aðeins í byggingum, heldur einnig í látæði fólks.  Skyldi þó aldrei vera, að þarna blandist saman arfur, sem rekja má aftur til miðalda og sú staðreynd, að enn leikur Frakkland visst hlutverk á taflborði stórveldanna, þrátt fyrir hrun nýlenduveldisins í kjölfar síðari heimsstyrjaldar.  Hver veit?

En um leið og vofa Bourbonanna leikur ljósum logum um Parísarborg, er hún þrátt fyrir allt einnig borg byltinganna.  Sigurboginn, sú rómverska eftirlíking, var reistur til heiðurs Napóleon keisara og hófst bygging hans raunar, meðan keisarinn sá sat enn í hásæti.  En hvergi í heiminum hefur borgarastéttinn reist sér glæstari minnisvarða en í Eiffelturninum.

Það má því með vissum hætti segja, að París sé lifandi sagnfræðiverk.  Aldirnar fljóta á Signu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband