22.2.2011 | 20:07
Ellefta grein stjórnarskrárinnar
Jæja, þá er orðið tímabært, að Alþingi taki af skarið og hugi að 11. grein stjórnarskrárinnar. Það gengur einfaldlega ekki lengur, að einn maður, forseti eða ekki forseti, taki sér ofurvald í landinu í skjóli múgæsinga strútaþjóðarinnar, sem á sér þann draum æðstan, að sandurinn taki aldrei endi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.2.2011 | 16:15
Edduverðlaun veitt degi of fljótt
Það var yndislegt að horfa á Ólaf Ragnar í sjónvarpinu rétt áðan, leikandi hinn ábyrga þjóðarleiðtoga og lýðræðisvörð. Þetta var stórkostlegur leiklistarsigur manns, sem aldrei hefur horft á annað en sína eigin spegilmynd, sömu augum og drottningin forðum, sem jafnan spurði: "Spegill, spegill herm þú mér; hver á landi fegurst er"? Og auðvitað braut hún spegilinn, þegar hann svaraði ekki eftir hennar geðþótta.
Já, og vel að merkja, höfum það fast í minni, að Ólafur Ragnar, sem nú vísar afleiðingum af gjörðum útrásarvíkingana í þjóðaratkvæði, er sá hinn sami Ólafur Ragnar og fyrir fáum árum veitti þessum mönnum lið úti um heim og hengdi á þá Fálkaorðuna, líkt og þar væri um einstka heiðursmenn að ræða.
Edduverðlaunin voru veitt degi of fljótt.
27.1.2011 | 18:42
Yfirvofandi endalok venjubundinar póstþjónustu á Hofsósi
Svo á að heita, að á Íslandi sitji vinstristjórn. Hins vegar er svo að sjá, að sú vinstristefna sé aðalega í nösunum á stjórnarflokkunum. Gott dæmi þessa er, að nú stendur til að loka fyrir venjulega póstþjónustu á Hofsósi á þeim forsendum, að rekstur Íslandspósts þar beri sig ekki, m.ö.o., það er ekki hagnaður af honum. Hvenær fór rekstur póstþjónustu að vera spurning um gróða?
26.1.2011 | 17:59
Vel sett þjóð, Íslendingar
Í gróðærinu höfðum við ríkisstjórn, sem lét sig almannahagsmuni engu skipta; allt skyldi gert fyrir útrásarvíkingana". Þeirri stjórn var steypt með pottabarsmíðum á Austurvelli. Fólkið treysti ekki stjórnmálamönnum og krafðist stjórnlagaþings, til að semja nýja stjórnarskrá. Við fengum ríkisstjórn, sem lofaði okkur stjórnlagaþingi. Og það var kosið til þess. En viti menn, ríkisstjórnin klúðraði kosningunum, eins og alþjóð veit
Hvaða lærdóma má draga af þessu? Vanhæf ríkisstjórn", hrópuðu menn á Austurvelli til að koma fyrri stjórn frá. En nú má það vera lýðum ljóst, að það var ekki aðeins sú ríkisstjórn, sem var vanhæf, heldur flokkakerfið eins og það leggur sig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2011 | 18:33
Embættismenn þekki sinn bás
Nú eru uppi hugmyndir um einkarekin sjúkrahús á Íslandi, sem ætlað er að þjóna útlendingum. Sýnist sitt hverjum, sem von er. Það vekur því nokkra furðu, þegar forstjóri Landspítalans stígur á stokk og lýsir yfir stuðningi sínum við slíkar hugmyndir. Hér er nefnilega um pólitískt úrlausnarefni að ræða. Forstjóri Landspítalans er aðeins réttur og sléttur embættismaður. Hans hlutverk er, að starfa innan þess kerfis, sem mótað er á pólitískum grundvelli. Þar af leiðandi eiga skoðanir hans ekki erindi á opinberan vettvang. Menn þurfa að þekkja sinn bás.
17.1.2011 | 23:09
Skynsemi og tilfinningar
Já, það var þetta með Heinesen. Í smásögunni Úrsvöl heimkynni talar hann um "stríðandi mannúð á skynsemdargrundvelli". Þið verðið bara að lesa söguna sjálf,hún er í bókinni Fjandinn hleypur í Gamalíel, í þýðingu Þorgeirs Þorgeirsonar.
En það er þetta með mannúðina á skynsemdargrundvelli. Fyrir nokkrum árum deildi ég um það heila nótt við hálfníræða frænku mína, hvort kæmi fyrst í mannlegu eðli, tilfinningar eða skynsemi. Ég hélt fram hlut tilfinninganna.
Skynsemin er góðra gjalda verð. En hún hefur ekkert með réttlæti eða ranglæti að gera, ekki heldur hamingju eða óhamingju. Hún er einfaldlega æskileg til stuðnings tilfinningum. Sá sem kýs að búa við hafið, kaupir sér hús við hafið; tilfinningin stýrir því. Hins vegar nýtir hann skynsemina til að borga húsið. En það er annað mál.
Stjórnmálamenn þykjast alltaf tala út frá skynsemi. Samt er skynsemi þeirra ekki meiri en svo, að þeir láta sem tilfinningar séu ekki til. Svo langt gekk mín aldna frænka ekki; hún setti tilfinningarnar bara skör lægra skynseminni.
Sé það hlutverk stjórnmálamanna, að láta fólki líða vel, að svo miklu leyti, sem því verður við komið, er augljóst, að stjórnmál snúast fyrst og fremst um tilfinningar. Skynsemin er bara verkfæri, ekki smíðaverk.
16.1.2011 | 13:19
Óviðunandi afskipti ráðherra af stjórnlagaþingi
Enda þótt kosningaþátttaka til stjórnlagaþingsins hafi verið minni, en ýmsir gerðu sér vonir um, verður ekki framhjá því litið, að stjórnlagaþingið sem slíkt endurspeglar vantraust þjóðarinnar á stjórnmálamönnum. Öllum er ljóst, að stjórnarskránni verður ekki breytt án samþykktar alþingis. En þjóðin treystir stjórnmálamönnum ekki til að leggja grunninn að þeim breytingum. Sú er ástæða þess, að kosið hefur verið til stjórnlagaþings.
Stjórnlaganefnd er ætlað að leggja drög fyrir stjórnlagaþingið. Þess vegna og í ljósi þess, sem að ofan segir, er mikilvægt, að hún geti starfað í friði fyrir stjórnmálamönnum. Það er því mjög alvarlegt mál, að Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra, skuli hafa látið ráðuneyti sitt skrifa stjórnlaganefndinni bréf, þar sem reifaðar eru skoðanir hans á því, hvernig drögum stjórnlaganefndar skuli háttað. Í þessu sambandi skiptir ekki nokkru máli, hver boðskapur ráðherrans er. Þar til stjórnarskrártillögur stjórnlagaþings koma fyrir alþingi, eiga stjórnmálamenn einfaldlega að skarta þögn sinni varðandi þetta málefni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2011 | 21:00
Snilldarsögur Williams Heinesen
Nýlega voru lesnar upp í síðdegisútvarpi Rásar 1, þrettán smásögur færeyska sagnameistarans Williams Heinesen. Sögur þessar þýddi Þorgeir Þorgeirson og komu þær góðu þýðingar út árið 1978 undir titlinum Fjandinn hleypur í Gamalíel.
Langt er nú liðið, síðan ég las þessa bók og teygði ég því eftir henni í bókaskáp um daginn, enda gat ég ekki hlustað á alla lestrana í útvarpinu. Ég er enn að lesa þessar frábæru sögur. Fleiri meistaraverk Heinesen hafa komið út á íslensku, bæði í þýðingu Þorgeirs og fleiri góðra manna. Hvet ég alla unnendur góðs skáldskapar til að lesa þær bækur.
Til að vekja forvitni manna, vil ég geta þess, að í einni sögunni í Fjandinn hleypur í Gamalíel, er m.a. sagt frá Einari Ben. og er það skrautleg lýsing á skáldinu, sem vænta má. Nú er bara að verða sér úti um bókina þá arna og leita.
Meira um Heinesen á næstunni.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2011 | 00:51
Gamalt viðtal - óbreytt hugarfar
Í gær rakst ég fyrir tilviljun á tímarit frá árinu 2000. Þar var m.a. efnis, viðtal við mann, sem þá var forstjóri fyrirtækis, sem óþarft er að nefna hér. Nafn mannsins skiptir heldur ekki máli í þessu samhengi, en hann er nú bæjarstjóri í bæ, sem í raun virðist gjaldþrota.
Ég las ekki viðtalið, aðeins texta undir ljósmynd af manninum, þar sem vitnað var til orða hans. Fyrst nefndi hann fyrirtækið, sem hann stjórnaði þá og hélt svo áfram orðrétt: "...ætlar sér að velja réttar öldur og standa á brimbrettunum með alþjóðlegum sigurvegurum".
Þessi orð lýsa hvorki hugafari ábyrgs stjórnmálamanns né viðskiptamanns. Þau lýsa engu nema hugsunarleysi fjárhættuspilarans. Margir létu slík orð falla í gróðærinu. Hvað segir það um okkur Íslendinga, að við skulum enn láta slíka menn teyma okkur eins og sauði að spilaborðinu?
6.1.2011 | 22:23
Að horfast í augu við
Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar? Stefna stjórnarandstöðunnar? Hverju skiptir það? Er æðsta yfirvald landsins ekki landstjóri Aðþjóða gjaldeirissjóðsins? Er ekki tímabært, að við Íslendingar horfumst í augu við það, að við erum ekki lengur sjálfstæð þjóð, hvað sem síðar kann að verða.