5.1.2011 | 22:34
Undanþága til að eitra fyrir fólki
Það er sko eitt sem öruggt er, að ég hef ekki hundsvit á efnafræði. Þess vegna væri hægt að eitra fyrir mér á ýmsa vegu, án þess ég gerði mér grein fyrir því. Satt best að segja hygg ég, að þetta gildi um flesta. Það er einmitt þess vegna, sem við höfum heilbrigðiseftirlit. Við, fólkið í landinu, treystum því, að slíkt eftirlit beiti faglegri þekkingu, til að koma í veg fyrir að skussar og óprúttnir prangarar, eitri fyrir okkur.
Á síðustu dögum hefur komið í ljós, að það traust er byggt á ofmati. Það er nefnilega hægt að veita undanþágu frá banni við því að eitra fyrir fólki. Á hverju slíkar undanþágur eru byggðar veit ég ekki. Og þótt ég vissi staðreyndir þess máls, gæti ég ekki skilið þær. Slíkt háttarlag er einfaldlega skilningi mínum ofvaxið. Annað hvort er bannað að eitra fyrir fólki, eða það er í stakasta lagi. Flóknara er það nú ekki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.12.2010 | 17:52
Samviska og liðsandi
Nokkurs taugatitrings virðist gæta meðal stjórnarliða á Alþingi, vegna hjásetu þriggja þingmanna Vinstri grænna við afgreiðslu fjárlaga. Ekki síst virðist hið viðkvæma hjarta þingmanns Samfylkingarinnar, Ólínar Þorvarðardóttur, hafa orðið fyrir nokkurri röskun. Er það að vonum, enda Ólína hæglát kona og ekki vön stórræðum.
Einkum virðist Lilja Mósesdóttir fara fyrir hið viðkvæma brjóst Ólínar. Hefur hún nú sent stjórnarþingmönnum bréf, sem Morgunblaðið komst í og birti. Þar sakar hún Lilju um skort á liðsanda.
Nú skal játað, að ég veit ekki betur en, að þingmenn séu bundnir af samvisku sinni og engu öðru. Gott ef þetta er ekki bundið í stjórnarskrána. En sennilega erum við Ólína Þorvarðardóttir ekki á einu máli um hugtök eins og samvisku og liðsanda.
Samvisku minnar vegna kemst ég þó ekki hjá því, að óska bæði Lilju Mósesdóttur og Ólínu Þorvarðardóttur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Vonandi spillir það ekki liðsandanum.
17.12.2010 | 14:26
Fylgjast þingmenn Samfylkingar ekki með stjórnmálum?
Vissulega telst það til nokkurra tíðinda, þegar þrír stjórnarþingmenn sitja hjá við afgreiðslu fjárlaga. Þó verður að segjast eins og er, að tæpast þurfti það að koma á óvart, að svo færi. Því hlýtur það að vekja nokkra furðu, þegar Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lýsir því yfir, að bæði hann og flestir félagar hans í þingflokki Samfylkingarinnar, hafi komið af fjöllum yfir þessum tíðindum.
Og ég sem hélt, að það væru bara jólasveinar (þið vitið, þessir upprunalegu) , sem kæmu af fjöllum þessa dagana.
12.12.2010 | 18:58
Vegatollar eru rugl!
Ég bý í Hveragerði. Þaðan eru 35 km til Reykjavíkur. Bættar samgöngur hafa orðið til þess, að í raun er Hveragerði orðið að reykvísku úthverfi. Ég kalla það stundum Blesugróf eystri. Stór hluti Hvergerðinga starfar í Reykjavík. Þess utan er verslun harla takmörkuð austan fjalls. Það eitt út af fyrir sig, gerir mörgum nauðsynlegt, að fara oftar til Reykjavíkur en ella.
Í raun má segja, að hið forna landnám Ingólfs sé eitt atvinnusvæði. Það er löngu orðið tímabært, að gera þetta svæði að einu sveitarfélagi. Fyrirhugaðir vegtollar til Reykjavíkur eru því rugl.
Seinast bloggaði ég um heimskuna og stjórnmálin. Hugmyndir stjórnvalda, um að leggja vegatolla á þá, sem leið eiga til Reykjavíkur, höfuðborgar landsins, er aðeins enn eitt dæmið um samhengið milli heimskunnar og stjórnmálanna. Og það er ekki nóg með, að Reykjavík sé höfuðborg landsins; meira en helmingur landsmanna býr í borginni og útbæjum hennar. Þar eru auk þess nær allar þær stofnanir, sem landsmenn þurfa að sækja margskonar þjónustu til.
Tökum einfalt dæmi: Ég á oft erindi í Þjóðarbókhlöðuna. Engum hefur, mér vitanlega komið til hugar, að selja aðgang að þeirri stofnun. Hver eru rökin fyrir því, að ég þurfi að greiða 490 krónur fyrir það eitt, að nýta mér þjónustu þeirrar stofnunar?
Þegar ég var í Miðbæjarskólanum forðum tíð, tók einn sögukennara minna vegatolla miðalda sem dæmi um fullkomna heimsku þeirra þjóðfélagshátta, sem gerðu aðalsmönnum kleift, að skattleggja menn, fyrir það eitt, að bregða sér af bæ. Má ekki krefjast þess af stjórnmálamönnum okkar tíma, að þeim endist vitsmunir, til að reyna ekki að endurvekja miðaldir?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2010 | 21:33
Heimskan og stjórnmálin
Írar eiga nú við samskonar kreppu að glíma og við. Ástæðurnar eru þær sömu; eftirlitsleysi stjórnmálamanna með fjármálakerfinu, útlán fjármálastofnana umfram getu og eyðsla almennings og fyrirtækja umfram þarfir. Samfara öllu þessu þreifst svo óhjákvæmileg spilling.
Samkvæmt fréttum frá Írlandi er mikið rætt um heimsku stjórnmálamanna þar í landi. Írskur almenningur segir einfaldlega, að stjórnmálamennirnir séu asnar, sem hafi ekki hundsvit á samfélaginu. Og fólk nagar sig í handabökin, fyrir að hafa kosið þessa asna. En voru aðrir í boði?
Ef til vill ættum við Íslendingar að taka okkur Íra til fyrirmyndar og velta fyrir okkur þætti heimskunnar í kreppunni. Kannske var það heimska stjórnmálamannanna, sem réð mestu um, hvernig fór og þá um leið sú heimska okkar hinna, að kjósa þá.
Í Kastljósi í kvöld var rætt við fjármálaráðherra hrunstjórnarinnar. Ég verð að segja eins og er; mér varð hugsað til frænda okkar Íra. Þessi maður kom mér ekki fyrir sjónir, sem spillingin holdi klædd. Satt best að segja, var hann bara heldur svona gæðalegur. En ég held, að honum hefði komið það vel, að útsending þáttarins hefði verið hljóðlaus. Því miður er hann ekki einn um það, íslenskra stjórnmálamanna.
3.12.2010 | 13:37
Undarlegur kristindómur biskups?
Það var dapurleg lífsreynsla, að lesa grein gamallar konu í Morgunblaðinu í morgun. Hún býr á elliheimili í Reykjavík og hafa íbúar þar notið þjónustu prests frá þjóðkirkjunni. Þarf ekki að taka fram, að margt af þessu fólki á ekki víða höfði að halla, hvað varðar mannleg samskipti.
Prestur sá, sem hér um ræðir, hefur að sögn konunnar reynst gamla fólkinu með afbrigðum vel. En nú bregður svo við, að biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson hefur sagt honum upp í sparnaðarskyni og ekki ráðið eftirmann. Hafa íbúar elliheimilis þessa sent biskupi bréf varðandi málið, en hann ekki virt þá svars.
Er þetta ekki dulítið undarlegur kristindómur hjá biskupi?
1.12.2010 | 15:36
1. des.
Í dag. 1. desember, er fullveldisdagur Íslendinga. Þann dag varð Ísland fullvalda ríki, í konungssambandi einu við Dani, eins þótt þeir önnuðust framkvæmd vissra málaflokka í umboði Íslendinga. Því væri mun eðlilegra, að þessi dagur væri þjóðhátíðardagur okkar en 17. júní.
Stúdentar, a.m.k. við Háskóla Íslands, minnast fullveldisdagsins jafnan með veglegri dagskrá. Fer vel á því, enda voru það menntamenn umfram aðra, sem héldu uppi hinni pólitísku baráttu fyrir fullveldinu. Hinu má þó ekki gleyma, að auðvitað átti sjálfstæðisbarátta okkar sér rætur í straumum sinnar tíðar í Evrópu.
En sem sagt, til hamingju með daginn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.11.2010 | 23:18
Kjósum til stjórnlagaþings
Það er löngu orðið ljóst, að núverandi stjórnarhættir á Íslandi eru blekking. Hrunið 2008 var aðeins staðfesting þess. Við búum ekki við þrískiptingu valdsins, enda þótt stjórnarskráin kveði svo á, að þannig skuli málum háttað. Framkvæmdavaldið ber ægishjálm yfir löggjafarvaldið og það ríkir einnig yfir skipan dómara.
Stjórnarskráin, sem að mestu leyti er frá árinu 1874 er þó síður en svo marklaust plagg. En hún þarfnast endurskoðunar. Með endurreisn alþingis sem ráðgjafaþings árið 1845, hófst vegleið þjóðarinnar í átt að lýðræði. Sú vegleið hefur þó verið þyrnum stráð eftir að flokkskerfið kom til sögunnar, sérstaklega í þess núverandi mynd, sem rekja má aftur til fyrri heimsstyrjaldar.
Stjórnmálaflokkarnir hafa í æ ríkara mæli tekið á sig mynd þvílíkra hagsmunasamtaka, að orð eins og skipulögð glæpastarfsemi leita á hugann í því sambandi. Hvaða stjórnmálaflokkur getur í raun státað af því, að hafa látið flokkshagsmuni víkja fyrir þjóðarhagsmunum?
Auðvitað hafa stjórnmálaflokkarnir gert allt, sem í þeirra valdi stendur, til að veikja væntanlegt stjórnlagaþing. Það eitt, að hafa landið allt eitt kjördæmi, gerir fólki t.d. mjög erfitt um vik, að kynna sér skoðanir frambjóðenda. Engu að síður hvet ég landsmenn til að kjósa til stjórnlagaþings. Ef kosningaþátttaka verður lítil munu stjórnmálaflokkarnir hafa samþykktir stjórnlagaþings að engu. En mikil kosningaþátttaka setur þeim þrengri skorður.
Óbreyttir stjórnarhættir munu leiða þjóðina til glötunar; því fær ekkert breytt. Vera má, að stjórnlagaþingið sé veik von. En það er þó skárri kostur, að hanga á hálmstráinu, en að hrapa fyrir björg.
22.11.2010 | 19:30
Skilja ráðherrar ekki stjórnsýsluna?
Í fréttum Ríkisútvarpsins nú í kvöld, var rætt við Steingrím Sigfússon fjármálaráðherra. Tilefnið var sú ákvörðun hans og félagsmálaráðherra, að greiða hjónum, sem ráku upptökuheimili í Þingeyjasýslu 30.000.000 króna, en heimili þessu var lokað í kjölfar kynferðismisnotkunar, er þar kom upp.
Hér skal ekki tekin afstaða til réttmætis þessarar greiðslu, enda þekki ég ekki tildrög málsins. En merkilegt þótti mér að heyra fjármálaráðherra lýsa því yfir, að hann skildi ekki hvernig einkatölvupóstur" hans og félagsmálaráðherra hefði lekið út.
Mér vitanlega flokkast samskipti milli ráðherra við lausn opinberra mála ekki undir einkamál, heldur opinbera stjórnsýslu. Þetta á Steingrími Sigfússyni að hafa tekist að læra á áratuga langri þátttöku í stjórnmálum.
8.11.2010 | 23:20
Njósnastarfsemi bandaríska sendiráðsins
Drottnunarsýki nærist ævinlega á fjandskap og ótta. Þetta á jafnt við um einstaklinga og ríki. Þannig fá stórveldi ekki staðist til lengdar, nema þau eigi sér óvini, sanna eða ímyndaða.
Á sínum tíma nærðust Bandaríkin og Sovétríkin á því, að fjandskapast út í hvort annað og draga heiminn með sér í þann darraðardans. Svo hrundu Sovétríkin og Bandaríkin urðu sér úti um nýjan andstæðing; múslimaheiminn.
Munurinn á Sovétríkjunum og múslimaheiminum er sá, að Sovétríkin tefldu ákveðna refskák við Bandaríkin, þar sem vissar reglur voru í heiðri hafðar. Þetta gildir ekki eftir hrun Sovétríkjanna. Múslimaheimurinn hefur einfaldlega ekki sambærileg völd og Bandaríkin og hagar því baráttu sinni gegn þeim, með öðrum hætti en Sovétríkin gerðu.
Raunar er ekki rétt að tala um múslimaheiminn í þessu sambandi. Múslimar eru æði sundraðir í afstöðu sinni til Bandaríkjanna og Vesturlanda yfirleitt. En þeir úr þeirra hópi, sem hatast við Vesturlönd, vita sem er, að þeir geta ekki ógnað heilum ríkjum, aðeins einstaklingum. Þess vegna beita þeir skæruhernaði með viðeigandi sprengjutilræðum, hvort heldur þeir fljúga farþegaþotum á turna í New York eða fara fram með minni látum.
Það verður því að teljast skiljanlegt, að Bandaríkjamenn óttist um öryggi sendiráða sinna hvar sem er í heiminum. Þeir vita sem er, að þeir eru víða hataðir, rétt eins og önnur yfirgangsöfl fyrr og síðar. Þessi ótti þeirra afsakar þó ekki njósnir um fólk, sem hefur það eitt til sakar unnið, að ganga suður Laufásveginn. Og reynist það rétt, sem ýmislegt bendir til, að Bandaríkjamenn haldi uppi njósnasveit í sendiráði sínu í Reykjavík, í þeim tilgangi, að njósna um vegfarendur, sem leið eiga um Laufásveginn, þá er það mjög alvarlegt mál. Enn þá alvarlegra er, ef slíkar njósnir fara fram með alstoð íslenskra þegna.
Samskonar mál eru þessa dagana að koma upp í Noregi og Svíþjóð. Sænsk stjórnvöld hafa þegar vísað málinu til ríkissaksóknara og dómsmálayfirvöld hér á landi, hafa falið ríkislögreglustjóra að rannsaka málið. Þetta eru skiljanleg viðbrögð.
Vonandi verður þetta mál til þess, að flýta fyrir rannsókn á því, hvernig þeir kumpánar, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson tróðu Íslandi á lista hinna viljugu þjóða", við innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak. Það eru tengsl á milli þess máls og meintra njósna bandaríska sendiráðsins í Reykjavík nú.