4.11.2010 | 21:23
Höfnum heræfingaþotum
Heldur þykir mér hann tortryggilegur, áhugi einhvers fyrirtækis, skráðu í Hollandi, á því að staðsetja orrustuþotur á Íslandi, í þeim tilgangi, að leigja þær út til heræfinga. Ég get því vel skilið, að Ögmundur Jónasson samgönguráðherra gjaldi varhug við leyfisveitingu til þessa fyrirtækis. Hitt skil ég síður, að ráðherrann skuli í því sambandi benda á, að rekstur slíks fyrirtækis hér á landi gæti skaðað fjárhagslega hagsmuni þjóðarinnar, eins þótt það sé vafalaust rétt. Eru það ekki næg rök gegn þessari málaleitan, að hér á landi eigi ekki að vera hernaðarbrölt, svo lengi sem þjóðin fái þar nokkru um ráðið? Ég þykist vita, að Ögmundur er þeirrar skoðunar. Er hann ef til vill að komast hjá því, að stugga við einhverjum öflum innan Samfylkingarinnar, með því að segja það hreint út, eða óttast hann viðbrögð Keflvíkinga, vegna atvinnuástandsins þar?
Sé um síðara atriðið að ræða, sakar ekki að geta þess, að atvinnuleysið á Suðurnesjum má ekki síst rekja til þess, að langvarandi herseta Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli dró smám saman allan þrótt til eigin athafna úr staðarmönnum. Þetta er reynsla allra, sem búið hafa í nábýli við herstöðvar, hvar í heiminum, sem vera skal. Má í því sambandi nefna algjört hrun atvinnulífs borga og bæja í kringum herstöðvar í Bandaríkjunum sjálfum eftir fall Sovétríkjanna. Þá var mörgum herstöðvum í Bandaríkjunum lokað og þar kom upp nákvæmlega sama staðan og í Keflavík.
Atvinnuleysi er böl og á því verður að vinna, jafnt á Suðurnesjum, sem annarstaðar. En það verður að gera það að yfirveguðu ráði, en ekki í óðagoti.
2.11.2010 | 20:44
Sameining Norðurlanda
Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun, eru u.þ.b. 40% Norðurlandabúa hlynntir stofnun norræns sambandsríkis. Ekki veit ég, hversu mikils fylgis hugmyndin nýtur á Íslandi, en ég hygg, að engin þjóð hefði ríkari hag af stofnun slíks sambandsríkis en einmitt við Íslendingar. Til þess liggja margar ástæður.
Í því sambandi má nefna, að sú spilling í íslenskum stjórnmálum, sem nú blasir við allra augum á sér djúpar rætur í íslenskri þjóðarsál. Hún hefur m.a. leitt til þess, að stjórnmálastarfsemi í norrænum skilningi þess orðs, hefur illa þrifist hér á landi; hér gildir persónupotið eitt, í allri sinni nekt.
Við réðum við heimastjórina á sínum tíma. Um leið og Ísland varð fullvalda ríki 1918 tók að halla undan fæti. Hernámið og það sem því fylgdi fór endanlega með íslenska ríkið fjandans til. Lýðveldisstofnun 1944 var því eins og hver annar harmrænn gamanleikur.
Fullkomnun skrípaleiksins náðist svo með framseljanlegum kvóta í fiskveiðum, sem á skömmum tíma breytti Íslandi í nokkur smáfurstadæmi, sem helst má líkja við Sturlungaöldina.
Norrænt sambandsríki gæti tryggt okkur sjálfstjórn, að svo miklu leyti, sem við ráðum við hana. Hún gæti því fært okkur það innra sjálfstæði, sem við höfum löngu glatað og gert okkur um leið þátttakendur í vitrænu sambandsríki norrænna bræðraþjóða.
31.10.2010 | 22:12
Skilum þýfinu frá Coventry
Það var heldur dapurlegt að horfa á þáttinn um steindu gluggana úr dómkirkjunni í Coventry, sem er að finna á Íslandi, í sjónvaprinu nú í kvöld.
Forsaga málsins er sú, að í upphafi síðari heimsstyrjaldar, voru gluggarnir teknir úr dómkirkjunni í Coventry, af ótta við loftárásir Þjóðverja. Síðan hurfu þeir með dularfullum hætti og er ljóst, að þeim hefur verið stolið. Íslendingur keypti svo þýfið af fornsala í London.
Sama dag og loftárisn á Coventry var gerð, þann 17. nóvember 1940, var Matthíasarkirkja á Akureyri vígð. Síðar í stríðinu er svo einn glugginn frá Coventry settur upp þar fyrir norðan, sem gjöf frá Jakobi Frímanssyni kaupfélagsstjóra KEA. Bæði honum og þeim sem keypti gluggann í Londan, má vitanlega hafa verið ljóst, að hér var um þýfi að ræða, enda vissu þeir hvaðan glugginn kom. En málið var einfaldlega þagað í hel.
Í þættinum kom einnig fram, að fleiri glugga frá dómkirkjunni í Coventry er að finna á Íslandi. Þannig eignaðist Áskirkja í Reykjavík nokkra þeirra úr dánarbúi og eru þeir í geymslu í kirkjunni, sýnilega lítt varðveittir, þar sem þeir virðast ekki vera í öryggiskössum. Til að bæta svo gráu ofan á svart, kom í ljós í þættinum, að hluti steinds glugga frá Coventry, sem rekja má allt aftur til 15. aldar, er hafður til skrauts í útidyrum einbýlishúss í Reykjavík.
Íslendingar ættu að sjá sóma sinn í því, að skila öllum þessum gluggum. Fyrir okkur hafa þeir ekkert menningargildi, en fyrir íbúa Coventry eru þeir ómetanlegir.
30.10.2010 | 19:24
Flokkarnir hygla sjálfum sér á fjárlögum
Stjórnmálamenn eru nærgætnir menn, í það minnsta gagnvart sjálfum sér. Þetta má m.a. sjá á því, að á sama tíma og þeir reka niðurskurðarhnífinn inn að beini heilbrigðiskerfisins úti á landi, t.d. með því að lækka framlög til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga um 40%, þá hyggjast þeir ekki lækka ríkisstyrki til stjórnmálaflokka um nema 9%
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eiga 304,2 milljónir króna af almannafé, að renna til þessara innantómu kjaftaklúbba og spillingarafla á næsta ári. Ofan á þá upphæð bætast svo mútur einstaklinga og fyrirtækja, jafnt erlendra sem innlendra, til flokkanna og einstakra þingmanna. Allir vita, að þar er um umtalsverðar fjárhæðir að ræða.
Ekki veit ég, hvort stjórnmálamönnum tekst að telja sjálfum sér trú um, að með þessu séu þeir að tryggja lýðræði í landinu. Hitt veit ég, að almenningur trúir því ekki. Stjórnmálaflokkarnir, allir með tölu, eru helsta hindrun lýðræðisins á landi hér. Og af þeim stafar meiri bölvun, eftir því sem þeir eru stærri.
Hver einasti stjórnmálaflokkur á Íslandi er hugmyndafræðilega, siðferðilega og pólitískt gjaldþrota. Slíkir aðilar hefa ekkert með peninga að gera, síst af öllu úr hendi almennings.
29.10.2010 | 18:57
Hreppaflutningar enn og aftur
Samkvæmt nýjustu fréttum er nú stór hætta á því, gangi fjárlagafrumvarpið eftir, að loka verði dvalarheimili aldraðra á Vopnafirði. Þar búa nú 11 manns, sem ef af lokun verður, verða fluttir hreppaflutningum til fjarlægra byggða, svo sem gert var í neyð, meðan Íslendingar töldust frumstæðasta og fátækasta þjóð Evrópu.
Margt bendir reyndar til þess, að við séum enn með frumstæðari þjóðum í menningarlegu og félagslegu tilliti. En fátæktin kvelur okkur ekki, líkt og gerðist fyrr á öldum. Smán okkar vegna slíkra hreppaflutninga er því sínu meiri en forfeðranna. Þeir áttu ekki annarra kosta völ.
Því miður eru mörg dæmi um hreppaflutninga á örvasa gamalmennum á Íslandi síðustu árin, bæði í tíð núverandi ríkisstjórnar og fyrir hennar tíð.
Þessari grimmd verður að linna.
28.10.2010 | 14:42
Stórt orð Hákot
Það er stórt orð, Hákot og því vissara að fara varlega með það. Einu sinni starfaði hér á landi stjórnmálaflokkur, sem fyrst árin kallaði sig einfaldlega Kommúnistaflokkinn. Nokkrum árum síðar tók hann að kenna sig við alþýðuna, hét hann á hvorki meira né minna en Sameiningarflokkur alþýðu, sósíalistaflokkurinn og loks Alþýðubandalagið.
Í þessum flokki starfaði mikið af heiðarlegu og eindregnu baráttufólki fyrir bættum kjörum alþýðu manna. Samt var það nú svo, að flokksforystan hafði yfirleitt tilhneygingu, til að líta niður á alþýðuna. Hún þjáðist nefnilega að því, sem almennt er kallað kúltúrsnobb.
Kúltúrsnobb er auðvitað eins og hver annað andlegur faraldur. Þessi faraldur varð svo skæður innan forystu umrædds flokks, að hann loganðist að lokum út af af þeim sökum.
Því rifja ég þetta upp hér, að nú fer með himinskautum í Reykjavík, hópur, er kallar sig því hákotslega heiti Siðmennt". Og snúi ég nefinu rétt upp í vindinn, finnst mér ég kenna þaðan nályktina af þeim stjórnmálaflokki, sem ég gerði að umtalsefni hér að framan.
Af einhverjum undarlegum ástæðum virðist þessi hópur fólks, rugla saman siðmennt (siðmenning?) og trúleysi. Sérstaklega fer kristindómur fyrir brjóstið á fólkinu. Hefur það nú fengið nefnd á vegum Reykjavíkurborgar til að leggja það til, að kristin trú verði útlæg ger úr grunnskólum borgarinnar, sem og öll önnur trúarbrögð, að mér skilst. Er í þessu sambandi skírskotað til trúfrelsis.
Að banna kristilegt starf í skólum í krafti trúfrelsis, er eins og að banna sögukennslu í nafni skoðanafrelsis. Reyndar er að mestu búið að þurka sögukennslu út úr grunnskólum landsins. Og hverjir skyldu hafa staðið fyrir því? Þar kom fyrst og fremst einn stjórnmálafokkur við sögu. Menn mega geta sér til um heiti hans.
Auðvitað á að efla kristilegt starf í grunnskólum í landi, þar sem yfir 90% íbúa eru kristnir. Og það á einnig að efla fræðslu varðandi önnur trúarbrögð og þá fyrst og fremst þess fólks af erlendum uppruna, sem heiðrar okkur með því, að setjast hér að. Annað væri ókurteisi og ræktun á fáfræði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.10.2010 | 16:40
Íslendingar eiga heimsmet í bruðli
Ef marka má fréttir Ríkisútvarpsins, þá er neysluæði mannkyns nú komið á það stig, það þyrfti á halda hálfri jörð til viðbótar, til að fullnægja æðinu.
Auðvitað eru það fyrst og fremst Vesturlandabúar, Japanir og nokkrar fleiri iðnvæddar þjóðir, sem halda þessu neysluæði gangandi.En þegar kemur að hvaða vitleysu, sem vera skal, slá Íslendingar auðvitað öll met. Ef allar þjóðir heimsins lifðu öðru eins óhófslífi og við, þyrfti 21 jörð til að fullnægja neyslunni!
Það er nefnilega það
25.10.2010 | 22:05
Bæjarstarfsmönnum á Selfossi meinuð þátttaka í kvennabaráttunni
Í dag fylktu konur liði á kvennafrídaginn. Talið er að um 50.000 konur og reyndar einnig karlar, hafi komið saman í Reykjavík. Þá voru og baráttufundir á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði. Sem sagt, kvennabaráttan enn í góðum gír í öllum fjórðungum landsins, nema á Suðurlandi. Þar gerðist það eitt, að bæjarstjórinn á Selfossi meinaði bæjarstarfsmönnum að leggja niður störf, til að taka þátt í aðgerðunum. Tekið skal fram, að bæjarstjórinn er kona. Þetta er óneitanlega svolítið klént.
Til hamingju með daginn, konur þriggja landsfjórðunga.
24.10.2010 | 14:08
Ísland er menningarlíki, ekki menningarsamfélag
Samkvæmt nýrri skýrslu frá OECD leggja Íslendingar hlutfallslega meira fé til menntunar en aðrar aðildarþjóðir OECD. Þó eru kennaralaun hér aðeins 70% af meðaltali kennaralauna innan OECD-landanna.
Óneitanlega vekur þetta spurningar um, í hvað peningarnir fara. Er bruðlað í yfirstjórn, húsbyggingum eða einhverju öðru?
Hitt er ekki síður umhugsunarvert, að samkvæmt nýlegri skýrslu frá Evrópusambandinu, skilar fræðslukerfið í álfunni hvergi lakari árangri en á Íslandi, að Tyrklandi einu undanskildu, en það ágæta land getur tæpast talist til Evrópuríkja. Þetta kemur fram í því, að helmingur grunnskólanema hættir námi að loknum 10. bekk.
Nú er það svo, að grunnur að menntun barna er vitanlega lagður á heimili þeirra. Engu að síður hlýtur einhvers staðar að vera pottur brotinn í kennaramenntun hér á landi.
Ég þekki útlendinga, sem sest hafa að á Íslandi og eiga hér börn í grunnskólum. Þeir kvarta allir undan lítilli kennslu í grunnskólum hér. Einn þeirra hefur starfað hér við kennslu. Hann sagði við mig, ekki alls fyrir löngu: Í mínu heimalandi er ætlast til þess, að skólinn sé erfiður; hér á hann að vera skemmtilegur".
Sjálfur hef ég gripið í grunnskólakennslu. Ég fullyrði, að fyrsti kennslumánuður hvers vetrar fari í að mestu leyti í vaskinn. Desembermánuður fer meira og minna í föndur og lokamánuð vetrarins er tæpast um kennslu að ræða. Blandað bekkjarkerfi, án tillits til námsgetu nemenda, sér svo til þess, að afgangur vetrarins er harla lítils virði, hvað nám varðar.
Að loknu skyldunámi hættir svo helmingur unglinga námi. Hinn helmingurinn fer í háskólanám, sem eðli málsins samkvæmt er ekki upp á marga fiska í fjölmörgum greinum. Svo eru menn standandi hissa á því, að Íslandingar taki ekki mark á s.k. sérfræðingum".
Er ekki orðið tímabært að við vindum ofan af þessari vitleysu og byrjum á því, að gera okkur ljóst, að Ísland er ekki menningarsamfélag heldur menningarlíki? Það er víðar munur á smjöri og smjörlíki en á milli brauðsneiðar og áleggs!
21.10.2010 | 23:13
Varðandi stjórnarskrárbreytingar
Nú í vikunni birtist í sjónvarpi viðtal við formann félags um nýja stjórnarskrá. Allt gott um það að segja, nema hvað maðurinn talaði um stjórnarskrána, sem útlenda stjórnarskrá. Þetta er undarlega þröngur söguskilningur manns, sem hefur breytingar á stjórnarskránni að sérstöku áhugamáli og er auk þess í forystu félags þar um.
Stjórnarskráin er að grunninum til frá 1874. Vissulega var hún veitt af Kristjáni konungi IX og því dönsk, fljótt á litið. En sé betur að gætt, er hér um að ræða dæmigerða evrópska stjórnarskrá frá miðri 19. öld og næstu áratugum þar á eftir. Allar þessar stjórnarskrár eiga það sameiginlegt, að vera undir sterkum áhrifum frá hugmyndum enska heimspekingsins Johns Lock á 17. öld, stjórnarskrá Bandaríkjanna sem samin var 1789 og hugmyndum frönsku byltingarinnar sem braust út sama ár. Þjóðerni höfunda þeirra, skiptir því harla litlu máli.
Vissulega þarf að gera breytingar á núverandi stjórnarskrá. Þar ber einkum að hafa eftirfarnadi fimm atriði í huga:
1. Stjórnarskráin þarf að hefjast á mannréttindakafla líkt og þýska stjórnarskráin.
2. Binda þarf hlutverk forseta Íslands, t.d. við rétt til þingrofs og aðkomu að ríkisstjórnarmyndun.
3. Setja þarf í stjórnarskrá ákvæði um að viss hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis. Fjórðungur eða fimmtungur kæmi þar til greina.
4. Setja þarf í stjórnarskrá ákvæði um ráðherraábyrgð.
5. Skipan hæstaréttardómara og jafnvel hérðasdómara, verður a.m.k. að hluta að aðskiljast frá framkvæmdavaldinu.
Öll þessi atriði og önnur, er upp kunna að koma í þessu sambandi, eru of mikilvæg, til að verjanlegt sé, að ræða þau innan þröngra marka þjóðrembu, eins og fram kom í áðurnefndu sjónvarpsviðtali.