18.10.2010 | 18:54
Húsaleigubætur lækkaðar
Nú hefur ráðherraliðið, sem dag hvern höktir í erindisleysu milli Arnarhóls og Austurvallar ákveðið, að minnka útgjöld til húsaleigubóta um 20% eða sem svarar 600.000.000 króna. Þetta er sami mannskapurinn og þóttist vera að mynda norræna velferðarstjórn á síðasta ári. Á sama tíma er ausið milljörðum í tónbjásturshöll niður við höfn og talið til menningarmála.
Hvenær ætlar þessi mannskapur að skilja það, að listir eru aðeins einn hluti menningar, ekki menningin sjálf? Menningin birtist okkur m.a. í því, hvernig farið er með þá, sem standa höllum fæti. Það er plebbismi" á hæsta stigi, að sóa milljörðum í gæluverkefni fárra skrauthana á priki, eins og tónbjásturshöllin er dæmi um, á sama tíma og draga á stórlega úr húsaleigubótum, fyrir nú utan allar aðrar árásir, sem nú eru gerðar á velferð almennings.
Það er fyrst og fremst láglaunafólk, sem býr í leiguhúsnæði. Húsaleigubætur eru því jöfnuður í anda norræns velferðarkerfis. Og nú, þegar stöðugt fleiri missa eignarhald á íbúðarhúsnæði, hyggst Íbúðalánasjóður leigja út húsnæði, sem hann hefur tekið til sín vegna skulda. Er þá ekki þörf fyrir auknar húsaleigubætur? Svarið við þeirri spurningu vefst tæpast fyrir þeim, sem aðhyllast norrænt velferðarkerfi. En spurningin er sýnilega of flókin fyrir ráðherraliðið. Mikil er þess skömm!
16.10.2010 | 23:53
Stjórnlagaþingið er rugl!
Á hádegi á mánudaginn rennur út framboðsfrestur til tilgangslausustu samkomu okkar tíma. Hér á ég vitanlega við stjórnlagaþingið. Vissulega er full ástæða til að breyta stjórnarskránni. En stjórnmálaflokkarnir hafa dregið vonir þjóðarinnar um stjórnlagaþing niður í hið dýpsta svað, sem hugsast gat.
Með því að gera landið allt að einu kjördæmi er gulltryggt, að blaðurskjóður einar munu ná kosningu. Og stjórnlagaþing með 25 til 30 fulltrúum er botnlaust rugl.
Breytingar á stjórnarskránni munu að lokum verða háðar vilja Alþingis, þ.e.a.s. stjórnmálaflokkanna. Og þeir munu vitanlega láta sér í léttu rúmi liggja skvaldur 25 til 30 landsþekktra blaðurskjóða. Ef stjórnlagaþingið hefði átt að hafa vægi, hefði orðið að skipta landinu í kjördæmi, þar sem í mesta lagi 1000 kjósendur hefðu staðið að baki hvers fulltrúa. Það hefði þýtt rúmlega 300 manna þing. Með þeim hætti hefði vilji allra landsmanna, án tillits til búsetu fengið notið sín.
Til viðbótar við þessa rúmlega 300 fulltrúa hefði svo þurft að kjósa, segjum 200 fulltúa hagsmunahópa til að mynda sérstaka deild á stjórnlagaþinginu. Sú deild hefði ekki haft úrslitaáhrif, en verið ráðgefandi.
Með þessum hætti hefði verið von til þess, að skapa umræður þjóðarinnar um framtíð sína. Þess í stað sitjum við uppi með kjaftaklúbb 101 Reykjavík".
Til hamingju, stjórnmálamenn; eina ferðinna enn hefur ykkur tekist að fótum troða lýðræðið". Stjórnlagaþingið er rugl!
14.10.2010 | 07:51
Tíðindi varðandi húsnæðismál
Samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins eru nú uppi hugmyndir, um myndun almannafélags til kaupa á íbúðarhúsnæði, í þeim tilgangi, að leigja það út með skipulegum hætti, líkt og gert er á hinum Norðurlöndunum. Óskandi er, að þetta eigi eftir að verða að veruleika.
Það er sjálfsagt, að þeir sem vilja og til þess hafa fjárhagslega burði, búi í eigin húsnæði. Hitt er jafn eðlilegt, að aðrir kostir séu í boði, líkt og gerist meðal siðmenntaðra þjóða. Hin almenna séreignastefna í húsnæðismálum, sem viðgengist hefur á Íslandi í áratugi rann í raun sitt skeið á enda í yfirstandandi kreppu, þ.e.a.s. að svo miklu leyti, sem Íslendingar eru færir um, að læra af reynslunni.
12.10.2010 | 18:30
„Heimur hugmyndanna"
Ég var að hlusta á útvarpsþátt þeirra Ævars Kjartanssonar og Páls Skúlasonur, Heim hugmyndanna", sem fluttur er á Rás 1, Ríkisútvarpinu á sunnudagsmorgnum, en einnig er hægt að hlýða á á netinu.
Á sunnudaginn var, var það Páll, sem að mestu hafði orðið. Hann fjallaði um afstöðu Íslendinga til menntunar og skort þeirra á rökrænni hugsun. Það voru orð í tíma töluð.
Eitt var það í málflutningi Páls, sem ég tek ekki alveg undir. Það var þegar hann fjallaði um virðingaleysi þjóðarinnar fyrir kennurum.
Nú er það svo, að auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé meðal kennara, sem og annarra manna. Því er það beinlínis rangt, að fella dóma yfir stétt þeirra sem heild. Flestir Íslendingar telja sig þó þess umkomna og þeir dómar eru oftar en ekki, heldur á neikvæðum nótum. Það eitt út af fyir sig er nógu bagalegt. En því miður held ég, að í raun beinist gagnrýnin aðeins gegn kennurum á yfirborðinu. Undir niðri óttast ég, að öllum þorra Íslendinga sé heldur svona í nöp við rökrétta hugsun og þar með menntun. Við viljum ekki rökræða, heldur redda".
Ég er hræddur um, að þetta eigi við víðast hvar í þjóðfélagi okkar, einnig meðal þeirra, sem lokið hafa langskólanámi. Fæstir líta nefnilega á langskólanám sem leið til þroska, heldur sem leið til tekna og smáborgaralegs öryggis, sem auðvitað er hvergi að finna, nema í draumheimum.
Í þættinum talaði Páll reyndar um þann mun, sem er á íslenskum menntamönnum og kollegum þeirra í nágrannalöndunum. Ég er honum sammála; þessi munur er sláandi. Og því miður birtist hann í lágu menningarstigi þjóðarinnar.
Það þarf ekki annað en líta til fréttaflutnings sjónvarpsstöðva í þessu sambandi. Á hinum Norðurlöndunum eru fræðsluþættir mjög algengir, t.d. um sagnfræðileg efni. Þá eru þar oft þættir um innlend sem og erlend samfélagsmál. Fréttaskýringaþættir eru unnir af fólki, sem menntað er í þeirri grein, sem við á hverju sinni. Þess vegna þekkja þeir, sem horfa á almennar sjónvarpsfréttir í þessum löndum, til þeirra mála, sem sagt er frá.
Það eru svona þjóðir, sem almennt kallast menningarþjóðir. Hvað um okkur?
11.10.2010 | 17:59
Undarleg ummæli Útskálaklerks
Í gær hlustaði ég á útvarpsmessu, sem að þessu sinni var útvarpað frá Útskálakirkju. Ekkert merkilegt við það, utan hvað nokkuð fannst mér það skjóta skökku við, þegar klerkur bað um álver í Helguvík og tók það sérstaklega fram, að þar talaði hann í Jesú nafni.
Álver eru að mínu mati birtingarform nútíma nýlendustefnu. Ég er ekki einn um þá skoðun, þótt ýmsir séu mér ósammála í þeim efnum, eins og gengur og gerist.
Hvað um það, ég hygg að nokkuð vel fari á því, að ræða þessi mál, án þess að blanda frelsaranum í þá umræðu.
10.10.2010 | 23:47
Var Lennon úr Norðurmýrinni?
Mikið var látið með minningu Johns Lennon í Reykjavík um helgina, í tilefni þess, að 70 ár eru liðin frá fæðingu hans. Allt gott og blessað með það. En óneitanlega læðist að mér sú hugsun, að allt þetta tilstand sé frekar til upphafningar ekkju hans en honum sjálfum.
Hver veit?
9.10.2010 | 14:55
Frelsi til handa Liu Xiaobo og konu hans
Undanfarin ár hafa íslenskir stjórnmálamenn, með Ólaf Ragnar Grímsson í broddi fylkingar, átt erfitt með að leyna aðdáun sinni á ofbeldisstjórn kommúnísta í Kína. Reyndar á þessi aðdáun sér nokkra sögu, því við lát Maós formanns árið 1976, þótti þáverandi ritstjóra Morgunblaðsins, Matthíasi Johanessen við hæfi, að heiðra skálkinn og gefa út aukablað, hetjunni" til dýrðar. Þeir munu hafa verið skáldbræður, Mao og Matthías.
Nú hefur norska Nobelsnefndin úthlutað friðarverðlaunum Nobels í ár til kínverska andófsmannsins Liu Xiaobo. Er það vel.
Liu Xibobo situr um þessar mundir af sér 11 ára fangelsisdóm vegna skoðana sinna. Kínversk stjórnvöld hafa þegar fagnað" þeim heiðri, sem Norðmenn sýna honum, með því að taka konu hans, Liu Xia úr umferð. Ekki er vitað, hvar hún er niðurkomin.
Væri nú ekki ráð, að íslenska stjórnmálahjörðin ræki af sér slyðruorðið og krefðist opinberlega frelsis til handa þeim hjónum, en kölluðu sendiherra sinn í Kína að öðrum kosti heim og afhentu sendiherra Kína hér reisupassann í leiðinni?
7.10.2010 | 23:38
Steingrímur á leið úr stjórnmálum
Það er ekkert nýtt, að ráðherrar hygli sínum heimaslóðum. Því telst það vart til tíðinda, að Skagamaðurinn Guðbjartur Hannesson horfi mildum augum til sjúkrahússins á Akranesi við gerð fjárlaga, en hvessi augnaráðið, þegar litið er fjarri heimaslóð. En heldur þykir mér hann skjóta yfir markið, þegar hann ætlar Þingeyingum, einum hundraðshluta þjóðarinnar, að taka á sig 14% af niðurskurði landsmanna til heilbrigðismála. Það er auk þess kaldhæðni örlaganna, að þarna er einmitt um að ræða heimaslóðir fjármálaráðherra, sem auðvitað ber ábyrgð á fjárlagafrumvarpinu, hvað sem fagráðherrar" segja.
Það er ekki aðeins Þingeyingum, sem er brugðið, við landsbyggðamenn allir, teljum okkur greina nokkurn hroka við sunnanverðan Faxaflóa. Hvernig á t.d. að útskýra það fyrir Vestmannaeyingum, að konur skuli ekki lengur geta fætt börn sín þar, bjáti eitthvað á, eins og samgöngum við Eyjar er nú háttað? Og hvernig hyggjast menn afsaka það, að sjúkrastofnanir á Seyðisfirði og Egilsstöðum leggist af?
En fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Fjárlagafrumvarpið er greinilegur vottur þess, að Steingrímur Sigfússon hyggur ekki á öllu lengri dvöl í Alþingishúsinu.
5.10.2010 | 23:12
„Návígi", stórum batnandi viðtalsþáttur í Ríkissjónvarpinu
Ég var að horfa á þáttinn Návígi" í Ríkissjónvarpinu. Þar ræddi Þórhallur Gunnarsson við Önnu Jennýu Guðmundsdóttur, konuna, sem lét til sín heyra í Landsbankanum á föstudaginn, svo eftir var tekið.
Þetta er þriðja návígi" Þórhalls. Ég gagnrýndi fyrsta þáttinn og þótti lítið til hans koma. En hvílík framför! Þátturinn í kvöld var mjög góður. Þáttarstjórnandinn hélt sig til hlés, meðan viðmælandinn var í kastljósinu. Og við, hlustendur og áheyrendur fengum frið til að kynnast lífsviðhorfum heilsteyptrar manneskju, sem mig grunar, að endurspegli skoðanir stórs hluta þjóðarinnar til stjórnmálaástandsins í landinu og fjármálakerfisins.
Svona eiga viðtalsþættir þessarar gerðar að vera!
5.10.2010 | 10:37
Utanþingsstjórn þegar í stað!
Ég er hræddur. Ég veit, að stjórnmálaflokkarnir og viðhengi þeirra munu aldrei geta leitt þjóðina út úr þeim ógöngum, sem hún hefur ratað í. Ástæðan er einföld; stjórnmálaflokkarnir vörðuðu leiðina til glötunar og þeir rata ekki til baka. Og það sem verra er; þeir vita ekki einu sinni, að þeir arka með þjóðina eftir glötunarveginum.
Sumir stjórnmálamenn trú því, að kreppan sé ekki til, meðan aðrir þeirra halda, að hún sé aðeins óþægileg tilviljun, sem muni hverfa með vorinu, rétt eins og snjórinn úr fjallshlíðunum.
En þetta er ekki svona. Kreppan er miklu dýpri og varanlegri en lýðum er ljóst, að nú ekki sé talað um stjórnmálamönnum. Efnahagsástandið er aðeins yfirborðsmynd hennar; undir kraumar hin siðferðislega kreppa.
Það má vel vera, að efnahagsástandið eigi eftir að komast í samt lag á næstu misserum. En traustið á stjórnmálamönnum og flokkum þeirra er endanlega brostið. Græðgi og meðfylgjandi yfirborðsmennska frjálshyggjutímans" snéri Darwinskenningunni við hjá stórum hluta fólks; í stað þess að apinn þróaðist til manns, varð maðurinn að apa. Margur verður af aurum api".
Þegar a.m.k. 8.000 manns mótmæla fyrir utan Alþingishúsið, eiga þeir, sem þar starfa innan dyra að skilja, þegar skellur í tönnum. Og þetta fólk var ekki aðeins að mótmæla ríkisstjórninni. Nei, það var að mótmæla ómenningu stjórnmálanna í landinu, eins og hún leggur sig!
Nú virðast ráðleysingjarnir í stjórnmálaflokkunum vera að undirbúa þjóðstjórn". En auðvitað geta þeir ekki myndað þjóðstjórn, einfaldlega vegna þess, að þeir tilheyra ekki þjóðinni. Þjóðin gengur ekki inn í bankana og fær afskriftir á skuldum sínum án frekari eftirmála. Þjóðin gengur ekki inn í utanríkisráðuneytið og fær jeppa á ríkiskostnað, til að ferðast um með útlenda vini. Þjóðin sest ekki í ritstjórastól dagblaðs til að náða sjálfa sig af eigin mistökum og misgjörðum og ata aðra auri. Þjóðin fremur ekki afbrot og leggur það í vald vina og vandamanna, hvort hún eigi að taka út regsingu eður ei. En allt þetta gera stjórnmálamenn og fylgifiskar þeirra!
Þjóðin er einfaldlega á köldum klaka; efnahagslega, stjórnmálalega, menningarlega og siðferðilega. Hún ein getur komið sér úr þeirri stöðu og það mun taka kynslóðir!
Við eigum langa göngu fyrir höndum til fegurra mannlífs á landi hér. En sú ganga mun ekki einu sinni hefjast, fyrr en hér verður mynduð utanþingsstjórn, sem þjóðin virðir og stjórnmálaflokkarnir lúta, þar til ný pólitísk öfl hafa leyst þá af hólmi.