„Andverðleikasamfélag"

Það var fróðlegt, að hlusta á Einar Steingrímsson stærðfræðing í Silfri Egils í dag.  Hann lýsti íslensku samfélagi sem andverðleikasamfélagi, þ.e.a.s. samfélagi, þar sem hinir vanhæfu ráða öllu og halda þeim hæfu utan allrar ákvarðanatöku.

Þetta eru stór orð, en því miður er ástæða til að staldra við þau.  Hlustið á þetta hér og dæmið sjálf.

Eitt einkenni andverðleikasamfélagsins er klíkupotið.  Stjórnmálamenn og viðhengi þeirra, komast ekki út fyrir þröngan hóp nánustu vina og vandamanna.    Stjórnmál skipta þá í raun og veru engu máli, heldur hitt, „að fá að vera með", eins og krakkarnir í sandkassanum segja. 

Stjórnmál eiga að felast í greiningu viðfangsefna og lausnar á þeim.  Stjórnmálamenn eiga að leita lausna á viðfangsefnum í samræmi við þá, sem viðkomandi mál varða.  Þetta á t.d. við um yfirstandandi fjárhagsvanda heimilinna.  Það gera þeir ekki; til þess eru þeir of uppteknir af sjálfum sér, eins og gengur og gerist í sandkössum.  Auk þess vilja þeir ekki falla í skuggann af sér hæfari mönnum.

Í öðrum tilfellum þurfa stjórnmálamenn að taka af skarið.  Þetta á m.a. við um kvótamálið.  En það gera þeir ekki.  Ef til vill eru þeir hræddir um, að styggja áhrifamikla og ríka menn, sem keypt hafa þá til áhrifa.  Hver veit?


Er Íslandi stjórnað af glæpaklíku?

Halldór Ásgrímsson fyrrum formaður Framsóknarflokksins og ráðherra hitt og þetta var eitt sinn spurður út í kvótaeign sína.  Svarið var svohljóðandi, orðrétt: „Ég á ekki kvótann, mamma á kvótann".  Síðan hefur mér þótt Halldór Ásgrímsson holdgerfingur þeirrar spillingar, sem þrífst í skjóli kvótakerfisins, enda er hann höfundur þess.

Nú hefur það komið í ljós, að dótturfyrirtæki Þinganess, fjölskyldufyrirtækis Halldórs, greiddi eigendum sínum arð upp á 400.000.000 krónur.  Arðurinn var þó ekki meiri en svo, að nú er Landsbankinn að afskrifa á þriðja milljarða skuld Þinganess.

Er ekki svolítið erfitt fyrir „stjórnmálastéttina" og bankaþrjótana, að útskýra fyrir fólkinu, sem er verið að bera út þessa dagana, að Íslandi sé ekki stjórnað af glæpaklíku?


Mótmæli-skrílslæti?

Mótmæli eða skrílslæti?  Þessi orð verða vafalaust notuð um aðgerðirnar fyrir utan Alþingishúsið í dag.  En það skiptir ekki máli, hvaða nöfnum menn kjósa að nefna þetta.  Það sem máli skiptir er það, að stjórnmálamenn hafa á undanförnum árum leyst úr læðingi þau öfl, sem ef til vill verður ekki ráðið við.

Ég er ekki að tala um „útrásarvíkingana", sem vissulega urðu til í skjóli stjórnmálamanna.  Ég er að tala um reiði almennings, sem hæglega getur gengið svo úr böndum, að við ekkert verði ráðið.

Hrunstjórn Sjálfstæðismanna og Samfylkingarinnar hrökklaðist frá völdum vegna þess, að menn treystu henni ekki.  Þeir eru ekki margir, sem treysta núverandi ríkisstjórn.  Og þegar svo er komið, að ráðamenn þjóðarinnar, þora ekki að ganga inn um aðaldyr þinghússins til þingsetningar, heldur laumast inn bakdyrameginn af ótta við almenning, er tæpast úr vegi, að menn fari að huga að nýjum kosningum.  Það má ekki gerast, að ofbeldi verði að pólitískri tjáningu á Íslandi.  En það stefnir því miður í það, að svo verði.


Aumingja Samfylkingin

Ekki hækkaði nú risið á Alþingi í dag.  Og Samfylkingin, ja það er nú söfnuður í sérflokki og honum miður góðum.  Að fjórir þingmenn flokksins, skuli hafa geð í sér, til að kjósa með málshöfðun gegn Geir Haarde fyrrum forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, en greiða um leið atkvæði á móti málshöfðun gegn flokkssystur sinni, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrum utanríkisráðherra og formanni Samfylkingarinnar, er hrein lítilmennska.

Ástæða er til að halda nöfnum þessa fólks til haga, en þau eru; Helgi Hjörvar, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Skúli Helgason.

Auðvitað ber Geir Haarde vissa ábyrgð á fumkenndum viðbrögðum við hruninu 2008.  Og það er aumkunarvert, að hlusta á hann halda því fram, að það hafi komið honum og öllum öðrum í opna skjöldu.  Viðvaranir höfðu borist, en á þær var ekki hlustað.  En það var ekki aðeins Geir Haarde, sem skellti skollaeyrum; það gerði Ingibjörg Sólrún ekki síður.

Ég held ekki, að þetta fólk hafi viljað vinna þjóð sinni mein.  Og ég ætla ekki, að fullyrða, að það hafi sýnt af sér vítaverða vanrækslu í starfi, í skilningi laga.  Hitt fullyrði ég, að sé til lagaleg ábyrgð á hruninu og afleiðingum þess, þá eiga allir gömlu stjórnmálaflokkarnir það nokkra sök, einnig Vinstri grænir.  Það vill nefnilega svo til, að fulltrúar þeirra í stjórnum lífeyrissjóða tóku fullan þátt í dansinum í kringum gullkálfinn.

Hinu skal og haldið til haga varðandi Geir Haarde og meinta sök hans, að hann tók við þeim arfi frá Davíð Oddssyni, sem ekki gat endað öðru vísi en með ósköpum.  Og því má þjóðin ekki gleyma, að stór hluti hennar, ef til vill meirihlutinn tók þátt í darraðardansinum.  Hefði verið hægt, að teyma Íslendinga jafn langt á asnaeyrunum og raun ber vitni, nema vegna þess, hversu ótrúlega löng þau eru?

 

 


Fjölgum kostum í húsnæðismálum

Í Kastljósi í kvöld, lýsti umboðsmaður skuldara þeirri skoðun sinni, að hugsanlega væri tímabært, að endurvekja verkamannabústaðina.  Þetta eru orð í tíma töluð.  Séreignastefnan í húsnæðismálum hefur runnið sitt skeið  á enda. 

Það er löngu tímabært, að fólki sé gert kleift, að búa í öruggu húsnæði utan við séreignastefnuna.  Verkamannabústaðir eru ein aðferð, til að svo megi verða.  Önnur fær leið í þessu sambandi eru byggingasamvinnufélög og loks má nefna opinber lán til verktaka, gegn því að þeir leigi út íbúðir á hagstæðum kjörum.

Í raun má segja, að núverandi húsnæðiskerfi geri hvort sem er alla að leigendum.  Spurningin er bara, hvort menn leigi húsnæði beint eða leigi peninga hjá lánastofnunum, til að geta talist eigendur íbúðahúsnæðis að nafninu til.

Auðvitað eiga menn að geta átt sitt húsnæði, hafi þeir efni á því og standi vilji þeirra til þess.  En það er fráleitt, að séreignastefnan sé eini valkosturinn í húsnæðismálum.


Návígi - óvandaður sjónvarpsþáttur

Í gærkvöldi hóf göngu sína nýr þáttur hjá Ríkissjónvarpinu. „Návígi" kallast hann. Þátturinn er undir stjórn Þórhalls Gunnarssonar, sem mér skilst að sé leikari.  Virðist mér hann vera einn af þessum dæmigerðu „2007-stjörnuglópum" fjölmiðlanna.

Viðmælandi Þórhalls í þessum þætti var séra Halldór Gunnarsson í Holti.  Ræddi hann fyrst og fremst málefni Ólafs Skúlasonar biskups og stöðu kirkjunnar í því samhengi.  Þá fjallaði hann lítillega um mútuþingmennina innan Sjálfstæðisflokksins, en sem kunnugt er, krafðist hann þess á síðasta landsfundi flokksins, að þeir segðu af sér.  Nóg um það.

Séra Halldór kom fram af mikilli einlægni og var þó, sem kristinn maður og þjónn kirkjunnar, að ræða mál, sem gengur honum nærri.  En leikarinn í stöðu þáttarstjóra skildi ekki einlægni viðmælanda síns; hún féll einfaldlega ekki að sviðshugmyndum hans.  Og hann tók að tala yfir hausamótunum á klerki, eins og sá væri óprúttinn stjórnmálamaður, sem væri að koma sér undan sannleikanum.

Umræddum sjónvarpsþætti virðist ætlað að varpa ljós á málefni líðandi stundar.  Slíkir þættir eiga að vera í höndum vandaðra fréttamanna en ekki leikara.  Leikarar eiga að halda sig á leiksviðinu, þar eiga þeir heima.  Síst af öllu eiga þeir að gera samfélagsumræðuna að leiksviði sínu í fjölmiðlum, nema sá sé beinlínis tilgangur þeirra. 

Þórhallur Gunnarsson gæti margt lært af sjónvarpsstöðvum hinna Norðurlandanna og Spaugstofunni.  Að því loknu gæti hann valið á milli þessara tveggja ólíku forma þjóðfélagsrýninnar.

 


Margt má læra af Steini Steinarr

Umræður stjórnmálamanna um Landsdóm minna mig óneitanlega á kvæðið „Að sigra heiminn" eftir Stein Steinarr.  Læt það fljóta hér með til gamans og fróðleiks.

 

Að sigra heiminn

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði
er gjarna sett að veði):

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það var nefnilega vitlaust gefið.


Óheilindi borgarstjóra

Kynþáttafordómar eru grafalvarlegt mál, sem allir ættu að sameinast gegn.  Þegar ofbeldismenn ráðast á heimili fólks og hóta því limlestingum, vegna hörundslitar þess og það með slíku gerræði, að fórnarlömbin flýja land, þá er runnin upp stund almennrar samstöðu, til varnar þeim, sem fyrir slíkum hrottaskap verða.

Nú hefur þetta gerst í Reykjavík og því miður ekki í fyrsta sinn.  Og hvað gerist þá?  Efna hinar ýmsu kirkjudeildir til almennrar göngu gegn kynþáttafordómum?  Koma stjórnmálaflokkarnir, námsmannafélög, verkalðýðshreyfingin, félög jafnréttissinna o.s.frv., o.s.frv. að slíkum aðgerðum?

Nei, það heyrist hvorki hósti né stunda frá þessum aðilum.  Hins vegar grípur borgarstjóri gæsina og boðar til göngu „Besta flokksins" n.k. laugardag, rétt eins og það sé flokkspólitíkst mál, að fá að búa í þessu landi, þótt maður sé dulítið dekkri á húðina en við náfölir norðannepjumenn langt aftur í aldir.

Þetta er ómerkileg sjálfsupphafning hjá borgarstjóra og flokki hans.  Og það verður að segjast eins og er, að hún lýðst í skjóli þeirrar andlegu deyfðar, sem einkennir Íslendinga.


Þingmannaskýrslan III

Jóhanna Sigurðardóttir telur bankamenn bera megin ábyrgð á hruninu 2008.  Má til sanns vegar færa.  En hvors er ábyrgðin þyngri, villidýrsins eða sirkusfíflsins, sem sleppir því lausu?


Þingmannaskýrslan II

Viðbrögð sumra stjórnmálamanna við þingmannaskýrslunni eru aumkunarverð.  Látum nú vera þó Sjálfstæðismenn slái skjaldborg um sína menn; það telst ekki til tíðinda.  En að Margrét Frímannsdóttir fyrrum talsmaður Samfylkingarinnar skuli koma fram í sjónvaprsfréttum, einkum og sér í lagi til að verja vinkonu sína Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, það lýsir ekki mikilli stórmennsku.  Og hvernig datt fréttamönnum Ríkisútvarpsins í hug, að hafa samband við hana vegna þessa máls?  Skyldi hún sjálf hafa slegið á þráðinn til þeirra?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband