Þingmannaskýrslan I

Því miður bendir flest til þess, að einkavæðing bankanna hafi í raun verið rán á þjóðareignum, með hagsmuni einstakra auðmanna í huga.  Sé þetta rétt, var ekki um eðlileg viðskipti að ræða, heldur hreina glæpastarfsemi þeirra stjórnmálaflokka, sem þar áttu hlut að máli.  Hér er um að ræða Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.

Nú hefur komið í ljós, að fulltrúar þessarar flokka í þingmannanefndinni, komu í veg fyrir, að hún skilaði áliti varðandi „bankasöluna", sem reynslan sýndi, að var í raun gjöf ríkisins á bönkunum.  Þar er engrar rannsóknar þörf, að mati Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna.

Hvers vegna?  Svari hver fyrir sig. 


Til hamingju með daginn Þingeyingar

Í dag eru 40 ár liðin frá því, að Þingeyingar og þá einkum Mývetningar, sprengdu virkjunarstíflu í Laxárvirkjunar í Miðkvísl, eftir að hafa ítrekað en árangurslaust reynt að koma vitinu fyrir virkjunaróð yfirvöld.  25. ágúst er því merkisdagur, ekki aðeins í sögu náttúruverndar, heldur einnig lýðræðis á Íslandi. 

Þegar yfirvöld hlusta ekki á fólk, er ekki annað til ráða, en að hækka róminn.  Þetta gerðu Þingeyingar svo lengi verður í minnum haft.  Vonandi er ekki svo úr þeim allur móður, nú 40 árum síðar, að þeir láti það um sig spyrjast, að þeir knékrjúpandi væli út álver við Húsavík.


Misbeiting stjórnmálaflokka á embættisveitingum og öðrum mannaráðningum

Í spjalli mínu í gær varpaði ég fram þeirri spurningu, hvort stjórnmálaflokkarnir væri ekki „elstu, þróuðustu og best skipulögðu glæpasamtök landsins".  Tilefnið er sú hugmynd dómsmálaráðherra, að veita lögreglu heimild til að rannsaka feril fólks, án þess að nokkur grunur hafi á það fallið og fela stjórnmálaflokkunum eftirlit með slíkri njósnastarfsemi í gegnum Alþingi. 

Það er ekki ætlun mín, að svara þessari spurningu.  Hins vegar ætla ég að varpa fram nokkrum atriðum, sem fólk getur velt fyrir sér í þessu sambandi.  Er þá eðlilegt, að byrja á embættisveitingum og öðrum mannaráðningum, sem stjórnmálaflokkar stýra í gegnum ríkisvaldið og vald sveitafélaga.

Eðlilegur tilgangur slíkra mannaráðninga hlýtur að vera sá, að efla hag almennings, með beitingu þess stjórnvalds, sem í hlut á.  Er sú raunin?  Þeirri spurningu treysti ég mér til að svara neitandi.

Mér skilst að Alþýðuflokkurinn, helsti forveri Samfylkingarinnar, hafi  beinlínis haft það í lögum sínum, að veita bæri flokksmönnum þær opinberu stöður, sem flokkurinn hefði yfirráð yfir.  Hjá öðrum flokkum hefur þetta, mér vitanlega ekki verið fest á blað, en sömu stefnu fylgt út í æsar.  Pukurslaust hafa flokkarnir tekið flokksskírteini fram yfir hæfileika, þegar um opinberar mannaráðningar hefur verið að ræða.  Þetta á við um þá alla.  Svo rammt hefur að þessu kveðið, að það vakti  furðu manna, á árum vinstri stjórnarinnar 1971 til 1974, að Magnús Torfi Ólafsson menntamálaráðherra skyldi yfirleitt ekki fylgja þessari stefnu.  Hann tók sem sagt hag ríkisins og þar með almennings, fram yfir hagsmuni flokksins.

Mín vegna mega menn deila um það, hvort augljós misbeiting stjórnmálaflokka á veitingarvaldi embætta og annarra starfa flokkist undir glæpastarfsemi.  Hinu verður ekki neitað, að þetta háttarleg hefur mjög dregið úr tiltrú almennings á flokkunum og þar með þeim stofnunum, sem þeir stýra, þ.á.m. Alþingi og ríkisstjórn.  Svo langt hefur þetta vantraust gegnið, að í valdatíð Davíðs Oddssonar,varð meira að segja Hæstiréttur að gjalda þessa almenna vantrausts.  Og það sem verra er; þetta hefur aukið vald þeirra, sem stýra stjórnmálaflokkunum hverju sinni, á kostnað almannahagsmuna.

Skipulögð glæpastarfsemi?  Svari hver fyrir sig.

 

 

 


Dómsmálaráðherra á villigötum

Sú hugmynd dómsmálaráðherra, að heimila lögreglu að rannsaka gjörðir fólks, sem ekki er grunað um neitt misjafnt, eru þess eðlis, að ekki verður þagað þar um.  Að eigin sögn hefur ráðherrann sjálfur verið nokkuð efins í þessum efnum.  En tilkoma skipulagðrar glæpastarfsemi í landinu virðist hafa breytt skoðun hans.  Takið skal fram, að samkvæmt hugmyndum ráðherrans á að vera eftirlit með rannsókn lögreglunnar á saklausu fólki´.  Það eftirlit á hugsanlega að vera í höndum Alþingis.

Nú skulum við kalla hlutina sínum réttu nöfnum.  Þegar talað er um „eftirlit Alþingis", er í raun átt við eftirlit stjórnmálaflokkanna, það eru nú einu sinni þeirra fulltrúar, sem á þingi sitja.  Og hver treystir þeim?  Jú, samkvæmt skoðanakönnunum treysta 13% þjóðarinnar Alþingi og þar af leiðandi þeim flokkum, sem þar eiga fulltrúa.

Af hverju skyldi þetta vantraust almennings á stjórnmálaflokkunum og Alþingi þeirra stafa?  Hafi einhverjum dulist það fyrir árið 2008, þá er það nú öllum ljóst, að stjórnmálaflokkarnir gæta ekki hagsmuna almennings, heldur sjálfra sín og sérhagsmunahópa, sem stjórna þeim leynt og ljóst.

Hvað gerðu stjórnmálaflokkarnir, þegar sannleikurinn tók að þvælast fyrir frjálshyggjunni?  Þeir lokuðu Þjóðhagsstofnun og drógu tennurnar úr Fjármálaeftirlitinu.  Allir?  Nei, auðvitað aðeins þeir, sem sátu þá við völd, Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn.  Síðar gekk Samfylkingin til liðs við Sjálfstæðismenn og hélt darraðadansinum áfram.

Og hvað er að gerast nú?  Ráðherrar Samfylkingarinnar eru að fylla ráðuneyti sín flóttamönnum úr hrundu bankakerfi frjálshyggjunnar og forysta Vinstri grænna andmælir því ekki einu orði.  Til þess þykir henni of vænt um ráðherrastólana.

Þegar allt þetta er lagt saman við forsögu flokkanna og forvera þeirra, sögu endalauss undirlæguháttar kaldastríðsáranna við erlend stórveldi í austri og vestri, þá er nokkuð ljóst, að menn treysta stjórnmálaflokkunum hvorki til eftirlits með einu né neinu, allra síst persónulegum upplýsingum um fólk, sem ekkert hefur til saka unnið.

Vissulega er það rétt hjá dómsmálaráðherra, að erlend glæpasamtök hafa skotið rótum á Íslandi.  Spurningin er hins vegar sú, hvort stjórnmálaflokkarnir séu ekki elstu, þróuðustu og best skipulögðu glæpasamtök landsins.


Landfræðileg þröngsýni í Ríkisútvarpinu

S.l. laugardag hlustaði ég á ágætan útvarpsþátt, auðvitað á Rás 1, aðrar útvarpsstöðvar hlusta ég ekki á, ótilneyddur.  Nema hvað, þarna var verið að kynna málþing um Guðrúnu frá Lundi, sem halda skal n.k. laugardag á Sauðárkróki.

Ég verð að játa, að ég hef aldrei lesið bækur Guðrúnar frá Lundi.  En sem drengur hlustaði ég að þær lesnar í útvarpinu og hafði gaman af.  Ég man aðeins óljóst um hvað þær fjölluðu, en samt sitja þær í minni mér, eftir öll þessi ár.  Slíkt verður tæpast sagt um marklaus ritverk. Sennilega er orðið tímabært, að glugga í verk þessar ágætu skáldkonu. 

Nú jæja, í umræddum útvarpsþætti var spjallað við nokkra ágæta menn og konur, sem munu fjalla um Guðrúnu og verk hennar á þessu málþingi.  En svolítið þótti mér skjóta skökku við, þegar þáttarstjórnandinn tók það fram, að ástæða þess, að fjallað var um málþingið, viku áður en það skyldi haldið, væri sú, að það væri haldið svo langt í burtu og ekki einu sinni tekið fram, langt í burtu hvaðan.

Nú er það svo með fjarlægðir, að þær mótast að staðsetningu þess, er í hlut á.  Auðvitað er nokkuð langt milli Reykjavíkur og Sauðárkróks, eða Djúpavogs og Sauðárkróks.  Aftur á móti er harla stutt milli Akureyrar og Sauðárkróks eða Siglufjarðar og Sauðárkróks, svo dæmi séu tekin.  Því þóttu mér fyrr nefnd orð hins ágæta þáttarstjórnanda,  bera þess merki, að heimur hans næði ekki ýkja langt austur fyrir Elliðaár.  Það er vitanlega hans mál.  En Ríkisútvarpið er útvarp allra landsmanna, ekki „Radio Reykjavík 101".

Vonandi mæta sem flestir á málþingið um Guðrúnu frá Lundi, n.k. laugardag, hvort heldur þá ber langt að, eða skammt.


Orðaleikur frjálshyggjunnar á Selfossi

Eins og kunnugt er, vann Sjálfstæðisflokkurinn afgerandi sigur í bæjarstjórnarkosningunum á Selfossi nú í sumar.  Reyndar heitir sveitarfélagið víst Árborg, en það er önnur saga.

Nú hefur nýja bæjarstjórnin ráðið bæjarstjóra.  En þá bregður svo við, að bæjarstjórinn skal ekki lengur kallast bæjarstjóri, heldur framkvæmdastjóri.  Hvað skyldi búa þar að baki?

Fyrirtæki ráða sér framkvæmdastjóra.  Slíkum mönnum er eðlilega ætlað, að tryggja, að viðkomandi fyrirtæki sé rekið með hagnaði.  Fyrirtæki eru nefnilega rekin í hagnaðarskyni og tæpast nokkuð athugavet við það.  Aftur á móti er hlutverk bæjarfélaga annað.  Þau gegna þjónustuhlutverki gagnvart íbúunum.  Það hlutverk er ekki aðeins lögbundið, heldur einnig háð ýmsum siðferðishugmyndum, sem fyrirtæki falla ekki undir.

Auðvitað verður „framkvæmdastjóri" Árborgar aldrei annað en bæjarstjóri í hugum íbúanna.  En framkvæmdastjóratitilinn er merki um, að hin lamaða hönd frjálshyggjunnar láti enn, eins og hún sé í fullu fjöri.

Tungumálið er ekki aðeins tjáningarform; það er einnig valdatæki í hugmyndafræðilegum skilningi.

Að svo mæltu óska ég framkvæmda-bæjarstjóra Selfyssinga og gamalla nærsveitunga velfarnaðar í starfi.


Hvalfjarðargöng - öryggi almennings látið víkja fyrir hagsmunum einstaklinga

Nýlega skiluðu þýskir sérfræðingar á sviði ögyggismála í jarðgöngum því áliti sínu, að Hvalfjarðargöngin uppfylltu ekki á nokkurn hátt öryggiskröfur, sem til slíkra mannvirkja eru gerðar.

Nú hefur komið í ljós, að fyrir margt löngu, bentu menn á, að ekki væri verjandi, að bensínflutningar færu fram um göngin, nema þá á nóttinni.  Þáverandi samgöngumálaráðherra skipaði nefnd til að gera tillögur um úrbætur í öryggismálum gangananna.  Og viti menn.  Þar kom fram tillaga um, að bensínflutningar um Hvalfjarðargöng, yrðu aðeins heimilaðir á nóttinni.  Sú tillaga var hins vegar keyrð niður af fulltrúa olíufélaganna í nefndinni.

Þetta vekur óneitanlega eftirfarandi spurningu; hví var olíufélugunum gefinn kostur á að skipa fulltrúa í þessa nefnd.  Svarið er einfallt; þau eru hagsmunaaðilar.  En ein spurning leiðir af sér aðra; á að taka hagsmuni einstakra aðila, s.s. olíufélaga, fram yfir öryggi almennings?  Viðkomandi ráðherra velktist sýnilega ekki í vafa um það.

Auðvitað á að banna bensínflutninga um Hvalfjarðargöng, sem og önnur jarðgöng, nema á næturnar og þá með því skilyrði, að um leið sé lokað fyrir aðra umferð.  Öryggi heildarinnar ber ævinlega að taka fram yfir hagsmuni einstaklinga!  Svo einfallt er það.


Ríkisútvarpið í hættu

Menntamálaráðherra hefur boðað, að enn skuli hert á sparnaðaraðgerðum hjá Ríkisútvarpinu.  Nú á að spara um 9%.  Þetta mun væntanlega þýða enn minna af aðkeyptu efni og lélegri fréttaflutning.  Hvoru tveggja er alvarlegt mál.  Auk þess má vænta uppsagna, bæði á fréttastofu og meðal dagskrárgerðarfólks. 

Ljóst er, að þetta mun leiða til enn lakari fréttaflutnings og er hann þó ekki merkilegur fyrir, síst hjá sjónvarpinu.  Auk þess má vænta þess, að annað dagskrárefni verði ver unnið en hingað til.

Þetta er slæm þróun, ekki síst í ljósi þess, að Ríkisútvarpið er, þrátt fyrir allt, flaggskip íslenskra fjölmiðla.  Ríkisútvarpið á að vera í öndvegi, hvað varðar upplýsingamiðlun til almennings, sem og miðlun menningarlegs efnis af ýmsu tagi.

Væri nú ekki ráð, að spara ferkar, þar sem spara má að skaðlausu?  Til hvers á ríkið t.d. að leggja fram 80% af rekstri einkaháskóla?  Getur Viðskiptaráð ekki rekið Háskólann í Reykjavík?  Og hví á almenningur að fjármagna Háskólann í Bifröst eða Keili?  Hræða sporin frá Hraðmenntaskólanum ekki?  Þannig mætti lengi telja. 

Aðhald í fjármálum er nauðsynlegt, ekki aðeins á krepputímum eins og nú.  En aðhald í alþýðumenningu eins og hjá Ríkisútvarpinu getur verið stór skaðlegt.


Eiðrof á Landspítalanum?

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram, að Landspítalinn hafi notað raunverulegar sjúkraskrár og það án vitneskju, hvað þá heldur samþykkis viðkomandi sjúklinga, til kennslu varðandi upplýsingakerfi sjúkrahússins.  Persónuvernd hefur málið til athugunar.

Í bréfi framkvæmdastjóra lækninga til Persónuverndar, kemur fram, að hvorki Landspítalinn, siðanefnd hans né embætti landlæknis, hafi séð nokkuð athugavert við þetta háttarlag, enda hafi þetta átt sér stað „í lokuðu rými frammi fyrir eiðsvörnum hópi".

Þegar fólk er ráðið til starfa á heilbrigðisstofnunum, undirritar það þagnareið.  Sá eiður felur í sér skilyrðislausa þagnarskyldu varðandi sjúklinga gagnvart utanaðkomandi fólki.  Þessi eiður takmarkar auðvitað ekki rétt startsfólks til innbirgðis upplýsingamiðlunar varðandi heilsu sjúklinga, sé hún á faglegum nótum.  Hins vegar er honum ætlað að koma í veg fyrir, að upplýsingar um sjúklinga berist óviðkomandi fólki.  Slíkt hefur þó greinilega átt sér stað í þessu tilfelli.  Því hlýtur sú spurning að vakna, hvort breyting hafi orðið á réttarstöðu sjúklinga.  Er það e.t.v. talið í stakasta lagi, að fólk, sem undirritað hefur þagnareið, láti eins og slíkur eiður sé marklaus?  Og hver er þá réttarstaða sjúklinga, hvort heldur er um líkamlega eða andlega sjúkdóma að ræða?

 

  


Umboðsmaður skuldara?

Fari skilningur minn nærri lagi, er umboðsmanni skuldara ætlað að standa vörð um hagsmuni skuldara, ekki aðeins gagnvart lánastofnunum, heldur einnig ríkisvaldinu.  Fyrra atriðið er vonandi öllum ljóst og hið síðara ætti einnig að vera það.  Það er nú einu sinni svo, að ríkisvaldið hefur síðasta orðið, þegar kemur að lagasetningu um lánastarfsemi, sem og annað.

Af þessum sökum er mikilvægt, að sá sem gegnir embætti umboðsmanns skuldara standi í lappirnar gagnvart þeim flokkum, sem fara með ríkisvaldið hverju sinni. Augljóst er, að nýskipaður umboðsmaður skuldara, mun aldrei fá um frjálst höfuð strokið gagnvart Samfylkingunni, enda stendur það ekki til.

Því miður virðist enn hafið yfir allan vafa, að Samfylkingin, jafnt og aðrir flokkar, tekur flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhag.  Þannig veikir hún getu ríkisins, til að standa vörð um heill og hamingju þegnanna.  Gleymum því ekki, að það voru einmitt þessir starfshættir, sem orsökuðu hrunið 2008!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband