Furðuleg yfirlýsing forsætisráðherra

Í dag féll dómur í Hérðasdómi Reykjavíkur varðandi myntkörfulán.  Forsætisráðherra hefur þegar lýst því yfir, að dómurinn sé rökréttur. 

Nú er það svo, að ríkisvaldið á að heita þrískipt, milli löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds.  Allir vita, hvernig framkvæmdavaldið hlutast til um verksvið löggjafarvaldsins.  En það er lágmarkið, að forsætisráðherra sýni stjórnkerfi ríkisins þá virðingu og þann skilning, að hann opinberi ekki skoðanir sínar á störfum og úrskurðum dómstóla.

Þögnin er ekki endilega til skaða, Jóhanna Sigurðardóttir!


Engill í dulargerfi

Björgólfur Thor Björgólfsson hefur gefið út opinbera yfirlýsingu um, að í rauninni sé hann engill í dulargerfi.  Blaðafulltrúi hans hefur staðfest, að um sannmæli sé að ræða.

Oss mun ætlað að trúa!


Fjölmiðlar og ábyrgð

Meðan ég var í Kaupmannahöfn um daginn, fjölluðu fjölmiðlar ýtarlega um hneyksli innan félagsþjónustu eins af hverfum borgarinnar.  Í ljós hafði komið, að starfsfólk, sem átti að liðsinna gömlu fólki, gerði það með hangandi hendi.  Þannig átti hvert gamalmenni t.d. rétt á tveggja klukkustunda þjónustu á dag, en fékk allt niður í fimm mínútna innlit.

Hvernig tóku danskir fjölmiðlar á þessu máli?  Þeir andskotuðust í viðkomandi deild félagsstofnunar, þar til bæði þeir undirmenn, sem þarna áttu hlut að máli, sem og yfirmenn þeirra voru reknir.  Undirmennirnir voru látnir fjúka fyrir vinnusvik en yfirmennirnir fyrir eftirlitsleysi.

Auðvitað voru dönsku fjölmiðlarnir ekki að ana út í neina vitleysu. Þeir könnuðu málið og létu ekki til skarar skríða, fyrr en allt var á hreinu.  Hugsunin hjá þeim er þessi:  „Félagsleg þjónusta við gamla fólkið er hluti almannaheilla.  Þess vegna skal almenningur upplýstur um það, sem miður fer.

Fjármálaeftirlitið hér heima er hluti almannaheilla.  Því ber að hafa eftirlit með fjármálastofnunum og tryggja þannig, að innistæðum almennings sé ekki stefnt í voða.  Reynslan sýnir, að ekki veitir af.  

Nú hefur komið í ljós, að stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur í laumi fyrirskipað rannsókn á meintu fjármálamisferli forstjóra eftirlitsins, meðan hann starfaði hjá Kaupþingi.  Eins og eðlilegt er, fóru fjölmiðlar fram á viðtal við formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins, þegar þeir fréttu af þessu.  Það viðtal fékkst ekki.  Hvers vegna?

Svarið er einfallt; formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins gerir sér ekki grein fyrir því, hverjir húsbændur hans eru.  Hann skilur ekki, að hann er í þjónustu almennings.  Þess vegna á hann að víkja úr starfi.  Allt annað er ógnun, ekki aðeins við hagsmuni innistæðueigenda í bönkum og öðrum fjármálastofnun, heldur beinlínis við lýðræðið í landinu.  Þetta vefst ekki fyrir frændum okkar Dönum.  En því miður virðist jafn einfalt mál ofvaxið skilningi þröngrar og þröngsýnnar valdaklíku þeirrar guðs voluðu þjóðar, er byggir þetta land.

 


Á ferð í Kaupmannahöfn í kirkjugarði

Í gær kom ég heim frá Kaupmannahöfn eftir vikudvöl í þessari fornu höfuðborg okkar Íslendinga.  Ég er löngu hættur að hafa tölu á ferðum mínum þangað.  Enn lengra er síðan ég hætti að skilja í sjálfum mér, að geta yfirgefið þessa yndislegu borg.  En nóg um það.

Síðasta daginn minn í Höfn, í þetta skipti, varð mér gengið um „Kirkjugarð vors Frelsara" á Amager, nánar tiltekið við Amagersbro gade. 

Fátt segir meira um fólk en það, hvernig það minnist sinna nánustu.  Við Íslendingar reisum látnum  ástvinum okkar mjög formleg minnismerki; legsteina með nafni hins látna, fæðingar- og dánardægri og þjóðfélagsstöðu.  Látum þess jafnvel getið hvaðan hinn látni hafi verið, vilji svo til, að hann hvíli fjarri ættarslóð.  Sama gildir um búandfólk, sem grafið er í sinni sveit, bæjarnafns er gjarnan getið á legsteininum.  Íslenskir legsteinar eru m.ö.o. sagnfræðiverk, að vísu í knöppum stíl, en sagnfræði þó.  Og þar telst sjaldnast viðeigandi, að opinbera tilfinningar.  Helst að það sé gert á leiðum barna.  Það er ekki laust við, að þessi háttur Íslendinga á gerð legsteina minni á hermannagrafreiti.  Nákvæmni og formfesta eru þar í fyrirrúmi.

Danir virðast minnast sinna ástvina með nokkuð öðrum hætti.  Auðvitað rakst ég á nokkra legsteina í áðurnefndum kirkjugarði, þar sem lesa mátti nafn, fæðingar- og dánardægur o. s.frv. eins og í íslenskum kirkjugörðum.  En meginreglan virtist vera sú, að í stað kaldhamraðra, sagnfræðilegra staðreynda, gaf að líta á legsteinum hug þeirra, sem eftir lifðu, til hins látna.  Á sumum legsteinunum stóð jafnvel aðeins eitt orð „far" eða „mor"; ekkert nafn, ekkert ártal, þaðan af síður stöðuheiti.  En þótt þessir legsteinar segi ókunnugum ekkert um þann, sem þar hvílir lúin bein, þá vita þeir, sem vita ber, hver í hlut á.  Slíkir legsteinar tjá tilfinningar, meðan dæmigerðir legsteinar í íslenskum kirkjugörðum, segja knappa sögu, eins og fyrr segir.

Sinn er siður í hverju landi, enda fer best á því.  En gaman getur verið, að velta fyrir sér menningu jafn skyldra þjóða og Íslendinga og Dana út frá þessari ólíku hugsun varðandi legsteina.  Má vera, að okkar háttur í þessum efnum lýsi því vel, að í fámenninu skal minning hvers sem flestum kunn, meðan fólki í fjölmennari löndum er slík hugsun framandi.  Og hver veit, nema þetta segi nokkuð um bældar tilfinningar okkar Íslendinga og opnara tilfinningalíf frænda okkar Dana?

 

 


Nokkur orð um „kvikmyndagagnrýni" Fréttablaðsins

Skyldi ekki mega telja listgagnrýni hluta þessarar menningar, sem sumir kjósa að skrifa með stóru „emmi"?  Best gæti ég trúað því.  Og þá skýtur þeirri hugsun upp, að íslensk menning sé, þegar öllu er á botninn hvolft, nokkuð góð hugmynd, sem einhverra hluta vegna hefur láðst að koma í framkvæmd.

Því leiði ég hugann að þessu, að í dag birti Fréttablaðið meinta gagnrýni um kvikmyndinda „Boðberinn", sem ég fjallaði um í síðasta spjalli mínu. 

Ekki kannast ég við nafn „gagnrýnandans" og hirði ekki um, að nefna það hér.  En sýnilegt er, að ekki fellur honum umrædd kvikmynd vel í geð.  Hvort þar koma til hans eigin hvatir, eða sú staðreynd, að hann skrifar í málgagn Baugsfeðga, skal ósagt látið.

Nú er það svo, að mönnum er vitanlega bæði frjálst og skylt, að taka afstöðu til þess, sem fyrir augu ber.  Og líki kvikmyndagagnrýnanda ekki við kvikmynd, ber honum að greina frá því.  Þó hlýtur þess að verða krafist af lesendum, að rök fylgi skoðun.  Því fer fjarri, að svo sé í þessu tilfelli.

Svo mjög er „gagnrýnandanum" umhugað um, að rakka kvikmyndina niður, að hann lætur sig ekki muna um, að nota orð eins og „biblíukjaftæði", auk þess, sem eitthvað, sem hann kallar „heimspekivaðal Gunnars Dal" virðist fara sérstaklega fyrir brjóstið á honum.  Ekki færir hann þó nokkur rök fyrir því, hvaða „kjaftæði" sé að finna í Biblíunni, né heldur hinu, í hverju „heimspekivaðall" Gunnars Dal felist og á hvern hátt hans gæti í umræddri kvikmynd.

Þá leikara „Boðberans", sem ekki teljast til fræðgðarmenna íslenskrar leiklistar, afgreiðir „gagnrýndandinn" með því að kalla þá „nóbodía".  Þó undanskilur hann í því sambandi einn, með eftirfarandi orðum:  „Í raun er minn góði kunningi Þráinn Bertelsson eini maðurinn sem heldur hér haus í örsmáu hlutverki ráðherra í ríkisstjórn.  Leikur hans ber svo af að maður á þá ósk heitasta að hann vippi sér bak við myndavélina og reddi þessu".

Ég verð að játa, að það er skilningi mínum ofvaxið, að kunningskapur umrædds „gagnrýnanda" og Þráins Bertelssonar hafi nokkra þýðingu í þessu samhengi.  En óneitanlega leitar orðið smjaður á hugann.

Vonandi á umræddur „gagnrýnandi" eftir að gera sér það ljóst, að enda þótt hjúum beri að þjóna húsbændum sínum dyggilega, er ekki þar með sagt, að þeim sé skylt, að rugla saman eigin hugsunum og þeirra, sem allra náðasamlegast láta molana hnjóta af borðum sínum.

 

 


Boðberinn - kvikmynd, sem þarft er að sjá og hugleiða

Er hægt að reka út illt með illu?  Þetta er spurningin, sem Hjálmar Einarsson kvikmyndaleikstjóri, veltir fyrir sér í mynd, sem frumsýnd var í Sambíói í kvöld.  Eða ætti ef til vill heldur að segja; getur kristinn maður rekið út illt með illu án þess að misbjóða trú sinni og Guði?

Ytri umgjörð myndarinnar er Hrunið, aðdragandi þess og afleiðingar.  Það merkilega er, að myndin varð nær alfarið til fyrir Hrunið haustið 2008.  Það eina, sem vantaði var mótmælafundur á Austurvelli, sem óvænt kom upp í hendurnar á leikstjóranum með Búsáhaldabyltingunni.

Og þó, ef til vill er þetta ekki svo merkilegt; hugsandi menn sáu hvert stefndi.  Og enda þótt Hjálmar sé ungur að árum er hugsunin í lagi.  Menn skyldu varast, að dæma fólk, fyrir það eitt, að vera ungt.

Fjarri sé mér, að fara að gerast kvikmyndagagnrýnandi.  En ég tel ástæðu til að þakka fyrir þessa mynd.  Hugmyndin er frábær, leikstjórnin til fyrirmyndar, myndatakan með ágætum og leikurinn góður.  En það sem mestu máli skiptir er þó þetta: Myndin stillir áhorfendum upp við vegg; hver er ég, hvar er ég staddur, hvað ber mér að gera?  Mikilvægasta spurningin, sem Boðberinn leggur fram er þó þessi:  Get ég, sé mér misboðið, misboðið Guði?

Ég er svo heppinn, að ganga með hatt.  Því get ég tekið ofan fyrir Hjálmari Einarssyni og þeim, sem unnu með honum að gerð þessarar ágætu kvikmyndar. 

Vissulega er spegillinn ekki vinur þeirra, sem flýja vilja veruleikann.  Samt er þarft að líta í hann, m.a. með því að  sjá myndina Boðberann.


Hefur menntun dregist saman?

Lýðræðið er ekki gallalaust, en þó skársta stjórnkerfið, sem völ er á.  Þó er það fullt af þversögnum.  Ef til vill er það mesta þversögn lýðræðisins, að um leið og það heimilar fólki, að hafa þá skoðun, sem það vill, innan vissra marka þó, byggir það á ákveðnum grundvallaratriðum, sem ekki má víkja frá.

Mannréttindi eru eitt þessara grundvallaratriða lýðræðis og það mikilvægasta.  Meirihlutinn, hversu stór, sem hann er, getur ekki vikið út frá mannréttindum; þá er einfaldlega úti um lýðræðið.  Þetta fengu Þjóðverjar illilega að reyna á tímum nasismans.  Og máttu fleiri gjalda fyrir þann hrunadans.

Menntun er annað grundvallaratriði lýðræðis.  Lýðræði er í raun dreifð aðild að ákvarðanatöku.  Og það krefst þekkingar, að taka ákvörðun.  Þess vegna getur ekki verið um lýðræði að ræða, nema almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum og sækist eftir þeim, taki m.ö.o. upplýsta afstöðu til mála.

Öllum kynslóðum hættir til að telja sig menntaðri en þær kynslóðir, sem á undan gengu.  Hversu oft höfum við ekki heyrt því fleygt, að unga kynslóðin nú, sé sú menntaðasta í sögu þjóðarinnar?

Nýleg skýrsla frá Evrópusambandinu, sýnir, að Íslendingar eru menntunarsnauðasta þjóð Evrópu, að Tyrkjum undanskildum, en raunar er vafamál, hvort telja beri þá Evrópuþjóð.  Í báðum þessum löndum fer aðeins um heldmingur unglinga í framhaldsnám.  Á sama tíma nær þetta hlutfall víða yfir 70% og sumstaðar yfir 80%.

Ekki má gleyma því, að menntun er víðfemt hugtak, sem menn greinir á um, hvaða merkingu hafi.  Áður var talað um lærða iðnaðarmenn og menntaða háskólamenn.  Í þessu fólst, að menn lærðu iðn, en menntuðu sig til akademískra greina.  þessi aðgreiging hefur að ýmsu leyti glatað merkingu sinni, enda er nú svo komið, að háskólar kenna ekki aðeins akademískar greinar, heldur einnig greinar, sem í eðli sínu eru mitt á milli þess, að teljast iðngreinar og háskólagreinar.  Súmar þessara greina voru áður kenndar í sérskólum, aðrar ekki.

Í mínum huga, getur ekki verið um neina menntun að ræða, nema að uppfylltum vissum grundvallaratriðum.  Og þá má einu gilda, hvort menn eru langskólagengnir eður ei. 

Tjáningin er grundvöllur allrar visku og þar með menntunar.  Sá sem hvorki getur tjáð sig, né skilið tjáningu annarra svo vel sé, er ekki menntaður, sama hvaða prófgráðu hann hampar.  Þess vegna er móðurmálskennsla og kennsla í nokkrum erlendum tungumálum grundvöllur menntunar og um leið lýðræðis. 

Sagan er annað grundvallaratriði mennta og lýðræðis.  Án þekkingar á sögu lands og þjóðar, sem og söguþekkingar í víðara samhengi, eru menn sem fiskar á þurru landi og tæpast færir til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi.  Þeir verða óhjákvæmilega leiksoppar óprúttinna áróðursmanna, sem ævinlega ógna lýðræðinu.

Þannig mætti lengi halda áfram.  En eitt er ljóst; skólakerfið á Íslandi hefur, þrátt fyrir tiltölulega litla þátttöku, þanist út á undanförnum árum.  En hvað um menntun, sem grundvöll lýðræðislegs þjóðfélags og andlegs þroska einstaklinga?  Hefur hún ef til vill dregist saman?


Rangæingar á réttu róli

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, fylgdi séra Halldór Gunnarsson í Holti undir Eyjafjöllum eftir samþykkt fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi, og skoraði á þá fulltrúa flokksins á Alþingi og í sveitastjórnum, sem þegið hafa styrki frá vafasömum aðilum, að segja af sér.  Nefndi hann sérstaklega í þessu sambandi þá Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann og Gísla Martein Baldursson borgarfulltrúa.

Eitthvað virðist þessi málflutningur klerksins hafa farið fyrir brjóstið á flokksforustunni, því hún kom í veg fyrir, að tillaga hans um þetta efni, færi inn í stjórnmálaályktun fundarins.  Lagði séra Halldór tillöguna þá fram sem fundarsamþykkt og fór allt á sama veg, fundarstjóri, Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingismaður,  taldi ekki þörf á atkvæðatalningu og sagði tillöguna fallna.  Við þetta kom upp kurr meðal fundarmanna og var atkvæðagreiðslan þá endurtekin.  Reyndist hún hafa verið samþykkt.

Fótgöngulið Sjálfstæðisflokksins sýndi þarna flokksforystu sinni meiri hörku en forysta Samfylkingarinnar hefur mátt þola frá sínu fólki.  Ætli Sjálfstæðisflokkurinn sér framtíð í íslenskum stjórnmálum, tekur hann tillit til þessa.  Og ef fótgöngulið Samfylkingarinnar vill ekki að flokkur þess dagi uppi, tekur það á sig rögg og sýnir spillingaröflum síns flokks rauða spjaldið, eins og Sjálfstæðismenn hafa nu gert á sínum vallarhelmingi.


Ósigur Bjarna Benediktssonar

Pétur Blöndal er einfari íslenskra stjórnmála.  Hann hefur jafnan farið sínar eigin leiðir og fáir fylgt honum eftir.  Það hlýtur því að vekja athygli, þegar hann býður sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins og það að morgni kjördags, og fær 30% atkvæða, meðan sitjandi formaður fær einungis 62%.  Auðir og ógildir seðlar virðast svo hafa verið 8%.

Mér er ekki ljóst, hvort Bjarni Benediktsson er raunsæismaður eður ei.  Ræða hans á landsfundi flokksins, þar sem hann hvítþvær flokkinn af allri ábyrgð á núverandi stöðu mála í landinu, virðist að vísu benda til, að hann lifi fremur í heimi draums en vöku.  Engu að síður hlýtur að mega vænta þess, að hann geri sér ljóst, að úrslit formannskjörsins eru í raun persónulegur og pólitískur ósigur hans.  Flokkurinn í heild sinni, mun bera þann ósigur á herðum sér, nema Bjarni taki staf sinn og hatt og láti öðrum eftir forystu á hægri væng íslenskra stjórnmála.


"Hveragerði er heimsins besti staður."

IMG_2148

Þessa helgina fer fram sannkölluð blómahátíð í Hveragerði, undir heitinu "Blóm í bæ".  Og það eru orð að sönnu.  Bærinn er bólmum skrýddur og mikið um að vera.  Vestan við barnaskólann er stórt sölutjald með handverksmunum af ýmsu tagi, en norðan skólans hefur verið sett um lítið tívolí.

Á myndinni hér að ofan, sést hverngi gamli barnaskólinn hefur verið prýddur blómum.

 

 

IMG_2153

Við höldum okkur enn við gamla barnaskólann. Norðan við húsið eru sígild ævintýri í blómskreyttri mynd.  Hér gefur að líta Rauðhettu og úlfinn.

IMG_2155

Ef þið stækkið þessa mynd (með því að tvíklikka á hana) og athugið skreytinguna á svölunum, sjáið þið prinsessuna á bauninni, þ.e.a.s þá þekktustu þeirra.

IMG_2158

Hún sést betur á þessari mynd. Kannast einhver við svipinn?

IMG_2156

Hér má sjá dvergana sjö.  Mjallhvít hvílir í kistunni.  Er enginn prins í Hveragerði?

IMG_2167

Torgið í Hveragerði; samspil blóma og blaðra.

IMG_2170

Handverksfólk úr Hveragerði í óðaönn við að koma upp sölubásum í tjaldinu vestan við barnaskólann.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband