24.6.2010 | 14:06
Hvað ætlar forysta Sjálfstæðisflokksins að gera í máli Guðlaugs Þórs?
Í júlímánuði árið 2005 sagði stjórn FL-Group af sér með formanninn í broddi fylkingar. Umræddur formaður var Inga Jóna Þórðardóttir, sem um skeið var forystumaður borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Þetta sama ár settist eiginmaðu hennar, Geir Haarde, í stól formanns flokksins, eftir að hafa verið varaformaður. Hann var fjármálaráðherra til 27. september umrætt ár en varð þá utanríkisráðherra.
Af þessu má ljóst vera, að þegar árið 2005, vildi manneskja úr innsta valdakjarna Sjálfstæðisflokksins þvo hendur sínar af samvistum við FL-Group. Samt sem áður þáðu ýmsir frambjóðendur flokksins í prófkjöri árið eftir, háar fjárhæðir frá umræddu fyrirtæki. Og hvað um flokkinn sjálfan?
Nú reyna ýmsir að láta sem óheiðarleiki og jafnvel hrein glæpastarfsemi í íslensku efnahagsbólunni hafi verið öllum hulin allt fram á haustið 2008. Þetta er ekki rétt; ýmsir vöruðu við því, sem var að gerast. En hvorki stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn né þorri þjóðarinnar vildi hlusta á varnaðarorðin. Því fór sem fór.
Við breytum ekki því sem liðið er. En við getum bætt fyrir það! Til þess að svo megi verða, þurfa þeir stjórnmálamenn, sem þegið hafa fé frá FL-Group og öðrum vafasömum fyrirtæknum, að segja af sér. Í því sambandi hlýtur það að teljast undarlegt, að Guðlaugur Þór, styrkjakóngurinn sjálfur, skuli enn sitja á Alþingi. Einu má gilda, hvað hann er að hugsa. En á hvaða róli er forysta Sjálfstæðisflokksins í þessu máli?
22.6.2010 | 00:19
Vanhugsaðar hugmyndir um styttingu hringvegar
Tæpast getur það talist flókið mál til skilnings, að þéttbýli í þjóðbraut bjóði upp á ýmsa möguleika, sem afskekktari bæir og þorp gera ekki. Í ljósi þessa verður að líta andstöðu Blöndósinga og raunar Húnvetninga allra, við fyrirhuguðum breytingum á hringveginum, enda mundu þær leiða til þess, að bærinn yrði ekki lengur í alfara- leið.
Eini ávinningurinn af þessari breytingu yrði sá, að leiðin milli Akyreyrar og Reykjavíkur mundi styttast um 14 kílómetra. Skiptir sá tófuskottsspotti svo miklu máli, að eina þéttbýli Húnvetninga í þjóðbraut, þurfi að gjalda fyrir það, með verulegri fækkun atvinnutækifæra og þar með snauðara atvinnulífi og meðfylgjandi fólksfækkun?
21.6.2010 | 00:47
Á ferð austur í Meðalland
Í dag, sunnudag, lauk heimsókn Villa á Hnausum hjá okkur hjónum í Hveragerði. Við lögðum af stað austur í Meðalland síðla morguns. Ferðinni var fyrst heitið í Skóga á vit fornvinar Villa, Þórðar Tómassonar, safnvarðar þar. Og ekki í kot vísað.
Þegar við höfðum þegið súpu og kaffi, héldum við með Þórði í megin safnið. Hann leiddi okkur fyrst að málverki meistara Kjarvals af Eyjólfi hreppstjóra á Hnausum, föður Villa og forvera í hreppstjóraembættinu. Kjarval var, eins og flestir vonandi vita, fæddur á Efri-Ey í Meðallandi. Hvort það var Villi eða Þórður, sem lét þess getið, að óljóst væri, hvort myndin væri af Eyjólfi hreppstjóra Eða Skaftfellinum yfirleitt? Einu má gilda. Á myndinni má sjá Þórð spila Gamla Nóa á langspil. Við Vilhjálum horfum á. Í bakgrunni er myndin af föður hans, Eyjólfi hreppstjóra á Hnausum.
Lengra var gengið um safnið, enda margs að gæta. En þar kom, að Þórður bað okkur ganga til kirkju í félagsskap norrænna bræðra og systra. Raðaði hann fólki þar skörulega til bekkja og settist að því búnu við orgelið. En áður en upphófst söngurinn, tilkynnti hann gestum, sem satt er, að Villi væri bassasöngvari í sinni sókn. Lögin voru úr samrorrænum menningararfi, þótt ljóðin séu ort á tungu hverrar þjóðar.
Aðdáun okkar norrænu bræðra og systra á söng Villa á Hnausum leyndi sér ekki, enda renna þar saman trú og virðing á sönglistinni. Verður meira krafist?
Að lokinni þessar heimsókn í Skógum héldum við austur á Hnausa í Meðallandi. Þar hefur Vilhjálmur í samvinnu við Þórð á Skógum endurreist fjósbaðstofu, fjós og smiðju sem reist voru, að minnsta kosti fyrir Skaftárelda, og auk þess stofu. Er stofan sú merk fyrir þær sakir, að þar gisti forðum Rasmus Christian Rask, stofnandi Hins íslenska bókmenntafélags. Er ekki vitað til þess, að önnur hús standi, þar sem hann gisti á Íslandi.
18.6.2010 | 21:36
Heimsókn í Sægreifann
Hún getur verið heillandi, hún Reykjavík, þegar sá gállinn er á henni. Þetta fékk ég að sannreyna í dag. Þannig er, að hann Vilhjálmur hreppstjóri á Hnausum í Meðallandi, er í heimsókn hjá okkur hjónum. Og í dag brugðum við okkur vestur yfir Hellisheiði á fund Kjartans sægreifa Halldórssonar frá Syðri-Steinsmýri austur þar. Erindið var, að þeir frændur, Villi og Kjartan gætu skrafað og skeggrætt, svo sem frændum sæmir.
Skaftfellingar eru sem kunnugt er, orðvarir menn, svona flestir hverjir. Fæstum þeirra þykir hæfa, að fullyrða neitt, sem ekki verði staðfest á æðri stöðum. Minnir þetta nokkuð á Færeyinga. Breskur herforingi, sem þjónaði í Færeyjum í síðari heimsstyrjöldinni, skrifaði bók um staðarmenn og nefnist hún The land of maybyes. Vafalaust hefði hann valið bókinni þeirri arna sama titil, ef hann hefði þjónað sínum kóngi í Skaftafellssýslu. Skaftfellingar eiga það nefnilega sameiginlegt með bræðrum okkar í Færeyjum, að fullyrða ekkert um neitt það, sem ekki verður á þreifað. Þannig er Villi á Hnausum.
Og þó, það verður ekki þreifað á öllu, sem umhverfis okkur er. Og þær voru mergjaðar, draugasögurnar, sem Villi á Hnausum sagði Kjartani frænda sínum á Sægreifanum í dag.
Kjartan er ekki í eins góðu sambandi við handanheims verur og Villi á Hnausum. En góð saga kallar á aðra og því vissara, að hafa eitthvað upp í bakhöndina, þegar sagnamenn ber að garði. Enda þótt Kjartan lumaði ekki á jafn mergjuðum draugasögum og Villi, kunni hann frá ýmsu að segja. Þannig var hún ekkert slor, sagan hans af þvi, þegar hann hugðist brugga í tunnu úti í hlöðu á Syðri-Steinsmýri. En þá vildi svo illa til, að gest bar að garði og féll sá ofan í tunnuna. Hefði það orðið hans bani, ef Kjartan hefði ekki verið nærstaddur og bjargað honum frá þeim hraksmánarlega dauðdaga, að drukkna í bruggtunnu.
Veitingahúsið Sægreifinn stendur í gömlu verbúðunum vestur undir Slippnum. Þarna stunduðum við strákarnir úr Vesturbænum og Miðbænum fiskveiðar forðum tíð. Það voru sæli dagar. Við ræddum aflabrögð og horfur, að fiskimanna hætti. Og vorum menn með mönnum. En hætt er við, að við hefðum bráðnað eins og smjer í tunnu á sólríkum sumardegi, ef aðrar eins yndismeyjar og draumadrottninar og hann Kjartan sægreifi hefur í þjónustu sinni, hefði borðið þar að garði.
Ein fór af vakt og önnur kom, sægreifinn kysstur á kinnina og réttur kúrs tekinn út í lífið og tilveruna, eins og vera ber. Þegar æskan og ellin mætast við hafið sjálft, er óendanleikinn sjálfur innan seilingar.
Já, og meðan ég man, þökk fyrir matinn, hann samræmdist vel þýðum og um leið gáskafullum andblæ Sægreifans.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.6.2010 | 13:39
Meinleg málfarsvilla í DV
Undarleg verður að teljast sú fullyrðing DV, að upplýsingafulltrúi Landsbankans, hafi orðið geðveikur við það að detta niður tröppur og handleggsbrotna. Að vísu brotnað hann á báðum handleggjun, en mér er sama. Mér vitanlega er ekkert samhengi milli beinbrota og geðheilsu.
Að öllu gamni slepptu, er ég ekki alveg viss um, að blaðamaðurinn á DV hafi vitað, hvað hann var að skrifa. Í raun var hann aðeins að fjalla um handleggsbrotin. En hann gerði það með þeim orðum, að upplýsingafulltrúinn "gengi ekki heill til skógar", vegna meiðsla sinna. Það orðatiltæki merkir, að vera ekki heill á geðsmunum.
Vonandi verður það aldrei með sanni sagt, hvorki um upplýsingafulltrúa Landsbankans né blaðamanninn sem skrifaði fréttina, að þeir gangi ekki heilir til skógar.
12.6.2010 | 14:53
Hvimleiður misskilningur blaðamanna um einfalda hluti
Í fréttum Ríkisútvarpsins í morgun, var sagt frá deilum varðandi "ríkjasamband" Danmörkur og Færeyja. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem fjölmiðlar hér á landi kalla samband Dana, Færeyinga og Grænlendinga"ríkjasamband".
Orðið "ríkjasamband" merkir samband fleiri ríkja en eins. Skilyrði slíks sambands er, að aðildarríkin séu fullvalda, enda þótt þau geti komið sér saman um ákveðin sameiginleg málefni, s.s. þjóðhöfðngja, utanríkismál eða hermál.
Færeyjar og Grænland eru ekki fullvalda ríki, heldur hluti danska konungsdæmisins. Þau hafa að vísu heimastjórn, rétt eins og Íslendingar höfði á árunum 1904 til 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Eðli málsins samkvæmt getur því ekki verið um að ræða ríkjasamband milli Dana, Færeyinga og Grænlendinga. Þessar þjóðir tilheyra einfaldlega sama ríkinu.
Leitt er til þess að vita, að fréttamenn Ríkisútvarpsins, skuli ekki átta sig á jafn einföldum hlut og ríkjaskipan Norðurlanda, sérstaklega í ljósi þess, að í því tilfelli, sem hér um ræðir, snýst málið um ríki, sem við Íslendingar tilheyrðum sjálfir öldum saman.
10.6.2010 | 16:38
Álfheiður stígur krappan dans
Varast ber, að spara hugsun í kreppu. Það er nefnilega ekki hægt að komast út úr henni, hugsunarlaust. Að þessu mætti Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra hyggja.
Nú hefur blessuð frúin fengið þá flugu í höfuðið, að skipa Náttúrulækningahælinu í Hveragerði, að draga saman seglin um sem nemur 46% af rekstrarkostnaði. Í raun þýðir þetta lokun hælisins. Og þar með atvinnuleysi á annað hundrað starfsmanna, sérstaklega kvenna með lág laun.
Á hverju ári dvelja tæplega 2000 manns á hælinu og er meðalaldur þeirra 64 ár. Ríkið greiðir fyrir 120 rúm en tæplega 50 eru til viðbótar, þegar á þarf að halda, sem er oft, enda er biðtími 3 til 6 mánuðir. Allir, sem á hælinu dvelja, hafa fengið til þess læknisvottorð.
Ýmsar ástæður liggja að baki dvalar á Náttúrulækningahælinu, s.s. eins og hjartveiki og þunglyndi. Hvað þunglyndissjúklinga varðar, er þess að geta, að þarna starfa þrír sálfræðingar og er þjónusta þeirra nýtt út í æsar.
Stór hópur gesta hælisins eru gamlar konur. Það hafa orðið örlög margra þeirra, að ala upp sín börn og jafnvel að koma eiginmanninum til mennta. Enginn hefur látið sig sorgir þeirra og þrár nokkurs varða. Þessar gömlu konur leita sér gjarnan hvíldar á hælinu. Þar njóta þær almennrar umönnunar starfsfólks og sálfræðiaðstoðar. Og þarna hitta þær aðrar konur, sem eru í sömu sporum og þær.
Margar þessara kvenna eru alþýðukonur. Vera má, að þær hafi þegið þakklæti fyrir störf sín, en fjárhagslega hefur ekki verið mulið undir þær. Framlag ríkisins, sem er 70% af kostnaði við hvern gest, er því forsenda þess, að þær geti þegið þá líkn, sem þarna er veitt.
Væri nú ekki ráð, að Álfheiður Ingadóttir sósíalistafrömuður, velti því alvarlega fyrir sér, á hverja hún er að ráðast með þessum niðurskurði sínum?
8.6.2010 | 23:40
Félagsmálaráðherra á villigötum
Árum saman hafa auðhyggjumenn hamast við, að telja þjóðinni trú um, að allur opinber rekstur sé af hinu illa. Þeir hafa úthrópað opinbera starfsmenn, sem hin aumustu sníkjudýr á alþýðunni, eins þótt þeir sjálfir hafi aldrei annars staðar unnið en hjá því opinbera. Nema ef vera skyldi að þeir hafi verið sendlar í bernsku eða borið út Vísi eða Moggann.
Nú hefur þessum hugmyndafræðilegu öreigum borist liðsauki úr óvæntri átt. Félagsmálaráðherra leggur til, að laun opinberra starfsmanna verði fryst í þrjú ár, án tillits til tekna þeirra, starfsaldurs og vinnuálags.
Veit ég vel, að ríkið á í kröggum. En vel mætti félagsmálaráðherra minnast þess, hvar rætur flokks hans liggja; þrátt fyrir allt. Samfylkingin á rætur að rekja til verkalýðshreyfingarinnar og baráttu hennar fyrir bættum kjörum og auknum mannréttindum. Samningsrétturinn er hluti þeirra mannréttinda.
Öllum er ljóst, að opinberir starfsmenn, jafnt og flestir aðrir landsmenn, eru reiðubúnir til að taka á sig sinn skerf af kreppunni, í þeirri von, að henni ljúki sem fyrst. En um það þarf að semja. Og frysting launa allra opinberra starfsmanna, er einfaldlega út í hött.
Ráðherrar eru með hátt í milljón krónur í mánaðarlaun, meðan gangastúlkur á sjúkrahúsum eru með undir 200.000 króna mánaðarlaun. Samt er jafnt dýrt fyrir báða þessa hópa, að fæða sig og klæða. Nauðsynlegur matur, til að halda í sér lífinu kostar það sama, hvort heldur það er gangastúlka á Landspítalanum, eða ráðherra, sem meltir hann. Og ráðherra þarf ekki að hysja upp um sig fínni buxur en hver annar, til að ganga snyrtilega til fara. Væri því ekki snjallræði, að félagsráðherra sýndi fagurt fordæmi og lækkaði sín eigin laun, áður en hann fer að ráðast á samningsrétt launafólks, sem sumt hvert hefur ekki úr miklu að moða?
3.6.2010 | 22:52
Íslandspóstur úti á túni
Hún Maddý í Húsinu á túninu á Sigló er auðvitað eina Maddýin í Húsinu á túninu á Sigló. Og vitanlega er það klárt mál, að allir í bænum vita hver hún er, og þá alveg sérstaklega pósturinn, sem ber henni bréf. Annað hvort væri nú í 1200 manna plássi.
En nú hefur það komið í ljós, að hjá gáfnaljósunum á Íslandspósti í Reykjavík er bannað að senda bréf til Maddýar í Húsinu á túninu, nema það sé áritað með kirkjubókarfærðu nafni og húsnúmeri upp á reykvískan móð. Skýtt með alla skynsemi", segja þeir fyrir sunnan og þykir fínt.
Banni þessu til árettingar, hefur Íslandspóstur tekið sér það bessaleyfi, að opna bréf til Maddýar í Húsinu á túninu, að sögn þeirra á póstinum, til að ganga úr skugga um, að bréfið þar arna sé örugglega til Maddýar í Húsinu á túninu.
Það leynir sér ekki; mannskapurinn hjá Íslandspósti í Reykjavík er laglega úti á túni.
1.6.2010 | 20:43
Eru stjórnvöld í Ísrael gengin af göflunum?
Óþarft er að rekja nýjustu tíðindi fyrir botni Miðjarðarhafs hér. Ætla mætti, að Ísraelsmönnum væri það sérstakt keppikefli, að glata samúð umheimsins. Að láta sér detta það í hug, að útskýra morð á vopnlausu fólki um borð í hjálparskipi, með því, að skotið hafi verið á þrælvopnaða úrvalshermenn úr teygjubyssum, er kaldhæðni handan mannlegs skilnings.
Hvað okkur Íslendinga varðar, hlýtur það að vekja nokkra athygli, að fyrst nú, 23 árum eftir stofnun samtakanna Ísland-Palestína, skuli utanríkismálanefn Alþingis hafa kallað fulltrúa félagsins á sinn fund vegna ástandsins í Palestínu. Vonandi er þetta merki þess, að Íslendingar taki loks einarða afstöðu með þeim, sem berjast fyrir rétti palestínsku þjóðarinnar til sjálfstæðis. Með því yrði ekki aðeins Palestínumönnum rétt hjálparhönd, heldur einnig þeim fjölmörgu gyðingum, innan og utan Ísraels, sem barist hafa fyrir friði í þessum stríðshrjáða heimshluta.
Það vekur sérstaka athygli, að um borð í hjálparskipunum sex, voru m.a. gyðingar, sem lifðu af helför gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni. Hver hefði trúað því, að það fólk ætti eftir að standa frammi fyrir nöktum byssukjöftum ísraelska hersins?