Færsluflokkur: Menning og listir
4.10.2008 | 20:15
Steinn Steinarr LXIX
Mánudaginn, þann 13. október verður öld liðin frá fæðingu Steins Steinarss. Það sem af er þessu ári, hef ég fjallað um hann og verk hans um helgar hér í þessu spjalli. Vegna aldarafmælisins mun ég hins vegar birta næsta spjall um skáldið á afmælisdaginn. Og er þá mál að linni.
En meðal annarra orða; það er mikið talað um kreppu. Áður var ímynd mönnum töm á tungu. Engum var ætlað að vera eitt eða neitt, það eina sem skipti máli, var að ímyndin væri í lagi. Og er ég alls ófróður um, við hvað var átt. Skyldi þó aldrei vera, að skýringar væri að leita í ljóði Steins,
Hámarksverð á bókum"
Hámarksverð á bókum,
blóðheit kona,
barn í sveit.
Í dag hef ég setið
á sundbol og lesið
Úr síðustu leit".
Og allt sem ég vissi
var ímynd þess hlutar
sem enginn veit.
27.9.2008 | 20:44
Steinn Steinarr LXVIII
Í Kiljunni," bókmenntaþætti Ríkissjónvarpsins, hélt stjórnandi þáttarins, Egill Helgason því fram um daginn, að seinustu æviárin hafi Steinn Steinarr verið stækur hægrimaður," eins og hann komst að orði. Því er ekki að neita, að þessi skoðun Egils kom mér á óvart, enda veit ég ekki, hvað maðurinn hefur fyrir sér. Tæpast dregur hann þessa ályktun um pólitískar skoðanir Steins út frá frægri gagnrýni hans á Sovétríkin og innrás þeirra í Ungverjaland 1956 eða gagnrýni hann á Halldór Laxness fyrir að fara á s.k. Heimsmót æskunnar" í Moskvu árið eftir innrásina. Hvoru tveggja var mjög gagnrýnt af þeim vinstri mönnum hérlendis, sem ekki voru bundnir á klafa stalínisks rétttrúnaðar Kristins E. Andréssonar og félaga.
Hvað sem því líður, þá þarf ekki sérlega nákvæman lestur á verkum Steins, hvorki ljóðum hans né lausu máli, til að sjá, að meint hægri mennska" hans á ekki við rök að styðjast. Vonandi hefur Egill einfaldlega verið að tala fyrir hljóðnemann, eins og verða vill í slíkum þáttum. Í það minnsta ætla ég rétt að vona, að nafn Steins Steinarrs verið ekki notað til að endurvekja kalda stríðið í íslenskri bókmenntaumræðu. Nóg er nú samt.
19.9.2008 | 13:08
Steinn Steinarr LXVII
Árið 1933 kom út einhver sú yndælasta ljóðabók, sem enn þann dag í dag hefur komið fyrir sjónir Íslendinga. Hér á ég við Fögru veröld", Tómasar Guðmudssonar. Önnur eins ljóðræn hugljómun hafði ekki gripið þjóðina, síðan Davíð frá Fagraskógi hóf sig til flugs á sínum Svörtu fjöðrum" árið 1919.
Tveimur árum eftir útgáfu Fögru veraldar", þ.e. árið 1935, samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur, að tillögu nokkurra málsmetandi skálda og menntamanna, að veita Tómasi 3000 króna styrk til utanfarar. Síðan hefur Tómas Guðmundsson verið hið opinbera borgarskáld Reykjavíkur, með ákveðnum greini.
Eins og ég hef áður fjallað um bæði hér á blogginu" og víðar, er þó ekki allt sem sýnist í þeim efnum. Tómas var nefnilega ekki það borgarskáld, sem margur hyggur. Í þekktasta Reykjavíkurljóði sínu, Austurstræti", kemst hann m.a. svo að orði:
Og jafnvel gamlir símastaurar syngja,
í sólskininu og verða grænir aftur."
Svona yrkir enginn, nema sá, sem á rætur sínar að rekja til sveita, eins og Tómas gerði. Hin raunverulegu borgarskáld Reykjavíkur á 20. öld, voru auðvitað Steinn Steinarr og Vilhjálmur frá Skáholti. Þeir áttu það hins vegar sammerkt, að vera ekki hallir undir Sjálfstæðisflokkinn, eins og Tómas Guðmundsson. Og það var sá flokkur, með fulltingi Morgunblaðsins og skólakerfisins, sem gerði Tómas að borgarskáldi. Við hin, nutum einfaldlega ljóða hans á eigin forsendum og út frá þeim sjálfum, í allri þeirra fegurð og tærleika. Og gerum enn.
Á áttunda áratug síðustu aldar var Tómasi reist stytta í Austurstræti. Þetta var lítil brjóstmynd á háum stalli. Skáldið var þá enn á ferli um bæinn og bar sig vel, þrátt fyrir háan aldur. Hann gekk hnarreistur um götur og torg. Þessu var þó ekki þannig varið, þegar hann neyddist til að ganga fram hjá styttunni þeirri arna. Ég varð nokkrum sinnum vitni að þessu. Þegar Tómas nálgaðist styttuna, fór hann allur í keng og hraðaði sér sem mest hann mátti í burtu. Það var engu líkara, en honum þætti hausinn á stallinum senda sér illþyrmislegt augnaráð. Síðar hurfu þeir báðir af götum borgarinnar, skáldið og hausinn.
En nú hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt til, að enn verði komið upp styttu af Tómasi Guðmundssyni. Minnihlutamenn í borgarstjórn benda á, að það væri meira í takt við tímann, að reisa honum minnismerki með öðrum hætti og Mogginn tekur undir það í leiðara í gær. En það er eins og enginn, hvorki Moggamenn, né meirihlutamenn eða fulltrúar minni hlutans í borgarstjórn viti af því, að í ár er aldarafmæli Steins Steinarrs. Ætlar þetta fólk, að fagna þeim merku tímamótum í menningarsögu lands og borgar, með því að reisa minnismerki um Tómas Guðmundsson?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2008 | 22:05
Steinn Steinarr LXVI
Í Ýmsum kvæðum" Steins birtist stutt ljóð, sem hann kallar einfaldlega Afmælisvísu" og lætur þess getið innan sviga fyrir neðan titil, að ort sé til fornbókasala. Kvæðið er svona:
Nú er dimmt á Núpufelli,
nú er hljótt um Skálholtsstað,
Hólar gömlu í hárri elli
horfa á prest sinn mylja tað,
loks er andinn lagður að velli,
ljósið slokknað - nóg um það.
En þú, sem kátur kaupir og selur
kverðin fornu snjáð og lúð,
veizti, að hljóðlát hjá þér dvelur
heimsins gleymda tign og skrúð?
Á meðan pening minn þú telur
mundu að þetta er ódýr búð.
Svo mörg voru þau orð. Lengi hefur mig langað til að vita, um hvern sé ort. Helst dettur mér Guðmundur Gamalíelsson í hug í því sambandi, en hann rak um langt skeið fornbókaverslun í Lækjargötu 6A. Síðar tók Jóhann Pétursson rithöfundur, oftast kenndur við vitavörslu, við þessari verslun og gæti svo sem einnig komið til greina í þessu sambandi. Er einhver lesandi svo fróður, að geta svalað forvitni minni?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.9.2008 | 09:54
Steinn Steinarr LXV
Hví skyldi Steinn Steinarr vera svo mörgum hugstæður, sem raun ber vitni? Svari hver fyrir sig. Hvað mig varðar, þá urðu ljóð hans og lausamál fyrst til að grípa hug minn þegar ég var milli tektar og tvítugs. Þar við bættist, að ég var svo heppinn, að kynnast ýmsum, sem þekkt höfðu Stein. Með aðstoð þessa fólks, fékk ég ef til vill gleggri sýn á hann, en aðra þá, sem aldrei hafa á vegi mínum orðið í lifanda lífi. Því fór það svo, að skáldið og verk þess ófust saman í huga mér. Þar í milli hefur ekki slitnað síðan.
Það hefur væntanlega ekki farið milli mála í þessu spjalli mínu um Stein, að ég set hann í öndvegi íslenskra skálda, allar götur frá því hann birti fyrst ljóð sín á fjórða áratug síðustu aldar og til þessa dags. En ólíkt flestum öðrum skáldum, er líf hans og verk svo samtengd, að tæpast verður sundur greint. Það er ekki mitt að meta, hver eða hvað mótar mönnum örlög. En þegar öllu er á botninn hvolft er ævi Steins, þrákelkni hans, biturð en um leið óbugað stolt stærsta sköpunarverkið, sem eftir hann liggur og órjúfandi hluti skáldskapar hans.
Af eldri skáldum þeirrar náttúru, að líf þeirra og ljóð verði ekki sundur skilið, koma upp í hugann þeir séra Hallgrímur Pétursson, Bólu-Hjálmar og Stephan G. Og má þá ekki gleyma samtíðarmanni Steins, Vilhjálmi frá Skáholti. Lífsþráður þessara allra skálda er ólíkum þráðum spunninn, bæði Steins og þeirra sem að framan eru nefndir. En það er galdur í honum hjá þeim öllum, eins og í verkum þeirra.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.8.2008 | 21:01
Steinn Steinarr LXIV
Skáldskapur er tvíhöfða skepna, annar hausinn hefur hátt á torgum en hinn stundar feluleik. Þessa gætir víða í skáldskap Steins og þá ekki síður í því, sem hann lætur hafa eftir sér í blaðaviðtölum og greinum. Árið 1950, segir hann t.d. í blaðagrein, sem sjá má í Kvæðasafni og greinum:"
Ég veit sáralítið um þessa svokölluðu ljóðlist. Samt trúi ég því, að Matthías gamli og Einar Ben. hafi verið dýrleg skáld -- og síðan ekkert. Mér er óskiljanlegt, hvers vegna engir komu í þeirra stað. Að vísu hefur vinur minn, Sigurður Jónasson, útskýrt þetta fyrir mér, en það er dularfulls eðlis og verður ekki nánar tilgreint hér. Einnig trúi ég því, að til séu skáld í útlöndum, en það eru undarlegir menn og ekki við alþýðu hæfi. Um gildi ljóðlistar, andlegt eða líkamlegt, get ég ekkert sagt með neinni vissu. Heyrt hef ég raunar, að bændur í afskekktum sveitum kunni ennþá fáeinar vísur, sem þeir hafa sjálfir ort, en hér í Reykjavík hef ég aldrei heyrt ódrukkinn mann hafa yfir kvæði síðan haustið 1933."
Svo mörg voru þau orð og ber að taka bókstaflega að hætti Steins. Sjálfur hef ég aldrei vitað til þess, að Íslendingar hampi ljóðlist sérstaklega, nema þá til að verma hjörtu kvenna eða argaþrasast í pólitík og þá oftast með stuðlum og höfuðstöfum. Er það að vonum, því umrædd þjóð er svo veraldlega þenkjandi, að hún telur jafnvel hamingju sína mælanlega í lítrum eins og mjólk. Skyldi það ekki bara vera rétt hjá Steini, að ódrukkinn maður hafi síðast haft yfir kvæði á Íslandi haustið 1933. Sennilega hefur þetta verið um mánaðarmótin september/október.
22.8.2008 | 07:43
Steinn Steinarr LXIII
Í síðustu viku var ég að velta því fyrir mér, hvers vegna opinberir aðilar gera ekkert til að minnast aldarafmælis Steins, eftir allt tilstandið á tveggja alda afmæli Jónasar Hallgrímssonar árið 2007. Auðvitað hef ég ekki fundið á þessu nokkra skýringu. Þó sakar ekki að velta málinu fyrir sér.
Vitanlega er ég ekki að agnúast út í hátíðarhöldin til heiðurs Jónasi; þó nú ekki væri. Þeir Jónas Hallgrímsson og Steinn Steinarr eiga það sammerkt, að báðir vega þeir að yfirvöldum síns tíma, hvor með sínum hætti. Hjá Jónasi eru það dönsk stjórnvöld, sem fá á baukinn, meðan Steinn veitist að íslenskum stjórnarherrum og pólitíkusum, sem neðar stóðu í metorðastiganum, en langaði auðvitað ósköpin öll upp á hærri skör. Það er langt um liðið síðan Jónas dró fjaðurpenna yfir örk. Danskurinn er ekki lengur hér. Aftur á móti sitja hér enn að völdum, a.m.k. í megin dráttum, sömu valdaöflin og Steinn hýddi háðuglega fyrir ekki svo löngu síðan. Það skyldi þó ekki hugsast, að þessi öfl telji, sjálfra sín vegna, best að breiða þögn yfir minningu Steins? Enn spyr sá, sem ekki veit. Hitt veit ég, að allt á sína skýringu, hvort heldur það er gert eða ógert látið.
Auðvitað má ekki gleyma þeim möguleika í þessu sambandi, að stjórnmálamönnum hafi einfaldlega yfirsést aldarafmæli Steins. Ef til vill veit enginn í menntamálaráðuneytinu eða menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar, að Steinn Steinarr hafi nokkru sinni verið til. Hann var jú að eigin sögn aðeins til í eigin ljóði." Það skyldi þó aldrei hafa átt að taka þau orð skáldsins bókstaflega. Hvað veit ég, fáfróður maðurinn?
16.8.2008 | 00:01
Steinn Steinarr LXI
Don Quijóte ávarpar vindmyllurnar
Ég, hinn aumkunarverði riddari réttlætisins,
ég, hinn hörmulegi og skoplegi verjandi sakleysisins
segi við yður:
Sjá!
Hér mun nú barizt verða.
Minn Herra gaf mér hatrið til lyginnar,
minn Herra kenndi mér að þekkja lygina,
hvaða dularbúningi sem hún býst.
Minn Herra léði mér fulltingi sannleikans,
hins hreina, djúpa, eilífa sannleika,
sem ég þó aðeins skynja til hálfs.
Með hálfum sannleika berst ég gegn algerri lygi.
***
Ha, pólitík?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2008 | 00:01
Ráðhúsvísa
Þessi varð á vegi mínum í kvöld:
Réðu sínum ráðum,
í ráðhúsi urðu dús,
þó færi það fram hjá báðum;
fundust þar fíll og mús.
12.8.2008 | 16:40
Ekki fleiri kubbahús við Laugaveginn, þökk fyrir
Laugavegurinn er helsta verslunargata Reykjavíkur. Hann er lífæð borgarinnar ásamt Kvosinni. Á góðviðrisdögum iðar hann af mannlífi og hann er meira að segja síður en svo líflaus, þótt veðurguðirnir séu í vondu skapi. Hvers vegna skyldi þetta vera? Hví versla ekki allir í "kringlunum"?
Því er fljótsvarað; verslun er ekki aðeins kaup og sala, hún er á sinn hátt listaverk. Þess vegna krefst hún réttrar umgjörðar. Sú umgjörð verður ekki sköpuð af arkitektum; hún verður til í hugarfylgsnum fólks. Það gildir um flesta kaupmenn, verslunarfólk og viðskiptavini, að þetta fólk vill vera ákveðin stærð í viðskiptunum. Ég man þegar frændur mínir ráku skóverslun L.G.L. við Bankastræti. Meðal afgreiðslufólks þar var Ingólfur Ísólfsson bróðir Páls dómorganista (sagði reyndar sjálfur aðspurður um þann skyldleika, að hann væri ekki bróðir Páls, heldur væri Páll bróðir sinn). Ingólfur var verslunarmaður af Guðs náð. Skósalan var honum listgrein og þegar hann hafði selt skóna, pakkaði hann þeim meira að segja inn með listrænum tilþrifum. Allir Reykvíkingar vissu, að það var upplifun, að versla við hann. En umgjörðin utan um þessa leikþætti Ingólfs Ísólfssonar mátti ekki vera stærri. Hann hefði orðið að krækiberi í helvíti í Kringlunni eða Smáralind.
Laugavegurinn er einmitt hin hæfilega stóra umgjörð verslunar. Þessa umgjörð má ekki eyðileggja með ógnarkassa utan um Listaháskólann. Það eru engin rök, að hann mundi auðga mannlífið við Laugaveg eða að að mannlíf gæti auðgað skólann. Listaháskólinn á einfaldlega ekki heima við Laugaveginn. Hann á að vera framlenging Miðbæjarins. Þess vegna á að reisa honum hús í útjaðri Miðbæjarins, t.d. við Sölvhólsgötu eða vestur við Nýlendugötu. Þannig mundi Miðbærinn stækka og eflast. En auðvitað fengu eigendur lóðarinnar við hornið á Laugavegi og Frakkastíg ekkert fyrir sinn snúð. Er það ef til vill það, sem málið snýst um, í augum þeirra, sem endilega vilja hafa skólann við Laugaveg?