Færsluflokkur: Menning og listir

KK góður liðsmaður gömlu Gufunnar

Undanfarna mánuði hefur sá ágæti tónlistamaður Kristján Kristjánsson, KK, tekið þátt í morgunútvarpi gömlu góðu Gufunnar.  Útvarpinu hefur þar sannanlega bæst góður liðsmaður.  Lagaval hans er smekklegt og spjallið milli laganna þægilegt.  Fjölbreytnin í lagavalinu er einnig með ágætum.  Það er t.d. ekki dónalegt, að heyra góða kvæðamenn í útvarpinu.  Hafi KK bestu þakkir.


Erindi flutt í kvöld á bókasafni Hveragerðis

  Á miklum umbrotatímum geta það orðið örlög þjóða og einstaklinga, að hið stærsta verður ekki greint frá því smærsta. Þannig fór Bandaríkjamönnum eftir síðari heimstyrjöldina, gagnvart skáldinu Ezra Pound og sömu örlög biðu Norðmanna varðandi Knut Hamsun, höfuðskáldi sínu á 20. öldinni og raunar dulítið lengur.

         

Báðir þessir listamenn sviku föðurland sitt, hvor á sinn hátt.  Hér verður ekki rakið, hvað leiddi þá á götur fasismans, enda er þess ekki kostur í stuttu máli.  En eftir að sú helstefna hafði beðið skipbrot á vígvöllum síðari heimsstyrjaldarinnar, voru báir þessir menn handteknir fyrir landráð.

         

En nú brá svo við, að líkt og Bandaríkjamenn þorðu ekki almennilega í Ezra Pound, þá veigruðu Norðmenn sér við að ganga milli bols og höfuðs á Knut Hamsun.  Báðir voru þessir andans jöfrar því einfaldlega úrskurðaðir geðveikir og sem slíkum haldið um sinn á stofnunum fyrir slíka sjúklinga, uns þeim var sleppt lausum til að gleymast, hvað hvorugur þeirra raunar gerði.

         

Sú er náttúra spurninga, að  vekja ekki svör, heldur aðra spurn.  Og nú er spurt;  getur þjóðfélag, sem með réttu eða röngu telur sig svikið af einstökum mönnum, sem snilli sinnar vegna hafa notið virðingar, komið sér undan uppgjöri við þá, ef út af ber í sambúð manns og þjóðar, með því að úrskurða þá geðveika? 

         

Nú verður hver að svara fyrir sig.  En svo mikið er víst, að geðveikin hrjáði hvorki Ezra Pound né Knut Hamsun.  Báðir nýttu þeir einfaldlega hæfni sína í þjónustu afla, sem áttu í stríði við föðurland þeirra.

         

Lýðræði gegn einræði?  Það má velta því fyrir sér, hvort slík spurning teljist ekki einföldun í þessu samhengi.  Og ein spurning vekur aðra, eins og fyrr segir:  Geta lýðræðissamfélög, sem átt hafa í stríði við einsræðisöfl, úrskurðað menn úr eigin röðum ófæra til refsingar sökum geðveiki? Eiga ekki jafnt þeir sjálfir, sem og fórnarlömb þeirra, sem þeir styðja, lýðræðislega kröfu á almennum réttarhöldum og viðeigandi dómi?       

         

Svo vill til, að það er ekki aðeins frænda okkar Norðmanna og Bandaríkjamanna, að velta þessu fyrir sér.  Á helstu umróta- og hörmungartímum síðustu aldar áttum við Íslendingar sjálfir tvo merka rithöfunda, sem aðhylltust hvor sína helstefnuna.  Gunnar Gunnarson hneigðist að fasisma og Halldór Laxnes laut kommúnisma í fölskvalausri aðdáun.  Reyndar lenti hvorugur þeirra í þeirri aðstöðu, að þurfa að vega og meta, hvort heldur bæri að meta hærra, hollustuna  við eigin þjóð eða erlendar ofbeldisstefnur.  Kannske var það líka eins gott, allra hluta vegna.

Útskriftartónleikar Grétars Geirs Kristinssonar

IMG_1149 (10)  

 

Líkt og ljóðið er einfari bókmenntanna er gítarinn hinn eimnana förumaður tónlistarinnar.  Þess vegna ómar tregi, kraftur og blíðleiki gítarsins í fögrum ljóðum um leið og gítartónlist er í raun ljóð á strengjum.

Í kvöld naut ég þeirrar ánægju, að fara á útskriftartónleika Grétars Geirs Kristjánssonar gítarleikara í Salnum í Kópavogi.  Grétar Geir hefur nú lokið námi frá Listaháskólanum, þar sem hann hefur verið undir handleiðslu Péturs Jónassonar. Þessir tónleikar lofa jafnt meistarann sem sveininn.

Mannskepnan hefur það til siðs, að sigra heiminn í æsku.  Og þó stendur hann jafnan af sér alla þessa ósigra.  En þótt æskan lifi í draumheimi, þá er það samt sem áður sigurganga hennar, sem er fram undan.  Grétar Geir þarf tæpast að kvíða þeirri göngu.  Lagaval hans á tónleikunum var djarft.  M.a. spilaði hann Chaconne úr fiðlupartítu nr. 2 eftir J.S. Bach í útsetningu Segovia.  Sá síðarnefndi var vart álitinn með öllum mjalla, þegar hann flutti þessa útsetningu í París á fyrri hluta 3. áratugs síðustu aldar; svo erfitt þótti verkið í flutningi.

Grétar Geir skilaði þessu verki, sem og öðrum á þessum tónleikum með mikilli prýði.  Hafi hann þökk fyrir og megi hann njóta góðrar ferðar um hinar ljóðrænu lendur gítarsins.


Svo bregðast krosstré, sem önnur tré

Jónas Jónasson er einn þeirra útvarpsmanna, sem ég hef nokkurt dálæti á.  Þess vegna hlakkað ég mikið til, að hlust á nýjan þátt hans, Sumarraddir, en hann hóf göngu sína í morgun.  Og ég varð ekki fyrir vonbrigðum; þar til í lokin.  Þá kvaddi Jónas okkur hlustendur með eftirfarandi orðum: Hafið þið góðan dag.

Þetta er ekki íslenska, heldur yfirfærð enska, s.k. ísenska.  Englendingar kveðjast gjarnan með orðunum; have a good day.  Það er þeirra háttur.  Við kveðjumst með öðrum hætti, s.s. að segja verið þið sæl, svo aðeins einn möguleiki af mörgum sé nefndur.

Ég hlakka til að hlusta á næsta þátt Jónasar og vænti þess, að hann kveðji mig að aðra hlustendur á óbjagaðri íslensku.  Ekki skortir hann hæfnina til þess.


Gunnar H. Jónsson, gítaristi, áttræður.

Gunnar gítaristi, sá magnaði strengjatogari og sagnamaður er áttræður í dag.  Það er ekki öllum gefið, að tjá sig á jafn kyngimagnaðan hátt og hann gerir, hvort heldur er í orðum eða tónum.  Að öðrum ólöstuðum mun hann hafa kennt flestum af okkar bestu klassísku gítaristum, enda hefur hann í sér seiðinn, sá gamli.

 

Skyldu ekki vera liðin um það bil 25 ár, síðan Gunnar fluttist norður til Akureyrar?  Best gæti ég trúað því.  Þeir voru nú svolítði dannaðir, þarna fyrir norðan, a.m.k. þóttu þeir það í gamla daga og ekki alveg laust við, að þeir séu það enn.  Ég hef t.d. séð það til þeirra, að þeir klæðast sérstöku uniformi, þegar þeir þvo blikkbeljurnar sínar. Hvernig skyldi þeim lítast á það, þegar ég held því fram, að Gunnar, þessi útilegumaður Íslands   þúsund ára, sé höfuðprýði staðarins?  Og ég sem trúi því ekki upp á hann, að hann stundi bílaþvott, í það minnsta ekki á grænum stígvélum, eins og staðarmenn á hans slóðum gera.  Ekki að það skipti máli.  Og það má fjandinn vita, hvort hann er ekki göldróttur ofan í kaupin.  Það þori ég ekki að ræða frekar.  Aftur á móti fær Gunnar gítaristi hér með mínar kveðjur og minna.  Lifðu heill.

  

Bók, sem allir verða að lesa - og ekkert múður

Mig langar til að vekja athygli á yndislegri bók, sem ég var að lesa í dag, eftir að þýðandinn, Vilborg Dagbjartsdóttir gaf mér hana í gær, í bland við ósvikna fræðslu um vatnslitakúnstina.  Þetta er lítil bók, aðeins 54 blaðsíður og í litlu broti. En bókin sjálf, sem prentverk er yndi allra sannra bókamanna.  Og innihaldið er ekki síðara.

Bókin sú arna heitir einfaldlega Sakiþýðingar Vilbjargar Dagbjartsdóttur.  Þarna er að finna þrjár stuttar smásögur eftir Bretann Hector Hugh Munros, sem skrifaði undir skáldanafninu Saki.  Ýmsir vilja halda því fram, að hann sé hinn eini sanni meistari smásögunnar á 20. öld.  Læt aðra dæma um það.  En þýðingar Vilborgar eru meistaraverk.

Saki var fæddur í Burma, árið 1870, en þar var faðir hans embættismaður nýlendustjórnar Breta.  Móður sína missti drengurinn barnungur og var þá sendur til Englands, þar sem tvær íhaldssamar kerlingaherfur úr hinni óforbetranlegu viktoríanösku miðstétt ólu hann upp.  Þær sögur, sem birtast í þessari bók, lýsa einmitt uppreisn drengja gegn slíkum fraukum og þeim aðstæðum, sem þær skópu sjálfum sér og öðrum.  Þótt einn drengur sé til hverrar sögu nefndur, dylst ekki, að um sama dreng er að ræða í öllum sögunum.  Til eru þeir, sem halda því fram, að Astrid Lindgren hafi sótt ýmislegt í smiðju Saki.  Ég skal ekki segja.  En svo mikið er víst, að mér kom Emil í Kattholti í hug, þagar ég las fyrstu söguna í bókinni þeirri arna, en hún heitir Ruslakompan.

Þrátt fyrir að hann væri kominn yfir venjulegan herþjónustualdur, gekk Saki í herinn í upphafi fyrri heimsstyrjaldar og þar féll hann, undir árslok 1916.  Hann var skotinn af þýskri leyniskyttu, sem gat miðað hann út á sígarettuglóð.  Sagan segir, að andlátsorð hans hafi verið: „Drepið í andskotans sígarettunni". 

Hafi Vilborg heila þökk fyrir, að kynna mér þennan frábæra höfund með snilldarþýðingum sínum. 


Breyttir tímar í listinni

Undanfarna áratugi hefur listagyðjan  verið einskis manns ástkona; hún er skyndikona.  Hún stendur á markaðstorgi hégómans, og lyftir pilsi, þegar hugsanlegur viðskiptavinur á leið um.  Hver veit, nema hann eigi banka eða verslunarkeðju? 

Æi, nei, nú eiga menn víst ekki banka lengur og farið að hitna undir baunasöluköppunum.  Og einu hljóðin, sem berast frá púntnahúsi listarinnar við gömlu höfnina, hálfköruðu, er gnauð napra vetrarvinda og krunkið í krumma.

Og tíminn líður; eftir sem áður er ort á landi hér, menn draga liti á striga og tónar hljóma.  Skyldi hin lausláta listagyðja ekki brátt leita sér skjóls í rústum upphafningarinnar.


Um ævisögu Dags Sigurðarsonar

Það eru tvær hliðar á hverju máli og jafnvel fleiri á mönnum.  Dagur Sigurðarson var síbernskur maður á ytra borði.    Rætur þessa lágu í bernsku hans, skilnaði foreldra hans og þeirri staðreynd, að hann, mömmudrengurinn, hafnaði hjá föður sínum, fimm ára gamall.  Og það tók hann alla ævina, að vinna úr því, að ástæðan var einfaldlega sú, að móðir hans hafnaði honum. 

Dagur brást við með því að setja upp grímu trúðsins. Undir þeirri grímu leyndist viðkvæm lund manns, sem alla ævina var það um megn, að horfast í augu við þá mynd, sem við blasti.  Þess vegna varð hún til, yfirborðsmyndin, af stráknum af borgaraslektinu, sem barðist til fátæktar, en lifði á borgaraskapnum í laumi.  Og kom sér upp félagsskap ungs fólks, sem hann skipti út, á tveggja til þriggja ára fresti.  Enginn leikari afber sömu áhorfendurna úti í sal, sýningu eftir sýningu.

Þó voru vissuega til þeir menn, sem hann hélt lengur tryggð við, en unga fólkið, sem hann notaði sem leikhúsáhorfendur uns hann hann felldi tjöldin til að geta dregið þau upp fyrir nýja áhorfendur.  Þetta voru æskufélagarnir; menn á borð við Alferð Flóka, Úlf Hjörvar og Sigurjón Magnússon (Sigga hálofta), svo nokkrir séu nefndir.

            Og nú er komin út ævisaga Dags Sigurðarsonar, Gott á pakkið, eftir Níels Rúnar Gíslason.  A.m.k. kallast þetta ævisaga á titilsíðunni.  Þó er það ekki alls kostar rétt.  Í raun er hér á ferðinni leit sögumanns að söguefninu.  Og enda þótt Dagur hafi í lifanda lífi verið háll sem áll á sínum stöðuga flótta til bernsku sinnar, verður að segjast eins og er, að Níels Rúnar nær taki á honum; þar sem það er hægt. 

            Með tilliti til þess, hversu ungur höfundur er, tæplega þrítugur, verður að segjast eins og er, að hann nær nokkuð vel andblæ tímans í Reykjavík frá áttunda áratugnum og fram að andláti Dags 1994.  Hins vegar er ég ekki frá því, að hann hefði mátt ræða ögn lengur við jafnaldra skáldsins.  Sennilega hefði hann þá getað dregið upp gleggri mynd af Reykjavík, áður en hún hafnaði í því millibils ástandi milli smábæjar og borgar, sem hún hefur verið í síðasta aldarfjórðunginn eða svo.  Það hefði skýrt betur, hvílík hneyksnunarhella Dagur náði að verða góðborgurum Faxaflóaþorpsins, sem og þeirrar nautnar, sem hann hafði af því.

 

Nokkrar athugasemdir

 

            Eins og verða vill, eru á síðum þessarar bókar nokkur atriði, sem vert er að gera athugasemdir við.  Á bls.61, segir t.d. “Það var sagt að sjertruus væri framleiddur í Frakklandi í staðinn fyrir arsenik”.  Hér mun sennilega átt við absent, sem dró marga listamenn og bohema 19. aldar til geðveiki.

            Á bls. 66 er því haldið fram, að Jónas Svafár hafi verið að austan.  Það ég best veit um ættir þess ágæta gaddheimaskálds, þá er þeirra að leita í Árnessýslu og á Álftanesi en ekki á Austfjörðum.

            Stundum er ekki alveg ljóst, um hvaða tíma höfundur fjallar.  Þetta mætti t.d. vera skýrar, þegar hann fjallar um samskipti Dags og Flóka á bls. 79 og 80.  Ekkert stórmál, en mætti sem sagt vera ljósara.

            Á bls. 92 segir:  Ef Bjarni (Bernharður) hefði ekki kynnst Degi, væri ómögulegt að ímynda sér að hann hefði lagt út á skáldabrautir”.  Vegna kynna minna af báðum þessum mönnum leyfi ég mér að fullyrða, að þetta sé ekki rétt. 

            Nú veit ég ekki hvort Níels er bókmenntafræðingur.  En óneitanlega ber þessi fullyrðing hans keim þeirrar áráttu þeirrar séttar, að leita samhengis, þar sem það er ekki að finna.

            Við lestur bókarinnar, þótti mér stundum, sem íslenskukunnáttu höfundar sé nokkuð ábótavant.  Þessa sést m.a. merki á bls. 98, en þar er haft eftir unglingsstúlku:  ...”en ljóðin og málverkin hans Dags eru komin til að vera”.  Þetta enska orðskípi “kominn til að vera”, var ekki til í íslenskri tungu á þeim tíma, sem þarna er lýst.

            Á bls. 118 og 119 er nokkuð sagt frá ungskáldum áttunda áratugarins og samskiptum þeirra við Dag.  Sú lýsing hefði þurft að vera mun ítarlegri.

            Dagur var hvorki forystumaður né fyrirmynd okkar, sem þá vorum að kveða okkur hljóðs á skáldabekk.  En þótt skáldskapur hans og lífshlaup væri nokkuð sérstæður, þá var hann eigi að síður viss tengiliður milli þeirra tveggja heima í menningarlífi Reykjavíkur, sem minnst er á hér að framan; litla heimsins, sem allir vissu að var lítill og litla heimsins, sem allir halda að sér stór.

            Um miðjan áttunda áratuginn urðu nokkur tíðindi í hópi ungra skálda í Reykjavík.  Mig minnir, að það hafi verið snemma árs 1975, að ungu skáldið söfnuðust saman til upplestrar í Norræna húsinu.  Við kölluðum okkur “ástmegi þjóðanna”, minna mátti það nú ekki vera.

            Eftir þetta urðu nokkur skil; þeir, við, sem róttækari þóttum í pólitík stofnuðum tímarit og kölluðum það Lostafulla lystræningjann.  Dagur átti nafnið, sem síðar breyttist í Lystræningjann.  En það er önnur saga og “guðföðurnum” óviðkomandi.  Hinir hópuði sig saman og hófu upplestrarferðir út um land undir heitinu Listaskáldin vondu.  Þetta var upphaf merkilegrar sögu, sem þarft væri að færa til bókar.  Ég er ekki frá því, að Níels Rúnar Gíslason ætti að huga að slíku verki.

            Höldum áfram að bls. 148.  Þar fullyrðir höfundur, að Dagur hefði átt að vera á ríkislaunum.  Ef til vill er það nokkur kaldhæðni, en ég kalla ríkislaunaskáldin stundum B.S.R.B-skáldin.  Dagur Sigurðarson hefði aldrei getað orðið B.S.R.B.-skáld; til þess var frelsisþrá hans of skilyrðislaus!

            Að lokum langar mig til að vekja athygli lesenda þessarar bókar á átakanlegri frásögn á bls. 189 og 190.  Þar segir frá því, þegar drykkja Dags er farin úr böndum og hann er staddur ásamt félaga sínum fyrir utan Ríkið við Lindargötu.  Starfsmaður Ríkisins er að spúla portið og notar tækifærið, til að láta vatnsgusurnar ganga yfir hið gæfusnauða skáld.  Þess frásögn Níelsar er skrifuð af  næmni og innsýn í mannlega eymd.  Hafi hann þökk fyrir, sem og fyrir ýmislegt annað, sem fram kemur í þessari bók; þessari leit að Degi Sigurðarsyni, sem þegar öllu er á botninn hvoflt liggur auðvitað í gegnum Dag Thoroddsen, litla sæta strákinn, sem langaði svo mikið til að verða aldrei stór.

 

           


Steinn Steinarr LXX

Hver var hann, þessi ungi Dalamaður, með verstfirskt blóð í æðum, sem tók að arka um götur Reykjavíkur í byrjun fjórða áratugs síðustu aldar og hefja hvassar orðræður á kaffihúsum?  Og hvern mann hafði hann að geyma?  Var hjarta hans biturt?

           

Vissulega má kasta slíkum spurningum fram í hausthúmið.  En myrkrið er ekki fjarri húminu.  Það er því vissara, að hver svari fyrir sig; hafi sína eigin glætu að lýsa sér til skilnings. 

           

Í kirkjubókinni fyrir vestan var drengurinn skráður Aðalsteinn Kristmundsson.  Skírnarnafnið er í senn göfugt og hart.  En hinum unga manni hefur sýnilega ekki þótt harkan í því næg, því þegar hann tók sér sæti í höllu Braga, herti hann enn á nafninu.  Þaðan í frá hét hann Steinn Steinarr.  Hina ytri göfgi lét hann sér í léttu rúmi liggja, en harkan; hún skyldi standa fyrir sínum.

           

Ég hygg að Steinn hafi verið mjög kröfuharður maður, jafnt á sjálfan sig sem aðra.  Skáldskapur hans er meitlaður; í honum gætir hvergi flausturs.  Allt er þar hnitmiðað.  En um leið og skáldinu var tamt að beita sig aga við bókmenntaiðju sína, þá fór þar bitur maður.  Það sýna mörg verka hans og um það ber öllum þeim, sem hann þekktu saman. 

           

Reyndar er biturð Steins ekkert undrunarefni.  Þegar í bernsku mátti hann þola þau grimmu örlög, að verða niðursetningur.  Hann hlaut að vísu gott atlæti hjá þeim, sem fóstruðu hann.  En smán niðursetninga var slík, að meira að segja þeim sjálfum tókst sjaldnast, að koma orðum að henni.  Þetta mættu þeir hugleiða, sem nú hafa endurvakið hreppaflutningana, með því að senda örvasa gamalmenni landshlutanna á milli,  til að láta þau deyja drottni sínum jafnvel fjarri maka og öðrum ástvinum.

           

Steini Steinarr var ómæld þrjóska í blóð borin.  En nægði hún honum til að sigrast á grimmum örlögum bernskunnar eða fylgdi niðurlægingin honum ef til vill ævina út?  Þessu er ekki auðsvarað.  Ofan á hreppaflutningana bættist, að Steinn var aldrei heilsuhraustur og fjarri því að vera, það sem kallað er verkmaður.  Honum var því í raun um megn, að vinna fyrir sér, þótt hann reyndi það, á sínum yngri árum.  Og menntavegurinn var ekki greiður fátækum einstæðingi á fyrri hluta síðustu aldar.

           

Hvað varð þá til bjargar, þessum einstæðingi á grásteindum strætum framandi borgar?  Því svarar hann sjálfur í lokaljóði bókarinnar „Ferð án fyrirheits”.  Það heitir „Undirskrift” og hljómar svo:

 

Lesendum þessarar bókar, ef einhverjir eru,

hef ég ekkert frekar að segja í raun og veru.

Sjá, hér er ég sjálfur, og þetta er allur minn auður,

hið eina, sem ég hef að bjóða lifandi og dauður.

 

Ég veit, að þið teljið mig aldrei í ykkar hópi

og ætlið mig skringilegt sambland af fanti og glópi.

Ég er langt að kominn úr heimkynnum niðdimmrar nætur,

og niður í myrkursins djúp liggja enn mínar rætur.

 

Ég ber þess að sjálfsögðu ævilangt óbrigðult merki,

því örlög hvers manns gefa lit sinn og hljóm sinn hans verki:

Það var lítið um dýrðir og næsta naumt fyrir andann.

Mitt nafn er Steinn Steinarr, skáld.  Ég kvaðst á við fjandann.

 

Það var þrjóskan, sem hélt Steini Steinarr á floti allt hans líf.  Þess skyldi þjóð hans minnast með virðingu og líta um leið í eigin barm.

           

En jafn ágæt og þrjóskan er bágstöddum mönnum, þá dugir hún skammt í ríki andans, nema til þröngra verka.  Og því er það, að Steinn var ekki aðeins þrjóskur maður svo af bar; hann var einnig leitandi sál með ríka réttlætiskennd og djúpan skilning á mannlegri tilveru og þessu undarlega eðli hennar, sem frekar er til þess fallið, að varpa fram spurningum en svörum. 

           

Steinn Steinarr var Chaplin götunnar og Sókrates kaffihúsanna.  En hvort heldur arkað var um götur eða kaffið á Hressingarskálanum yljaði mönnum og ef til vill dulítið styrkt til bragðbætis, þá var hið orðsnjalla skáld jafnan sveipað huliðshjúpi.  Ég hef fyrr sagt frá því, í þessu spjalli mínu um Stein, hversu tvískiptur maður hann var; á skrafþingum var hann hrókur alls fagnaðar, þótt oft væri stutt í biturðina.  En í mannlegum samskiptum var einlægnin honum tömust, þegar tveir áttu í hlut.  En það breytir ekki því, að í ljóðavef hans, er einlægnin sterkasti þráðurinn.  Hirði ég ekki um, að færa rök fyrir því.

           

Vaknar nú sú spurning, hvað Steinn Steinarr hafi verið íslenskri ljóðagerð og þar með íslenskri menningu.  Skal í því sambandi gripið til sígildrar mótsagnar í ljóði hans sjálfs,  „Hin mikla gjöf”,  en lokaerindi þess hljóðar svo:

  

Það stendur af sér allra veðra gný

í annarlegri þrjózku, veilt og hálft,

með ólán sitt og afglöp forn og ný,

hinn einskisverði maður:  Lífið sjálft.

           

 

Þannig kemur Steinn mér fyrir sjónir; „hinn einskisverði maður:  Lífið sjálft.”  Maðurinn sjálfur er aðeins hjóm eða hismi utan um þann kjarna, sem líf hans er; ást hans og hatur, biturð og gleði, verk hans og iðjuleysi, leit hans, sannfæring, trú.  Og það er í þessu víðfema lífi, sem við mætumst á krossgötum, eins þótt leiðir okkar hafi í raun aldrei legið saman.  Á suma köstum við kveðju, aðra ekki, lifandi eða dauða. 

           

Það er langt síðan leiðir okkar Steins Steinarrs lágu saman á slíkum krossgötum.  Og höfum ekki orðið viðskila síðan.  Að vísu hef ég um skeið ánetjast verkum annarra skálda og listamanna í öðrum greinum.  En Steinn hefur aldrei verið mér fjarri, frá því fundum okkar bar fyrst saman.  Hvers vegna?

           

Ég get lesið ýmis skáld mér til ánægju og þroska.  En mörg ljóða Steins hafa það umfram ljóð annarra skálda, sem ég þekki, að ég fæ ekki einungis notið þeirra; þau varpa fram einhverri þeirri spurn, sem ég verð að leita svara við.  Er þetta vegna þess, að þau eru aldarspegill?  Að hluta til.  Þó er þetta enn frekar fyrir þá sök, að í þessum ljóðum Steins hljómar rödd hins sí leitandi mannsanda, með öllum hans kostum og öllum hans göllum, í allri hann stærð og í allri hans smæð.  Og þannig áfram. 

           

Nú þegar þess er minnst, að öld er liðin frá fæðingu skáldsins og hálf öld frá dauða hans, gerast þau tíðindi, að það er að renna upp fyrir þjóðinni, að hún lifir ekki lengur á sjálfsblekkingum, svo sem hún hefur lengi gert.  Það er ekki lengur „ímyndin”, sem skiptir máli, heldur myndin sjálf, maðurinn í allri sinni nekt, með birtu og skuggum.  Og ef til vill ekki úr vegi, að ljúka þessum fátæklegu vangaveltum um skáldið og manninn Stein Steinarr, með ljóði hans, „Afturhvarf”

  

Ó, græna jörð, ó mjúka, raka mold,

sem myrkur langrar nætur huldi sýn.

Ég er þitt barn, sem villtist langt úr leið,

og loksins kem ég aftur heim til þín.

 

Ég viðurkenni mína synd og sekt:

ég sveikst frá öllum skyldum heiðvirðs manns

og elti vafurloga heimsku og hjóms

um hrjóstur naktra kletta og auðnir sands.

 

Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!

Heim kemst að lokum allt, sem burtu fer.

Ég drúpi höfði þreyttu í þögn og bæn:

Þú ert ég sjálfur.  Fyrirgefðu mér!

    

Flúinn land

Góðir landsmenn.

Á þessum síðustu og verstu tímum, þegar við neyðumst til að horfa í eigin spegilmynd, blasir við okkur sjón, sem við hefðum helst kosið, að líta aldrei augum, nema þá í dýragarði.  Hin kynborna víkingaþjóð, já, af konungakyni með skáldablóð fossandi í æðum, reyndist þá eftir allt saman, apar í búri eigin græðgi og sjálfsblekkinga.  Útrásarhetjurnar, rómaðar í bak og fyrir, ekki síst á ónefndu höfuðbóli á Álftanesi, liggja nú flatar, með skottið milli lappanna og önnur hetja, sem forðum stýrði landi og þjóð, fer nú fram með hjali einu undir styttu Ingólfs á Arnarhóli.

Þegar svo er komið, er ekki nema um eitt að ræða, að koma sér um borð í næstu flugvél og yfirgefa hólmann.  Ég er svo heppinn, að hafa verið boðið til Madríd í tilefni af útkomu bókar, með norrænum glæpasögum, þýddum á spænsku.  Sjálfum var mér ókunnugt um, að ég hefði skrifað glæpasögu; engu að síður er þarna að finna slíka sögu eftir mig.  Hvers vegna?  Jú, auðvitað vegna þess, að sagan, sem af minni hálfu var skrifuð sem raunsæissaga um íslenskt samfélag, reyndist vitanlega vera glæpasaga. 

Þjóð mín, þjóð mín, forðastu spegilinn, ég bið þig, forðastu spegilinn og haltu áfram að ganga þína draumvegu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband