Færsluflokkur: Menning og listir

Undarleg forgangsröðun

Reykjavík nýtur nú þess vafasama heiðurs, að vera fjórða mesta glæpaborg  Evrópu og eru hvítflibbaglæpirnir þó ekki taldir með.  Væru það gert, er sennilegt, að borgin kæmist langt með, að teljast mesta glæpaborg sögunnar.

Viðbrög yfirvalda við fjölgun glæpa, felast í því, að draga úr fjárframlögum til löggæslu.  Að vísu kom Björn Bjarnason á fót ríkislögreglu, sem kostaði sitt.  En það embætti hefur sem alkunna er, klúðrað nánast öllu, sem það hefur komið nálægt.  Er raunar vandséð, hvort flokka beri það undir löggæslu eða harmleik með spaugilegu ívafi.

Nú er svo komið, að á höfuðborgarsvæðinu er einn lögregluþjónn á hverja 650 íbúa á meðan u.þ.b. einn lögregluþjónn er á hverja 310 íbúa Óslóborgar. 

En það er ekki aðeins verið að draga saman seglin í löggæslunni.  Sama gildir um heilbrigðiskerfið, fræðslukerfið,  samgöngurnar o.s.frv, o.s.frv. Hvernig dettur mönnum í hug að ætla á sama tíma að slá lán til að hækka útgjöld til listamannalauna?

Á sama tíma og dregið er  úr fjárframlögum til löggæslu, er 400.000.000 króna bætt við listamannalaun og þau hækkuð frá 1,2 milljarði upp í 1,6 milljarð.  Viðbótarlaunin á að fjármagna með lánum, vitanlega á fullum vöxtum.

Væntanlega ber menntamálaráðherra ábyrgð á þessari vitleysu í félagi við fjármálaráðherra, en þeir eru báðir þingmenn Vinstri grænna, arftaka gamla Alþýðubandalagsins.  Allir sem til þekkja, vita, að sá flokkur dó úr kúltúrsnobbi og meðfylgjandi hroka.

Listamannalaunum hefur alla tíð verið úthlutað í samræmi við pólitískar skoðanir þeirra, sem þau hafa þegið, auk þess, sem kunningsskapurinn hefur auðvitað haft sitt að segja.  Árangurinn hefur verið í samræmi við það. 


Misnotkun á fánanum

Þar til nú, síðustu árin, hafa Íslendingar borið þá virðingu fyrir fánanum, að nota hann þegar og þar sem við á, en ekki í tíma og ótíma og hvar sem er.  Þetta er því miður að breytast.

Fánann á annars vegar að nota til fagnaðar á hátíðarstundum, hvort heldur þjóðarinnar eða einstaklinga, eða til að votta látnum samúð og þá vitanlega í hálfa stöng. 

Nú eru Íslendingar farnir að apa það eftir amerískum kvikmyndum, að reka lítil flögg niður á leiði látinna vina og ættingja.  Hélt ég þó, að dauðinn væri tæpast fagnaðarefni. 

En víst er um það, að fáninn er ekki aðeins til fagnaðar; hann er einnig tákn um þjóðernishyggju, vonandi á heilbrigðum nótum.  Einhvern veginn hélt ég, að dauðir menn væru ekki sérlega þjóðernissinnaðir.  Þvert á móti; við sem trúum á líf eftir dauðann, höfum, að ég held, ekki mikla trú á þjóðernislegri flokkun sálna.

Það er lenska hjá ameríkönum, að reka flögg í leiði fallinna hermanna, sem fórnað hafa lífi sínu fyrir útþenslustefnu síns deyjandi stórveldis.  Þess vegna hefur þetta ratað í áróðursmyndir þarlendra.  Látum þá eina um þennan sið.


Dagskrá um Tómas Guðmundsson í Grímsnesi

Í dag varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi, að halda erindi um Tómas Guðmundsson skáld á samkomu sem sveitungar hans héldu honum á Borg í Grímsnesi.  Óþarft er að rekja erindið hér, enda birtist það hér að neðan. 

        

Forseti Íslands setti samkomuna með snotrum orðum um skáldið.  Að því loknu flutti Anna S. Óskarsdóttir ræðu um Grímsnesinginn Tómas Guðmundsson.  Mæltist henni vel.  Sem barn, sá hún Tómas gjarnan er hann kom á Grímsnesið.  Hvort heldur það var frægð skáldsins eða bernska hennar, nema hvoru tveggja hafi verið, þótti henni skáldið nokkuð fjarænt.  Minnti þetta mig óneitnlega á lýsingar Akureyringa á Davíð Stefánssyni.  Hvorugum kynntist ég.  En jafnan hef ég haft það á tilfinningunni, að brynja Davíðs hafi verið þykkari brynju Tómasar, hafi sá síðari sveipað sig nokkurri.  En engin skáld þekki ég, sem tekið hafa sér slíkan bústað í hjarta Íslendinga, sem  Davíð og Tómas.

        

Að ræðu Önnu lokinni talaði Matthías Johannessen um kynni sín af skáldinu.  Matthías Johannssen er margslunginn maður.  Stundum finnst mér hann syngja nokkuð eftir því, á hvaða grein hann situr.  En hér réð einlægnin ríkjum.

Meðal gesta var Sigurður bóndi á Villingavatni, sem ég er ekki frá að sé bóndi Íslands þúsund ára. Birtist hér mynd af höfðingjanum.

IMG_1404 

        

Ekki skal dagskráin rakin frekar hér, en hún var Grímsnesingum til sóma.  Dæmi svo hver eftir sínu geði, þá tölu, sem hér fer á eftir. 

Sveitaskáldið Tómas Guðmundsson 

Herra forseti, góðir gestir.

Ég vil í upphafi máls míns, þakka Guðmundi Guðmundssyni frá Efri-Brú þann heiður, að vera boðið að segja hér nokkur orð um frænda hans, skáldið Tómas Guðmundsson.  Tilefni þess, að hann bauð mér að flytja hér erindi er, að á sínum tíma hélt ég því fram á, að Tómas væri ekki borgarskáld, heldur sveitaskáld.  Skulu nú færð nokkur rök að því.

        

Á nýársdag árið 1935 samþykkti bæjarstjórn Reykjavíkur að veita Tómasi Guðmundssyni ferðastyrk, að upphæð 3.000 krónur.  Tilefnið var áskorun nokkra framámanna í menningarlífi bæjarbúa og raunar þjóðarinnar allrar, í þá veru.  Vildu þeir með þessu þakka skáldinu fyrir ljóðin í Fögru veröld, sem komið hafði út árið áður.       

Í bréfi, sem hópurinn sendi bæjarstjórn að þessu tilefni, er vitnað til þess, að Tómas hafi fengið alla menntun sína og þroska í Reykjavík.  Hann hafi auk þess vakið skilning fólks á fegurð bæjarins og umhverfi hans.

Vissulega hlaut Tómas Guðmundsson menntun sína í Reykjavík, en aðeins að því marki, sem skólum er fært að veita.  Það vill stundum gleymast, að lengi býr að fyrstu gerð.  Og þroskaganga Tómasar hófst hér í Grímsnesinu, þar sem hann fæddist og ólst upp.  Þess bera ljóð hans ótvíræð merki. 

Samþykkt bæjarstjórnar frá ársbyrjun 1935, gerði Tómas Guðmundsson að borgarskáldi, sem og sá skilningur, sem margir lögðu í ljóðin í Fögru veröld.

Og víst er um það, að fagurlega orti skáldið fóstru sinni við Faxaflóann.  Hinu má ekki gleyma, að sjaldan var sveitin, Grímsnesið, langt undan, eins þótt Reykjavík gjarnan væri yrkisefnið.  Þannig er mér nokkuð til efs, að  til sé öllu magnaðri sveitarómantík, en birtist í sjálfu höfuðljóði skáldsins um Reykjavík, “Austurstræti”, þegar hann segir í öðru erindi ljóðsins:

Og svo er mikill ljóssins undrakraftur,
að jafnvel gamlir símastaurar syngja
í sólskininu og verða grænir aftur. 

Fjarri sé mér, að gera bókmenntafræðilega úttekt á skáldskap Tómasar.  Ungur bast ég ljóðum hans sterkum böndum, sem ekki hafa rofnað síðan.  Menn gera tæpast fræðilega úttekt á því, sem þeir unna, að minnsta kosti ekki, þegar um listir er að ræða. Hitt er svo annað mál, að ég hef aldrei litið á Tómas sem borgarskáld.  Í mínum huga er hann sveitamaður, sem fellir hug til borgarinnar og yrkir henni ástarljóð.  En sveitastrákur verður áfram sveitastrákur, eins þótt hann flytji á mölina og verði  skotinn í stelpu vestur í bæ, þar sem vorkvöldið er fegurra höllum keisarans í Kína.

 

Já, Tómas fékk farareyrinn hjá bænum og lagði land undir fót.  Skyldi það ekki hafa verið í þeirri ferð, að hann orti ljóðið “Heyskapurinn í Rómaborg”, sem birtust í Stjörnum vorsins?  Ég ætla að leyfa mér, að fara með þetta ljóð hér:                      

Við lúðramúsík og hörpuhljóm,
á hvítum vængjum og sólskinsskóm,
stunda þeir heyskapinn heima í Róm
unz hlaða páfans er full.
Þeir slá þar pálma og purpurablóm 
og pakka því öllu í gull.
-En austanfjalls hafa þeir annan sið.
Þar eigra menn daglangt um stargresið,
en hvernig sem bændurnir hamast við
er heygryfjan alltaf jafn tóm. 

Með leyfi að spyrja, er það borgarskáld, sem í sjálfri höfuðborg heimsins yrkir um heyskapinn í Grímsnesinu og líkir sjálfri Rómaborg við tún eða engi?

        

Fyrsta ljóðabók Tómasar Guðmundssonar, Við sundin blá, hefst á samnefndu ljóði.  Reykvíkingar hafa löngum haldið því fram, að þar sé ort um sundin vestur þar.  En það þarf ekki að horfa í kringum sig af mikilli skarpskyggni á Efri-Brú, fæðingarstað skáldsins, til að átta sig á, um hvaða sund er þarna ort, eins þótt Viðeyjarsundið kunni einnig að hafa blundað í huga skáldsins.  

Það er stundum hæpið, að fullyrða of mikið, um yrkisefni skálda.  Þetta á ekki hvað síst við, þegar ljóð þeirra eru skær og tær, eins og skáldskapur Tómasar.  Þá er eins og stundum vilji gleymast, að undir tæru yfirborði hyls, leynist djúp.

        

Það er táknrænt fyrir sveitastrákinn, sem flutti á mölina og gerðist á ytra borði skáld sinna nýju heimkynna, að eitt síðasta ljóð hans, skuli ort í minningu hunds, sem hann hafði fengið úr sinni heimasveit.  Tildrög þess ljóðs verða ekki rakin hér.  En á bökkum Sogsins valdi skáldið vini sínum, Stubbi, hinsta leg.  Og það er einmitt þangað, sem má rekja ljóðaflokkinn “Þrjú ljóð um lítinn fugl”, sem ég geri að lokaorðum mínum, um leið og ég þakka áheyrnina:                                                                               

                    I

Það vorar - fyrir alla á sem unna,
og enginn getur sagt að það sé lítið,
sem vorið hefur færst í fang og skrýtið,
hvað fljótt því tekst að safna í blóm og runna.

Og lsitamenn með litakassa og bretti
senn labba út í náttúruna og mála,
en ungu blómin drekka dögg og skála
til dýrðar sínum yndislega hnetti.

Ég þekki líka lind við bláan vog,
lítið og glaðvært skáld.sem daglangt syngur
og yrkir sínum himni hugljúf kvæði. 

Og litlu neðar, einnig út við Sog,
býr óðinshani, lítill heimspekingur,
sem ég þarf helzt að hitta í góðu næði.

                   II

Hvað er að frétta, heillavinur minn?
- Hér hef ég komið forðum mörgu sinni,
og öll mín fyrstu óðishanakynni
áttu sér stað við græna bakkann þinn.

Þá bjuggu hérna önnur heiðurshjón,
háttvís og prúð, og það er lítill vafi,
að hjónin voru amma þín og afi.
En hvað þið getið verið lík í sjón.

Já, gott er ungum fugli að festa tryggð
við feðra sinna vík og mega hlýða
bernskunnar söng, sem foss úr fjarlægð þrumar.

Og megi gæfan blessa þína byggð
og börnum þínum helga vatnið fríða,
fugl eftir fugl og sumar eftir sumar.

                    III

 Ó, litli fugl, þú lætur einskis spurt.
 Langar þig ekki að heyra, að veröld þín
var eitt sinn líka óskaveröld mín?
En af hverju var ég þá að fara burt?

Hér gleyma ungir dagar stund og stað
og stríðið virðist en svo fjarlægt þeim.
Hvað varðar líka óðinshamaheim
um Hitler, Túnís eða Satlíngrað?

 Og hvernig ætti fugl við lygnan fjörð
að festa sér í minni degi lengur
þann heim, sem leggur úlfuð í sinn vana?

 Og drottinn veit, ég vildi að slíkri jörð
sem vorri yrði breytt, fyrst svona gengur,
í bústað fyrir börn og óðinshana.


"Hver vegur að heiman er vegurinn heim"

Í dag rennur upp sú leiða stund, er ég verð að yfirgefa Akureyri og Eyjafjörð.  Vænti þó skjótrar endurkomu. Frá byrjun mánaðarins hef ég dvalist í Davíðshúsi, en þar hafa skáld og fræðimenn aðstöðu.  Fyrir það færi ég Akureyringum mínar bestu þakkir.

 

Það má ekki minna vera, en að ég þakki fyrir mig, með því að birta hér eitt af ljóðum Davíðs frá Fagraskógi, síðasta þjóðskálds Íslendinga.  Maðurinn sjálfur var flókinnar gerðar, en ljóð hans, ýmist björt og hlý eða dimm og gustmikil, eiga það sameiginlegt, að þau eru ort á einföldu og fögru máli, sem nær beint til hjartans.  Og eins og þar stendur; það sem kemur frá hjartanu nær til hjartans. 

 

Ég birti hér ljóð Davíðs úr "Svörtum fjöðrum", "Stjörnurnar".

 

Stjörnurnar, sem við sjáum

sindra um himininn,

eru gleðitár guðs, sem hann felld,

er hann grét í fyrsta sinn.

 

- Honum fannst ekkert af öllu

yndi sér veita né ró

og allt vera hégómi og heimska

á himni, jörð og sjó. -

 

Svo var það á niðdimmri nóttu,

að niðri á jörð hann sá,

hvar fagnandi hin fyrsta móðir

frumburð sinn horfði á.

 

Og þá fór guð að gráta

af gleði; nú fann hann það

við ást hinnar ungu móður,

að allt var fullkomnað.

 

En gleðitár guðs, sem hann felldi,

er grét hann í fyrsta sinn,

eru stjörnurnar, sem við sjáum

sindra um himininn.


Á ferð um Eyjafjörð

Í argaþrasi líðandi stundar er gott til þess að vita, að þrátt fyrir allt, eigum við enn fagur land og sögu, sem vert er að hyggj að.  Og þá saka ekki að vera staddur í Eyjafirði, þar sem fegurð lands og dýpt sögunnar tvinnast órofa böndum.

Í gær fór ég með fjölskyldu minni að Svalbarðseyri, í fylgd með Gunnari H. Jónssyni gítarista og galdaramani að vestan.  Og fyrst slíkur töframaður var með í för, var ekki annað við hæfi, en að mynda okkur með, ekki aðeins manninum með ljáinn, heldur tveimur slíkum.

IMG_1325

Í dag lá leiðin svo fram fjörðinn, sem ónefnd kona að sunnan kallar inn fjörðinn og er það önnur saga, sem ekki verður sögð hér.

Fyrst var komið við á Grund.  Svo á víst að heita, að þangað eigi ég ættir mína að rekja.  Og víst er um það, að á hlaðinu, framan við hina glæstu kirkju staðarins, var mér fagnandi tekið af hundi einum.  Skyldi þó aldrei vera, að með okkur sé frændsemi nokkur?

IMG_1339

 IMG_1336

 

 

 

 

 

 

Og lengra fram fjörðinn var haldið og farið yfir Eyjafjarðará.  Þar lá leiðin að Munkaþverá.  Þar stendur í helgum runni, stytta Jóns biskups Arasonar.  Má vera, að það lýsi nokkru stórlæti af minni háldu, að hafa tekið mér stöðu við styttu biskupus.  En hógværðin var nú ekki heldur honum töm.

IMG_1352

Og þannig leið þessi dagur, nokkuð svalur, en fagur í faðmi þess dals, er ég ann.

 


Stefán frá Möðrudað, önnur útgáfa

 stebbimöðr

Árið 1980 gaf Örlygur Hálfdánarson hjá Erni og Örlygi út samtalsbók mína, Fjallakúnstner segir frá, en þar ræddi ég við Stefán frá Möðrudal eða Stórval, en það var listamannsnafn hans.  Reyndar hafði Örlygur farið þess að leit við Jóhannes Helga, að hann skrifaði bókina, en hann sýndi mér það vinarbragð, að benda á mig.  Bókin kom út í 2000 eintökum og seldist þegar upp.  Óneitanlega var það nokkuð óvenjuleg lífsreynsla fyrir ljóðskáld.

Og nú hafa strákarnir hjá Skruddu, Ívar Gissurarson og Steingrímur Steindórsson gefið út aðra útgáfu bókarinnar. Framan á kápunni er meistaraleg ljósmynd af Stefáni, sem Marissa Arason tók á sínum tíma.  Svei mér þá, ef fjallakúnstnerinn er bara ekki mættur í eigin persónu.  Og á bakhlið kápunnar er mynd af því fræga málverki, Vorleik.

Ég skrifaði þessa bók ekki með það í huga, að hafa eftir Stefáni frá Möðrudal ævisögu hans.  Það sem ég reyndi, var að draga upp mynd af manninum.  Hvernig til tókst er ekki mitt að dæma.  En ég held, að nú, 29 árum síðar, sé Íslendingum tæpast skaðlegt, að renna augum yfir mynd af manni, sem þorði að vera hann sjálfur  Það er ekki svo algengur eiginleiki landans nú um stundir.

 

 


Í Öxnadal

Ég var á þjóðdansahátíð á Hrauni í Öxnadal í dag.  Varð að því tilefni til smáljóð, líkt og að sjálfu sér  Fer það hér á eftir.

 

Í Öxnadal

 

Hraundrangar háir

ungum vöktu drauma

sorgmæddum sveini,

föðurlausum.

 

Oft kynda elda,

harmur sár og fegurð.

 

Víða lágu leiðir

en hjartað jafnan

heimkynnum bundið

bernskutíðar.


Altarisbríkin á Möðruvöllum í Eyjafirði

Undarleg þótti mér sú frétt, sem barst í vikunni, að eigendur hins forna höfuðbóls, Möðruvalla í Eyjafirði, hygðust selja til útlanda altarisbrík, sem fylgt hefur kirkjunni þar á staðnum allar götur frá 15. öld. 

Kirkjan á Möðruvöllum er að vísu bændakirkja og því í eigu jarðeiganda.  Kirkjan sjálf er friðuð, en einhverra hluta vegna láðist viðeigandi yfirvöldum, að friða kirkjugripina, þ.á.m. altarisbríkina. 

Nú er það svo, að hugtakið eign er flóknara en margur hyggur.  Í tilfelli sem þessu, er eign í raun aðeins varðveisluskylda.  Menn selja einfaldlega ekki þjóðardýrgripi, enda eru þeir í raun eign þjóðarinnar, eins þótt einhver einstaklingur sé skráður fyrir þeim.  Sama á við um ættargripi.  Engum siðuðum manni kæmi til hugar, að láta ættargrip ganga úr ætt sinni.  Slíka gripi eiga menn ekki í almennri merkingu þess orðs, heldur varðveita þá handa komandi kynslóðum.

Allt bendir til, að nú verði gripið til viðeigandi ráðstafana varðandi altarisbríkina á Möðruvöllum.  Víst er það gott, en þó leitt, að til þess þyrfti að koma.


Sveitaskáldið Tómas

Ég hef löngum haldið því fram, að Tómas Guðmundsson hafi ekki verið borgarskáld, heldur sveitaskáld með láði.  Fyrsta bók hans, Við sundin blá, hefst á samnefndu ljóði.  Flestir hafa spyrnt þetta fagra ljóð við sundin umhverfis Reykjavík, væntanlega Kollafjörð og Skerjafjörð.  Þetta er eðlilegt í ljósi þess, að flestir Íslendingar þekkja þessi sund.  En hugum betur að .

Um daginn var ég svo heppinn að fara með bróðursyni Tómasar, sem fæddur er og uppalinn á fæðingarstað skáldsins, Efribrún við Úlfljótsvatn eða Sogið, sem oft er kallað svo.  Þarna liggur það ljóst fyrir, um hvaða sund Tómas yrkir.  Það eru sund bernsku hans; og koma Reykjavík harla lítið við.

Hitt er svo annað má, að í sjálfur sér er skáldskapur Tómasar hafinn upp yfir argaþras um landfræðilega staðsetningu, enda hygg ég, að goðsögnin um borgarskáldið eigi sér frekar stjórnmálalegar rætur en bókmenntalegar.

 


Jónas Hallgrímsson - ævimynd

Fyrir skömmu barst mér í hendur bók eftir Böðvar Guðmundsson rithöfund og nefnist hún Jónas Hallgrímsson - ævimynd.  Hún kom út  árið 2007 og var tilefnið vitanlega 200 ára afmæli listaskáldsins góða.

Því miður var þetta ágæta rit aðeins gefið út til dreifingar í skólum.  Nokkur eintök hafa þó ratað í hillur bókabúðar Bjarna Harðarsonar á Selfossi og er það vel.

Árið 1993 gaf bókmenntafélagið Hringskuggar, en á þess vegum starfaði ég, út bókina Um Jónas eftir Matthías Jóhannessen skáld.  Þeir Böðvar og Matthías nálgast Jónas á ólíkan hátt; annað hvort væri nú. 

Sjálfsmynd hverrar þjóðar er dregin með pensli draumsins; ekki veruleikans.  Jónas Hallgrímsson á fleiri liti og stærri fleti í þeim hluta íslenskrar sjálfsmyndar, sem talist getur sæmilega óbrenglaður. 

Bók Matthíasar fór því miður ekki víða og ekki treysti ég skólakerfinu fyrir riti Böðvars.  En svo er Guði fyrir að þakka, að enn eigum við almenningsbókasöfn.  Ég hvet fólk til að leita þessara bóka þar.  Menn verða ekki sviknir af lestrinum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband