Færsluflokkur: Menning og listir
9.8.2008 | 21:41
Steinn Steinarr LX
Ég verð að játa, að ég er ekki svo fróður um ævi og örlög þess ágæta bandaríksa rithöfundar, Johns Steinbeck, að mér sé ljóst, hvar hann bar beinin. Hitt veit ég, að hann endaði ævina sem hænsnabóndi. Það á hann sammerkt með Steini Steinarr, en síðustu árin sem hann lifði, var hann eins og kunnugt er, hænsnabóndi suður í Fossvogi.
Svo sem eins og tuttugu árum eftir dauða Steinbeck, var slegið fróðleiksmáli á fyrrum granna hans. Þeir voru spurðir, hvort þeir hefðu nokkuð gleymt hinum fræga nágranna sínum. Nei, nei, það mundu allir eftir honum John Steinbeck hænsnabónda, enda hafði maðurinn verið vel látinn í sinni sveit. Hitt kom flestum þessara sveitunga hans í opna skjöldu, að hann hafði skrifað bækur. Sömuleiðis var heimsfrægð hans þeim lokuð bók. Hafði hann þó fengið bókmenntaverðlaun Nobels.
Nú er Steinn Steinarr hænsnabóndi í Fossvoginum öllum gleymdur. Aftur á móti lifir nafni hans skáldið góðu lífi í vitund þjóðarinnar. Það er ekki sama, hvar menn tína eggin undan púddunum.
8.8.2008 | 15:26
Steinn Steinarr LIX
Ekki þarf lengi að fletta í ljóðum eða lausamáli Steins Steinarrs til að sjá fortakslausa fyrirlitningu hans á ofbeldi, sérstaklega þegar ríkisvaldið tekur það í þjónustu sína. Nægir í því sambandi að nefna ljóðið Kreml:
Kreml
Sjálfur dauðinn,
sjálfur djöfulinn
hefur byggt þessa bergmálslausu múra.
Dimmir, kaldir og óræðir
umlykja þeir
eld hatursins,
upphaf lyginnar,
ímynd glæpsins.
Dimmir, kaldir og óræðir
eins og Graal
- Graal hins illa.
Hefði ekki verið ráð að fulltrúar íslenskra stjórnvalda hefðu hugsað sinn gang áður en þegið var boð um Pekingför?
5.8.2008 | 09:23
Solzhenitsyn allur
Sönn list er fórn. Þetta er illskiljanlegt á Vesturlöndum nú um stundir, þegar listamenn, þar með taldir rithöfundar, berast sem í leiðslu að fórnarstalli hégómans.
Alexander Solzhenitsyn, sem nú er allur í hárri elli, var aldrei í vafa um, að allur hégómi yrði að víkja fyrir háleitari markmiðum. Hann var skilyrðislaus þjónn hins frjálsa mannsanda. Kommúnistum dugði hvorki að senda hann í Gúlakið né gera hann útlægan frá föðurlandi sínu, sem hann unni svo mjög. Og þegar hann snérist gegn yfirboðrsmennsku hins vestræna borgaraskapar, tókst ekki að þegja hann í hel, þrátt fyrir ötula viðleitni.
Solzhenitsyn var skilyrðislaus fjandmaður alls valds. Þess vegna var penninn sverði hvassari í höndum hans.
Fáir trúa því, en þó er það satt, að vinsælustu rithöfundar Vesturlanda nú um stundir, sætta sig við beina ritskoðun markaðsaflanna. Heilu kaflarnir eru teknir úr handritum þessara höfunda og öðrum breytt, ýmist til að verkin falli útgefendum í geð, eða beinlínis til þess, að þau verði auðmeltari og seljist því betur. Flestir stærri bókaútgefendur hafa sérmenntaða ritskoðara á sínum snærum. Og þykir ekki tiltökumál.
Stalín er ekki hér er titill á leikriti eftir Véstein Lúðvíksson. Nú jæja, hvar er hann þá?
2.8.2008 | 22:30
Steinn Steinarr LVIII
Sá er stundum háttur þjóða, að eigna sér menn, af þeim mun meiri ákafa, sem þær hafa forsmáð þá meira. Þetta á ekki hvað síst við um listamenn. Er þetta þeim mun undarlegra, sem listir eru í raun alþjóðlegar í sínum innsta kjarna, í þeim skilningi, að hver sem er getur notið þeirra, hverrar þjóðar, sem hann er. Bach lætur þannig ekkert verr í tyrkneskum eyrum en þýskum, enda þótt hann hafi verið Þjóðverji.
Þar eð tungumál er verkfæri skálda og rithöfunda, gefur auga leið, að aðgangur að verkum þeirra takmarkast við tungumálakunnáttu lesenda. Japani hefur ekki aðgang að Steini Steinarr, nema þá í gegnum þýðingar. Og góðar þýðingar eru auðvitað túlkun á skáldskap en ekki afrit, yfirfærðar milli málsvæða. Samt er það nú svo, að skáld eru sprottin upp úr umhverfi sínu, eins og annað fólk, og verk þeirra bera þess vitanlega merki. En er það merki endilega þjóðlegs eðlis?
Vissulega er Steinn Steinarr íslenskt skáld. En hann hefði allt eins getað verið Mexíkani eða Kanadamaður. Enda þótt sum yrkisefni hans séu íslenskrar náttúru, þá eru flest þeirra alþjóðleg í eðli sínu; gætu m.ö.o. hafa verið ort hvar sem væri. Eða dettur nokkrum lifandi manni í hug, að einhver knýjandi nauðsyn hafi verið að yrkja Tímann og vatnið við Laugaveginn? Tæpast.
Þegar öllu er á botninn hvoflt er Steinn Steinarr ekki aðeins íslenskt skáld, heldur jafnframt alþjóðlegt.
1.8.2008 | 15:41
Steinn Steinarr LVII
Eir
Jón Sigurðsson, forseti, standmynd, sem steypt er í eir,
og stjarna, sem vökul á bládjúpum kvöldhimni skín.
Í sölnuðu grasinu þýtur hinn hvíslandi þeyr:
Ó, þú, sem einn sólbjartan vordag varst hamingja mín.
Ó, herra, sem sendir oss spámenn og spekingafans,
og spansgrænu heimsins þvoðir af volaðri sál.
Ég hef legið á gægjum við ljóra hins nýríka manns,
og látið mig dreyma hið fánýta veraldarprjál.
Eitt þögult og dularfullt hús stendur andspænis oss,
og enginn veit lengur til hvers það var forðum reist.
En nafnlausir menn, eins og nýkeypt afsláttarhross,
standa náttlangt á verði svo það geti sjálfu sér treyst.
Og nóttin legst yfir hið sorgmædda sjálfstæði vort.
Úr saltabrauðsleik þessa heims er ég kominn til þín.
Ég veit að mitt fegursta ljóð hefur annar ort,
og aldrei framar mun dagurinn koma til mín.
Jón Sigurðsson, forseti, standmynd, sem steypt er í eir,
hér stöndum við saman, í myrkrinu, báðir tveir.
***
Svo kvað Steinn og ekki meira um það.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2008 | 14:21
Steinn Steinarr LVI
Rigning
Hófspor í vatni,
húmblátt auga,
flaxandi fax.
Og hugsun mín hvarf
í hinn heita jarðveg,
sem hálfstrokið vax.
En nafn mitt hélt áfram
á nafnlausum vegi
til næsta dags.
Þetta ljóð Steins er að finna í kaflanum Ýmis kvæði" í Kvæðasafni og greinum". Getur nokkur maður ort svona, nema hann sé einfari? Mér er það nokkuð til efs. En einfara er gjarnan að finna í fjöldanum; það er gömul saga og ný.
Óneitanlega leiðir þetta hugann að sósíalrealískum´" skáldskap, þ.e.a.s. skáldskap eða skáldskapartilraunum, sem eiga sér félagslegar og pólitískar rætur. Svo vill til, að sá sem hér skrifar er ekki alveg saklaus í þeim efnum sjálfur. Steinn Steinarr var það raunar ekki heldur. En hann óx upp úr því. Að vísu hætti hann ekki að yrkja um mannlegt samfélag, en forsendurnar urðu hans eigin, ekki þess samfélags, sem ort var um. Þar skilur á milli.
Sósíal realisminn" komst langt með, að drepa niður ljóðrænan þankagang heillar kynslóðar. Það sem kallað var skáldskapur var í raun meira í ætt við forystugreinar dagblaða eða jafnvel einhvers konar bókhald. Sagan er þeirrar náttúru, að endurtaka sig, þó í breyttri mynd sér, bókmenntasagan ekki síður en aðrir hlutar hennar. Það er því hætt við, að sósíal realisminn" eigi eftir að rísa upp úr sinni köldu gröf. Vonandi veldur hann ekki öðrum eins skaða þá og hann gerði á sínum tíma.
Á tímum sósíal realismans" áttu skáldin að vera einskonar framlenging á stjórnmálamönnum og skilyrðislaust þjónar þeirra. Sú tíð er liðin; í bili. En skáld og rithöfundar hafa eignast nýja herra að lúta. Nú er það markaðshyggjan sem ræður. Skáldsakpur skal þar af leiðandi vera auðmeltur og umfram allt í samræmi við formúlur, sem ganga greiðlega upp.
Ekkert er nýtt undir sólinni, ekki heldur sú óaran, sem hér er lýst. Steinn Steinarr átti það til, að vera nokkuð óvæginn í ritdómum. En það var þessi formúleraða vanahugsun, sem hann réðst þá gegn. Og vissulega var hún til á hans tímum. Þá var hún hins vegar í sínu afmarkaða hólfi; nú nartar hjörð henna gras um víðan völl.
25.7.2008 | 17:44
Steinn Steinarr LV
Steinn Steinarr var huldumaður að eðlisfari. Víst var hann fyrirferðamikill á kaffihúsum og þess er hvergi getið, að hann hafi drukkið í laumi. En hann var var um sig. Hann átti fjölda kunningja eins og gengur. En kunningskapur og vinátta er ekki það sama. Minningargrein hans um Magnús Ásgeirsson, sem birtist í Alþýðublaðinu 11. ágúst 1955 ber reyndar með sér hlýar tilfinningar í hans garð, jafnvel svo að greina megi vináttu. Samt sem áður er Steinn þarna fyrst og fremst að minnast bróður úr ríki andans. Þó hef ég fyrir því traustar heimildir, að hann hafi ekki á heilum sér tekið, lengi eftir lát Magnúsar. Um það má raunar lesa í ævisögu Steins eftir Gylfa Gröndal, síðara bindi, en þar er beinlínis haft eftir honum: Mér finnst ég ekkert erindi eiga niður í bæ síðan Magnús dó. Má vera, að Magnús Ásgeirsson hafi verið einn um það, að ávinna sér vináttu Steins til lengdar.
Vitanlega verður ekkert um þetta fullyrt. En mörg verka Steins bera með sér einstæðingsskap. En hann var stoltur í sínum einstæðingsskap. Eins og Laxness segir frá í minningagrein sinni um Stein, drakk hann oftar kaffi úr bolla ókomna gestsins hjá Erlendi í Unuhúsi, en aðrir menn; og hvarf svo út í myrkrið.
Í bernsku var Steinn Steinarr niðursetningur. Hann var að vísu svo heppinn, að lenda hjá góðu fólki. En það eru eftir sem áður grimm örlög, að verða viðskila við fjölskyldu sína og það sakir fátæktar. Það hefur hlaupið styggð í margan manninn af minna tilefni. Hugsanlega er þar að finna skýringu þess, að Steinn hleypti fólki varlega að sínum innra manni nema í skáldskap.
Árni Pálsson prófessor sagði um brennivínið, að vissulega væri það flóttaleið, en bætti því svo við, að margur hefði bjargað sér á flótta. Það er mikið til í því. En skáldskapur er ekki síður greiðfær flóttaleið undan þeim, sem of nærri manni vilja komast.
24.7.2008 | 21:06
Heimsókn til Mala
Í dag heimsótti ég Mala, kunningja minn í Reykjavík. Hann tók hið besta á móti mér og sendi þénara sinn, Sigurð Þór Guðjónsson rithöfund, fram í eldhús að hella upp á könnuna. Auðvitað hlýddi Sigurður því umyrðalaust, vitandi hvað til hans friðar heyrir. Á meðan kraumaði á könnunni sýndi Mali mér það vinarhót, að setjast í kjöltu mína, hvar ég sat og beið eftir kaffinu. Hann malaði að vísu ekki í þetta skiptið, enda er kunningskapur okkar nokkuð svo nýr af nálinni og því vissara, að fara ekki að neinu óðslega. Mali er nefnilega köttur, en slík dýr kunna sig um fram aðrar skepnur, að manninum meðtöldum. Er það að vonum, því kettir eru ljónsfrændur og þar með konunglegar persónur, meðan apinn er nánasti ættingi okkar mannanna. Og sér á.
Samræður okkar Mala snérust að mestu um andleg efni. Við vorum í flestu á sama máli. Þó var ekki laust við, að mér þætti hann óþarflega orðvar. En auðvitað er hann konungborin persóna, eins og önnur kattdýr og verður því að gæta tungu sinnar. Vegna þessa síns hátignarlega uppruna, sagðist Mali vera tilneyddur, að þiggja boð kínverskra kattastjórnvalda á ólympíuleikana í Peking. Hann sagði að vísu, að mannréttindaástandið þar í land væri með þeim hætti, að sér væri í raun ekki ljúft að mæta þarna, nema fá eins og einn vænan viðskiptasamning að launum; svona rétt fyrir föðurlandið. Við fórum ekki nánar út í þá sálma.
Mali bað mig fyrir kveðju til aðdáenda sinna nær og fjær. Honum eru hér með færðar bestu þakkir fyrir ánægjulegar samræður og þénara hans fyrir kaffið.
Menning og listir | Breytt 25.7.2008 kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.7.2008 | 19:19
Steinn Steinarr LIV
Ég var að bera saman efahyggju Steins og afstæðishyggju "póstmódernismans" í spjalli mínu í gær. Munurinn er augljós; efahyggjan verður að standa á ákveðnum grunni, afstæðishyggjan ekki. Þvert á móti þarfnast hún þess beinlínis, að hafa laust undur löppum. Þess vegna getur hún ekki leitt neitt af sér, annað en skoðanaleysi og þar með virðingarleysi fyrir því, sem gildi hefur og jafn vel aðdáun á því, sem lítils er um vert.
Efahyggjan, eins og hún birtist m.a. í verkum Steins Steinarrs, er hins vegar leit að gildum. Hún krefst festu og skilgreiningar á því, hvað sé vel gert og hvað miður. Efahyggjumaðurinn dregur allt í efa, ekki vegna þess, að hann líti niður á allt sem gert er, heldur vegna þess, að hann veit, að leitin að fullkomnunni er endalaus. Hún mun vitanlega aldrei skila þeim árangri, að fullkomnunin finnist. En svo lengi sem maðurinn leitar hennar, nálgast hann hana. Mannkynið á allar framfarir því að þakka, að menn hafa séð, að jafnvel megi bæta það, sem gott er. Það sem miður fer í heimi hér, má rekja til þess, að einstaklingar eða hópar, jafnvel heilu þjóðirnar, telja sig hafa fundið stóra sannleik." Þetta á jafnt við í andlegum efnum sem veraldlegum. Efahyggja manna á borð við Stein Steinarr er því beinlínis nauðsynleg til aukins mannlegs þroska.
18.7.2008 | 14:10
Steinn Steinarr LIII
Var Steinn Steinarr leiðtogi þeirra skálda, sem næst komu á eftir honum og sumir kalla atómskáld? Það held ég tæpast. Það er nú eitt út af fyrir sig, að þessi s.k. atómskáld, voru aldrei sérstakur hópur, hvað þá heldur skóli" upp á útlenskan móð. Þetta voru menn, sem að vísu aðhylltust svipaðar skoðanir varðandi skáldskap. Þeir töldu nauðsynlegt að losa ljóðlistina úr viðjum vanahugsunar ytra forms. En í skáldskapnum héldu þeir hver sína leið.
En þótt Steinn hafi tæpast verið leiðtogi eftirkomenda sinna, þá var hann tvímælalaust fyrirmynd þeirra. Steinn Steinarr var, eins og áður hefur komið fram í þessu spjalli mínu um hann, merkisberi nýrrar hugsunar í íslenskum bókmenntum. Ég er meira að segja ekki frá því, að margir hafi fylkt sér undir merki hans, án þess endilega að leggjast í skáldskap eða aðrar listir. Sú efahyggja, sem hann boðaði leynt og ljóst, er afsprengi trylltrar aldar, sem gat af sér meiri hörmungar, en menn höfðu áður þekkt. Var nema von, að gömul sannindi" væru dregin í efa.
Fyrst farið er út í þessa sálma, er vert að vekja athygli á því, að ekki má rugla saman efahyggju, slíkri sem Steinn aðhylltist og afstæðishyggju hins s.k. póstmódernisma." Að sönnu efaðist Steinn Steinarr um margt. En gildi mennskunnar var honum ljóst. Þar af leiðandi gerði hann kröfur, bæði til sjálfs sín og annarra. Ekkert hefði verið honum fjær, en að leggja að jöfnu fjallið og hundaþúfuna, eins og gert er innan vébanda póstmódernismans." Til þess var sannleiksleitin einfaldlega of ríkur þáttur í eðli hans.