Færsluflokkur: Menning og listir

Steinn Steinarr LII

Steini Steinarr var ekki gefið hjartans lítillæti gagnvart þeim, sem á hans tímum þóttust þess umkomnir, að dæma rétt frá röngu í heimi lista og bókmennta.   Þannig fékk Bjarni Benediktsson bókmenntagagnrýnandi Þjóðviljans að finna fyrir varðstöðu Steins um vitsmunalega bókmenntaumræðu, eftir að sá fyrrnefndi hafði lítillækkað Tómas Guðmundsson í ritdómi.  Steinn svaraði umræddum skrifum Bjarna í Þjóðviljanum 21. júní 1952.  Eftir að hafa látið vöndinn ríða á gagnrýnandanum, segir hann í lok greinarinnar: “Ekkert af þessu mun nokkrum siðuðum manni þykja svaravert en mörgum góðum sósíalsista mun renna það til rifja að sjá málgagn sitt undirorpið svo marklausu bulli og mannskemmandi kjaftæði.” 

Tíu árum áður, þann 11. október árið 1942, hafði Sigurður Nordal fengið að kenna á svipu Steins vegna efnisvalsins í Íslenskri lestrarbók Nordals.  Á þessum tímum var Sigurður Nordal nánast helgur maður í hinum hátimbruðu sölum “íslensku bókmenntastofnunarinnar.”  Menn gengu fyrir horn, ef þeir þurftu að anda í návist hans, slík var virðingin.  En það forðaði honum ekki undan svipuhöggum Steins.  Má og með fullum rétti segja, að efnisval Sigurðar Nordals í þessa kennslubók, hafi verið harla furðulegt á köflum, eins og Steinn bendir á.  Þannig má það undarlegt heita, að Nordal skuli hafa komið til hugar, að flokka grein eftir Konráð Gíslason sem bókmenntir.  Liggur nokkuð annað að baki, en að Nordal hafi speglað sig í þeim ágæta fræðimanni Konráði Gíslasyni? 

Að því slepptu, sem Steinn segir í lok greinarinnar, þar sem hann fjallar um frágang bókarinnar, segir hann í lokin: “Ég veit, að það er bæði erfitt verk og vanþakklátt að taka saman bók eins og þessa, en það er samt sem áður mjög leiðinlegt, ef í því starfi þarf að felast einhver neikvæð íhaldssemi eða fjölskyldusjónarmið.”

Skyldi Steinn Steinarr hafa fgengið birt efni í Lesbók Morgunblaðisins nú, ef hann væri á lífi,  eða vera kallaður til skrafs og ráðagerða í “Víðsjá” Ríkisútvarpsins?  Svari hver fyrir sig.


Steinn Steinarr XLIX

 

Hvenær er skáldskapur sannur og hvenær ekki?  Eins og eðlilegt er, verður svars við þessari spurningu aðeins leitað í hjarta þess, sem spyr.  Já, og meðal annarra orða; hvað er sannleikur í skáldskap?  Þar liggur heldur ekkert einfalt svar á lausu.  Samt er það svo, að báðar þessar spurningar krefjast svars, því ósannur skáldskapur er annað að tvennu, innihaldsleysi eða skrum, nema hvoru tveggja sé.

 

Ég ætla mér ekki þá dul, að svara ofangreindum spurningum fyrir annarra hönd.  Aftur á móti leyfi ég mér að fullyrða, að skáldskapar verði ekki notið til fulls, án þess, að hver svari fyrir sig.  Skáldskapur er nefnilega ekki aðeins til skemmtunar, fegurðarauka eða upplýsingar.  Jafnvel þótt hann sé sannur, flytur hann engan „stóra sannleika.”  Hann er sannastur, þegar hann leitar og þeim mun áhrifameiri, sem hann leiðir til dýpri leitar hvers og eins.  Hann „smælar ekki framan í heiminn,”  heldur leitar innsta kjarna hans.

 

Óhjákvæmilegt hlýtur það að vera, að brosmildir menn eignist sér viðhlæjendur marga, meðan fáir fylgi þeim eftir, sem taki engin gildi án fyrirvara.  Steinn Steinarr leitaði innsta kjarna mannlegrar tilveru; þrjóskan forðaði honum frá því, að leita þeirrar lýðhylli, sem óhjákvæmilega leiðir til skrums og innihaldleysis.  Því gat hann óhikað endað ljóð sitt „Að fengnum skáldalaunum” á eftirfarandi erindi:

 

Því einnig ég man þann lærdóm, sem lífið mér kenndi,

hve lágt eða hátt, sem veröldin ætlar mér sess:

Þau bláköldu sannindi, að allt, sem innt er af hendi,

í öfugu hlutfalli borgast við gildi þess.


Færeysk sýning í Kirsuberjatrénu

Art - 6  klik for at se billedet i stor størrelse. Reguler  størrelse på vindue ved at trække i kanten

Þeim er ekki fisjað saman, stelpunum í Kirsuberjatrénu á Vesturgötu 4.  Það er ekki nóg með, að þær hafi nýlega fengið verðlaun fyrir að varðveita innréttinguna úr Verslun Björns Kristjánssonar, sem sá merki þúsundþjalasmiður rak þarna áratugum saman og aðrir eftir hans dag.  Nei, um nokkurt skeið hafa þær rekið lítinn en notalegan sýningarsal bak við búiðina.  Hann lætur ekki mikið yfir sér, en stendur fyrir sínu.

 

Í dag opnaði færeyski myndlistamaðurinn Hilmar J. Höjgaard sýningu á nítján málverkum þarna í Kirsuberjatrénu.  Eyjarnar, sjórinn, fólkið og fiskveiðarnar; barátta fólksins við oft óblíð náttúruöflin, sem stundum gera manninn sem leikfang í tröllahöndum, en veita honum frið og fegurð í næstu andrá; allt er þetta á sínum stað í myndum Hilmars.  Það er salt í þessum verkum og ólga.  Samt bera þær einnig með sér þessa rósemd, sem fylgir færeysku mannlífi, en við höfum löngu glatað í trylltum dansi okkar kringum gullkálfinn. 

 

Takið nú lífinu með ró, gott fólk og bregðið ykkur á þessa ágætu sýningu Hilmars J. Höjgaards í Kirsuberjatréinu.

 

Sýning á verkum Magnúsar Kjartanssonar

Magnús Kjartansson myndlistarmaður, sem lést langt um aldur fram árið 2006, var í hópi fremstu listamanna þjóðarinnar síðustu áratugina.  Það er galdur í verkum hans.  List hans er ekki aðeins fólgin í því, sem á striganum eða pappírnum gefur að líta, heldur ekki síður í leitinni, sem að baki liggur.

Sumir ramba á sannleikann fyrir tilviljun; Magnús Kjartansson leitaði hans.  Þessi leit opinberast í verkum hans.  Þau skilja ekki eftir neitt algilt svar, frekar en annað í lífinu, heldur spurn.  Sú spurn er þess virði, að henni sé velt fyrir sér.  Því mun list Magnúsar eiga erindi við ókomnar kynslóðir.

Nú stendur yfir sýning á verkum hans frá 9. áratugnum í Listaskálanum í Hveragerði og er hún hluti Listahátíðarinnar í Reykjavík.  Sýningin lýsir harðri innri baráttu listamannsins.  Skal ekki farið út í þá sálma hér.  Ég vil aðeins vekja athygli á þessum listviðburði.

Sýningin er opin alla daga frá klukkan 12.00 til klukkan 18.00 og stendur til sunnudagsins 20. júlí n.k. 

 

 


Steinn Steinarr XLVIII

 

Halldór Laxness skrifaði minningargrein um Stein og fórst það vel úr hendi, eins og við var að búast.  Samt verður ekki undan því litið, að niðurlag greinarinnar er svolítið undarlegt.  Þar segir: „Karlmennskuhug, þrjósku, ósáttfýsi við heiminn, óbilgirni eins og presturinn sagði í gær, þessa eiginleka átti Steinn Steinarr betur útilátna en flestir menn, auk snilldarinnar.  Af hans dæmi munu ung skáld læra að standa sig í lífinu; og sömuleiðis deyja.

 

Hann hafði það af að verða á móti öllum heimsveldunum og dó glaður.”  Svo mörg voru þau orð.

 

Hér skal ósagt látið, hvort ung skáld geti, eða hafi getað sótt í smiðju Steins, hvað það varðar, að læra að standa sig í lífinu.  Sú fullyrðing verður þó að teljast nokkuð hæpin.  Hitt er vitanlega út í hött, að hann hafi verið lærimeistari komandi skáldakynslóða í því að deyja.  Svona skrifa menn einfaldlega til að bera stíl sinn á torg; ekki til að leita sannleikans. 

 

Vissulega er það rétt hjá Laxness, að Steinn Steinarr hafði það af, að vera á móti öllum heimsveldunum.  Þó það nú væri; hvernig gat annað verið um mann, sem var það eðlislægt, að hata allt vald og draga í efa allan „stóra sannleika?”   Auðvitað hafnaði Steinn þeim „stóra sannleika” sem hann hataði.  Halldór Laxness leitaði hans hins vegar lengst af ævi sinnar, jafnvel á svo ólíkum slóðum, sem innan kaþólsku kirkjunnar og heimskommúnísmans.  Fann loks sinn sannleika „í túninu heima”, líkt og við gerum víst flest undir hnígandi haustsól.  En það er önnur saga. 

 

Fullyrðing Laxness um að Steinn Steinarr hafi dáið glaður á ekki við rök að styðjast; um það vitnar viðtal Ingu Huldar Hákonardóttur við Ásthildi Björnsdóttur, ekkju Steins. Viðtalið birtist í bók Sigfúsar Daðasonar, „Maðurinn og skáldið, Steinn Steinarr.” Þar segir Ásthildur m.a.:  „Hann (Steinn) hafði óskaplega lífslöngun og vonaði alltaf, að sér mundi batna!  Ég er viss um, að honum fannst hann eiga margt ógert.  Hann langaði svo til að lifa.”  Síðar í sama viðtali segir Ásthildur: „Hann dó að kvöldi hvítasunnudags, það var fallegt dánardægur, en hann dó ekki glaður.”

 

Fullyrðing Laxness um gleðiríkan dauða Steins Steinarrs dæmir sig auðvitað sjálf, eins þótt hún komi lipurlega út á prenti.


Steinn Steinarr XLVII

 

Hvenær telst einstakt listaverk eða lífsverk listamanns sígilt?  Þeirri spurningu verður seint svarað.  Nútímamenn eru sem kunnugt er, svolítð á sprettinum og láta sig því ekki muna um, að tala um sígild verk fólks, sem enn er nánast á æskuskeiði. Slík fullyrðing hlýtur að teljast nokkuð hæpin.  Frumskilyrði þess, að listaverk geti talist sígílt, er að það lifi meðal fólks, kynslóðum eftir að höfundur þess er genginn á vit feðranna.  Í raun þurfa tímarnir að hafa breyst mjög, milli þess, að listaverk verður til og þess, að hægt sé að kalla það sígilt.

 

Passíusálmar séra Hallgríms eru sígilt listaverk, vegna þess, að þeirra verður ekki síður notið af nútímamönnum, en samtíðarmönnum séra Hallgríms.  Við getum að vísu ekki sagt, að þeirra sé enn notið með sama hætti og gerðist á 17. öld, til þess skortir okkur þekkingu.  En þeir eru eigi að síður lifandi í vitund þjóðarinnar, þótt aldir séu liðnar frá sköpun þeirra og fátt með sama hætti nú og var á dögum séra Hallgríms Péturssonar.

 

Vissulega er ekki nema hálf öld liðin frá andláti Steins Steinarrs.  Það telst að sönnu ekki langur tími í sögu þjóðar, jafnvel ekki þjóðar á gelgjuskeiðinu, eins og við Íslendingar erum í ýmsu tilliti.  En á þessum fimmtíu árum, hafa orðið slíkar breytingar í landinu, að ýmislegt, sem áður var sameiginleg þekking allra, er nú horfið í rökkur hins liðna.  Og um leið hefur margt verið hafið til vegs, bæði í andlegum og veraldlegum efnum, sem menn hefðu áður goldið varhug við. Samt lifa ljóð Steins góðu lífi með þjóðinni.  Þess vegna má óhikað telja þau sígild. 


Myrkramáltíð í Blindrafélagshúsinu

Í dag varð ég fyrir merkilegri lífsreynslu.  Vinkona okkar hjóna, en hún er blind, bauð okkur til málsverðar í húsi Blindrafélagsins Hamrahlíð 17, Reykjavík.  Rétturinn var að vísu ekki frábrugðin því, sem gengur og gerist, lambalæri og hefðbundið meðlæti.  Það merkilega við málsverðinn var, að matsalurinn var myrkvaður.  Það var því borðað í svarta myrkri.

 Nú er það svo, að þessi ágæta vinkona okkar hjóna hefur oft boðið okkur í mat heima hjá sér og við henni á okkar heimili.  Sjálfsöryggi hennar, viljafesta og æfing, gerir það að verkum, að stundum gleymi ég þeirri staðreynd, að hún er blind.  Ég treysti henni því fullkomlega, allt frá því hún leiddi okkur til sætis, og þar til borðhaldi lauk.  Upplifun mín af þessari tímabundnu „blindu" var því ekki eins sterk, eins og verið hefði án nærveru hennar.  Samt sem áður var þetta eftirminnileg stund.  Ég hafði t.d. ekki leitt hugann að því, hvað það er óþægilegt, að borða, án þess að vita nákvæmlega, hvaða meðlæti er á disknum, að nú ekki sét talað um, hvar á disknum það sé.

Eins og flestum öðrum, finnst mér gott að hafa grænar baunir og rauðkál með lambalæri, já og auðvitað sósu og kartöflur.  Þetta var allt til reiðu í dag.  En hvað voru margar kartöflur á disknum mínum í dag?  Voru baunirnar ljósgrænar eða dökkgrænar?  Var vökvi með rauðkálinu?  Beytti ég hnífnum rétt? Voru kjötbitarnir feitir eða magrir? Var ég með stóran eða lítinn kartöflubita á gaflinum? Eða var e.t.v. ekkert á honum? Ég veit það ekki.  En nú veit ég, að málsverður á sér sjónrænar hliðar, sem ég fékk ekki notið í dag. 

Fjarri sé mér, að halda því fram, að ég hafi fengið marktæka reynslu af aðstæðum blindra.  Það var jú nokkuð ljóst mál, að ég mundi sjá aftur, um leið og ég kom út úr salnum.  Um þetta er óþarft að fjölyrða.

 „Blindrakaffi", eins og þetta framtak er kallað, er rekið af Ungblind, sem er deild ungs fólks innan Blindrafélagsins.  Opið er alla virka daga frá klukkan 11.00 til klukkan 15.00.  Á laugardögum er opið frá klukkan 12.00 til klukkan 16.00, en þá er ekki boðið upp á mat, eins og hina dagana.  Ég hvet alla til að mæta, það verður enginn svikinn af því.


Steinn Steinarr XLVI

Í fyrra bindi ævisögu Steins minnist Gylfi Gröndal nokkuð á Ágúst Vigfússon, kunningja Steins, og segir frá því, að þeir Steinn og Ágúst hafi verið félagar í vegavinnu árið 1930.  Ágúst fæddist árið 1909 en lést í hárri elli árið 2000.  Hann var áratugum saman kennari í Bolungarvík, en fluttist til Reykjavíkur á sínum eftri árum, þar sem hann gerðist dyravörður í Hálskólabíói.  Ég kynntist honum nokkuð, þegar ég starfaði sem blaðamaður á „Nýju landi-frjálsri þjóð”, málgagni Samtaka frjálslyndra vinstrimanna á árunum kringum 1970.  Hann var einn af þessum reiknimeisturum stjórnmálanna, sem geta sagt fyrir um kosningaúrslit með fárra atkvæða skekkju.  En það er önnur saga. 

Ágúst fékkst nokkuð við rímnagerð og var auk þess ágætlega pennafær maður á laust mál. Hafði enda frá ýmsu að segja.  Hann var nýtinn vel á skrif sín, birti þau gjarnan fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, flutti þau síðan í útvarpinu og gaf þau loks út á bók.  Útsjónarsemi hefur aldrei þótt til baga, hvorki í hópi kennara né dyravarða.

 

Í einum sagnaþátta sinna, er birtist í bókinni Mörg eru geð guma, 1976 segir Ágúst einmitt frá atviki, sem henti, þegar þeir Steinn voru saman í vegavinnunni sumarið 1930.  Steinn var, eins og menn vita, ekki til stórræðanna í verklegum framkvæmdum.  Vinnuframlag hans í vegavinnunni var því víst með allra minnsta móti.  Fór loks svo, að verkstjórinn hellti sér yfir hann að mannskapnum áheyrandi og rak hann úr vinnunni.  Ágúst lýsir þessu vel og segir, að skáldið hafi hvergi látið sér bregða við skammir verkstjórans, né heldur brottreksturinn.  Að skammarræðunni lokinni strunsaði verkstjórinn á braut, en Steinn hélt í humátt á eftir honum.  Þegar skáldið náði til hins reiða manns, sáu verkamennirnir, að þeir tóku tal saman, en ekki greindu þeir orðaskil.  En skáldið kom aftur í hópinn og var þarna til hausts.  Og þótt hann hafi unnið lítið fram til þessa, þá vann hann þó öllu minna, það sem eftir var sumars.  Var ekki annað að sjá, er verkstjórinn léti sér það vel líka.

 

Nokkrum árum síðar lá Steinn á gólfinu hjá Ágústi í hálfan annan mánuð, eftir að hafa misst leiguherbergi sökum  auraleysis.  Ágúst spurði hann þá, hvernig á því hefði staðið, að hann hefði haldið vinnunni þarna um árið, þrátt fyrir brottreksturinn.  Steinn sagði honum þá, að hann hefði orðið þess var, að verkstjórinn var hjátrúarfullur.  Því neytti hann færis eftir reiðilesturinn, og taldi honum trú um, að hann væri ákvæðaskáld.  Og hver vill ekki frekar njóta samlyndis við slíka menn en líða fyrir fjandskap þeirra?

 

Steinn Steinarr XLV

 

Okkur nútímamönnum hættir til, að fá ekki notið þess, sem við ekki skiljum, eða að minnsta kosti teljum okkur skilja, enda þótt sá skilningur sé oft í hæpnara lagi.  Okkur reynist erfitt að trúa á Guð, vegna þess, að við höfum ekki rekist á hann á förnum vegi.  Og listir vilja vefjast fyrir okkur, nema þær séu settar upp í formúlu, það er að segja, einskonar reiknisdæmi sálarlífsins.

 

Fyrr í vikunni fjallaði ég um nýja útgáfu á ástarljóðum Páls Ólafssonar.  Benti ég þá meðal annars á, hvernig hin svo kallaða bókmenntastofnum skilgreinir hann sem alþýðuskáld.  En hver er merking þess orðs?  Sé því slegið upp í orðabók Menningarsjóðs, kemur eftirfarandi skýring í ljós:  Alþýðuskáld er rithöfundur eða skáld, sem fjallar helst um efni hugstæð alþýðu eða tekur á efninu á alþýðlegan hátt.  Svo mörg voru þau orð.

 

En hver er merking þeirra?  Mér vitanlega er tæpast hægt,að raða hugðarefnum fólks niður á stéttir.  Er ástin hugstæðari kerfisfræðingum en afgreiðslufólki í skóverslunum?  Tæpast.  Og eru heimspekilegir þankar bundnir við heimspekinema og kennara þeirra?  Ég held varla.

 

Skilgreiningarglaðir menn, sem meðal annars tala um alþýðuskáld, ættu að velta fyrir sér ljóðagerð og raunar einnig öðrum skrifum Steins Steinarrs.  Segjum til dæmis, að ljóðið Hjálpræðisherinn biður fyrir þeim synduga manni Jóni Sigurðssyni fyrrverandi kadett, sé ort við alþýðuhæfi.  Er Steinn þar með skilgreindur sem alþýðuskáld?  Ekki vantar, að háðið í ljóðinu liggi ljóst fyrir hverjum sem vera skal.  En hvað þá um Tímann og vatnið?  Það ljóð er einungis hægt að skynja; ekki skilja.  Er Steinn Steinarr þá alþýðuskáld, mínus Tíminn og vatnið og önnur þau ljóð hans, sem fremur eru ætluð lesendum til skynjunar en skilnings?

 

Vissulega getur verið bæði skemmtilegt og fróðlegt, að setja skáldskap í víðara samhengi.  En það breytir ekki því, að hver nýtur lyktar með eigin nefi.


Páll Ólafsson

 

Enda þótt allir vildu Lilju kveðið hafa og Íslendingar séu enn bornir til grafar undir hinu eina blómstri séra Hallgríms Péturssonar, er mér til efs, að íslensk ljóðagerð hafi risið hærra en á tímabilinu frá fjórða áratug 19. aldar og fram yfir miðja 20. öld.  Þetta er öld hinna s.k. þjóðskálda, að viðbættri formbyltingunni í kjölfar síðari heimsstyrjaldar, sem strangt til tekið má raunar rekja lengra aftur.  En það er önnur saga.

 

Rétt eins og 20. öldin var öld mikils umróts í sögu og bókmenntum Íslendinga, þá var  19. öldin tími stórbrotinnar vakningar.  Sú vakning birtist ekki hvað síst í ljóðagerðinni, enda var hún samofin örlögum þjóðarinnar á þeim tímum, draumum hennar og vonum.  Bjarni Thorarensen og þó enn frekar Jónas Hallgrímsson slóu þann streng, sem varð upphaf mikillar hljómkviðu.  Og ýmsir fylgdu á eftir; Grímur Thomsen, Bólu-Hjálmar, séra Matthías Jochumsson, Benedikt Gröndal og síðar skáld á borð við Stephan G. Stephansson, Hannnes Hafstein og Einar Benediktsson.  Enn þann dag í dag eru ljóð þessara skálda mörgum töm, enda þótt tímarnir hafi breyst og mennirnir með.  Óneitanlega lifa sum þeirra m.a. vegna laga, sem tónsmiðir hafa gert við þau, meðan önnur lifa sjálfstæðu lífi.

 

Eitt þeirra skálda, sem hér koma við sögu er Páll Ólafsson.  Enda þótt hann hafi verið höfuðskáld síns fjórðungs, Austfjarða um sína tíð og allar götur síðan, þykir mér, sem hann hafi aldrei hlotið þann sess í bókmenntasögunni, sem honum ber.  Hin hátimbraða bókmenntastofnun skilgreinir hann sem alþýðuskáld, en það þykir sem kunnug er ekki fínn stimpill þar á bæ.  En hvað sem því líður, þá öðluðust ljóð Páls Ólafssonar snemma sess í hjörtum þjóðarinnar.  Var það síst að undra, enda maðurinn  snjallyrt skáld,  gamansamur vel og hittinn á þá strengi, er hitta mannleg hjörtu. 

 

Ástarsamband Páls og síðari konu hans,  Ragnhildar Björnsdóttur hófst meðan hann var enn kvæntur fyrri konu sinni, Þórunni Pálsdóttur.  Ragnhildur varð skáldinu ljóðadís og voru mörg ástarljóða hans til hennar með þeim hætti, að ekki þótti hæfa, að gefa þau út, meðan enn gætti viktoríanskrar siðavendni 19. aldar.  Nokkur þessara ljóða birtust þó í Ljóðmælum I og II, sem hálfbróðir Páls, Jón Ólafsson ritstjóri gaf út á árunum 1899 til 1900.  Árið 1971 kom svo út bókin Fundin ljóð í umsjón Kristjáns Karlssonar og er þar að finna all mörg munúðarljóð Páls, sem ekki höfðu áður birst.  En nú hefur verið bætt um betur.  Bókaútgáfan Salka hefur gefið út bókina Ég skal kveða um eina þig alla mína daga.  Þórarinn Hjartarson annaðist um útgáfuna og ritar formála.  Þarna er að finna munúðarfyllstu ljóð Páls og hafa 95 lausavísur og ljóð, sem þarna birtast, ekki áður komið fyrir almenningssjónir.  Þó hafa nokkur þessara ljóða verið flutt á hljómplötunni Söngur riddarans, þar sem Tjarnarkvartettinn syngur lög við ljóð Páls Ólafssonar, en Þórarinn er einmitt einn söngvara hans.

 

Vonandi verður þessi útgáfa á ástarljóðum Páls til þess, að hann öðlist þann sess, sem hann verðskuldar í bókmenntasögu þjóðarinnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband