Færsluflokkur: Menning og listir
14.6.2008 | 17:57
Steinn Steinarr XLIV
Ljóðlist, tónlist og myndlist; allar eru þessar greinar af sama meiði. Hrynjandi margra ljóða er í rauninni tónlist, hvort sem ljóðin eru rímuð eða ekki. Í flestum ljóða Steins er hrynjandi og myndmálið leynir sér ekki. Þannig er Tíminn og vatnið á sinn hátt málverk í orðum.
Síst er að undra, að ýmsir myndlistamenn hafa sótt sér viðfangsefni í ljóð Steins og þá ekki síst Tímann og vatnið. Nægir þar að nefna Þorvald Skúlason, en þeir Steinn voru miklir vinir. Og enn eru listmálarar að fást við þennan magnaðaljóðaflokk. Þannig hefur Sigurður Þórir nú málað mynd við hvert erindi flokksins, eins og hann birtist í endanlegri gerð. Fyrirhugað er, að hann haldi sýningu á þessum verkum sínum í haust. Það verður fróðlegt að sjá afraksturinn af þessari glímu myndlistamannsins við skáldið.
13.6.2008 | 18:40
Steinn Steinarr XLIII
Steinn Steinarr var ekki aðeins skáld; hann var einnig ágætur hagyrðingur. Aftur á móti var hann ekki stækur bindindismaður. Eitt sinn sat hann að sumbli með Ásgeiri Jónssyni, járnsmið, sem gamlir Hvergerðingar kalla fyrsta Hveragerðisskáldið. En það er önnur saga og verður ekki rakin hér. Eins og gengur og gerist, tóku þeir drykkjubræðurnir að kasta fram vísum og reyndu vitanlega ekki að gera of mikið hvor úr öðrum. Steinn varð fyrri til og kvað til Ásgeirs:
Þó að Herrans handaflaustur
hafi ei vandað skapnað þinn,
á þig nelgdist nógu traustur
nesjamennskusvipurinn.
Þetta er nokkuð vel kveðið, svo sem vænta mátti af skáldinu. En Ásgeir lét Stein ekki eiga neitt hjá sér, heldur svaraði að bragði:
Vel tóks Drottni að gera gripinn,
gleymdist varla nokkur lína.
Dalamennsku sauðasvipinn
sveið hann inn í ásýnd þína.
Það dugir ekki alltaf að vera skáld, til að kveða menn í kútinn.
10.6.2008 | 17:48
Á göngu um gamla kirkjugarðinn
Það er ræktarleg byggð, gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu. Sem oft áður átti ég þar leið um í blíðviðrinu í dag, kastaði kveðju á nokkur ættmenni mín, sem þarna hafa lengi hvílt og ýmsa aðra, sem ég þekki til af afspurn. Og svo eru það hinir, sem ég veit ekkert um, eins og hann Sigurður litli. Nafn hans er klappað á lítinn legstein, sem liggur flatur á leiðinu. Ekkert meira; ekki föðurnafn, ekkert ártal. Aðeins þetta fallega nafn; Sigurður. Litlir hlutir, eins og þessi legsteinn, þurfa ekki alltaf að segja mikla sögu, stundum enga. Samt segja þeir sitt.
Þetta er gamall kirkjugarður og allur gangur á því, hvernig hlúð er að leiði þeirra, er þar hvíla. En ég minnist þess ekki, fyrr en nú, að hafa séð gras teygja sig upp úr göngustígum garðsins. Af því tilefni varð eftirfarandi ljóð til:
Í kirkjugarðinum
Sá lifir sem ekki gleymist.
Blóm prýða leiði sumra
í gamla kirkjugarðinum
meðan njólinn stendur vörð
um brotna legsteina
og skakka krossa
á leiði hinna gleymdu.
Stöku grastoppur
teygir sig upp úr stígum garðsins,
ekki margir en fer fjölgandi.
Þannig birtir tíminn spor sín.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.6.2008 | 20:17
Steinn Steinar XLII
Sum skáld verða samvaxin ljóðum sínum, önnur viðskila við þau, eins og gengur. Í mínum huga er Steinn Steinarr eitt þeirra skálda, sem ekki verða greind frá ljóðum sínum, né ljóðin frá skáldunum. Önnur íslensk skáld sömu náttúru eru, svo dæmi séu tekin, eru séra Hallgrímur Pétursson, Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson. Svo eru það hin skáldin, sem verða viðskila við ljóð sín, ekki vegna þess, að skáldskapur þeirra sé lakari en hinna, sem að ofan eru nefndir, heldur vegan hins, að þjóðin hefur ekki sveipað þá dulúð þjóðsögunnar. Þetta á m.a. við öndvegisskáld eins og Grím Thomsen og Jóhannes úr Kötlum. Þrátt fyrir allt er lífshlaup þeirra eitt, ljóð þeirra annað. Svo eru það skáld, sem einhvern veginn standa þarna mitt á milli, til að mynda Hannes Hafstein, Davíð Stefánsson og Tómas Guðmundsson. Mætti nefna fleiri.
Mér er ljóst, að þessi niðurröðun mótast eingöngu af mínu eigin hugarfari. Margir eru mér því væntanlega ósammála. Vissulega væri gaman, ef þeir létu álit sitt í ljós. Vafalaust er til að mynda Davíð frá Fagraskógi óaðskiljanlegur frá ljóðum sínum í huga ófárra ljóðaunnenda. Og hvar skyldi Jóni úr Vör raðað niður í þessu samhengi?
6.6.2008 | 14:56
Steinn Steinarr XLI
Í ævisögu Steins eftir Gylfa Gröndal, seinna bindi, bls. 60 stendur eftirfarandi, þar sem fjallað er um sænsk skáld á þeim tíma, sem Hannes Sigfússon og Steinn Steinarr eru í Svíþjóð eftir seinna stríð: Vinsælastur allra var hins vegar Nils Ferlin (18981961) en hann var á margan hátt líkur Steini Steinarr sem skáld. Kvæði hans eru undarlegt sambland af viðkvæmni, skopi og kaldhæðni. Og fylgir fleira á eftir, sem ekki verður þulið hér.
Að sumu leyti get ég tekið undir með Gylfa, en þó ekki alfarið. Vissulega gætir í ljóðum beggja þessara skálda, samblands af viðkvæmni, skopi og kaldhæðni. Undarlegt þykir mér það þó ekki, líkt og Gylfa, þegar hann fjallar um Ferlin. Þvert á móti; þetta er rökrétt og í fullu samræmi við líf þeirra Steins og Ferlins. En kaldhæðni þeirra er af ólíkum toga og mér finnst hún eiga sér dýpri rætur í ljóðum Steins en Nils Ferlins. Og skyldi engan undra. Fjölskylda Ferlins átti að vísu við fjárhagslega erfiðleika að etja, eftir að hann missti föður sinn, þá á unglingsaldri. En það sem af því leiddi, voru hreinir smámunir, miðað við það sem Steinn mátti þola í þeim efnum. Aðskilnaður frá foreldrum og systkinum, og það fyrir sakir fátæktar, veldur slíku sári í sálarlífi hvers barns, að hæpið er að nokkru sinni grói um heilt, eins þótt viðkomandi barn lendi hjá góðu fólki, eins og Steinn Steinarr vissulega gerði. Það er einmitt þangað, sem ég hygg, að rekja megi kaldhæðnina, sem svo oft gætir í ljóðum Steins og lausamáli. Og í samræðum var hann beinlínis frægur fyrir kaldhömruð tilsvör og athugasemdir, sem undan sveið. Þannig tala þeir einir, sem hafa djúp sár að dylja. En dæmi hver fyrir sig; nokkur ljóða Ferlins eru til í frábærum þýðingum Magnúsar Ásgeirssonar.
En fyrst minnst er á Nils Ferlin langar mig til að segja smá sögu í sambandi við hann. Fyrir mörgum árum bjó ég í Stokkhólmi. Eitt sumarið, sem ég bjó þar, starfaði ég hjá garðyrkjudeild borgarinnar í hverfi, sem heitir Spånga. Vinnufélagar mínir voru ekki beinlínis bókmenntalega þenkjandi og allt í lagi með það. En hvað um það. Dag einn, þegar lítið var að gera, fórum við á flakk í annað hverfi, Öster Malm. Ólíkt Spånga, er það svo kallað fínt hverfi. Segir ekki af ferðum okkar, fyrr en við komum í kirkjugarð, þarna í þessu fína hverfi. Heyri ég þá allt í einu, að versktjórinn rekur upp ramakvein og fylgdu því ósvikin blótsyrði, enda maðurinn borinn og barnfæddur í því ágæta verkamannahverfi Söder Malm, eða Söder, eins og það kallast í daglegu tali, en þar voru blótsyrði hér á árum áður notuð eins og sumir nota mola með kaffi. Þessum mínum ágæta verkstjóra þótti í það minnsta ótækt, að hefja nokkra setningu án blótyrðis.
En hvað skyldi hafa valdið blótsyrðaflaumnum í þetta sinn? Jú, hann hafði þá gengið fram á gröf Nils Ferlins. Hvernig í djöfulsins, andskotans helvíti hefur þeim dottið í hug, að jarða Nils Ferlin hér í þessu líka sótsvarta helvítis snobbhverfi, en ekki í Gömlu Klöru (bohemahverfinu, þar sem Ferlin var á heimavelli.)
Þessi verkstjóri var ekkert fyrir bókina, frekar en aðrir vinnufélagar mínir þetta sumarið. Ég efast stórlega um, að hann hafi lesið eitt einasta ljóð eftir Nils Ferlin, nema þá í barnaskóla, skyldunnar vegna. Hitt er svo annað mál, að auðvitað hefur hann heyrt lög flutt við ljóð skáldsins, enda ljóð Ferlins vinsælt viðfangsefni kompónista af öllum gerðum og sortum. En það er aukaatriði. Aðalatriðið er það, að skáldið skyldi hvíla innan um sína líka. Það þarf ekki endilega mikla þekkingu, til að eiga sér sína eigin menningu, þótt sérstæð sé.
31.5.2008 | 22:17
Steinn Steinarr XL
Því miður komst ég ekki á tónleikana í Gamla bíói í gærkvöldi, eins og fyrirhugað var, en þar voru flutt lög við ljóð Steins. En ég hef mér það til afsökunar, að jarðskjáflti reið yfir Suðurland, en ég bý í Hveragerði og því í nógu að snúast. Aftur á móti fór dóttir mín með vinkonu sinni og líkaði þeim vel.
Willy Brant kansalari Vestur-Þýskalands hér á árum áður, lét eitt sinn hafa það eftir sér, að sá maður, sem ekki væri blóðrauður bolsi á sínum yngri árum, væri illa innrættur, aftur á móti væru vitsmunir hans ekki alveg sem skyldi, ef hann væri ekki farinn að hægja á róttækninni á miðjum aldri. Þetta er kenning út af fyrir sig og skal ekki rædd hér. Hins vegar er það athyglisvert, að enn þann dag í dag, hálfri öld eftir dauða sinn, höfðar Steinn Steinarr mest til ungs fólks. Hvers vegna? Ef til vill verður þeirri spurningu aldrei svarað. En grunur minn er sá, að efahyggja Steins og skilyrðislaus kröfuharka hans í eigin garð, ráði hér nokkru um.
Í þeim ljóðum Steins, sem ekki eru beinlínis ort til gamans, leitar hann dýpri sanninda mannlegrar tilveru og kemur víða við í þeirri leit. Ljóðið "Hin mikla gjöf" úr bókinni "Ferð án fyrirheits", 1942, er gott dæmi þessa:
Hin mikla gjöf, sem mér af náð er veitt
og mannleg ránshönd seint fær komist að,
er vitund þess að verða aldrei neitt.
Mín vinnulaun og sigurgleði er það.
Margt getur skeð. Og nú er heimsstríð háð,
og hönd hvers manns er kreppt um stál og blý.
En eitt er til, sem ei með vopni er náð,
þótt allra landa herir sæki að því.
Það stendur af sér allra veðra gný
í annarlegri þrjózku, veilt og hált,
með ólán sitt og afglöp forn og ný,
hinn einskirverði maður: Lífið sjálft.
Boðskapur þessa ljóðs er í senn sannur og skilyrðislaus. Hann er svo sannur, að allir þeir, sem varðveita barnið í hjarta sínu geta gert boðskap þess að sínum. Aðeins þeir, sem gangast upp í því að fullorðnast, eins og það er kallað, komast hjá því, að skilja ljóðið.
29.5.2008 | 23:49
Steinn Steinarr XXXIX
Eins og ég sagði í spjalli mínu um Stein Steinarr þann 23. mai s.l., lagði hann okkur sporgöngumönnum sínum aðeins eina skyldu á herðar; skylduna að efast. Steinn var efahyggjumaður umfram annað. Sumir hafa ruglast dulítið í ríminu í því sambandi og dregið trúhneigð hans í efa. En þeim yfirsést eitt; efinn er leit og sá einn leitar, sem trúir. Hinn trúlausi efast hvorki né leitar; hann hafnar.
Trúarhneigð Steins ætti að vera ljós, hverjum þeim, sem les ljóð hans "Kvæði um Krist", er birtist í bókinni "Ljóð". Nú þykist ég vita, að einhverjir bendi á ljóðið "Þriðja bréf Páls postula til Korintumanna" og telji það kollvarpa þessari fullyrðingu minni. En það ágæta ljóð segir mér ekki neitt um trúarlíf Steins, enda ort í þeim hálfkæringi, sem honum var svo tamur, að við hvers manns augum blasir. En hálfkæringur er huliðshjúpur; annað ekki.
Það hvarflar ekki að mér, að halda því fram, að Steinn hafi verið trúarskáld í almennri merkingu þess orðs. En jafn fjarstæðukennt væri að halda því fram, að hann hafi verið trúlaust skáld.
28.5.2008 | 23:04
Tónleikar með lögum við ljóð Steins
Ferð án fyrirheits - Jón Ólafsson


Annað kvöld, fimmtudag og á föstudagskvöld kl. 20.00 fara fram tónleikar í Gamla bíói, Ferð án fyrirheits" kallast þeir. Þar verða flutt lög við ljóð eftir Stein Steinarr. Umsjón með dagskránni hefur Jón Ólafsson, en söngvarar verða þau Hildur Vala, Ellen, KK, Helgi Björnsson, Þorsteinn Einarsson og Svavar Knútur. Þeim til fulltingis verða eftirtaldir hljóðfæraleikarar: Una Sveinbjarnardóttir, Helgi Svavar Helgason, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson, Guðmundur Pétursson, Hrafnkell Orri Egilsson, að ógleymdun Jóni Ólafssyni.
Þarna verða flutt lög eftir Bergþóru Árnadóttur, Sigurð Bjólu, Torfa Ólafs, Ragga Bjarna., Ingólf Steinsson, Magnús Eiríksson og Jón Ólafsson. Sum laganna eru löngu landsþekkt, önnur ný. Af þeim síðar nefndu má nefna lög við ljóðin Grautur og brauð," Í tvílyftu timburhúsi, Blóm" og Andvöku."
Tónlekarnir eru á vegum Listahátíðar og er hægt að kaupa miðja hjá henni. (Verð 3.900 kr.) Öll eigum við okkar Stein, en það sakar ekki að athuga, hvort þetta ágæta tónlistafólk varpar ekki á hann nýju ljósi.
Mætum öll!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.5.2008 | 15:33
Steinn Steinarr XXXVIII
Steinn Steinarr orti sér hvorki til frægðar né þess veraldarframa, sem goldinn er með þjónkun í von um endurgreiðslu í gulli. Hann orti einfaldlega vegna þess, að hann gat ekki annað. Hann var uppreisnarmaður og orðin voru vopn hans, hvort heldur þeim var beitt í ljóði eða lausu máli á prenti, eða þá til leiftursókna á kaffihúsum, stundum af lítilli sanngirni. En þess verður tæpast krafist af stríðsmönnum, að spjótalög þeirra og sverðshögg hafni jafnan þar sem skyldi.
En það var ekki aðeins í orðræðum kaffihúsanna, að Steinn gætti ekki sanngirni um menn og málefni. Hann gat einnig verið heldur hvass í greinum sínum og viðtölum, sem við hann voru tekin, eins og ég hef raunar þegar fjallað lítillega um í þessum þáttum mínum. Steinn Steinarr var nefnilega blessunarlega laus við þann kvilla, að vera maður gallalaus. Eins og allir dauðlegir menn, var hann maður ljóss og skugga.
Ljósið, sem frá honum stafar er bjart og skært, skuggarnir dimmir og kaldir. Þannig er því oftast varið með þá menn, sem eru mikillar fyrirferðar. Og fyrirferð Steins, ekki aðeins í skálskap Íslendinga, heldur andlegum efnum yfirleitt, er slík, að fram hjá honum verður ekki gengið. Í ljósi þessa er merkilegt, hversu vel yfirvöldum menntamála, jafnt ríkis sem borgar, tekst að skjóta sér undan því, að minnast hans á aldarafmælinu. En ef til vill er þögn þeirra manna, sem meta lífið í því einu, sem mölur og ryð fá grandað, helsti virðingarvotturinn, sem þeir geta sýnt skáldi sem Steini Steinarr. Er hann þá vel að þeirri virðingu kominn.
Á morgun, sunnudag, er fimmtugasta ártíð Steins. Í því sambandi er vert að benda á líkræðu Sigurbjörns Einarssonar, síðar biskups, en hún birtist í síðara bindi ævisögu Gylfa Gröndal um Stein. Um hana segir Gylfi réttilega: Slík snilldarverk er ekki unnt að stytta eða vitna til, heldur ber að birta þau í heild sinni. Í ljósi þeirra sanninda hvet ég fólk til að lesa líkræðuna.
Já vel á minnst, ævisaga Steins eftir Gylfa Gröndal; ég hef stöku sinnum vitnað til hennar áður, en ekki fjallað um hana sem slíka, hvað sem síðar verður. En athyglisvert er, að í raun kallar Gylfi þetta verk sitt ekki ævisögu, heldur leit að ævi skálds. Sjaldan hef ég séð ævisöguritara sýna viðfangsefni sínu slíka virðingu.
23.5.2008 | 13:58
Steinn Steinarr XXXVII
Næst komandi sunnudag, þann 25. mai, verður liðin hálf öld frá andláti Steins Steinarrs. Ýmisir urðu til að minnast hans, bæði í bundnu máli og lausu, sem von er, enda var það tvímælaslaust kvatt áhrifaríkasta skáld sinnar aldar á landi hér. Einn þeirra, sem skrifaði minningargrein um Stein, var Sigurður A. Magnússon, en hún birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 1. júní. Í niðurlagi minningargreinarinnar farast Sigurði svo orð:
Unga kynslóðin vottar Steini ekki virðingu sína og þakklæti vegna þess að hann hafi brotið gömul goð eða gert yngri skáldum lífið léttara. Ef nokkuð er, hefur hann gert þeim lífið erfiðara, því hann hefur hækkað markið, krafizt algers heiðarleiks, hlífðarlausrar sjálfsögunar og ókvikullar hollustu við listina. Hann hefur heimtað það af ungum skáldum að þeir séu ferskir, ekki vegna þess að það nýja sé ævinlega betra en hið eldra, heldur vegna þess að það er oftast ósviknara, sannara.
Þarna hittir Sigurður A. Magnússon í mark, að því undanskildu, að hæpið er að fullyrða, að það nýja sé oftast ósviknara og sannara því eldra.
Steinn Steinarr orti ekki af íþrótt, þótt vopnfimur væri. Hann hafði enga þörf á því, að stunda leikfimiæfingar sálarinnar frammi fyrir áhorfendum. Lárviðasveigs krafðist hann ekki. Hann krafðist þess eins, að skilyrðislaus trúnaður ríkti milli skálds og ljóðs. Pólitísk hollusta varð að víkja fyrir þrotlausri sannleiksleit. Fáum var það ljósara en Steini Steinarr, að hugsjónir og hugsanir fara sjaldan saman, þegar stjórnmál eru annars vegar. Sú markaðshyggja, sem listir eru nú ofurseldar, var honum framandi, enda fyrirbærið óþekkt á æviskeið hans, nema þá í bíóbransa vestur í Hollywood, þar sem Laxness hafði forðum gengið um stræti með glampandi frægðardrauma í augum. En það er önnur saga.
Steinn Steinarr lagði okkur sporgöngumönnum sínum aðeins eina skyldu á herðar; skylduna að efast.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)