Færsluflokkur: Menning og listir

Steinn Steinarr XXXVI

Eitt þeirra ljóða, sem Steinn birti ekki á bók fyrr en í „Ferð án fyrirheits, ljóð 1934 - 1954," er ljóðið „Hin mikla lest".  Það hljóðar svo:

 

Hin mikla lest,

             sem alltaf fram hjá fer,

hún flytur samt sem áður

             burt með sér,

sem fanga í luktum vagni

             vitund þína.

 

Sem fanga í luktum vagni

            burt þig ber

á bak við það, sem var

            og það sem er.

Og þögult ljós

            mun þér í augu skína

 

frá sverðsins egg,

          sem sigrar tvíeind þína.

 

Já, það er þetta með tvíeindina; hvaða kerling skyldi það nú vera?  Eins og allir aðrir hópar, smáir sem stórir, höfum við Íslendingar ríka tilhneigingu til að leggja áherslu á ímyndaða samstöðu okkar.  Þið vitið, 17. júní og allt það.  En í raun er samstaðan ekki einu sinni til í einstaklingum, hvað þá heldur hópum, að nú ekki sé talað um heilum þjóðum.  Steinn Steinarr er fyrstur íslenskara skálda, til að benda á þetta.  Þessarar tvíhyggju gætir víða í ljóðum hans; jafnvel má halda því fram, að hún sér rauði þráðurinn í verkum hans.  Ef til vill er það einmitt þess vegna, sem hann er svona dulur en um leið augljós í skáldskapnum, eins og við öll á þessari undarlegu en um leið skíru göngu okkar, frá vöggu til grafar, þar sem sverðið klýfur loks tvíeind okkar.

 


Steinn Steinarr XXXV

Menn eignast sjaldnast vini á kaffihúsum, ef til vill kunningja; jafnvel aðdáendur eða goð, viðhlæjendur, hugsanlega samsærisbræður, þegar níða skal skóinn af einhverjum, sem fjarri er eða hefja glóp til skýjanna.  En sem sagt, vináttuböndum bindast menn tæpast á kaffihúsum, frekar en skip frá ólíkum slóðum, sem mætast í framandi höfn.

Steinn Steinarr var kaffihúsamaður.  Á þeim slóðum átti hann sína kunningja og aðdáendur.  Og einnig fórnarlömb, þegar látið var svíða undan meinlegum athugasemdum.  En mér er til efs, að hann hafi verið vinmargur maður.  Fjöldinn dáði ekki skáldskap hans, meðan hann lifði; síst af öllu fólk af hans kynslóð.  Og þó svo hefði verið, þá eru vinir eitt, aðdáendur annað.  Það var helst, að yngra fólkið hefði mætur á þessu skáldi, sem batt í ljóð hugsun, sem tæpast var þekkt hér norður á hjara veraldar:

 

Að veruleikans stund og stað

er stefnt við hinztu skil,

því ekkert er til nema aðeins það,

sem ekki er til.

 

Á þessu erindi endar ljóðið „Andi hins liðna," sem birtist í „Ferð án fyrirheits," 1942.  Tæpast er hægt, að ætlast til þess, að þjóð, sem kynslóðum saman hafði nært sál sína á náttúrulýrik og þjóðernisstefnu í bland við rómantíska upphafningu, eins þótt annað og hvassara væri ort í landinu á sama tíma, hafi dáð þann er orti, eins og fram kemur í erindinu hér að framan.

Nú jæja, Steinn var sem sagt kaffihúsamaður.  Síðustu æviárin orti hann ekki, að heitið gæti, helst að hann setti saman vísur, sér til dægrastyttingar.  Enda þótt hann væri ekki dáður sem skáld, nema af ungum skáldum og öðrum sveimhugum, þá þótti hann þó orðinn  „fínn félagsskapur", hjá þeim, sem þurftu að gjalda návist slíkra manna í gulli, eða víni, nákvæmninnar vegna.  Og hann var víst ekkert að stugga við nýríkum lögfræðingum og heildsölum, meðan þeir tóku sér hlé frá amstri dagsins og settust að sumbli.  Þarna var um að ræða gagnkvæmt, þegjandi samkomulag; þjónar Mammons skenktu í glösin, en skáldið veitti þeim nærveru sína, af náð sinni og þorsta.

Hvernig skyldi það nú aftur hljóma, ljóðið „L'homme statue?"  Jú, það er víst svona:

 

Ég stóð á miðju torgi

ég var tákn mín sjálfs

og fólkið starði og starði.

 

Það þokaði sér nær mér

og þekkti mig til hálfs,

svo fór það fyrr en varði.

 

Mitt leyndarmál er auður,

sem ég lét því ekki í té:

 

Ég er lifandi, og dauður. 

 

 

 

 


Steinn Steinarr XXXII

Eins og lesendur geta séð, svaraði Þorsteinn Sverrisson spjalli mínu í gær.  Þá birti ég ljóð Steins „Það vex eitt blóm fyrir vestan", til marks um fegurð sumra ljóða hans.  Ekki mótmælti Þorsteinn því vali, en benti þó á ljóðið „Hvíld", sem birtist í „Spor í sandi" árið 1940, því til sannindamerkis, að víða glóir gullið í ljóðum Steins.  Ég tek undir með Þorsteini, „Hvíld" er fagurt ljóð.  Því skal það birt hér, fyrir þá, sem ekki hafa ljóð skáldsins undir höndum.

 

Hvíld

 

Dúnmjúkum höndum strauk kulið um krónu og ax,

og kvöldið stóð álengdar hikandi feimið og beið.

Að baki okkar týndist í mistrið hin langfarna leið,

eins og léttstigin barnsspor í rökkur hins hnígandi dags.

 

Og við settumst við veginn, tveir ferðlúnir framandi menn,

eins og fuglar, sem þöndu sinn væng yfir úthöfin breið.

Hve gott er að hvíla sig rótt, eins og lokið sé leið,

þótt langur og eilífur gangur bíði manns enn.

 

Ég sé þetta ljóð fyrir mér, sem sambland málverks og tónverks, í heitum litum og dimmum tónum.  Listgreinar verða ekki aðskildar, frekar en moldin og grasið.


Steinn Steinarr XXXI

Það er þetta með fegurð ljóða; ætli fari ekki best á því, að telja hana til álitamála, rétt eins og höfgi víns eða blæbrigði lita og tóna.  En það breytir ekki því, að það ljóða Steins, sem mér þykir fegurst, ásamt „Tímanum og vatninu" er „Það vex eitt blóm fyrir vestan", sem birtist í „Ferð án fyrirheits"1942.  Væri nú fróðlegt að vita, hvort ekki eru einhverjir á sama máli.

 

Það vex eitt blóm fyrir vestan

 

Það vex eitt blóm fyrir vestan,

og vornóttin mild og góð

kemur á ljósum klæðum

og kveður því vögguljóð.

 

Ég ann þessu eina blómi,

sem aldrei ég fékk að sjá.

Og þangað horfir minn hugur

í hljóðri og einmana þrá.

 

Og því geng ég fár og fölur

með framandi jörð við il.

Það vex eitt blóm fyrir vestan

og veit ekki, að ég er til.

 

Þess má til gamans geta, að á mínum yngri árum, heyrði ég fólk gera því skóna, að ljóð þetta væri ort, vegna barns, sem Steinn hefði átt í meinum, vestur á fjörðum.  Það er fráleit tilgáta, komin frá jarðbundnu fólki, sem heldur, að ekki sé hægt að yrkja um annað en það, sem er eða hefur verið í raunheimi.  Fjölmörg þeirra bestu ljóða, sem ort hafa verið, eiga sér enga stoð í svo veraldlegum leiðindum.  Ef enginn heimur væri til, nema sá, sem á verður þreifað, væri heldur ekki til skáldskapur, né aðrar listir og þar af leiðandi ekki tilfinningar.  Líf í slíkum heimi væri óbærilegt og það tæki því ekki, að færa það til bókar, nema þá hjá skattinum.

 


Steinn Steinarr XXX

Í spjalli mínu um Stein Steinarr, númer XXVII, föstudaginn 18. þ.m. fjallaði ég um þátttöku hans í því að skera niður hakakrossfánann við bústað vararæðismanns Þjóðverja á Siglufirði, þann 6. ágúst 1933.  Vitnaði ég þar í ágæta ritgerð Sigfúsar Daðasonar um Stein, Maðurinn og skáldið Steinn Steinarr, sem birtist í greinasafni Sigfúsar, Ritgerðir og pistlar, útgefandi Forlagið árið 2000.  Eins og fram kemur, bæði í grein Sigfúsar og spjalli mínu, hét sá Þóroddur Guðmundsson, sem fór fyrir þeim vaska flokki ungra manna, sem skar Hitlers-flaggið niður.  Mér varð það hins vegar á, án tilefnis úr grein Sigfúsar, að draga þá ályktun, að umræddur Þóroddur Guðmundsson, hafi verið Þóroddur Guðmundsson frá Sandi.

Nú hefur ágætur maður og fróður, bent mér á, að hér er ekki rétt með farið.  Þóroddur Guðmunds-son, sá sem hér um ræðir, var verkalýðsleiðtogi á Siglufirði, fæddur 21. júlí 1903, látinn 3. október 1970.  Hann sat um tíma á alþingi.  Um leið og þakka þessa ábendingu, biðst ég afsökunar á þessum leiðu mistökum mínum.  Eins og mér var bent á, kemur hið sanna vel í ljós í ævisögu Steins eftir Gylfa Gröndal.  Þætti mér vænt um, ef lesendur brigðust skjótt við og létu mig vita, fari ég oftar með rangt mál.

En fyrst þátttaka Steins í fánamálinu á Siglufirði er til umræðu, er vert að geta þess, að hann batt ekki lengi trúss sitt við kommúnismann.  Dvöl hans í Kommúnistaflokki Íslands stóð aðeins í u.þ.b. tvö ár, eins og áður hefur komið fram.  Steinn Steinarr var skilyrðislaus hatursmaður alls valds; mátti þá einu gilda, hvort það veifaði hamri og sigð eða hakakrossi.  Í þessu sambandi er vert að lesa viðtal Helga Sæmundssonar, sem birtist í Alþýðublaðinu 19. september 1956, en þá um sumarið hafði Steinn farið fræga ferð til Sovétríkajanna ásamt fleiri listamönnum.  Einnig má benda á grein Steins í sama blaði 25. nóvember 1956, þar sem skáldið veitist harkalega að Sovétríkjunum fyrir innrásina í Ungverjaland þá um haustið.  Og Steinn lét ekki þar staðar numið; þann 20 júlí 1957 lætur hann Halldór Laxness fá það óþvegið í Alþýðublaðinu, fyrir þátttöku hans í svokölluðu 6. heimsmóti æskunnar. Öll þessi ritverk er að finna í heildarsafni Steins, Kvæðasafni og greinum. 

 


Steinn Steinarr XXIX

Árið 1942 kom út bók Steins, Ferð án fyrirheits.  Nafn bókarinnar er dæmigert fyrir skáldið, enda notaði hann það aftur, þegar hann sendi frá sér heildarsafn ljóða sinna árið 1956, þó all nokkuð stytt.

Steinn Steinarr átti sér ekki ferðaáætlun þessa heims og kærði sig ekki um slíkt plagg.  Og honum duldist ekki, að það var ekki hans, að skipuleggja ferðina, handan móðunnar miklu eða grufla í þeim óstignu sporum.   Hann var eins fjarri spiritisma og hægt var.  Spor í sandi var titill bókarinnar, sem út kom, næst á undan Ferð án fyrirheits.

Í báðum þessum bókatitlum felst sama hugsunin;  næsta alda máir burt spor í sandi og sá, sem skilið hefur sporið eftir sig, á sér tæpast fyrirheit á ferð sinni um fjöruna, að minnsta kosti ekki það, að marka hana sporum sínum.  Þrátt fyrir þetta hafa ekki aðrir orðið til þess, að marka íslenska ljóðagerð sporum sínum á okkar tímum, með viðlíka hætti og Steinn Steinarr.  Raunar felst engin mótsögn í þessu; skáldskapur er fjöruferð, þar sem haf mætir landi og skáldið á það val eitt, að ganga öðru hvoru á hönd; hafinu, sem seiðir fram ljóð þess, eða landinu, sem elur það. 

 

 


Málverkasýning sem vert er að skoða

Það er dulítið ævintýri í allri sannri list.  Nei, ég ætla mér ekki þá dul, að setja fram formúlu um það, hvað sé sönn list og hvað ekki.  Ég segi bara eins og Stefán Hörður sagði forðum tíð, þegar hann var spurður, hvað væri ljóð; “ég veit það ekki, en ég þekki það, þegar ég sé það”.  Svo mörg voru þau orð.  

 

 

Húsið að Sætúni 8 lætur ekki mikið yfir sér.  Þarna var áður kaffibræðsla O. Johnson og Kaaber.  Það var á þeim tímum, þegar þjóðin sameinaðist um kaffið, eins og allt annað, sem hún lét ofan í sig.  Mig minnir, að kaffitegundirnar í landinu hafi verið þrjár.  Nú skipta þær tugum, ef ekki hundruðum.  Guð má vita, hvert allt þetta kaffiþamb leiðir.  

 

 

En þótt Guð einn viti allt um kaffiþamb þjóðarinnar, en ég ekki neitt, þá er ég nokkuð fróður um hitt, hvað nú er að gerast í gömlu kaffibræðslunni þeirra O. Johnson og Kabber.  Þar fer þessa dagana fram sýning Einars Hákonarsonar, sem forðum tíð var Reykvíkingur inn að beini, en er nú orðinn Hólmvíkingur og fer ekki suður, nema sem hver annar strandhöggsmaður.  Og nú hefur skip hans sem sagt borið að landi við Sætúnið og hann slegið upp sýningu þarna í kaffibræðslunni.  

 

 

Sumir menn eru listmálarar og ágætir sem slíkir, en ekkert umfram það.  Einar Hákonarson er sagnamaður, sem skrifar á striga.  Ólíkum saman að jafna, en svona var Alfreð Flóki.  Já, og Kjarval og Mikines, en verk hans voru nýlega sýnd á Kjarvalsstöðum.    

 

 

Strigasögurnar hans Einars eru með ýmsum hætti sagðar.  Sumar eru beinskeyttar og leyna engu.  Ef til vill svolítið stórkarlalegar.  Þær hafna gjarnan á stórum flötum og eru svolítið glannalegar, sumar hverjar.  Aðrar láta lítið fyrir sér fara, eru í raun ekki sögur, heldur ljóð.  Þessar myndir taka oft ekki mikið rými á vegg.  En einhvern veginn þekja þær drjúga spildu í hugskoti mínu.  Litirnir í þessum myndum eru hófstilltir, en þó fastir fyrir, enda komnir beint frá þeirri náttúru, sem allt er af sprottið.  

 

 

Þá er að geta einar myndar, nokkuð stórrar að flatarmáli, en ólíkri flestu af því, sem ég hef séð, ekki aðeins frá hendi Einars Hákonarsonar, heldur yfirleitt.  “Morgunn” nefnist þessi mynd.  O já, víst lýsir þar af rísandi degi.  En sól þess morguns skín hvorki yfir Hólmavík né Ölfusið.  Nei, þar rís morgunn hins fyrsta dags; sköpunin sjálf!  Þessi mynd á hvergi heima, nema sem altaristafla, enda er hún máluð við fótskör Skaparans, þar sem öll einlæg list fæðist til lífs.

Svona í lokin skal þess getið, að Einar tók upp á því fyrir nokkrum árum, að mála mynd af Steini Steinarr.  Nú hefur hann látið gera eftriprentun, með kúnstum nýjustu tækni, af þessu málverki og er hún til sýnis og sölu þarna í kaffibræðslunni.     

“Og tíminn er eins og mynd, 

sem er máluð af vatninu 

og mér til hálfs.”     

segir skáldið.   

Þannig er nú það.  En ég er ekki frá því, að menn ættu að sjá þessa sýningu Einars, í það minnsta þeir, sem áhuga hafa á, að lyfta sálinni upp úr grámósku líðandi stundar.  En þá er vissara að hafa hraðar hendur; sýðasti sýningardagur er, að fróðra manna sögn, næstkomandi sunnudagur. 
 

Steinn Steinarr XXVIII

 

Stundum mætti ætla, að örlögin hafi kímnigáfu.  Eins og sjá má á ljóði Steins, Hallgrímskirkja (líkan), var hann ekki par hrifinn af byggingu þess mikla mannvirkis.  Kvæðið hljómar svo:

 

Húsameistari ríkisins

tók handfylli sína af leir

og horfði dulráðum augum

á reizlur og kvarða:

 

51x19+18-102

þá útkomu læt ég mig

raunar lítils varða.

 

Ef turninnn er lóðréttur

hallast kórinn til hægri.

Mín hugmynd er sú,

að hver trappa sé annarri lægri.

 

Húsameistari ríkisins

tók handfylli sína af leir,

og Hallgrímur sálugi Pétursson

kom til hans og sagði:

 

Húsameirstari ríkisins!

Ekki meir, ekki meir!

 

Nei, ég ætla ekki að fjalla um Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti.  Þó þykir mér, sögulegs samhengis vegna, rétt að geta þess, að í turni þeirrar kirkju starfa Jón Pálsson, framkvæmdastjóri Hins ískenska biblíufélags.  Og er nú síst að undra, þótt lesendur greini ekki samhengið.  En það er þarna samt.  Þannig er nefnilega mál með vexti, að árið 1976 var Jón Pálsson nemandi við háskólann í Wisconsin, vestur í Bandaríknunum.  Skáldlega þenkjandi ungur maður og lét sig ekki muna um, að þýða Tímann og vatnið á tungu staðarmanna.  Þýðingin birtist svo í tímariti háskólans, Universty Writers, umrætt ár.  Merkilegt má það þykja, að kápa tímaritsins er, í bak og fyrir, prýdd gamalli ljósmynd af kartöflubændum.  Slíkir sómamenn mundu lengi hafa sett svip sinn á mannlífið, þarna á bökkum Vatnanna miklu.  Það verður ekki af þeim skafið, Ameríkönum; þeir eru praktískt þenkjandi menn.

 

Nú hefur minn gamli kumpán, gert mér og lesendum þessa spjalls, þann greiða, að leyfa mér að birta úr þessari þýðingu.  Kann ég honum þakkir, og þykir ekki úr vegi, að byrja á byrjuninni.

 

 

THE TIME AND THE WATER

 

1

 

The time is like the water

and the water is cold and deep

as is my own consciousness.

 

***

 

And the time and the water

flow randomly to perish

whitin my own consciousness

 

***

 

Lítum svo á þýðingu Jóns á 14. ljóði Tímans og vatnsins:

 

14

 

The sunshine,

the storm,

the sea

 

***

 

I have walked in the green sand

and the green sand

was evrywhere around me

like a sea in the sea.

 

No

 

Like a numerous-winged bird

flies my hand away

into the mountain.

 

***

 

And my hand sinks

like a bomb

deep into the mountain.

 

Loks skal svo birt þýðing Jóns Pálssonar á 21. og síðasta ljóði Tímans og vatnsins.

 

21

 

Flowing water

rising-blue day,

voiceless night.

 

***

 

I have made my resting place

in a half-closed eye

of eternity.

 

***

 

Like astonishing flowers

grow distant worlds

out fram my long-slepping.

 

***

 

I feel the dark turn

like a metal wheel

around the axis of the light.

 

***

 

I feel time´s resistance

fall exhausted

through the soft water.

 

***

While the eternity watches

my vague dream

flowing from its eye.

 

 

Væri nú ekki athugandi, að röskir bókaútgefendur söfnuðu saman þýðingum á ljóðum Steins í tilefni aldarafmælis skáldsins og gæfu þau út?

 

 

 


Steinn Steinarr XXVII

Aldrei fór það svo, að Steinn Steinarr drekkti kóngsins böðli, líkt og Jón Hreggviðssong gerði forðum, eða gerði ekki, eins og þar stendur.  En þó var hann dæmdur sakamaður, engu síður en kristsbóndinn á Rein.  Um þennan dóm farast Sigfúsi Daðasyni svo orð í ritgerð sinni, Maðurinn og skáldið Steinn Steinarr, sem lesa má í bókinni Sigfús Daðason, ritgerðir og pistlr, er Forlagið gaf út árið 2000.  Þar segir m.a.: 

Þar kom að Steinn var dæmdur, bæði í héraði og hæstarétti, fyrir kommúistísk ofbeldisverk unnið árið 1933.  Því næst birtir Sigfús frásögn Alþýðublaðsins af þessu máli, frá 27. febrúar 1935, en hún hljóðar svo: 

Á mánudaginn féll Hæstaréttardómur í hinu svonefnda hakakrossmáli á Siglufirði.  Fimm kommúnistar höfðu sumarið 1933 ráðist á gálgakrossfána, sem blakti á stöng á húsi þýska ræðismannsins á Siglufirði, og skorið hann niður.  Þóroddur Guðmundsson hét sá er var fyrir hópnum.  Þeir Steinn Steinarr skáld og Eyjólfur Árnason hjálpuðu honum, en Gunnar Jóhannsson og Aðalbjörn Pétursson stóðu álengdar og horfðu á.  Konsúllinn kærði þennan niðurskurð flaggsins, og voru þeir Þóroddur, Steinn og Eyjólfur dæmdir í þriggja mánaða fangelsi, en Gunnar og Aðalbjörn í tveggja mánaða fangelsi fyrir að hafa verið vitundarvottar.  Hæstiréttur breytti ekki dómi Þórodds, Gunnars og Aðalbjarnar, en stytti fangelsisdóm Steins og Eyjólfs í tvo mánuði.  Dómurinn er ekki skilorðsbundinn.  Þessi dómur sýnir glögglega hverskonar réttur er til hér á landi, einn fyrir verkamenn og annar fyrir burgeisa. 

Og lýkur hér tilvitnun í Alþýðublaðið. 

Það skal tekið fram, að hvorki Steinn né félagar hans, þurftu að sitja af sér þessa dóma.  Eigi að síður ber þeim heiður fyrir þann verknað, sem þeir voru dæmdir fyrir.  Því skal þessu haldið til haga.

Steinn var ekki eina skáldið í hópi hinna dæmdu; forsprakkinn, að mati hæstaréttar, Þóroddur Guðmundsson, sem jafnan kenndi sig við Sand í Aðaldal, var á sinni tíð þekkt skáld, þótt nokkuð hafi fennt yfir nafn hans síðari árin.  En það er önnur saga.


Steinn Steinarr XXVI

Í gær fjallaði ég um lögin hennar Bergþóru Árnadóttur við ljóð Steins Steinarrs.  Eins og lesendur geta séð, nefndi ég nokkur þeirra.  Nú hefur einn bloggvina minna vakið athygli á því, að ég sleppti “einu fallegasta og einlægasta” lagi Bergþóru, en það gerði hún við ljóðið Verkamaður .    

 

Já, mikið rétt, lag Bergþóru við þetta ljóð Steins er bæði fallegt og einlægt.  En einhvern veginn hefur mér alltaf  þótt þetta ljóð Steins skera sig úr öðru, sem eftir hann liggur.  Ég get ekki að því gert, að mér finnst í því holur rómur.  Ljóðið birtist í fyrstu bók skáldsins, Rauður loginn brann, sem kom út árið 1934.  Það sama ár var hann rekinn úr Kommúnístaflokknum, þar sem hann hafði verið félagi í svo sem tvö ár.  Raunar má geta þess, að upphaflega birtist ljóð þetta í Rétti, 1. hefti ársins 1933.  Þá var enn ólokið því verki, að sparka Steini úr Kommúnístaflokki Íslands.  

 

Ljóðið Verkamaður fjallar sem kunnugt er um verkamann, sem lætur hverjum degi nægja sína þjáningu, uns þar kemur, að stéttarbræður hans rísa upp til blóðurgar baráttu, í hverri hann lætur lífið.  Mér finnst þetta ljóð vera sósíalrealísk samsuða, sem hefði sómt sér ágætlega í stalínísku “bókmenntariti” austur í Moskvu.  En Steinn er ungur maður og leitandi, þegar hann yrkir þetta ljóð.  Sjálfur hef ég ekki úr háum söðli að detta í þessum efnum; pólitískur skáldskapur, sérstaklega ungra og óreyndra manna, er yfirleitt barnalegur.   

 

Bergþóra Árnadóttir var hrifnæm listakona og lag hennar við Verkamanninn hans Steins er gert á umbrotatímum, kenndum við 68-kynslóðina.  Í því ljósi ber að líta það.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband