Færsluflokkur: Menning og listir
11.4.2008 | 08:07
Steinn Steinarr XXV
Ýmsir hafa orðið til, að semja og flytja lög við ljóð Steins Steinarrs. Sumir hafa gert það samkvæmt þeirri reglu, að list sé eftir því betri, sem hún er síður við alþýðu skap. Verður hver að hafa sinn háttinn á. En til allrar hamingju eru hinir fleiri, sem samið hafa skemmtileg og um leið góð lög við ljóð Steins. Má í því sambandi nefna hið ágæta lag Ragga Bjarna við ljóðið Barn.
Flest ljóða Steins henta vel til söngs. Þó eru þau vandmeð farin, sem að líkum lætur. Þær eru fleiri en ein, hliðarnar á ljóðunum þeim arna. Á því hafa ýmsir farið flatt, í slagaragerð við ljóð Steins Steinarrs. En nóg um það.
Þann 15. febrúar s.l. hefði söngvaskáldið Bergþóra Árnadóttir orðið sextug, en hún lést þann 8. mars á síðasta ári. Nú hafa lög hennar, í hennar eigin flutningi, verið gefin út, fimm diskar í öskju, og má þar heyra rúmlega 100 lög. Útgefandi er bóka- og tónlistaútgáfan Dimma. Af þessum rúmlega 100 lögum, eru 12 við ljóð eftir Stein. Má þar nefna ljóð eins og Hin mikla gjöf, Hljóð streymir lindin í haga og Vöggugjöf.
Ástæðulaust væri, að láta þessa getið hér, nema sakir þess, að túlkun Bergþóru á ljóðum Steins Steinarrs er mjög einlæg og eftir því góð, enda var hún ljóðasöngvari í sérflokki.
Tvennir tónleikar hafa farið fram undanfarið í tilefni þess, að sextíu ár eru liðin frá fæðingu Bergþóru. Ég fór á þá síðar, í Grafarvogskirkju nú um daginn og sé ekki eftir því.
Það er óhætt, að mæla með skífusafni Bergþóru Árnadóttur, ekki aðeins við þá, sem unna góðri tónlist, heldur einni við aðdáendur ýmissa skálda, s.s. Tómasar Guðmundssonar, Páls J. Árdal og síðast en ekki síst Steins Steinarrs.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 08:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.4.2008 | 12:58
Steinn Steinarr XXIV
Það er vissara að fara varlega í að skilgreina ljóð; poems should be, not mean. Það er nefnilega galdur í hverju góðu ljóði. Enda þótt menn séu ekki lengur bornir á bál fyrir kukl, er ég ekki frá því, að hitnað hafi svolítið undir sumum, sem ganga langt í að skilgreina skáldskap. Ekki ferst mér, að mótmæla því, að menn fjalli um skáldskap eða aðra andans iðju sín á milli og beri jafnvel skoðanir sínar þar að lútandi á torg. En engum dyrum skyldi lokað, þegar hugur manna er annars vegar, skálda sem annarra.
Því kemur mér þetta í hug, að ýmsir hafa orðið til, að taka nokkuð stórt upp í sig varðandi Tímann og vatnið. Eins og ég hef áður rakið, hefur því gjarnan verið haldið fram, að ljóðið sé ástarljóð, ort til einnar og sömu konunnar. Þá er þeirri staðreynd vikið til hliðar, að ljóð þetta, eða réttara sagt ljóðaflokkur, er ekki ort í samfellu, heldur á löngum tíma og að mestu birt í bútum, allt þar til það kom út í frumgerð sinni árið 1948. og síðar með viðbótum 1956. Það útilokar að vísu ekkert, en veikir þó óneitanlega kenninguna um Tímann og vatnið sem ástarljóð í hefðbundnum skilningi þess orðs.
En njótum vafans; hann eykur bæði dýpt ljósins og ágæti þess.
4.4.2008 | 13:03
Steinn Steinarr XXIII
Mér varð dulítið á í messunni í spjalli mínu um Stein Steinarr á laugardaginn í síðustu viku (XXII spjalli). Það vitna ég í eftirmála Maj-Lis Holmberg í bók hennar, Kanske har du aldrig varet till, en í henni birtir hún þýðingar á ljóðum eftir Stein. Vitnar hún þar til greinar eftir Svein Skorra Höskuldsson um tilurð Tímans og vatnsins og segir hana hafa birtst í Skírni árið 1971. Þetta tók ég upp eftir henni í spjallinu á laugardaginn var. Þegar ég svo hugðist lesa greins Sveins Skorra í Skírni, greip ég í tómt. Aftur á móti skrifaði hann langa og ítarlega grein um tilurð Tímans og vatnsins á því herrans ári 1971. En hún birtist ekki í Skírni, heldur í afmælisriti dr. Steingríms J. Þorsteinssonar prófessors. Umrædd grein Sveins Skorra Höskuldssonar, Þegar Tíminn og vatnið varð til, er viðamikil lesning upp á einar fjörutíu blaðsíður. Vert er að vekja athygli á henni, fyrir þá, sem áhuga hafa á tilurð einstakra ljóða. En mig langar til að taka mér það bessaleyfi, að birta hér fyrsta ljóð Tímans og vatnsins í sænskri þýðingu Maj-Lis Holmberg.
Tiden och vattnet
1
Tiden är som vattnet,
och vattnet är kallt och djupt
som mitt eget medvetande.
***
Och tiden är som en bild,
som till hälften är målad av vattnet
och till hälften av mig.
***
Och tiden och vattnet
rinner väglöst slut
in i mitt eget medvetande.
Menning og listir | Breytt 5.4.2008 kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2008 | 17:02
Steinn Steinarr XXII
Kanske har du aldrig varit till" er titill á bók Maj-Lis Holmberg, þar sem hún birtir þýðingar sínar á ýmsum ljóða Steins Steinars, þ.á.m. Tímanum og vatninu. (Eins og það kom út árið 1956 með 21 erindi í stað 13 erindum eða kvæðum, eftir því, hvernig á það er litið) í frumútgáfunni 1948. Maj-Lis Holmberg var finnlands-svíi og kom bókin út í Helsingfors, fyrsta útgáfa árið 1973, önnur útgáfa árið eftir og sú þriðja árið 1979. Ekki er mér kunnugt um, hvort bókin hefur verið gefin út eftir það.
Í eftirmála bókarinnar fjallar Maj-Lis Holmberg m.a. um vangaveltur manna um tilurð Tímans og vatnsins. Vísar hún í því sambandi til greinar Sveins Skorra Höskuldssonar í Skírni árið 1971. Er hún, eins og Sveinn Skorri, á þeirri skoðun, að ljóðið sé ekki ort í einni samfellu og því hæpið, að túlka það sem ástarljóð í eiginlegri merkingu þess orðs. Ég tek undir það.
Að svo miklu leyti, sem Tíminn og vatnið er ástarljóð, er það ástarljóð, ort ástinni sjálfri til vegsemdar og hverfulleikanum, sem allt eins má kalla dauðann. Og eru til samstígari elskendur, þegar öllu er á botninn hvolft? Sakar nú tæpast, að lesa ljóð Steins, Ástin og dauðinn", sem birtist í Ferð án fyrirheits", 1942.
Ástin og dauðinn
Að elska er að deyja þeim dauða,
sem duftinu heitast ann,
að deyja er að elska hið auða,
sem enginn lifandi fann.
Í unglingsins ástarloga
og öldungsins feigðargrun
er sáðkorn af sama toga,
með samskonar tilætlun.
Þótt hjartað ei hamingju fyndi,
hún hlotnast því eitthvert sinn,
því dauðinn er ást þín og yndi,
og ástin er dauði þinn.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2008 | 13:23
Steinn Steinarr XXI
Í spjalli mínu um Stein, þann 8. mars. s.l. (spjalli nr. XVI) fjallaði ég um minningarljóð hans um Jón Pálsson frá Hlíð, sem ýmsum þykir nokkuð svo kaldranalegt. En eins og ég tel mig færa rök fyrir í því spjalli, fjallar kvæðið ekki aðeins um nöturleg örlög Jóns, heldur einnig örlög Steins sjálfs.
Minningarljóð Steins um Eggert Snorra Ketilbjarnarson, sem fórst með togaranum Apríl, er af allt öðrum toga. Þetta er sonnetta og læt ég hana fylgja hér. Reyndar er ljóð þetta það fyrsta, sem birtist eftir Stein á prenti, en það var í Lögréttu, þann 18. mars 1931. Birtist það undir nafninu Aðalsteinn Kristmundsson. Steinn Steinarr var enn ekki í heiminn borinn, ef svo má að orði komast. Til fróðleiks má geta þess, að Þorsteinn Gíslason var útgefandi og ritstjóri Lögréttu.
Ég minnist þín í vorsins bláa veldi,
er vonir okkar stefndu að sama marki,
þær týndust ei í heimsins glaum og harki,
og hugann glöddu á björtu sumarkveldi.
Þín sál var öll hjá fögrum lit og línum,
og ljóðsins töfraglæsta dularheimi.
Þú leiðst í burt frá lágum jarðarseimi,
í ljóssins dýrð, á hugar-vængjum þínum.
Ég sakna þín, ég syrgi fagran vin,
í sálu þinni fann ég dýpsta hljóminn,
er hóf sig yfir heimsins dægur-glys.
Á horfna tímans horfi ég endurskin,
ég heyri ennþá glaða, þýða róminn,
frá hreinni sál með hárra vona ris.
Ólíkt því, sem gerist í minningarljóðinu um Jón Pálsson frá Hlíð, er það söknuðurinn einn og sorgin, sem hér kemst að. Hér yrkir Steinn af hjartans einlægni; hálfkæringurinn, sem gjarnan gætir í ljóðum hans, er víðsfjarri. Það leynir sér ekki, að vinátta þeirra Steins og Eggerts Snorra hefur staðið djúpum rótum, enda voru þeir bernskuvinir. Samband Steins og Jóns frá Hlíð var hins vegar fyrst og fremst í bæjarslarkinu í henni Reykjavík. Þar í liggur munurinn á þessum tveimur minningarljóðum.
Því hefur oft verið haldið fram, að skáldaferill Steins spanni aðeins fjórtán ár. Er þá miðað við útgáfuár fyrstu bókar hans, Rauður loginn brann, 1934 og þeirrar síðustu, Tíminn og vatnið, 1948. En minningarljóðið um Eggert Snorra er ort þremur árum fyrir útkomu rauða logans brennandi". Það eitt lengir skáldaferilinn, sem því nemur. Auk þess er enginn viðvaningsbragur á þessu ljóði. Því er mun nær, að telja, að skáldferill Steins nái yfir tvo áratugi en fjórtán ár. Það er tæpast hægt að telja það mjög skamman feril, miðað við æviskeið Steins, þegar þess er gætt, að hann lést aðeins tæplega fimmtugur að aldri.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2008 | 12:54
Steinn Steinarr XX
Verk Steins og raunar einnig maðurinn sjálfur, hafa orðið viðfangsefni fjölda listamanna í ýmsum greinum. Listmálarar hafa málað myndir af honum og spreytt sig á ljóðum hans, tónlistamenn hafa gert lög við ljóðin, sum í léttum dúr, önnur í öðrum anda eins og gengur. Og ekki má gleyma því, að Steinn er yrkisefni margra skálda.
Í bókinni 36 ljóð eftir Hannes Pétursson, en hún kom út hjá Iðunni árið 1983, er eftirfarandi ljóð um Stein. Það er númer 33 í bókinni en ber einnig heitið Steinn, 1958". Tekið skal fram, að ljóð þetta er ort löngu eftir andlát Steins.
Í bláum augum hans
hefur búið um sig stolt:
Nú er ekkert framundan
nema firnindi þagnarinnar.
Vel tekst mér, bræður
að brenna, smám saman, upp
með hallmæli sumra
í hári mínu og skeggrót
með lofburð annarra
í liðum mínum og beinum.
Nú er ekkert framundan
nema firnindi þagnarinnar.
Þó bregður fyrir
í bláum, kúptum augum hans
væng blekkingarinnar
sem hann barðist í móti
ljósum væng
vonar, fyrirheits
Og enni hans verður snögglega
sem allt hafi tilgang:
Lífið, það er líf
á langferð undir stjörnunum.
Að deyja, það er aðeins
hin alhvíta hreyfing.
Eitt sinn hafði Steinn orð á því, að ljóð væru í raun sendibréf milli skálda. Auðvitað er þetta dulítið hæpin fullyrðing, eins og sumt, sem Steinn kastaði fram, oft í hálfkæringi. En þó leynast í henni viss sannindi. Ekki úr vegi, að fleiri fái notið slíkra sendibréfa", jafnvel þótt hinn eiginlegi viðtakandi sé horfinn yfir móðuna miklu.
21.3.2008 | 01:41
Steinn Steinarr XIX
Það hendir, að ég fái viðbrögð frá ættingjum Steins, við spjalli mínu um hann. Fyrir það er ég þakklátur. Í framhaldi af vangaveltum mínum um kaþólsku Steins í 2. spjalli, þann 19. janúar s.l., skrifaði einn þeirra mér og benti mér á, að menn skyldu ekki vanmeta þátt trúarinnar í lífi og ljóðum Steins. Ég er honum sammála; kristinnar trúar gætir víða í ljóðum hans. En það fer gjarnan dult, eins og fleira í eðli og verkum þessa margslungna manns.
Nú er föstudagurinn langi og því ekki úr vegi, að birta Passíusálm nr. 51. Ég er ekki frá því, að ýmsir haldi, að þetta sé gamankvæði, eða að minnsta kosti ort í hálfkæringi. En því fer fjarri, að mínu mati. Enda þótt þetta ljóð sé sveipað nokkuð svo kæruleysislegum blæ á ytra borði, er það í rauninni trúarlegt ákall. Gerðu ekki margir sér ferð á Golgata, forðum tíð, til skemmta sér yfir kvölum Krists? Og er firring okkar ekki slík, að okkur er tamt, að líta jafnvel sárustu kvöl náunga okkar sem hálfgerð leiðindiog ekkert umfram það? En hér kemur ljóðið og dæmi svo hver fyrir sig.
Passíusálmur nr. 51
Á Valhúsahæðinni
er verið að krossfesta mann.
Og fólkið kaupir sér far
með strætisvagninum
til þess að horfa á hann.
Það er sólskin og hiti,
og sjórinn er sléttur og blár.
Þetta er laglegur maður
með mikið enni
og mógult hár.
Og stúlka með sægræn augu segir við mig:
Skyldi manninum ekki leiðast
að láta krossfesta sig?
15.3.2008 | 16:04
Steinn Steinarr XVIII
Ljóð eiga það til, að læða að manni undarlegum hughrifum. Auðvitað verða þessi hughrif ekki skýrð, frekar en aðrir huglægir þættir mannlegrar tilveru. En þar með er ekki sagt, að ekki sé hægt, að velta hlutunum fyrir sér. Þannig hafa mér jafnan þótt nokkur líkindi með ljóðum Steins Steinarrs og sænksa skáldsins Gunnars Ekelöf. Gunnar var árinu eldri en Steinn og lifði hann í áratug. Hann telst brautryðjandi módernismans í sænskri ljóðagerð. Ýmis íslensk skáld hafa þýtt eftir hann einstök ljóð, s.s. eins og Jóhann Hjálmarsson og Einar Bragi. Sjálfur gaf ég, árið 1990, út bók, með þýðingum mínum á nokkrum ljóða hans. Því nóttin kemur", nefnist sú bók, og dregur nafn sitt af einu ljóði, sem þar má lesa. Í þýðingu minni er það á þessa leið:
Því nóttin kemur
þegar gleði og harmur
hvíla saman í ró.
Þú sérð rökkrið leggjast hratt yfir
eins og klukknaóm
og gluggana kvikna einn af öðrum.
Innan þeirra hefur fólkið borðað sitt spaghettí
og án þess að leiða hugann að morgundeginum
sefur það brátt hvert hjá öðru.
Því nóttin kemur
Það er enginn morgundagur
Það er enginn borg.
Til fróðleiks má geta þess, að ljóð þetta orti Ekelöf á Ítalíu, eftir að bær einn, sem var ekki fjarri þeim stað, hvar hann dvaldi, varð fyrir aurskriðu. Hlaust af því margra bani. En það er annað mál.
Í sjálfu sér er þetta ljóð ekki líkt neinu, sem Steinn orti. Og þó leynist þarna einhver skyldleiki. Hverfulleikakenndin í þessu ljóði Ekelöfs minnir mig mjög á Stein. En það vantar kaldhæðnina. Steinn var meistari kaldhæðninnar, þegar hann vildi það við hafa.
14.3.2008 | 11:06
Steinn Steinarr XVII
Fjarri fer því, að Steinn Steinarr hafi verið brautryðjandi í þeirri iðju listamanna, að níða skóinn hver af öðrum Þetta er ævafornt fyrirbæri og þekkist í öllum heimsins hornum. Orsaka þessa er vafalaust víða að leita. En megiorsökin felst að mínu mati í þeirri þversögn, að list er persónuleg tjáning, sem leitar sér almennrar viðurkenningar. Svo er auðvitað vissara að hafa það hugfast, að í listinni sigla fleiri undir fölsku flaggi, en í öllum greinum mannlegrar tilveru, að stjórnmálunum einum undanskildum.
En hvers vegna nefni ég Stein Steinarr sérstaklega í þessu sambandi? Jú, mér vitanlega hefur enginn íslenskur listamaður náð lengra í listrænu persónuníði um bræður sína í listinni, en einmitt hann. Gott dæmi þessa, er viðtal, sem birtist við hann í Birtingi" árið 1955. Tilefnið er útkoma bókarinnar Ljóð ungra skálda." Þar segir Steinn um Jón úr Vör:
Mér virðist hann hafa nokkra sérstöðu meðal þessara skálda. Hann er þeirra elztur sem slíkur og hefur ekki orðið fyrir áhrifum frá neinum nema sænsku öreigaskáldunum svokölluðu, sem nú eru löngu gleymd og grafin. Þrátt fyrir það er hann allgott skáld og býsna nýtízkulegur. En hann er varla til eftirbreytni. Það er naumast á nokkurs annars manns færi að þræða það einstigi milli skáldskapar og leirburðar, sem hann fer."
Það verður tæpast sagt, að Steinn fjalli þarna um skáldbróður sinn af mikilli virðingu. Á lymskufullan hátt læðir hann því að, að ef til vill sé Jón heldur gamall til að eiga erindi í umrætt rit og má vissulega til sanns vegar færa. Hann er 38 ára á útgáfuári bókarinnar og þess utan þjóðþekkt skáld. Það á vitanlega síður við um hin skáldin; til þess eru þau of ung.
En nú færir Steinn sig upp á skaftið, með því að fullyrða, að Jón úr Vör hafi aðeins orðið fyrir áhrifum frá sænsku öreigaskáldunum; löngu gleymdum og gröfnum. Auðvitað var Jón fyrir áhrifum frá þeim. En enn þann dag í dag lifa verk sumra þeirra meðal Svía, hvað þá heldur árið 1955. Þess utan má ekki gleyma því, að uppvaxtarár Jóns á Patreksfirði, meðan kreppan ríkti, eru helsta uppspretta skáldskapar hans. Þetta vissi Steinn auðvitað mæta vel, enda þekkti hann kröpp kjör á eigin skinni, ekki síður en Jón úr Vör.
Í lok umsagnarinnar um Jón úr Vör slær Steinn fram þeirri fullyrðingu, að skáldskapur Jóns þræði einstigi milli skáldskapar og leirburðar. Er þetta útsmogin aðferð Steins, til að slá sig til riddara á kostnað Jóns úr Vör, hugsanlega í augum þeirra ungu skálda, sem áttu verk í bókinni? Ég skal ekki segja. En svo mikið er víst, að hér er ekki talað af sanngirni í garð Jóns úr Vör, eins af okkar ágætustu skáldum á 20. öld. Hvað veldur?
Ég hef velt þessu fyrir mér árum saman. Ég vil taka það fram, að ég bar þetta aldrei undir Jón úr Vör. Bæri Stein á góma í samræðum okkar, varð ég aldrei var við annað en virðingu Jóns í garð hans sem skálds. Hitt er annað mál, að honum líkaði ekki allskostar við lífshlaup skáldbróður síns. Jón var enda stakur reglumaður, ekki aðeins hvað vín varðaði, heldur og lífshætti alla. En hann hallmætli Steini aldrei; fjarri fór því.
Hugsanlegt er, að Steini hafi þótt reglufesta Jóns úr Vör jaðra við smáborgaraskap. Það gæti hafa ært óstöðugan í umræddu viðtali. Hinu má ekki gleyma, að bæði þessi skáld ólust upp við sára fátækt, sem mótaði skáldskap þeirra beggja. Steinn var að eðlisfari uppreisnarmaður meðan Jón úr Vör var maður seiglunnar. Sverðið lék létt í höndum Steins; Jóni voru orfið og ljárinn tamari verkfæri.
8.3.2008 | 15:36
Steinn Steinarr XVI
Á spjalli mínu um Stein í gær, má skilja, að Jón Kristófer kadett hafi einn kunningja Steins, notið þess heiðurs, að skáldið hafi ort um hann tvisvar. Þetta er rétt að því leyti, að bæði kvæði Steins um kadettinn, eru ort að honum lifandi, enda átti það fyrir Jóni Kristófer að liggja, að standa yfir moldum Steins. Hinu skal haldið til haga, að tvisvar orti Steinn um Jón Pálson frá Hlíð. Síðara kvæðið leit Jón Pálsson frá Hlíð þó ekki sjálfur, a.m.k. ekki hér megin grafar, því það er minningarljóð um hann. Fyrr hafði Steinn hins vegar ort um hann Híðar-Jóns rímur" og birtist brot þeirra í heildarsafni því, sem kom út að Steini látnum.
Minningarljóð Steins um Jón Pálsson frá Hlíð, Til minningar um misheppnaðan tónsnilling", hefur farið fyrir brjóstið á sumum, en það birtist í Spor í sandi." Telja ýmsir ljóð þetta raunar lítt við hæfi. Og víst er um það; þetta er nokkuð svo kaldranalegt erfiljóð. En gætum að; ljóðið er ort í ávarpsstíl. En hinn látni er ekki ávarpaður í eintölu: Vort líf, vort líf, Jón Pálsson", o.s.frv. Þarna eru rakin harla hrakleg örlög listamanns. En það leynir sér ekki, að Steinn telur sig deila þessum örlögum með hinum látna.
Í fjórða spjalli mínu um Stein Steinarr sagði ég frá þeirri bælingu, sem kom í ljós, þegar hann kom heim til gamallar vinkonu Jón Pálssonar frá Hlíð, á útfarardegi hans, Unnar Baldvinsdóttur, til að gæta barna hennar, svo hún kæmist í kirkjuna. Sú saga lýsir tilfinningaríkum og góðhjörtuðum manni, sem er of bældur, til að tjá tilfinningar sínar í orðræðu við annað fólk. Er það ekki einfaldlega það sama, sem kemur fram í ljóðinu Til minningar um misheppnaðan tónsnilling?" Og er ekki hugsanlegt, að ljóðið sé öðrum þræði, eins konar minningarljóð" um brostnar vonir þeirra beggja, Jóns Pálssonar frá Hlíð og Steins Steinarrs?