Færsluflokkur: Menning og listir

Steinn Steinarr XV

Það var ekki oft, sem Steinn orti um kunningja sína a.m.k. þannig að nafn þeirra kæmi fram. Þó dugðu ekki minna en tvö ljóð um einn þeirra, Jón Kristófer, eða Jón Sigurðsson, eins og hann hét réttu nafni. Kristófersnafnið gaf Steinn honum, rímsins vegna í því ljóði, sem fyrst skal nú nefnt. Þessi ljóð eru; „Þegar Jón Kristófer Sigurðsson lét úr höfn, stóð Herinn á bryggjunni og söng", sem birtist í „Spor í sandi" og „Hjálpræðisherinn biður fyrir þeim synduga manni Jóni Sigurðssyni fyrrverandi kadett". Það má sjá í „Ýmsum kvæðum."

En hver var hann, þessi Jón Kristófer Sigurðsson kadett í Hernum? Hann var á sinni tíð þekktur maður í bæjarlífinu í Reykjavík, en Breiðfirðingur að uppruna og átti kyn sitt m.a. að rekja til Fagureyjar, fæddur 1912 en lést í Reykjavík 1992. Lífshlaup hans var með ólíkindum ævintýralegt. Þannig var hann ekki aðeins verið kadett í Hjálpræðishernum. Hann þjónaði nefnilega í breska hernum í síðari heimsstyrjöldinni, ýmist sem korpáll eða sergent, svona eftir því, hvorum hann veitti betri þjónustu í það og það skiptið, Bretakóngi eða Bakkusi konungi. Reyndar gerðist hann liðhlaupi frá þeim báðum, en það er önnur saga.

En hér skal ekki fjallað um lífshlaup Jóns Kristófers kadetts í smáatriðum, aðeins vísað á bókina „Syndin er lævís og lipur", en þar tekur Jónas Árnason kappann tali. Það verður enginn svikinn af þeirri lesningu.

Sjálfur naut ég þeirra forréttinda að kynnast Jóni á efri árum hans. Ekki var hann alveg hættur að þjóna Bakkusi konungi, þótt sú þénusta væri reyndar orðin harla stopul.

Það var sama hvernig á stóð hjá Jóni, hann var jafnan sami séntilmaðurinn í framkomu og alltaf gekk hann klæddur eins og greifi, enda aristókrat að eðlisfari. Eitt sinn gekk ég fram á hann, þar sem honum hafði runnið í brjóst á bekk á Lækjartorgi. Slaufan og hatturinn voru vitanlega á sínum stað og jakkafötin eins og Haukur pressari hefði rétt lokið við að fara höndum um þau.

Nú jæja, ég settist hjá kappanum og vakti hann. Þegar hann rumskaði, reisti hann höfuðið, sem hafði sigið niður á bringu, með hátignarlegum blæ, leit fyrst á mig, svo torgið og loks aftur á mig og sagði, með þann virðuleik í röddinni, sem aðalsmönnum einum er í blóð borinn: „Það er ekki lengur hægt að vera róni í Reykjavík." „Einmitt það," svaraði ég. „Hvað veldur svo hörðum örlögum?" Og ekki stóð á svari Jóns kadetts: „Það er ekki lengur eftir einn einasti maður í strætinu, sem hægt er að ræða við um Eyrbyggju, hvað þá heldur Heimskringlu." Síðan hné höfuð aftur að bringu og kadettinn hélt á ný á vit drauma sinna.

Þannig menn orti Steinn Steinarr um, því þeir voru hluti af hans heimi,—hans fólki.

 


Steinn Steinarr XIV

Sem mér í gær, var gengið um götur Kaupmannahafnar, tók ég mér ferð á hendur í Fiolestræde, sem er helsta fornbókaverslunargata borgarinnar.  Erindið var, að leita að norrænum þýðingum á kínverskum ljóðum frá Tang-tímabilinu, en það er kennt við keisaraætt, sem ríkti á árunum 618 til 906.  Þetta tímabil var blómaskeið kínverskrar menningar og þá ekki síst ljóðlistar.  Og ferðin í Fiolestræde var ekki til einskis; þarna fann ég bókina Kinesisk poesi fra T'ang-tiden, ljóðaþýðingar eftir Ninu Fønss.  Bókin er frá árinu 1968.  Og hvað skyldi þetta koma Steini Steinarr við?

Jú, í formála bókarinnar, fjallar þýðandinn um muninn á evrópskri ljóðlist og kínverskri.  Einn helsti munurinn er, að sögn þýðandans, að kínverjar yrkja mjög um forgengileik mannlegrar tilveru, meðan evrópsk skáld eru á öðrum slóðum í sínum ljóðum.  Ekki ætla ég mér þá dul, að freista þess, að gera úttekt á evrópskri ljóðlist.  En þó er ég ekki frá því, að hinn danski þýðandi hafi nokkuð til síns máls.  Íslenskur skáldskapur er þó undanskilinn; hann er meira í ætt við kínverska ljóðlist en evrópska, hvað þetta tiltekna svið varðar.  Sennileg skýring er sú, að kínversk og íslensk skáld bjuggu flest í sveitum, eða áttu að minnsta kosti uppruna sinn þar, meðan evrópsku skáldin voru borgarbúar.  Forgengileiki lífsins er sveitamönnum jafnan ljósari en borgarbúum, enda sjá þeir líf kvikna að vori og hníga til viðar að hausti.

Steinn Steinarr er gott dæmi þess, sem að framan segir.  Því miður hef ég verk hans ekki við hendina þessa stundina og get því ekki nefnt ákveðin dæmi.  En tæpast þarf að bera skært ljós að skáldskap hans, til að sjá, að fallvaltleiki lífsins er gjarnan innan seilingar.


Steinn Steinarr XIII

Föðurlandsást tekur hvergi á sig bjartari mynd, en í bláma fjarlægðarinnar.  Þannig hefði ljóð Jónasar, Ég bið að heilsa, hvergi getað verið ort, nema í Kaupmannahöfn, en á tímum skáldsins var sú borg Íslendingum útlandið sjálft.  Ekkert ljóð íslenskt kemst nær því, að teljast þjóðkvæði, þótt nafn skáldsins sé öllum þekkt.  Líklega væri helst við hæfi, að kalla það þjóðarljóð, svo djúpar eru rætur þess í hjörtum Íslendinga.         

Rúmri öld síðar, rís Ísland úr hafi fyrir augum Stein Steinarrs, sem þá er á heimlið eftir dvöl sína á Mallorca.  Það er 26. mai árið 1954.  Þann dag yrkir hann ljóð sitt, Landsýn.

Hér kveður heldur en ekki við annan tón en hjá Jónasi forðum.  Ástarjátningin til fósturjarðarinnar og þjóðarinnar er að sönnu einlæg hjá báðum skáldunum.  En meðan ást listaskáldsins góða er sveipuð rómantískum bláma, og er eftir því skilyrðislaus, bærist sú tilfinning í brjósti Steins, að þrátt fyrir ástina, sem hann ber til fjallkonunnar, hafi þau bæði sína vankanta, skáldið og hún.  Þetta er ástarjátning “þrátt fyrir allt,” ef svo má að orði komast.  Bæði eru þessi ljóð ættjarðarljóð.  En Jónas Hallgrímsson yrkir sitt ljóð í veruleika draumsins, meðan ljóð Steins Steinarrs er ort í veruleika vökunnar.  Í draumsýn Jónasar er Ísland frjáls og saklaus snót með rauðan skúf í húfu sinni og klædd peysu að hætti sveitafólks þess tíma.  Í vöku Steins er landið hins vegar fullþroskuð kona þeirrar náttúru, að lítt er við hæfi, að bera sögu hennar á torg. 


Steinn Steinarr XII

Í ellefta pistli mínum um Stein Steinarr fjallaði ég um samskipti hans og Magnúsar Ásgeirssonar. Þegar það spjall var komið á netið, minntist ég þess, að Jóhann Pétursson, sem margir þekkja, sem Jóa vitavörð, ræddi þetta mál í viðtali við mig, sem birtist í bókinni „Frá liðnum tímum og líðandi" (Skjaldborg 2002). Þar spyr ég hann út í þetta og staðfestir hann, að Steinn hafi verið háður Magnúsi, hvað þetta snertir.

í síðara bindi ævisögu Steins Steinarrs eftir Gylfa Gröndal (JPV-útgáfan 2001), 19. kafla, segir frá ferð þeirra hjóna, Steins og Ásthildar Björnsdóttur til Mallorcu vorið 1954. Þau hjónin voru ekki ein á ferð; með þeim voru þeir Ólafur H. Einarsson kennari og fyrrnefndur Jóhann Pétursson. Ekki skal sá kafli rakin hér, að öðru leyti en því, að þar kemur fram, að það hafi farið í taugarnar á Steini, að félagar hans skyldu verða vitni að því, hve háður hann var Ásthildi varðandi erlend tungumál. Hann las að vísu ensku „lítilsháttar á bók", en framburðurinn var slakur.

Og víkur þá enn sögunni að Magúsi Ásgeirssyni. Magnús lærði norrænu við Háskóla Íslands, þótt hann lyki ekki prófi fremur en margir mætir menn. Eins og ljóðaþýðingar hans bera með sér, sem og valið á þeim ljóðum, sem hann þýddi, var hann vel menntaður, þótt próflaus væri. Það var Steinn hins vegar ekki. „Kjörin settu á manninn mark", segir Örn Arnarson í ljóði sínu um Stjána bláa. Og ef til vill lærðist Steini Steinarr aldrei, að meta sjálfan sig til fulls. Guði sé lof, að honum skyldi þá gefin þrjóskan.

 

 


Steinn Steinarr XI

Sá fjölhæfi og ágæti listamaður Steingrímur St. Th. Sigurðsson kom eitt sinn sem oftar fram í útvarpi. Í umrætt skipti ræddi hann um samskipti þeirra Steins Steinarrs og Magnúsar Ásgeirssonar þýðanda. Raunar mismælti Steingrímur sig og talaði um Magnús Á. Árnason listmálara í stað Magnúsar Ásgeirssonar. En þau mismæli staðfesti hann síðar við mig í samtali. Í þessu útvarpsviðtali hélt Steingrímur því fram, að um tíma hefði Steinn verið svo háður dómgreind Magnúsar á skáldskap, að hann hefði tæpast birt ljóð, án þess, að bera það undir hann. Fór svo að lokum, að Magnúsi tók að leiðast þetta, og tók fyrir þessa „þjónustu" enda mat hann skáldskap Steins mjög mikils og taldi það því ekki á sínu valdi, að bæta hann.

 

Um það leyti, sem títtnefnt útvarpsviðtal við Steingrím var flutt, tók ég viðtöl fyrir Moggann og ræddi þá nær eingöngu við gamla menn, sem höfðu frá ýmsu að segja, öðru en eingöngu sjálfum sér, svo sem alsiða er meðal yngra fólks og miðaldra. Til að fá þessa sögu Steingríms staðfesta, og eins til að koma því á prent, að Steingrímur hefði þarna verið að tala um Magnús Ásgeirsson en ekki Magnús Á. Árnason, spurði ég einn viðmælanda minn, Dósóþeus Tímótheusson um þetta mál. Dósóþeus, eða Dósi, eins og hann var jafnan kallaður, var bæði vinur Steins og Magúsar Ásgeirssonar. Og hann var fljótur að staðfesta frásögn Steingríms. Ekki man ég nákvæmlega hvenær ég tók þetta viðtal við Dósa, sem vel að merkja fæddist árið 1910 og lést árið 2003. En þetta var ekki löngu fyrir aldamótin. Þegar þarna var komið sögu var Dósi farin að tapa skammtímaminni. En hann var eldklár, þegar talið barst að liðnum tímum.

 

Dósi var skáldmæltur vel. Hann birti stöku sinnu ljóð í tímaritum en hélt skáldskap sínum lítt á lofti. Af kynnum mínum við hann held ég, að hann hafi metið skáldgáfu Steins svo mikils, að honum hafi þótt það jaðra við framhleypni af sinni hálfu, að flíka eigin ljóðum. Hann var þá ekki einn um það, sinnar kynslóðar. Til að skáldagáfa Dósa fari ekki fram hjá lesendum, langar mig til að birta hér fyrsta erindið í kvæði hans, „Kysstu mig vor". Bæði erindið og titill ljóðsins bera vott hinum rómantíska hugblæ Dósa. Gott væri, ef einhver gæti sent mér það, sem á kvæðið vantar.

 

Kysstu mig vor

eftir Dósóþeus Tímótheusson.

 

Kysstu mig vor, þú komst yfir sæinn í dag,

í kvöld er ég þögull og reika um strætin og torgin.—

Syngdu á fiðluna þína ljúflingslag,

langt úti í blámanum týndist að eilífu sorgin.

 

 


Steinn Steinarr X

Þeir voru jafnaldrar, Steinn Steinarr og Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur og báðir synir borgarinnar, hvort á sinn hátt. Steinn var sem kunnugt er fóstursonur hennar, enda framburður hans vestfirskur framan af ævi, eins og þar stendur. Aftur á móti var Sverrir borinn og barnfæddur Reykvíkingur.

Eins og fram hefur komið í þessum pistlum mínum um Stein, sá ég hann aldrei, a.m.k. ekki mér vitanlega. Og eiginlega þekkti ég Sverri Kristjánsson ekki heldur. Þó léttum við tvisvar saman á borðum, en það er annar handleggur.

Ég ætla mér ekki að fjalla um ritverk Sverris hér, en þar fór mikill hagleiksmaður orðs og sögu. Þegar hann lést, árið 1976 þótti mér strengur brostin í lútu Reykjavíkur. Mér varð þá hugsað til hans og annarra, sem settu svip á borgina, meðan hún var enn í allra augum, sú unglingshnáta, sem hún hefur ævinlega verið. Gildir þá einu, þótt sumir séu svo miklir sveitamenn, að rugla henni saman við rosknar hefðarborgir álfunnar, hvort heldur er á Temsárbökkum eða við Tíberfljót.

Settist ég þá niður og skrifaði eftirfarandi prósaljóð, sem svo birtist í ljóðabók minni, „Túkall á rönd", þá um haustið. Eins og sjá má, er hér skirfað í anda Steins Steinarrs, enda efnið öðrum þræði hugsað, sem minning um þá Stein og Sverri, sem og aðra, sem þá höfðu rölt um stræti borgarinnar.

 

 

Reykjavík

 

Reykjavík er léttúðugri en aðrar heimasætur þessa lands. Hún spókar sig í styttra pilsi en siðsamlegt þykir, og ekki er laust við, að hálsmálið sé óþarflega flegið. Og þó hefur hún ekki af mikilli fegurð að státa. Fæturnir, sem henni er svo annt um að hver maður sjái, eru jafnvel eilítið skakkir, og brjóstin lítt huldu, sverja sig meir í ætt við fermingarstúlku en þroskaða konu. Og þó hefur þessi heimasæta yfir þvílíkum þokka að ráða, að til engrar er meir biðlað hér um slóðir. Svo margan manninn hefur hún laðað frá blómlegum konum þessa lands, að ófáar þeirra hafa lagst í dvala, en aðrar sofnað svefninum langa, veslast upp, sem kallað er. Þær eru vindsorfin bein, meðan ungfrú Reykjavík dafnar sem aldrei fyrr. Frekar vilja menn strita slyppir og snauðir undir handarjaðri þessarar konu, en liggja mettir og sælir við heitan barm annarra kvenna.

Reykjavík býður mönnum blíðu sína fyrr en kynsystrum hennar þykir hæfa. Og þótt hún kasti elskhugum sínum fljótlega út á guð og gaddinn, rölta þeir æviskeið sitt undir svefnhverbergisglugga hennar í vonlausri bið þess, að gluggatjöld færist örlítið úr stað, og ungfrú Reykjavík seiði þá aftur til ásta.

 

(Úr bókinni Túkall á rönd, 1976)


Steinn Steinarr IX

Glöggir menn hafa orðað það við mig, þeim þyki ég hafa tekið nokkuð stórt upp í mig í sjöunda pistli mínum um Stein Steinarr, þar sem ég segi um hann: „Hann er sá steinn, sem stærstur er í vörðu íslensks skáldskapar allar götur aftur til Jónasar Hallgrímssonar."

 

Þess misskilnings virðist gæta, að þarna sé ég að setja gæðastimpil á Stein og þá væntanlega Jónas í leiðinni. Því fer fjarri. Ég ætla mér ekki þá dul, að kveða upp úr um það, hvert góðskálda þjóðarinnar sé öðrum úr þeim hópi fremra. Slíkt háttalag væri marklaust, enda byggist svo kallað mat á skáldskap á geðslagi hvers og eins. Það er létt verk, að greina milli skálda og bögubósa, en lengra verður ekki gengið í þeim efnum.

 

En þótt mörgum hafi verið gefið, að yrkja vel á liðinni öld og þeirri næstu þar á undan, þá breytir það ekki því, að Jónas Hallgrímsson er rödd Íslands á 19. öld og það svo eftirminnilega, að ómur þeirrar raddar er ekki þagnaður enn. Á sama hátt er Steinn Steinarr rödd lands og þjóðar á 20. öldinni og ber enn hátt. Þessi tvö skáld eru einfaldlega boðberar sinna tíma, vængjatök þeirra eru borin uppi af vindum nýrra hugmynda. Stefnur og straumar hafa komið og farið. En á vissan hátt hefur jafnan blásið úr þeirri áttinni, þar sem þessi tvö skáld hafa staðið.

 

 


Steinn Steinarr VIII

Einhvern tíma sá ég því haldið fram á prenti, að Steinn Steinarr hefði átt það til, að nefna ljóð sín út í loftið. „Chaplinvísa, model 1939" var sérstaklega nefnd í því sambandi. En er þessi nafngift ljóðsins út í bláinn? Tæpast.

 

Víst er ég vesall piltur

af vondum heimi spilltur,

og þankinn fleytifylltur

af flestra sorg og neyð.

Um þessar götur gekk ég

og greiða lítinn fékk ég,

af sulti ei saman hékk ég,

og svona er margra leið.

 

Þetta er fyrsta erindi ljóðsins og þarf ekki frekari vitna við. Umrenningur Chaplins og fyrrum niðursetningurinn Steinn Steinarr, sem fetaði sig um götur Reykjavíkur, eru einn og sami maðurinn.

 

Ég var úrkastsins táknræna mynd, ég var mannfélagssorinn,

og mér var hvarvetna synjandi vísað á braut,

og þrjózkan, sem lágvöxnum manni í blóðið er borin,

kom bágindum mínum til hjálpar, ef allt um þraut.

 

Þannig hljóðar þriðja erindið í ljóði Steins, „Að fengnum skáldalaunum".

 

Nei, það er ekki ætlan mín að nota Stein Steinarr sem rafnagnsinnstungu og koma honum í samband við tvö göt á vegg. En séu umrenningur Chaplins og hann ekki einn og sami maðurinn, þá eru þeir í það minnsta sömu náttúru.

 


Steinn Steinarr VII

Mér er það stórlega til efs, að umkomulausara fólk hafi verið til á Íslandi, en niðursetningar gamla bændasamfélagsins. Ómálaga börn voru rifin úr faðmi foreldra sinna og þeim ráðstafað af hreppnum, eins og verið væri að reka fé í dilka. Guð og lukkan réðu því svo, hvar ómagarnir lentu og hvernig meðferð þeir fengu.

Piltstauti sá, Aðalsteinn Kristmundsson, er hóf að rölta um götur Reykjavíkur undir því meitlaða nafni Steinn Steinarr, var úr hópi þessa auðnulausa fólks. Var síst að undra, að hann smíðaði sér skáldanafn úr grjóti.

Með fáum undantekningum svo sem Bólu-Hjálmari og Stephani G. Stephanssyni höfðu Íslendingar vanist því, að höfuðskáld þeirra væru ættgöfugir menntamenn eða í það minnsta hempuklæddir kirkjunnar þjónar fram til dala, eins og t.d. séra Jón Þorláksson á Bægisá. Lágmarkið var, ef menn ætluðu sér inngöngu í höllu Braga, að þeir ættu til gildra bænda að telja. Þeir sem neðar voru settir í mannvirðingarstigann, en ortu þó, kölluðust „alþýðuskáld" og þótti miður fínt á betri bæjum.

En sem sagt, skömmu eftir glanshátíðina miklu á Þingvöllum árið 1930, fer hann að mæla göturnar í höfuðstaðnum, þessi niðursetningur að vestan. Reyndar naut hann þess, umfram marga slíka, að hann var heppinn með fóstur. En það er önnur saga.

Ekki er að orðlengja það, að piltur þessi lagðist í skáldskap, með þeim árangri, sem alþjóð þekkir. Vissulega var Steinn Steinarr ekki hið eina skáld sinnar tíðar, sem alþýða þessa lands ól af sér. Það var meira að segja annar niðursetningur í skáldahópnum, þótt lítið færi fyrir honum, hógværðarinnar vegna, og á ég hér við „hreppsómagahnokkann" Örn Arnarson. Og ekki má gleyma Reykjavíkurskáldinu Vilhjálmi frá Skáholti.

Steinn var síður en svo einn um það, sinnar kynslóðar, að yrkja vel. Auk Arnar Arnarsonar og Vilhjálms frá Skáholti má nefna skáld eins og Davíð Stefánsson og Tómas Guðmundsson og raunar fleiri. En með fullri virðingu fyrir þeim og öðrum, sem nefna mætti í sömu andrá, er Steinn Steinar það skáld síðustu aldar, sem varpar ljósi, jafnt á gengna slóð, sem og veginn fram. Hann er sá steinn, sem stærstur er í vörðu íslensks skáldskapar allar götur aftur til Jónasar Hallgrímssonar.


Steinn Steinarr VI

Fjarri sé mér, að gera Steini Steinarr upp hugmyndir um hamingjuna.  Sennilega hafa þau verið málkunnug, skáldið og þetta mjög svo þráða víf, sem svo margir hafa misskilið í skilningi sínum.  En einhvern veginn hefur mér jafnan þótt kvæði Steins, „Hamingjan og ég", lýsa kíminni sátt hans við lífið,  lán þess og ólán, án þess hann beinlínis tæki ofan fyrir því.

 

Hamingjan og ég

 Ég og hamingjan skildum aldrei hvort annað,

og eflaust má kenna það vestfirzkum framburði mínum,

en hún var svo dramblát og menntuð og sunnlenzk í sínum,

og sveitadreng vestan af landi var hús hennar bannað.

 

Það hæfir ei neinum að tala um töp sín og hnekki,

og til hvaða gagns myndi verða svo heimskuleg iðja?

Samt þurfti ég rétt eins og hinir mér hjálpar að biðja,

en hamingjan sneri sér frá mér og gengdi mér ekki.

 

Og loksins varð sunnlenzkan eiginleg munni mínum,

og málhreimur bernskunnar týndist í rökkur hins liðna.

Ég hélt, að við slíkt myndi þel hennar gljúpna og þiðna,

en þá var hún orðin versfirzk í framburði sínum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband