Færsluflokkur: Menning og listir
1.2.2008 | 23:09
Steinn Steinarr V
Sú var tíð, að Reykjavík var móðir fárra. Aftur á móti fóstraði hún við barm sér fjölda fólks úr öðrum landshlutum, sem leitaði hjá henni ásjár, oft án sýnilegs tilgangs. Steinn Steinarr var einn slíkra förumanna. Hann mun hafa borið þar að garði skömmu eftir 1930, þá rétt rúmlega tvígugur piltur að vestan. Síðasta árið, sem hann lifið, 1958, skrifaði hann frásögn af þessu flandri sínu til höfuðstaðarins og fer fyrri hluti hennar hér á eftir:
Á sólbjörtum morgni fyrir meira en hálfum mannsaldri síðan, stóð ég á bryggjunni, þar sem nú heitir Ægisgarður, og litaðist um. Þetta var Reykjavík, endimark drauma minna, jafnt hamingju og harma, og loksins var ég kominn alla leið. Enn í dag man ég, hvað ég var undarlegur innvortis, ég gat ekki hugsað nokkra hugsun til enda, bara laumaðist áfram með pokann minn á bakinu í einhvers konar sóttheitri leiðslu. Í miðju Austurstræti rankaði ég við mér andspænis litlu búðarskilti, sem á var letrað: Amatörverzlun Þorleifs Þorleifssonar. Þetta er nú meiri ritvillan, maður, hugsaði ég, það stendur amatörverzlun í staðinn fyrir matvöruverzlun.
En nú voru góð ráð dýr. Ég þurfti að komast upp á Njálsgötu 12 til fólks, sem hafði lofað að vera mér innan handar. Og hvernig átti mér að takast það? Ég spurði fjölda manns til vegar og fékk alltaf góð og reið svör, en það kom mér að litlu haldi. Eftir tveggja klukkustunda villuráfandi hringsól tókst mér þó að finna hið umrædda hús.--
Síðan hef ég verið Reykvíkingur. Og þessi borg varð fóstra mín og önnur móðir, ævinlega fremur mild og ljúf í viðmóti, þegar þess er gætt, að ég var mikill pörupiltur og brekabarn."
Steinn heldur áfram frásögn sinni og geta menn lesið hana í kvæðasafni hans og greina.
En nú bætist við frásögn úr annarri átt, þótt sama eðlis sé. Árið 2002 kom út samtalsbókin Frá liðnum tímum og líðandi", en þar tók ég tali fjóra heiðursmenn, þ.á.m. Jón frá Pálmholti en hann kom til Reykjavíkur, svo sem hálfum mannsaldri, eftir að Steinn Steinarr hóf að slíta skósólum sínum á götum borgarinnar. Gef ég nú Jóni orðið, eftir að hafa spurt hann, hvenær leið hans hafi legið til Reykjavíkur:
Það var árið 1954, þá fór ég í Kennaraskólann. Þegar ég kom í bæinn þekkti ég þar ekki nokkurn mann. Í vasanum hafði ég miða með nöfnum og heimilisfangi fólks úr Hörgárdal, sem flutt hafði suður. Þau höfðu búið á Bakanda; Sigursteinn Júlíusson og Lilja Sveinsdóttir frá Flögu, systir Jóhanns magisters. Á þessum miða stóð, að þau byggju við Njálsgötu.
Ég hafði komið suður með rútu. Út úr henni sté ég við Kalkofnsveg, þar sem afgreiðsla B.S.Í. var þá. Ég sá þarna götukort af bænum og reyndi að átta mig á því, hvar Njálsgata væri. Eftir það lagði ég af stað yfir Lækjartorgið og upp Bankastræti. Síðan tek ég beygjuna þaðan upp Skólavörðustíginn. Ég taldi að það mundi vera stysta leiðin á Njálsgötu. Auk þess sýndist mér færra fólk á þeirri leið, heldur en á Laugavegi. Ég er svo að huga að því að spyrja til vegar. En það var eins og allir væru að flýta sér. Loks mæti ég lágvöxnum manni í gráum frakka og spyr, hvort hann geti sagt mér, hvar Njálsgata byrji? Já, já," svarðai hann. Og hann snýr við og gengur með mér spölkorn upp Skólavörðustíginn og bendir mér á staðinn, þar sem Njálsgata byrjar og segir mér að halda þar áfram. Ég kvaddi þennan ágæta mann og gekk áleiðis að hinu fyrirheitna húsi.
Svo er það einhvern tíma veturinn eftir, þegar ég var kominn í Kennaraskólann, að ég er staddur niðri á Lækjartorgi, ásamt einhverjum, sem ég hafði þá kynnst. Þá sé ég þennan mann ganga eftir Torginu og inn á Hressingarskólann. Ég spyr kunningja minn, hvort hann viti, hver þetta sé. Þetta", segir kunningi minn, þetta er Steinn Steinarr." Steinn Steinarr var því fyrsti maðurinn, sem ég talaði við í Reykjavík. En nánari urðu kynnin" ekki.
Og segir ekki meira af samskiptum þessara tveggja skálda, Steins Steinarrs og Jóns frá Pálmholti. En ég velti því stundum fyrir mér, hvort það hafi ekki verið hlutskipti Steins, að vísa andans mönnum á Njálsgötu með einum eða öðrum hætti.
26.1.2008 | 17:24
Steinn Steinarr IV
Af fáum skáldum fer meiri sögum en af Steini Steinarr. Það eitt dugði, að hann var mikill kaffihúsamaður og nestor þeirrar skáldakynslóðar, sem umbylti íslenskri ljóðagerð um og eftir miðja síðustu öld. Raunar má segja, að Steinn hafi rutt þeim brautina. Hann var og hnyttinn í tilsvörum og gat verið meinhæðinn. Annað eins berst nú út.
En hvern mann hafði þetta meinhæðna skáld að geyma? Ljóð hans bera það með sér, að þar fór dulinn maður, enda orti Steinn í samræmi við sjálfan sig, svo sem gerist um mikil skáld. En honum var ekki tamt að flíka tilfinningum sínum; meinhæðnin stafaði ekki af meinlegu innræti, hún var brynja hans og skjöldur.
Ég þekkti Stein Steinarr ekki persónulega, enda ekki nema sex ára snáði, þegar hann lést. En allt frá því ég var um tvítugur að aldri, hef ég reynt að mynda mér skoðun á persónu hans, ekki aðeins út frá því sem eftir hann liggur, heldur einnig með samtölum við þá sem þekktu hann í lifanda lífi. Niðurstaða mín er sú, að Steinn hafi verið bældur maður. Vera má, að sú skoðun mín sé röng, en mig langar þó, til að sýna eitt dæmi, máli mínu til staðfestingar.
Unnur Baldvinsdóttir hét kona. Hún var tvígift. Síðari maður hennar var Veturliði Gunnarsson listmálari. Ég þekkti þau hjón vel, síðustu æviár Unnar. Hún sagði mér eftirfarandi sögu:
Jón Pálsson frá Hlíð hafði verið kostgangari hjá móður hennar, þegar Unnur var enn á barnsaldri. Þótti henni eftir það vænt um Jón. Henni var því mjög brugðið, þegar hún heyrði það í fiskbúð, að lík Jóns hefði fundist í sjó í Reykjavík. Sem kunnugt er, veit enginn nákvæmlega, hver örlög hans urðu. En það er önnur saga.
Á þessum tíma var Unnur í gift sjómanni og átti tvö börn á unga aldri. Maður hennar var á sjónum og hún gat ekki fengið neinn, til að líta eftir börnunum, þegar útför Jóns skyldi gerð. Eitthvað hafði hún ámálgað þetta við kunningja sína. Svo mikið er víst, að rétt áður en útförin skyldi hefjast, er bankað hjá henni. Þegar hún kemur til dyra stendur Steinn Steinarr þar. Hafði hann enga vafninga á, heldur ýtti Unni til hliðar og gekk inn, um leið og hann sagði: Það er best þú farir". Fleirir voru þau orð ekki, en Steinn sat yfir börnum Unnar, meðan hún fylgdi Jóni Pálssyni frá Hlíð hinsta spölinn.
Ég veit ekki hvað þetta segir öðrum. En með tilliti til vináttu Steins og Jóns, þykir mér þetta lýsa bældri hjartahlýju.
25.1.2008 | 16:47
Steinn Steinarr III
Steinn steinarr var ekki aðeins með okkar bestu ljóðskáldum; hann var og hagur á óbundið mál. Síðustu æviárin bjó hann ásamt konu sinni, Ásthildi Björnsdóttur, suður í Fossvogi. Ráku þau þar lítilsháttar hænsnabú, sem ekki var fátítt á þeim árum umhverfis bæinn. Einnig herbergjuðu þau hundtík, en slík var á þeim tímum í trássi við reglur Reykjavíkurborgar þar um.
Nú voru góð ráð dýr, þau hjónin vildu hvorki láta tíkina, né brjóta veraldleg lög og reglur. Var því brugðið á það ráð, að skrifa bæjarráði bréf, sem stílað var á Gunnar Thoroddsen borgarstjóra. Bréfið birtist í heildarsafni Steins árið 1964 og fer hér á eftir:
Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri.
Það er upphaf þessa máls, að við undirrituð eldri hjón, til heimilis að Fossvegsbletti 45 við Sléttuveg í Reykjavík, höfum undanfarin 2 ár haldið hundtík eina, mórauða og gamla nokkuð. Vel er okkur ljóst, að slíkt uppátæki stríðir í móti lögum og rétti þess bæjarfélags, hverju við tilheyrum. En allt um það höfum við, svo sem oft vill verða, bundið nokkurn kunningsskap og jafnvel vináttu við þetta fátæklega kvikindi, svo og það við okkur, eftir því, sem næst verður komizt.
Nú höfum við síðustu daga orðið þess greinilega vör, að æðri máttarvöld hyggjast láta til skarar skríða gegn hundtík þessari, og sjáum við ekki betur en að í nokkurt óefni sé komið. Þess vegna spyrjum við yður, herra borgarstjóri, hvort þér getið í krafti embættis yðar og þó einkum af yðar snotra hjartalagi veitt okkur nokkra slíka undanþágu frá laganna bókstaf, að við megum herbergja skepnu þessa, svo lengi sem henni endist aldur og heilsa. Við viljum taka það skýrt fram, að tíkin er hógvær og heimakær, svo að einstakt má kalla nú á tímum. Hún er og sérlega meinlaus af sér, og köllum við það helzt ljóð á hennar ráði, hvílík vinahót hún auðsýnir öllum, kunnugum sem ókunnugum. En kannski veit hún betur en við, hvað við á í slíkum efnum, og skal ekki um það sakazt.
Með vinsemd og virðingu
Reykjavík 18.1.1957
Steinn Steinarr
Ásthildur Björnsdóttir "
Ja, skyldi ekki margur þyggja þá friðsemd, sem fram kemur í þessu bréfi til borgarstjóra Reykjavíkur?
19.1.2008 | 20:59
Steinn Steinarr II
Steinn Steinarr, málverk eftir Einar Hákonarson
Oft hefur tómhyggju borið á góma í umræðum um skáldskap Steins Steinarrs. Ég get ekki fallist á, að hann sé skáld tómhyggjunnar. Vissulega er Steinn skáld efans. En efinn er ekki höfnun á æðri gildum, eins og tómhyggja, heldur leit að þeim. Hvort hann hafi hneigst til dulhyggju í einhverri mynd? Visssulega má sjá þess merki í sumum ljóða hans. Og svo mikið er víst, að hann gekk kaþólsku kirkjunni á hönd, en dulhyggjan er snar þáttur í kaþólskri trú. Raunar vilja sumir gera lítið úr kaþólsku Steins Steinarrs. En mér er það til efs, að maður með hans geðslag hafi gerst kaþólikki upp á grín.
Enda þótt Steinn væri stundum opinskár í skrifum sínum, jafnt í bundnu máli sem lausu, var hann dulur maður. Í verkum sínum opinberaði hann vissa þætti í eðli sínu; aðra ekki. Hann átti sinn heim. Því til staðfestingar er eftirfarandi frásögn:
Fyrir all nokkrum árum átti ég viðtal við systurson Steins, Harald Guðbersson myndlistarmann, á síðum Morgunblaðsins. Þar segir Haraldur m.a. frá því, að þegar hann, barnungur lá á sjúkrahúsi fyrir sunnan, fjarri fjölskyldu sinni, kom Steinn frændi hans reglulega til hans, bæði til að stytta honum stundir, eins eins til að færa honum liti og pappír. Sjúkrahúslega Haraldar var löng, enda þjáðist hann af tæringu. En aldrei brást það, að Steinn vitjaði hans. Engir af hinum fjölmörgu spjallfélögum Steins vissu þó um þennan frænda hans, hvað þá heldur um samband þeirra. Þetta var hluti þess heims, sem Steinn átti fyrir sig og hleypti ekki óviðkomandi að.
Þau voru mörg, mýraljósin í lífi og ljóðum Steins Steinarrs. Vissara að fara varlega í skrifum um slíkan mann og verk hans.
Menning og listir | Breytt 20.1.2008 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.1.2008 | 21:44
Steinn Steinarr I
Hann hét Aðalsteinn og var skráður Kristmundsson, hvort sem það á við rök að styðjast, eða hitt er sannara, að eitthvað hafi verið til í gróusögum fyrir vestan um faðerni drengsins. En svo mikið er víst, að hvorki verður úr því skorið, né heldur skiptir það máli. Hitt er nokkurs um vert, að þegar piltur þessi óx úr grasi, hneigðist hugur hans til skáldskapar. Tók hann sér þá skáldanafnið Steinn Steinarr.
Í ár er liðin öld frá fæðingu Steins, en hann fæddist á Laugalandi í Nauteyrarhreppi, vestur við Ísafjarðardjúp þann 13. október árið 1908. Ekki náði Steinn Steinarr háum aldri; hann lést í Reykjavík 25. mai 1958 og er því, auk aldarafmælisins, fimmtugasta árstíð hans í ár. Þá er þess og að geta, að höfuð verk hans, ljóðaflokkurinn Tíminn og vatnið, kom út í árslok 1948 eða fyrir sextíu árum. Raunar segja sumir, að nokkur vafi leiki á því, hvoru megin áramótanna ljóðaflokkurinn hafi komið út. Flestir hallast þó að því, að það hafi verið fyrir áramót. En um það gildir hið sama og um faðernið; það skiptir ekki máli. Hitt er meira um vert, að íslenskur skáldskapur er annar eftir útkomu Tímans og vatnsins en fyrir hana, og höfðu þó ýmis ljóð þess bálks birtst áður.
Steinn Steinarr hefur haft meiri og djúpstæðari áhrif á íslenskar bókmenntir, en margur hyggur. Um það má deila, hvort bókmenntir móti tíðarandann eða mótist af honum. Sjálfur hallast ég að því síðar nefnda. En það breytir ekki því, að Steinn Steinarr er á sinn hátt, tákngervingur okkar tíma. Hann er spegilmynd þeirra þúsunda, sem yfirgáfu þýfða túnbleðla forfeðranna og þá mýrafláka, sem vætt höfðu fætur þeirra um aldir, til þess, að freista gæfunnar í litla borglíkinu suður við Faxaflóa. Upp frá því var hann gestur Reykjavíkur og barn hennar í senn; næmt eyra hennar og þrjóskufull rödd.
Það má ekki minna vera, en ég freisti þess, að varpa nokkurri mynd á Stein Steinarr í þeim skrifum mínum, sem hér birtast þetta árið. Það nægir nefnilega ekki, að taka ofan fyrir slíkum mönnum, þegar þá ber fyrir augu með einum eða öðrum hætti, og halda svo áfram göngunni, eins og ekkert hafi í skorist.
30.12.2007 | 16:10
Öld frá fæðingu Vilhjálms frá Skáholti
Nú í morgun flutti Ríkisútvarpið ágætan þátt Gunnars Stefánssonar til minningar um Vilhjálm frá Skáholti. Mér þótti það að vísu dálítið undarlegt, að Gunnar skyldi í upphafi þáttarins láta þess getið, að Villi frá Skáholti teljist ekki meðal höfuðskálda þjóðarinnar. Má vissulega vera, að satt sé. En það breytir ekki því, að enn leggur þann ilm úr hinni ljóðrænu blómakörfu þessa sérstæða skáld, utangarðsmanns og blómasala, sem unun er að njóta. Látum svo tímann um að skera úr um það, hvernig skipað er til sætis við veisluborð í höllu Braga.
Það var nokkuð lunkið hjá Gunnari, að benda á það, að Villi frá Skáholti hafi verið skáld Hafnarstrætis, en eins og kunnugt er, var siðgæðið þar stundum eins og hurð á hjörum". Á meðan spókaði Tómas Guðmundsson sig um á Austurstræti, og blandaði geði við þá, sem ef til vill töldu sig hafa efni á því, að líta niður á syni og dætur Hafnarstrætis. Og segir raunar ósköp lítið, bæði um Villa frá Skáholti og Tómas. En eftir á að hyggja; skyldi Steinn Steinarr þá ekki hafa verið skáld Lækjartorgs, en á því torgi mætast sem kunnugt er, Hafnarstræti og Austurstræti?
Ástæða þess, að þessi þáttur var fluttur, er sú, að í gær, 29. desember, var liðin öld frá fæðingu Vilhjálms frá Skáholti, en hann lést af slysförum þann 4. ágúst 1963. Árið 1992 gaf Hörpuútgáfan út heildarsafn ljóða Vilhjálms, Rósir í mjöll", nefnist bókin, sem Helgi Sæm. bjó til prentunar, auk þess að rita ágætan inngang. Full ástæða er til að vekja athygli á þeirri bók, sem og því, að þáttur Gunnars Stefánssonar um Vilhjálm frá Skáholti verður endurtekinn að kvöldi þriðjudagins 12. febrúar n.k.
7.11.2007 | 21:29
Ný ljóðabók að norðan
Nýlega barst mér í hendur ljóðabók eftir ungt skáld á Akureyri, Gunnar Má Gunnarsson. Þetta er fyrsta bók skáldsins, en áður hefur hann birt ljóð á Ljóð.is Skimað út, kallast bókin og er gefin út af Menningarsmiðjunni populus tremula á Akureyri.
Þetta er harla góð byrjun hjá ungu skáldi og átæðulaust, að fjasa um það. Nær að birta sýnishorn og þá nærtækt að grípa til þess ljós, sem bókin dregur heiti af.
(skimað út)
I
út frá eldhúsglugganum
rís fjallið í sveitinni hátt
óklífanlegt
í veðurfræðilegum tengslum
við þrekvaxinn líkama afa
og breiðar hendur hans
sem virtust geta mölvað fjallið
í einni hendingu
ef þær kærðu sig um
---
en þó afi sé lagstur í rúm
stendur fjallið í sveitinni enn
órjúfanlegt
ef að einn dag
það skyldi hrynja
mun það svo sannarlega
mölva okkur öll.
II
jafnvel þegar ég horfi ekki lengur
á fjallið út um eldhúsgluggann
heldur stend á hvítum jöklinum
og horfi niður á bæinn
er fjallið enn jafn ósnertanlegt
---
því fjallið í sveitinni
er ekki einungis hæsti tindur
sem hægt er að sigra
heldur ávalt til staðar
til að lyfta þér hærra
þegar þú sjálfur
ert þess megnugur
Það kæmi mér ekki á óvart, þótt sá, sem hér skimar út, eigi eftir að sjá nokkuð vítt um velli.
3.11.2007 | 16:36
Ljóð Þóru Jónsdóttur frá Laxamýri
Undanfarið hef ég verið að blaða í bók, sem út kom fyrir tveimur árum, hjá bókaútgáfunni Sölku. Landið í brjóstinu, heitir bókin og hefur að geyma heildarsafn ljóða Þóru Jónsdóttur frá Laxamýri.
Ljóð þessarar öldnu skáldkonu hafa borið fyrir augum mér í gegnum tíðina, enda kom fyrsta bók hennar, Leit að tjaldstæði út árið 1973. Síðan hafa átta bækur komið frá hendi skáldsins, sú síðasta, Einnota vegur, árið 2003. Það situr síst á mér, að setja mig í dómarasæti gagnvart verkum annarra skálda, a.m.k. á hálfopinberum vettvangi eins og blogginu. Þó get ég ekki stillt mig um, að hvetja fólk til að lesa þessa bók.
Þóra fyllir ekki flokk þeirra skálda, sem fara mikinn í ljóðum sínum. Oftast líða ljóðin fram áreynslulaust, gjarnan nokkuð tregablandin. Og það er í þeim þessi undarlegi seiður, sem knýtir mann og ljóð vináttuböndum.
Menning og listir | Breytt 4.11.2007 kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2007 | 21:44
Strákurinn Árni Ísleifs áttræður
Árni Ísleifs og félagar tóku smá forskot á sæluna og fögnuðu áttræðisafmæli kappans í dag, þótt stóri dagurinn renni raunar ekki upp fyrr en eftir helgi, þann 18. sept. Það var slegið upp veislu í sal F.Í.H. í Rauðagerðinu og ekki vantaði nú, að mikið væri um dýrðir. Afmælisbarnið lék auðvitað á als oddi og píanóið að auki, eins og engill.
Þarna voru saman komnir ýmsir jassgeggarar, árgerð hitt og þetta og blandan skemmtileg eftir því. Björn R. Einarsson mætti með básúnuna, svona rétt undir hálfníræðu og blés af þokka. Raunar leiddi hann fyrstu íslensku jasshljómsveitina í Listamannaskálanum árið 1949. Og hver haldið þið, að hafi setið við píanóið þar, nema Árni Ísleifs! En ekki hver?
Já, og sjálfur Paba jass, Gvendur Steingríms., lét ekki sitt eftir liggja í dag, heldur barði húðirnar að eðlislægum þrótti og yndisþokka. Þá var ekki amalegt að hlíða á þau hjónin Hildi Guðnýju Þórhallsdóttur söngkonu og Eyjólf Þorleifsson saxafónleikara. Frábært. Hjörleifur Valsson fiðluleikari var á klassískum nótum og fór á kostum. Og þannig áfram.
Í tilefni dagsins kom út diskur með lögum Árna Ísleifs og kallast Rökkurblús, þótt auðvitað sé ekkert rökkur yfir þessum ágæta frænda mínum, síungum manninum. Það er ástæða til að óska þjóðinni til hamingju með karla eins og hann.
Menning og listir | Breytt 16.9.2007 kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.9.2007 | 11:46
Sigfús Daðason, frh.
Verður sannleikans krafist af skáldum, án skilyrða? Tæpast. En tvímælalaust má krefjast af okkur skilyrðislausrar sannleiksleitar, enda er hún grundvöllur skáldskapar. Og skal nú fjallað um þann kafla bókar Þorsteins Þorsteinssonar um Sigfús Daðason, Ljóðhús, sem hann kallar Neikvæðið í tilverunni og tímanum". Þarna eru tekin fyrir hin svonefndu Bjartsýnisljóð" Sigfúsar, sem vægast sagt eru ekki á allra björtustu nótum og tilurð þeirra.
Sigfús átti við nokkurt andstreymi að etja í bernsku sinni og æsku, bæði sökum heilsuleysis og annars, sem rakið er í bókinni. Þegar hann fer til náms í Reykjavík, verður hann einskonar fóstursonur Kristin E. Andréssonar bókmenntakommisars og allt um þekjandi guðföðurs Máls og menningar. Og þegar hann kemur heim frá námi í Frakklandi um 1960, gerist hann starfsmaður forlagsins. Vökul hönd Kristins vakir því yfir hverri hreyfingu hins unga skálds.
Sigfús Daðason var sósíalisti. En auðvitað höfðu efasemdir skoðanabræðra hans um ágæti sovétvaldsins ekki farið framhjá honum meðan á Frakklandsdvölinni stóð. Og þegar sovétvaldið opinberaði ofbeldiseðli sitt eina ferðina enn í Tékkóslóvakíu árið 1968 skrifaði hann grein til birtingar í Tímariti Máls og menningar til að mótmæla innrásinni. En hún fékkst ekki birt. Henni var kippt út, en í staðinn sett grein eftir Kristin E. Andrésson, sýnilega í þeim tilgangi einum, að breiða yfir ofbeldi Kremlarherranna. Þetta og annað á sömu nótum, varð þess valdandi, að Sigfús leið fyrir veru sína undir handarkrika Kristins E. Andréssonar og skoðanabræðra hans.
En hvers vegna hélt maðurinn þá einfaldlega ekki á brott? Við því er ekkert einhlítt svar. Má þó velta því fyrir sér, hvert hann hefði átt að fara. Að vísu hafði hann glatað trú sinni á hinu sólíaliska jarðarhimnaríki. En kapitalismi hugnaðist honum ekki. Hann greindi einfaldlega ekki nokkra úrlausn mannlegrar tilveru samkvæmt kokkabókum efnishyggjunnar, hvort heldur frá vinstri né hægri. Sannleikann var með öðrum orðum hvorki að lesa á síðum Þjóðviljans né Morgunblaðsins. Því má ekki gleyma, að á sama tíma og kommúnístar héldu Austur-Evrópu í heljargreipum, stigu Bandaríkjamenn trylltan stríðsdans í Víetnem. Og vitanlega var nærvera hers þeirra á Íslandi Sigfúsi Daðasyni áhyggjuefni.
Nei, sannleikans verður ekki krafist af skáldum, frekar en öðrum dauðlegum mönnum; aðeins leitarinnar að honum. Það var ekki fyrr en að Kristni E. Andréssyni látnum og raunar nokkru síðar, að Sigfús Daðason fékk um frjálst höfðu strokið. Viðskilnaður hans við Mál og menningu verður ekki rakin hér í bili. Hins skal að lokum getið, að Sigfús var að eðlisfari nokkuð dulur maður og klifjaður nokkurri biturð úr heimahögum æsku sinnar. Hver svo sem ævikjör hans hefðu orðið, má telja næsta víst, að skáldskapur hans, sannleiksleitin, hefði borið þess nokkur merki.