Færsluflokkur: Menning og listir
3.9.2007 | 21:51
Um ilm ljóða og blóma
Sjötta ljóð bókar Sigfúsar Daðasonar, Hendur og orð hljóðar svo:
Margvíslegt útsýni opnaðist hendi þinni
ung fullsæla tindraði af óþekktum sjónbaug
síðan verða spurningar til sem þú færð ekki svarað
í grænkandi laufi með hækkandi sól
hið nýja ár var sjávarselta fjallafirð
en færist nú fjær þér þú minnist þess dags
er þú varst orðinn nýzkur á líf þitt
án þess að hyggjast spara það til neins
klukkustundirnar voru þér gull nirfilsins
ó gnægð lífs ó hrynjandi skotsilfur
*
Örvæntingin býr sér hreiður snemma vors
hvern dag hverja nótt vonar þú að skurnin bresti
þegar haustar verða hinir seinþroska ungar orðnir fleygir.
Í kaflanum Þrjú töorræð ljóð" í bók sinni Ljóðhús, segir Þorsteinn Þorsteinsson um þetta ljóð Sigfúsar: Og ég vil leyfa mér að bæta við þeirri ófræðilegu athugasemd að mér þykir sjötta ljóðið í Höndum og orðum Margvíslegt útsýni" með fegurstu og fullkomnustu ljóðum Sigfúsar þó því fari fjarri að ég skilji það."
Þarna er komið að kjarna málsins í allri umræðu um ljóðlist; skilningurinn er ágætur til síns brúks, en aðeins þegar við á. Það er skynjunin, listin að njóta, sem er fyrir öllu. Vissulega getur verið gaman að þekkja tegundarheiti blóms, sem maður rekst á úti á víðavangi. En litur þess, form og ilmur er þó það, sem vekur manni gleði og unað.
27.8.2007 | 21:21
Til verndar gömlum húsum
Nú um stundir er efnahagslíf þjóðarinnar þanið eins og falskur gítarstrengur og óhljóðin eftir því. Sérstaklega er líkt og peningamönnum sé uppsigað við allt það, sem tengir fólk við fortíðina. Þannig er miðbær Reykjavíkur í stór hættu, því menn vilja ólmir rífa gömul hús og reisa glerhallir. Þessar glerhallir á svo að fylla af erlendu ferðafólki, sem á það erindi eitt til borgarinnar, að njóta þess, að ganga milli gamalla húsa. Sú dýrð stendur tæpast lengi, fari svo sem horfir. Þá er það mikil lenska, að byggja svo háar glersúlur, að tæpast sért á toppinn á herlegheitunum nema úr lofti. Eru þær undantekningarlaust svo ljótar, að ég hef það fyrir satt, að þegar ein þeirra reis nú um daginn, hafi Kölski sjálfur sent svo hljóðandi skeyti til Lykla-Péturs: Nei, karl minn, þessu kom ég hvergi nærri. Það eru nefnilega grensur".
En hvað um það. Ég er með hugmynd, sem ég hygg, að vert sé að velta fyrir sér. Hvers vegna ekki að leggja lægri opinber gjöld á hús, sem hafa menningarsögulegt og fagurfræðilegt gildi, heldur en á aðrar byggingar? Auðvitað mundi þetta með fagurfræðina valda endalausum deilum, en mér er sama. Mér er hins vegar ekki sama um það, að til standi að rífa enn fleiri gömul hús í borginni. Gætum að því, að aðeins 1% húsa í Reykjavík eru gömul timburhús. Og mér er spurt; eru þau fyrir einhverjum öðrum en þeim, sem láta stjórnast af blindri gróðahyggju?
25.8.2007 | 23:11
Nokkur orð um ljóðlistina
Stefán Hörður Grímsson sagði stundum, að hann þekkti enga formúlu, sem dygði til þess að segja til um, hvað væri ljóð og hvað ekki. Svo bætti hann við: En sýndu mér ritmál og ég skal segja þér, hvort það er ljóð eða ekki." Þetta rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég í dag las kaflann Einkennileg festi" í bók Þorsteins Þorsteinssonar Ljóðhús" en hún fjallar um ljóðagerð Sigfúsar Daðasonar. Ég hef áður fjallað lítillega um þetta ritverk hér á þessum spjallsíðum mínum. Reyndar hefur Þorsteinn nú lent í ritdeilu við Örn Ólafsson bókmenntafræðing um þessa bók og er Lesbók Morgunblaðsins vígvöllur þeirra. Valköstinn leiði ég hjá mér.
Nú jæja, í umræddum bókarkafla, Einkennileg festi" hefur Þorsteinn það eftir franska skáldinu Paul Valéry (1871-1945), að kennimark bæði ljóðs og lags væri það, að úr hvorugu væri hægt að gera úrdrátt. Og mér er spurn, hvers vegna ekki? Svarið er einfalt og þó tvíþætt. Annars vegar lýtur ljóð skilyrðislaust eigin lögmálum og verður því ekki umbreytt í frásögn, hins vegar höfðar það til skynjunar en ekki skilnings. Það er hægt að gera úrdrátt úr skýrslu, því hún höfðar til skynseminnar, eða á a.m.k. að gera það. En úr ljóði gera menn ekki úrdrátt, vegna þess, að þeir gætu þá allt eins gert úrdrátt úr tilfinningum sínum. Freisti þess hver sem vill!
23.8.2007 | 20:36
Bara svona spurning...
Gæfumunur
Ljóð eftir rússneska skáldið Alexei K. Tolstoy í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar
Sá einn, bræður, hér í heimi
hlýtur gengi og lof
sem ei hleður höfuð sitt
með hugsunum um of,
sem í kúpu þéttri og þykkri
þraukar trúr við eitt,
eitthvað, sem er óhaggandi
og ekkert getur breytt,
eins og það væri rammelfd ryðflaug
rekin fast á kaf,
eða það væri ógæfan,
sem öðrum Drottinn gaf...
Og þessu þínu djásni dregst hann
daga og nætur að,
gælir við það, gumar af því,
gleður sig við það,
finnur aldrei að sér læðast
efasemd né hik,
horfir ei til hægri eða vinstri,
heldur beint sitt strik,
ryður sér til rúms með valdi,
rekur aðra frá,
hefur sig til hæstu þrepa
hinna bökum á.
En hjálpi, bræður, Drottinn dýr
þeim dauðans vesalings,
sem augu gaf hann skyggn og skörp,
er skima allt í kring.
Augu hans til hægri og vinstri
hverfla alla tíð:
Þetta er gott, en þó mun annað
þykja betra um síð.
Þetta er illt, en einnig hér
er annað sjónarmið.
Þetta er rétt, en þó er líka
á þessu önnur hlið."
Og í vanda á vegamótum
veit hann ekki, hver
þeirra leiða, er skil þar skipta,
skemmst og réttust er,
heldur áfram, hikar, stendur
hugleiðingum í,
villist og snýr við og byrjar
vegferð sína á ný...
Og hann lokkar dagsins dýrð
til drauma á miðri leið,
skógarþögnin heillar hann
með hættulegum seið,
fuglasöngnum fylgir hann
á flug í bláan geim,
á stjörnur kveldsins starir hann,
en stýrir ekki eftir þeim...
Og fólkið horfir hneykslað á hans
hátta- og ferðalag:
Sjáið fíflið góna og glápa,
gagnslaust ár og dag!
Alltaf er hann með heilabrot
um hluti, er allir sjá,
sem vega og mæla veröldina
vilji hann, bjálfinn sá...
Aldrei getur annar eins piltur
orðið að lögfræðing,
aldrei verður hann útvegsmaður,
aldrei kemst hann á þing,
aldrei hyllir hann yfirvöldin,
aldrei kemst hann í feitt,
aldrei verður hann öruvísi,
aldrei verður hann neitt..."
Nei, þetta ljóð er ekki eftir samtíðarmann; skáldið arkaði um í heimi hér frá árinu 1817 til 1875.
21.8.2007 | 13:08
Þar kom að því, stórmerk bók um ljóð Sigfúsar Daðasonar
Ég verð að játa, að ég er enn að lesa bókina. Og ég les hana hægt, enda er hún þess eðlis, að yfir hana verður ekki hlaupið á hundavaði. Til þess er hún of góð.
Enda þótt bókin fjalli fyrst og fremst um ljóðagerð Sigfúsar er þar einnig fjallað um nútímaljóð almennt, t.d. í ýtarlegum kafla, sem nefnist Útúrdúr um ljóðbyltingar".
Nú er ég að lesa kafla, sem ber heitið Margvíslegt útsýni". Það fjallar Þorsteinn m.a. um það, hvort skilningur skálda á eigin ljóðum sé endilega algildur. Hann kemst að þeirri niðurstöðu, að svo sé ekki og vitnar í því sambandi m.a. í fræg ummæli Benedikts Gröndal: Mitt er að yrkja, ykkar að skilja". Þá vitanar hann einnig í T.S. Eliot og segir Og T.S. Eliot ræðir á einum stað um það hvort skáld geti úrskurðað um merkingu skáldskapar síns. Hann lætur svo ummælt að skáldið geti að vísu sagt frá vinnubrögðum sínum, tilorðningu verkisins og því hvað það vildi sagt hafa" á sínum tíma. En merking ljóðs er ekkert síður skilningur annarra á því en skilningur höfundarins", og svo getur farið að dómi Eliots að skáldið verði um síðir bara eins og hver annar lesandi, gleymi þeirri merkingu sem hann hugði ljóðið hafa í upphafi eða skipti um skoðum".
Þetta er hverju orði sannara. Aðeins brúksskáldskapur", svo sem kirkjulegt sálmastagl og pólitískar upphrópanir, sem sveipa sig skykkju ljóðlistarinnar, hafa einhverja algilda merkingu. Allur góður skáldskapur höfðar til skynjunar lesandans. Og auðvitað er ekkert fjær lagi, en að til sér einhver almenn skynjun".
Meira um þessa frábæru bók síðar.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.8.2007 | 22:34
Vilhjálmur frá Skáholti
Það er leitt til þess að vita, að ljóð Vilhjálms frá Skáholti skuli hafa fallið í skuggann á undanförnum árum. Þó er hann ekki með öllu gleymdur, Guði sér lof. Ég minntist á hann í bloggi um daginn í sambandi við Reykjavíkurskáld, enda finnst mér hann alltaf standa þar framarlega í flokki. Í því sambandi má minna á ljóð hans, Reykjavík, en fyrsta erindið hljóðar svona:
Ó, borg mín, borg, ég lofa ljóst þín stræti,
þín lágu hús og allt, sem fyrir ber.
Og þótt svo tárið oft minn vanga væti,
er von mín einatt, einatt bundin þér.
Og hversu sem að aðrir í þig narta,
þið eðla borg, sem forðum prýddir mig,
svo blítt, svo blítt sem barnsins unga hjarta
er brjóst mitt fullt af minningum um þig.
Ljóðið er mun lengra. Helgi Sæm. annaðist útgáfu á heildarsafni Vilhjálms árið 1992. Hörpuútgáfan gaf bókina út. Nú hefur bókaútgáfa Salka keypt Hörpuútgáfuna og er hægt að fá bókina þar. Bókin byrjar á ágætum formála eftir Helga, eins og hans var von og vísa. Ég ráðlegg ljóðaunnendum að verða sér snarlega út um þessa bók, ekki síst þeim, sem hafa áhuga á ósviknum borgarskáldskap.
18.8.2007 | 01:24
Kersknikvæði eftir prófessor Jón Helgason
Jón Helgason prófessor gat átt til nokkra kerskni í kveðskap sínum, eins og alkunna er. Sumt af kvæðum hans og vísum þess eðlis, birtust í heildarsafni hans, sem út kom árið 1986, annað ekki. En það sem ekki birtist í umræddu heildarsafni, hefur gengið milli manna áratugum saman. Margt af þessu er græskulaus kveðskapur, gjarnan úr stúdntalífi Íslendinga í Kaupmannahöfn, frá námsárum Jóns. Hér læt ég fljóta með eitt slíkt slíkt kvæði frá árinu 1920. Tilefni þess var, að stúdent einn, sem þarflaust er að nefna hér, fluttist í herbergi, þar sem reyndist vera veggjalús. Var hún svo aðgangshörð við hinn unga stúdent, að hann hafnaði á sjúkrahúsi.
Veggjalúsarkvæði
Vörpulegt dýr er veggjalús,
vitni þess Geiri ber;
fluttur var hann í fagurt hús,
fullvel þar undi sér,
lofaði mjög sín höpp og hag
háttandi í dúnmjúkt ból,
- en lofa áttu öngvan dag
áður en rennur sól.
Þrútin af vonzku vagar fram
veggjalús býsna stór,
framan í Geira hristi hramm,
hugðist að fremja klór,
jafnskjótt og Geiri hræddur hrein
í holu lúsin þaut,
gægðist samt út það eiturbein
óðar en gólið þraut.
Veggjalúsin með víðan skolt
veglegan kappann beit,
mannakjöt reyndist henni hollt,
horskjátan gerðist feit.
Settur var Geiri á sjúkrahús,
sat þar með nöguð þjó,
voluð og hungruð veggjalús
veslaðist upp og dó.
14.8.2007 | 23:33
Sveitaskáldið Tómas Guðmundsson
Það þótti tíðindum sæta, þegar Tómas Guðmundsson sendi frá sér aðra ljóðabók sína, Fögru veröld árið 1933. Magnús Ásgeirsson lýsti því yfir í blaðagrein, að hann hikaði ekki við að telja þessa bók hina bestu ljóðabók, sem út hefur komið á Íslandi árum saman". Og ekki dylst aðdáun Halldórs Laxness á skáldinu er hann segir: Hann er fegurðardýrkandi án samninga, form hans er inntak hans, heimur hans allt það sem samrýmist kröfum ljóðsins, og það eitt, - jafnvel svo að skynjunin nálgast dulhygli. Mál hans er yfirleitt vandað og hreint, stundum svo dýrt að undrum sætir."
En þrátt fyrir almenna aðdáun á ljóðum Tómasar, ekki síst þeim, sem birtust í Fögru veröld, finnst mér eins og hann hafi ekki verið alveg rétt metinn. Menn gerðu nefnilega úr honum reykvískt borgarskáld, sem mér finnst alltaf svolítið hæpið. Af skáldum hans kynslóðar þykja mér þeir Steinn Steinarr og Vilhjálmur frá Skáholti sóma sér betur sem slíkir.
Fjarri fer því, að ég segi þetta til að gera lítið úr ljóðum Tómasar, enda er hann eitt af þeim skáldum, sem ég met hvað mest. En það breytir ekki því, að mér finnst afstaða hans til borgarinnar endurspegla rómantíska draumsýn sveitamanns, sem ungur flyst á mölina. Steinn Steinarr var að vísu að vestan. Samt finnst mér eins og hann og Vilhjálmur frá Skáholti, sem var borinn og barnfæddur Reykvíkingur, hafi verið synir borgarinnar; að vísu nokkuð baldnir, en ættarmótið leynir sér ekki. Tómas Guðmundsson var hins vegar ástmaður borgarinnar, ekki sonur hennar. Borgin var oft yrkisefni hans, en hugur hans var gjarnan bundinn sveitinni þrátt fyrir það. Í frægasta ástarljóði sínu til Reykjavíkur, Austurstræti" segir hann m.a.
Og daprar sálir söngvar vorsins yngja.
Og svo er mikill ljóssins undrakraftur,
að jafnvel gamlir símastaurar syngja
í sólskininu og verða grænir aftur.
Er hægt að vera rómantískari sveitamaður en svo, að símastaurar umhverfist fyrir sjónum manns og laufgist eins og birkið heima í sveit bernskunnar?
v
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.8.2007 | 20:36
Ljóð tveggja tíma
Það er ekki sér íslenskt fyrirbæri, að föðurlandið verði skáldum að yrkisefni. Eðlilega leitar þetta yrkisefni oft á hugann, ekki síst þegar skádlin dvelja meðal erlendra þjóða, um lengri eða skemmri tíma. Hugblær slíkra ljóða verður oft alúðlegri, eftir því sem viðkomandi skáld hefur dvalið lengur fjarri landi sínu. Frægasta ljóð þessarar gerðar á íslenskri tungu, er án efa ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Ég bið að heilsa". Fegurð er afstætt hugtak, jafnt í skáldskap sem öðru. En sjálfur þekki ég ekki mörg ljóð fegurri, ef þá nokkurt. Til gamans má geta þess, að þetta ljóð Jónasar er fyrsta íslenska sonnettan.
Fyrir þá, sem ekki hafa ljóð Jónasar við hendina, læt ég sonnettuna fylgja hér:
Ég bið að heilsa
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.
Á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.
Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði.
Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.
Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.
Vorboðinn ljúfi, fuglinn trús, sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!
Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu.
Þröstur minn góður! Það er stúlkan mín.
Því verður tæpast haldið fram með réttu, að mikil líkindi séu með Jónasi Hallgrímssyni og Steini Steinarr, utan það eitt, að báðum var tamt, að túlka skoðanir sínar og tilfinningar í skáldskap. Og þó! Báðir lögðu sitt af mörkum, til að ryðja skáldskapnum nýja vegi. Og báðir sáust lítt fyrir, þegar þeir gagnrýndu það, sem þeim þótti miður fara í skáldskap annarra, samanber ritgerð Jónasar um rímur Sigurðar Breiðfjörðs og skrif Steins um Kristmann Guðmundsson, þótt þar hafi skáldið reyndar farið út fyrir mörk hefðbundinnar bókmenntaumræðu. En það er önnur saga.
Jónas bjó sem kunnugt er árum saman í Kaupmannahöfn, en um þá fögru borg hefur einmitt verið sagt, að hvergi hafi Ísland verið elskað heitar, en einmitt þar. Og má sjálfsagt til sanns vegar færa. Steinn Steinarr var hins vegar vestfirskur götumælingamaður og kaffihúsaspekúlant í henni Reykjavík. Þó brá hann stundum undir sig betri fætinum og gerðist sigldur maður, eins og þeir voru þá kallaðir, sem brugðu sér út fyrir pollinn. Það var við lok slíkrar ferðar, þann 26. mai árið 1954, sem Steinn orti ljóðið Landsýn".
Landsýn
Ísland, minn draumur, mín þjáning, mín þrá,
mitt þróttleysi og viðnám í senn.
Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá,
hún vakir og lifir þó enn.
Sjá, hér er minn staður, mitt líf og mitt lán,
og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.
Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán,
mín skömm og mín tár og mitt blóð.
Ekki get ég sagt, að gæði þessa ljóðs felist í fegurðinni. En mergjað er það, enda umbúðalaust. Ekki er úr vegi, að bera það saman við ljóð Jónasar hér að ofan. Ég bið að heilsa" er ort við upphaf sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þar er vor í lofti og sumars að vænta. Landsýn" er hins vegar ort, þegar sjálfstæðisbaráttan hafði snúist upp í andhverfu sína; Amerískir dátar sprönguðu hér um götur og torg undir því yfirskyni, að verið væri að verja þjóðina gegn óvini, sem hún hafði aldrei séð. Naprir haustvindar gnauðuðu. Og það hefur aldrei vafist fyrir Íslendingum, að vetur fylgir hausti.
27.7.2007 | 23:03
Nokkur orð um Geir Kristjánsson og ljóðaþýðing eftir hann.
Um daginn fjallaði ég lítillega um þann ágæta hagyrðing Kristján Ólason. Nú er röðin komin að syni hans, Geir Kristjánssyni, rithöfundi og þýðanda, en hann fæddist árið 1923 og lést 1991.
Geir var ekki afkastamikill sem rithöfundur hvað varðaði smásagnagerð. Á því sviði gaf hann aðeins út eitt smásagnasafn, Stofnunin" árið 1956. Í því eru ellefu smásögur. En þótt þetta sé óneitanlega ekki mikið safn að vöxtum, þá eru gæðin slík, að fram hjá þessu riti verður ekki horft, sé litið yfir það besta í íslenskum prósa á síðustu öld. Þess má einnig geta að hann skrifaði nokkur útvarpsleikrit. Þeirra þekktast er "Snjómokstur".
Ekki er ætlunin að gera hér grein fyrir ritstörfum Geirs Kristjánssonar. Þess í stað vísa ég á heildarsafn hans, sem Mál og menning gaf út árið 2001 og inngang þeirrar bókar Fljúgandi raunsæi á mótsagnir lífsins" eftir Þorgeir Þorgeirson rithöfund.
Geir lærði rússnesku við háskólann í Uppsölum á árunum eftir síðari heimsstyrjöld. Þýddi hann því eðlilega mikið úr því máli, sérstaklega ljóð, en óhætt er að telja hann í hópi meistara íslenskra ljóðaþýðanda. Til gamans ætla ég að birta hér eina af þýðingum hans. Ljóðið er eftir rússnesku skáldkonuna Marínu Tsvétajevu, en þar yrkir hún um landa sinn, skáldið Alexander Blok og heitir ljóðið einfaldlega Blok.
Nafn þitt er fugl í hendi,
nafn þitt er ísmoli á tungu.
Ein einasta hreyfing vara.
Nafn þitt fimm stafir.
Bolti, gripinn á lofti.
Silfurbjalla í munni.
Steinn, kastað í kyrra tjörn,
snöktir einsog hrópað sé á þig.
Í léttum hófadyn næturinnar
lætur nafn þitt hátt.
Og smellandi skammbyssugikkur
kallar það fram í gagnaugu okkar.
Nafn þitt - æ, þetta er ekki hægt!
Nafn þitt er koss á lukta brá,
á fíngerðan ískulda óhreyfanlegra augnaloka.
Nafn þitt er koss á hvítan snjó.
Sopi af bláu jökulköldu uppsprettuvatni.
Nafni þínu fylgir djúpur svefn.
Ljóð þetta var ort árið 1916. Þýðingin birtist í síðustu bók Geirs, Dimmur söngur úr sefi", sem Bókmenntafélagið Hringskuggar gaf út á dánarári Geirs.
Menning og listir | Breytt 28.7.2007 kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)