Færsluflokkur: Menning og listir

Gluggað í gömlu vísnasafni

Vafalaust þekkja flestir þeirra, sem áhuga hafa á sögu Reykjavíkur til verka Árna Óla.  Hann ritstýrði Lesbók Morgunblaðsins um árabil, en skrifaði auk þess merkilega þætti um sögu Reykjavíkur og reyndar um fleiri efni.  Nafn bróðursonar Árna Óla er ekki síður þekkt á sviði hins ritaða orðs, þótt vettfangurinn væri annar.  Hér á ég við Geir Kristjánsson rithöfund.  Hann var einn af bestu ljóðaþýðendum þjóðarinnar á síðustu öld, auk þess sem hann þýddi leikrit, m.a. fyrir þjóðleikhúsið.  Þá gaf hann út smásagnasafnið „Stofnunin" árið 1956 og tók sér þar með stöðu í röð fremstu módernísku rithöfunda landsins.  Geir lést árið 1991.  Nokkrum árum síðar kom út heildarútgáfa verka hans, þótt þar sé því miður ekki að finna allar leikritaþýðingar hans.  En það er önnur saga.

Já, verk þeirra frænda, Árna Óla og Geirs Kristjánssonar lifa enn.  Aftur á móti er ég ekki viss um, að margir muni föður Geirs, Kristján Ólason.  Þótti hann þó með snjöllustu hagyrðingum landsins á sínum tíma.  Vísnabók hans, „Ferhenda" kom út hjá Menningarsjóði árið 1963.  Þar er að finna margar perlur sem sýna, hversu erfitt getur reynst að greina milli skálds og hagyrðings; og raunar óþörf iðja á stundum. 

Um leið og ég hvet fólk til að verða sér úti um þetta  frábæra vísnasafn á næsta bókasafni, tek ég mér það bessaleyfi, að birta nokkrar vísur úr því.

Fjasað um smámuni -- þagað um hitt

 

Gust og veður gjarnt er mér

að gera af smáum skeinum,

en dýpstu sárin sem ég ber

sýni ég aldrei neinum.

 

Vinátta

 

Maður skyldi muna það;

morgundögg í hlíðum

getur seinna orðið að

aftaks manndrápshríðum.

 

Hvað sérðu?

 

Sérðu öll þín sumarblóm,

sem að prýddu dalinn,

troðin haustsins héluskóm

hnigin föl í valinn?

 

Sælir eru einfaldir

 

Ekki sakar að ég sést

eins og glópur standa.

Fyrirheitið fengu bezt

fátækir í anda.

 

Blindur er hver í sinni sök

 

Ólánið sem elti mig

orðið hefði minna,

gæti maður sjálfan sig

séð með augum hinna.

 

Að lokum er hér vísa, sem Kristján nefnir  „Eitt er nauðsynlegt".

 

Bjargar auður, eða hvað,

öl og brauð í ranni,

kulda dauðans komnum að

kærleikssnauðum manni?

 


Skáld, sem ekki má gleymast

Skáldið Jónas Svafár lést fyrir nokkrum árum í hárri elli og raunar undarlega hárri, miðað við lifnaðinn.  Honum voru nefnilega breiðstræti tilverunnar tamari undir fæti en sá hinn þröngi vegur, sem Biblían segir okkur, að vissara sé að ganga.  Bakkus var lífsförunautur hans.  En þótt ýmsir ágætis menn breytist í örgustu svola og ruddamenni í þjónustu sinni við þann vafasama konung, þá átti það ekki við um Jónas Svafár.  Hann var alla tíð hið stakasta prúðmenni.

En Jónas Svafár var ekki aðeins prúðmenni svo af bar, hann var einnig eitt af okkar frumlegustu skáldum.  Hann var af kynslóð  atómskáldanna sem svo eru nefnd. Bókmenntafræðingum hættir til, að telja hann ekki með í þeim hópi, láta sér nægja, að nefna þá Stefán Hörð, Sigfús Daðason, Einar Braga, Jón Óskar og Hannes Sigfússon.  Það er mikill miskilningur.  Það kastar ekki nokkurri rýrð á þessi ágætu skáld, þótt nafns Jónasar Svafárs  sé getið í sambandi við þá ljóðagerð, sem kennd er við atómið.

Skáldskapur Jónasar Svafárs á sér enga hliðstæðu í íslenskum bókmenntum.  Sama gildir um þær sérkennilegu myndir, sem hann teiknaði við ljóðin; þær eru einstakar.

Til gamans læt ég hér fljóta með eitt af ljóðum skáldsins, en það heitir Æska og birtist í bókinni Það blæðir úr morgunsárinu og síðar, árið 1968 í ljóðasafninu Klettabelti fjallkonunnar:

 

æskuástir með brunnin bál

brennimerkja mín leyndarmál

 

tungur hugans tala lengi

titrandi við hjartastrengi

 

í trúnni á tregans höfuðborg

ég treysti þér heita ástarsorg

 

Ég mæli með ferð á bókasafnið. 

 

 


Smá samanburður á frú Akureyri og ungfrú Reykjavík

Ég eyddi júnímánuði á Akureyri.  Ég verð að viðurkenna, að ég er ekki alveg hlutlaust gagnvart þeim góða stað, því þar man ég fyrst eftir mér.  Hins vegar hef ég að mestu eytt ævinni í Reykjavík, ef undan er skilinn s.l. áratugur og búseta meðal norrænna frænda.  Auk þess á ég ættir að rekja, að stórum hluta til Reykjavíkur, allt aftur til Innréttinga Skúla fógeta.  Ég get því með sanni sagt, að ég sé bæði norðanmaður og sunnan.  Því ætti ég að vera sæmilega hlutlaus í samanburði á Akureyri og Reykjavík.

Nýlega skrifaði ég hér á bloggsíðunni dálítið spjall um Reykjavík samtímans og fór ekki fögrum orðum um staðinn.  En þar var ég að fjalla um skipulagsmálin og það, hvernig þau hafa frá lokum síðari heimsstyrjaldar eða svo, gert  Reykjavík að hálf amerískum bastarði.  En þetta er yfirborðið.  Undir því leynist undarleg þrá ungfrú Reykjavíkur til að vera eitthvað annað en hún er.

Ungfrú Reykjavík er borg á gelgjuskeiði.  Og eins og títt er um fólk á því æviskeiði, veit hún ekki almennilega í hvorn fótinn hún á að stíga.  Í raun og veru er hún enn þá sama gamla sjávarþorpið í bland við verslun og opinberan rekstur og hún hefur verið undan farna eina og hálfa öld.  En hana langar að vera stór.  Þess vegna treður hún baðmull í brjóstahaldarann.   Þessi baðmull er gerð úr kaffihúsum, galleríum og ýmsu öðru, sem einkennir borgir.  Og nú er verið að tjasla saman stærsta baðmullarhnoðranum; tónlistahúsinu.

Auðvitað væri þetta allt gott og blessað, nema hvað það er einhvern veginn eins og innistæðuna vanti.  Ég hef grun um, að kaffihúsin séu ekki sá vettvangur frjórra umræðna í listum, heimspeki og stjórnmálum, sem slíkir staðir eru í alvöru borgum.  Galleríin eru yfirfull af þokkalegri handavinnu, sem bíður þess að komast prúðbúin í ramma upp á vegg hjá bankastrákum, sem borga vel.  Já, og tónlistahúsið væntanlega; kemur starfsemi þess ekki til með að líða fyrir það, að geti landi rekið upp sæmilega skipulagt hljóð, er hann umsvifalaust tilnefndur snillingur á heimsmælikvarða?  Með þessu er ég hvorki að gagnrýna myndlist, tónlist, né nokkra aðra listgrein; ég er að eins að benda á það, að til þess að geta skapað, þarf fólk að vita, hvar það stendur.  Og það vita menn ekki í Reykjavík.  Hún er nefnilega orðin að leiksviði.  Og á slíkum stöðum velja menn sér ekki hlutverk, þeir falla inn í þau.  Þess vegna er ungfrú Reykjavík í raun og veru ósköp einmana og umkomulaus stúlka, þegar öllu er á botninn hvolft.

Akureyri er aftur á móti ekkert annað en það, sem hún sýnist vera.  Hún er evrópskur bær.  Og sá bær stendur stöðugur á sínum grunni.  Í sjálfu sér er ekkert spennandi við Akureyri, en það er einmitt vegna þess, að bærinn læst ekki vera neitt annað en hann er.  Meðan ungfrú Reykjavík er ístöðulaus krakki, er frú Akureyri stöðuglynd kona á virðulegum aldri.  Svo má auðvitað ekki gleyma því, að bærinn sjálfur er mjög fagur, að nú ekki sé talað um náttúrulega umgjörð hans.  Þar stenst Reykjavík engan samjöfnuð.

En vonandi á Reykjavík eftir að þroskast.  Ég spái því, að eftir svo sem eina öld, verði hún orðin að settlegri evrópskri smáborg og roðni dulítið feimnislega í vöngum þegar hún minnist gamalla drauma um að verða eins og London, París og Róm.


Síldarminjasafnið á Siglufirði

Rétt í þessu var ég að koma frá Siglufirði, en þar hef ég ekki átt leið um í níu ár.  Það má með sanni segja, að þar hafi mikil breyting orðið á þessum árum með tilkomu Síldarminjasafnsins.  Þetta er stórmerkilegt safn um merkan þátt í atvinnusögu Íslendinga og raunar fleiri þjóða.  Ekki má gleyma því, að í síldarævintýrinu komu t.d. bæði Norðmenn og Færeyingar mikið við sögu, ekki hvað síst á Siglufirði. 

Á safninu er bæði sýnt, hvernig síldveiðarnar og vinnslan fóru fram, sem og aðbúnaður þess fólks, sem störfin vann.  Þarna er gott safn tækja og tóla, sem og ljósmynda og muna úr eigu ýmissa, sem við sögu komu.  Þá má ekki gleyma stórskemmtilegri málverkasýningu Sigurjóns Jóhannssonar, en hann sýnir þarna vatnslitamyndir, sem varpa ljósi á síldarárin.

Allir á Sigló í sumar!


Kristjánsvaka frá Djúpalæk

Þeir eiga það til að vera nokkuð óræðir, þessir svokölluðu vegir ljóðsins, enda liggja þeir oft utan alfaraleiða.  Einhvern veginn er það svo, að ljóð rata jafnan til sinna, þótt eftir krákustígum sé farið.  Aftur á móti hafa skáldsögur tilhneigingu til að skella sér framan í fólk, líkt og vetrarstormur, enda oftast á ferðinni rétt fyrir jól.  En þrátt fyrir gassaganginn, eða ef til vill einmitt vegna hans, er eins og þær hverfi fljótlega út í bláinn.  Eftir stendur nafn höfundar í Séð og heyrt.  Svo er það ekki meir.

Eitt þeirra ljóðskálda, hvers ljóð hafa lengi eigrað um krákustíga er Kristján frá Djúpalæk.  Nafn hans er vissulega ekki gleymt, en sunnan heiða telst það tæpast til góðra siða, að halda því á lofti.  Til þess liggja ýmsar ástæður.  Sumir hafa legið honum á hálsi fyrir að yrkja ljóð til slagarasöngs og aðrir hafa átt erfitt með að fyrirgefa honum þá synd, að þýða ljóð úr barnaleikritum.  En þetta er yfirborðið.  Kristján frá Djúpalæk var eitt af höfuðskáldum þjóðarinnar á síðustu öld.  En þeir sem með völdin fóru í bókmenntaheiminum og gera að sumu leyti enn, gátu hvorki fyrirgefið honum það, að hann var ekki sósíalisti, samkvæmt forskrift  austan frá Volgubökkum, með viðkomu fyrir sunnan, heldur húmanisti í þess orðs bestu merkingu, né heldur hitt, að á formbreytingatímum í íslenskri ljóðagerð, hélt hann tryggð við þjóðlegt rím.  Þó var hann síður en svo íhaldsmaður í ljóðagerð.  En nóg um það.

S.l. sunnudag var haldin dagskrá til heiðurs Kritjáni í Glerárkirkju á Akureyri.  Var hún þeim sem fram komu til sóma.  En mest þótti mér um vert, að þar kom fram, að í haust er væntanlegt heildarsafn ljóða skáldsins.  Það er vissulega tilhlökkunarefni öllum ljóðaunnendum.

 


Nokkur orð um íslenska tungu

Í dag hlustaði ég á skemmtilegan og fróðlegan útvarpsþátt, sem fluttur var í tilefni þess, að í ár eru liðnar tvær aldir frá fæðingu Tómasar Sæmundssonar Fjölnismanns.  Þættinum stjórnaði sá ágæti útvarpsmaður Gunnar Stefánsson.  Þarna var flutt úrval nokkurra erinda frá ráðstefnu, sem 18. aldar félagið hélt fyrir skömmu.

Meðal fyrirlesara var ung kona, sagnfræðingur að mennt.  Hún fjallaði um samskipti þeirra vinanna, Tómasar og Jónasar Hallgrímssonar og fórst það vel úr hendi.  Þó verð ég að játa, að mér líkaði það miður, þegar hún lýsti ákveðjum samfundum þeirra vinanna og sagði, að þá hefðu þeir „átt góðan tíma".  Orðin eru að vísu íslensk, en málfarið þó enskt; "they had a good time".  Réttara hefði verið að segja, að þeir vinirnir hefðu notið samverunnar eða eytt saman gleðistundum, svo dæmi séu tekin. 

Því miður er það orðið harla títt, að fólk tali íslensku með enskum hætti.  Útkoman er skollamál, sem hvorki hæfir vörum þess, sem talar, né eyrum þeirra, sem hlusta.  Auðvitað er alltaf slæmt, að verða þessa var, en þó hlýtur það að vera sérstaklega neyðarlegt, þegar fjallað er um Fjölnismenn.  Það vantaði nú ekki, að þeir „slettu" dönsku í bréfum, sem milli þeirra fóru.  En þeir vissu hvað var danska og hvað íslenska.  Nú nota menntamenn hins vegar enska orðaskipan, en íslensk orð og hafa ekki hugmynd um, hvað skilur þar á milli.  Auðvitað er þetta afleiðing enskrar síbylju í sjónvarpi, sem og þess, að menntafólk lærir fyrst og fremst bækur, sem ritaðar eru á ensku.  Við þessu er aðeins eitt ráð; það verður að auka íslenskukennslu í skólum og gera kröfur til þeirra, sem koma fram á opinberum vettvangi.

Já, og meðan ég man; hvernig skyldi standa á því, að presturinn Tómas Sæmundsson er nær aldrei kallaður „séra", hvorki í mæltu máli né rituðu?  Skyldi hempan ekki falla að rómantískum hugmyndum Íslendinga um Fjölnismenn?  Spyr sá, sem ekki veit.

 


Ágætis sjónvarpsefni á vitlausum tíma

Amerískt sjónvarpsefni, oftar en ekki heldur svona af lakara taginu, er beinlínis yfirþyrmandi í dagskrá íslenskra sjónvarpsstöðva.  Þetta á því miður ekki síður við um Ríkissjónvarpið en aðrar stöðvar.  Þó eru á þessu nokkrar ánægjulegar undantekningar, hvað Ríkissjónvarpið varðar, svo sem fræðsluþættir á mánudagskvöldum og kvikmyndir héðan og þaðan á sunnudagskvöldum.

Stundum má þarna sjá ágætar kvikmyndir frá Spáni, Frakklandi, Danmörku og víðar að.  En af einhverjum undarlegum ástæðum bregður þá svo við, að myndirnar eru sýndar svo seint, að ætla mætti, að dagskrárstjórn Ríkissjónvarpið væri það kappsmál, að sem fæstir horfi á þær.  Þetta er svolítið dapurlegt, ekki síst með tilliti til þess, að Ríkissjónvarpinu er ætlað menningarlegt hlutverk.


Upplestur á bretónskum ljóðum

Á laugardaginn var fór ég á skemmtilega ljóðasamkomu á krá eina við Lækjargötu.  Þar voru saman komin nokkur skáld frá Bretaníuskaga og lásu ljóð á tungu þarlendra.  Nú eiga flestir Íslendingar, þ.á.m. ég, það sammerkt, að tala ekki það tungumál, né heldur skilja það.  En Ólöf Pétursdóttir bætti úr því, hún hefur nefnilega þýtt ljóð þessara skálda og voru þýðingarnar lesnar, ýmist af þýðandanum eða öðrum.  Reyndar gaf Ólöf út fyrir skömmu kver, sem hún kallar „Dimmir draumar", en þar má lesa ljóðaþýðingar hennar frá Bretaníuskaga.  Óvitlaust að líta í það á góðri stundu, nú þegar fuglar kveðast á í móum og mýrum.


Aldarafmæli Steins Steinarrs á næsta ári

Þann 13. október á næsta ári verða liðin 100 ár frá fæðingu Steins Steinarrs og fimmtugusta árstíð hans verður 25. mai, sama ár.  Steinn var í lifanda lífi eitt af umdeildustu skáldum þjóðarinnar.  Það var hann, sem að öðrum ólöstuðum, vísaði formbyltingarskáldunum veginn um miðja síðustu öld og hafði þannig ómæld áhrif á íslenska ljóðagerð.

En formið er ekki aðalatriði skáldskapar, heldur innihaldið.  Og þar gætir áhrifa Steins mest.  Hann er skáld hinnar skilyrðislausu efahyggju.  Framan af gætti að vísu félagslegrar raunhyggju (sósíalrealisma) í verkum hans, en það var ekki lengi.  Viðfangsefni hans var í raun lengst af, maðurinn í öllum sínum hverfulleika, á bakka þess vatns, sem hann speglar sig í, það er að segja, tíminn og vatnið.  Það er því engin tilviljun, að hann skuli hafa notað þau orð, sem titil höfuðverks síns, ljóðabálksins Tímans og vatnsins.

Óhætt er að fullyrða, að ekkert skáld hafi haft jafn mikil áhrif á sér yngri höfunda og Steinn Steinarr. Þar á ég ekki einungis við ljóð hans, heldur einnig lausamál, sem alltof litla athygli hefur hlotið.  Þessi áhrif liggja ekki endilega ljós fyrir; en þau eru þarna samt.  Og því má ekki gleyma, að verk hans hafa orðið mörgum listamönnum í öðrum greinum hvati til sköpunar.  Væri nú ekki tilvalið, að Listasafn Íslands og tónlistafólk tæku sig til og minntust Steins með viðeigandi hætti næsta ár, og þá auðvitað í samvinnu við skáld, skóla og aðra, sem að málinu vilja koma?   Það er verðugt verkefni fyrir menntamálaráðuneytið að koma skriðunni af stað.


Eru listir hagnýtar?

Eru listir hagnýtar?  Spurningin svo sem ekki knýjandi, en samt nokkuð rædd á þeim mögnuðu efnishyggjutímum, sem við lifum.  Það má meira en vera, að hægt sé að setja eitthvað, sem sumir kalla list, stafla því í tunnu og salta vel, þannig að útkoman verði fjárhagslegt verðmæti.  Ætli ég sé ekki bara rómantískur auli í 19. aldar stíl, fyrst ég geng með þá firru í kollinum, að listin eigi að auðga andann.  Eins gott, að ég fari ekki í framboð


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband