Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Enn um "félagslega geðveiki"

Margir muna vafalaust eftir amerísku sjónvarpsþáttunum, og fjölluðu um Helförina, sem sýndir voru víða um heim á níunda áratug síðustu aldar.  Ég bjó á þessum árum í Svíþjóð og sá því þættina þar.

Eftir sýningu hvers þáttar var rætt við fjórar manneskjur.  Þrjú þeirra voru fræðimenn og eru orð þeirra mér löngu gleymd.  Það sem sá fjórði hafði að segja, er mér hins vega ógleymanlegt.  Hann var Þjóðverji og hafði barist í her Hitlers.  Hann tók þátt í innrásinni í Frakkland og gengdi þar herþjónustu, þar til þýski herinn hörfaði þaðan í kjölfar innrásar Bandamanna í Normandí 6. júní 1944.  Eftir stríð flutti maður þessi til Svíþjóðar og steig aldrei framar fæti á þýska jörð.

Það sem hann hafði frá að segja, var í raun merkileg lýsing á "félagslegri geðveiki".  Hann lýsti því, hvernig hann hefði alist upp í þýskum smábæ, þar sem m.a. bjuggu Gyðingar.  Sumir þeirra voru vinir hans.  Eftir að nasistar komust til valda 1933, brá svo undarlega við, að Gyðingarnir í bænum tóku að flytja á brott; smátt og smátt.  Og það merkilega var, að þeir fluttu allir að næturlagi, án þess að hafa minnst á, að þeir væru á förum.  Svo heyrðist aldrei meira frá þeim.

Maðurinn lýsti því, hvernig óttinn hefði gripið um sig meðal "aríanna" í bænum.  Auðvitað vissu þeir, að ekki var allt með feldu.  En þeir þögðu; það var vissara.  Þeir fóru meira að segja að ímynda sér, að Gyðingarnir hefðu flutt í ímyndaða "Gyðingaparadís" og sæu einfaldlega ekki ástæðu til að hafa samband við gamla granna og vini.

Eins og að ofan segir, þjónaði þessi maður í þýska hernámsliðinu í Frakklandi, einkum í París.  Þar fóru hermennirnir að taka eftir því, að SS-sveitir smöluðu Gyðingum þúsundum saman á járnbrautastöðvar í borginni.  Svo sáust Gyðingarnir aldrei meir.  Orðrómur tók að kvisast út meðal hermannanna, um að ekki væri allt sem sýndist.  Það kvisaðist út, að Gyðingarnir væru sendir í fangabúðir í Póllandi.  Síðar var farið að ræða það í hálfum hljóðum meðal hermannanna, að þetta væru ekki fangabúðir, heldur útrýmingabúðir.

Hermennirnir fóru að athuga málið.  Þeir tóku niður númerin á eimvögnunum, sem drógu lestirnar með Gyðingana burt úr borginni.  Og viti menn; þessar lestir komu aftur til baka, nokkurn veginn eftir þann tíma, sem það tók, að fara til Póllands og koma aftur til baka.  Þá hættu þeir að efast.  En enginn sagði neitt; menn hugsuðu bara sitt.

Þessi uppgjafahermaður lýsti því, hvernig menn hefðu barist fyrir Hitler í upphafi stríðsins.  Hann var foringinn!  Síðar, þegar efi tók að læðast að mönnum um dásemdir Hitlers og nasismans, hættu þeir að berjast fyrir Hitler.  Nú börðust þeir fyrir Þýskalanda; föðurlandið.  Loks kom þar, að hermennirnir töpuðu einnig tiltrúnni á föðurlandið.  Eftir það börðust þeir fyrir greifadæmið, sem þeir komu frá, (þýsk arfleifð aldanna) enda var greifinn yfirforingi þeirra.  Að lokum börðust þeir til þess eins að halda lífinu.

Í stríðslok var þessi hermaður settur í fangabúðir, þó ekki lengi.  En áður en honum var sleppt þaðan, var farið með hann og félaga hans í útrýmingabúðir, svo þeir mættu sjá dýrðarríki Hitlers eigin augum.  Eftir þá raun tók hann næstu ferju til Svíþjóðar.

Þessi fyrrum hermaður Hitlers lýsti því þarna í sænska sjónvarpinu, hvernig það virkaði á hann, að sjá útrýmingabúðirnar.  Það var ekki hryllingurinn, sem við augum blasti og frásagnirnar af því, sem þarna hafði gerst, sem þyrmdi yfir hann, heldur hitt, að allt stríðið og raunar lengur, hafði hann vitað, að einmitt svona væri ástandið.  Hann sagði um sjálfan sig, nágranna sína og félaga í hernum: "Það versta var, að við lugum öll að sjálfum okkur.  Við vildum trúa því, að ástandið væri allt annað og betra en það var.  Við vissum öll betur, en lífslýgin varð sannleikanum yfirsterkari".

Ég er ekki að líkja ástandinu á Íslandi við nasismann í Þýskalandi á sínum tíma.  En grunnur nasismans og núverandi ástands hér á landi er sá sami; lífslýgi og afneitun staðreynda í bland við smáborgaralega trú á fáránlegan "mikilleika", þ.e.a.s. stórmennskubrjálæði.

 

 

 


"Félagsleg geðveiki" þjóðar

Myndskeið það frá Kaupþingi, sem nú fer ljósum logum um netheima, vekur óneitanlega þanka um það, sem ég kalla "félagslega geðveiki".  Þótt ég þekki ekki fræðilegt orð yfir fyrirbærið, er það síður en svo nýtt.  Hroðalegasta dæmið um þetta er andlegt heilsufar Þjóðverja á tímum nasista.  Engum dettur í hug, að halda því fram, að verulegur hluti (meirihluti) þýsku þjóðarinnar hafi verið geðveikur á þessum tíma.  En sem heild var þjóðin það.  Þess vegna tók hún ýmist þátt í óhæfuverkum nasista eða lokaði augunum fyrir þeim.  Þrátt fyrir þetta voru glæpamennirnir, sem sköpuðu þetta ástand látnir gjalda fyrir það, að stríði loknu, enda annað ekki hægt.

Kaupþingsmyndskeiðið sýnir, að sem heild voru a.m.k. yfirmenn Kaupþings haldnir þessari "félagslegu geðveiki".  En þeir voru ekki einir um það.  Ég hef rætt þetta við almennan bankastarfsmann.  Hann sagði einfaldlega: "Okkur var talin trú um, að allt væri í stakasta lagi, þótt við hefðum átt að vita betur".  Sama sögðu óbreyttir hermenn þýska hersins eftir stríð.

En þessi "félagslega geðveiki" bankamanna náði víðar.  Hún heltók allt viðskiptalífið, stjórnmálaflokkanna, félagasamtök, fjölmiðla og opinberar stofnanir.  Það síðast nefnda birtist í því, að farið var að greiða yfirmönnum ríkisfyrirtækja ofurlaun og er enn gert, sbr. skilanefndir bankanna og laun bankastjóra.  Rökin fyrir þessu er engin!

"Félagsleg geðveiki" fjölmiðlamanna er sérstakt athugunarefni, enda sér ekki fyrir endann á henni.  Um daginn gekk t.d. ónefndur þingmaður í hjónaband og var haldin veisla að því tilefni.  Meðal veislugesta var rithöfundur nokkur, sem tapaði þarna hatti sínum.  Ýmsir fjölmiðlar fjölluðu um brúðkaupið, eins og um merkisatburð í sögu þjóðarinnar væri að ræða og hatthvarfið vakti slíka athygli, að minnti einna helst á Heklugos.  Slíkt fár er dæmi um "félagslega geðveiki" fjölmiðlamanna.

Því miður er það ekki svo, að þessi "félagslega geðveiki" hafi takmarkast við ákveðna hópa;  stór hluti þjóðarinnar hefur í raun verið viti sínu fjær í áraraðir.  Þetta birtist m.a. í kaupæði og innfluttu amerísku óraunveruleika þrugli, sem sjónvarpið dengir yfir okkur dag hvern; allar stöðvarnar.  Það er eins og stöðugt sé verið að sprauta eiturlyfjum í eiturlyfjasjúkling, til að viðhalda ruglinu.  Og þetta er ekki smáatriði.  Þjóð, sem að stórum hluta sækir sér fyrirmyndir í verksmiðjuframleiddan óraunveruleika, er ekki með sjálfri sér.  Þetta er ekki eina skýringin á því, hvernig komið er fyrir þessari guðs voluðu þjóð.  En þetta er hluti hennar og ekki svo smár, sem ætla mætti í fljótu bragði.

Eins og fyrr segir, þýðir þetta ekki, að stór hluti einstaklinga á Íslandi sé geðveikur.  En reynsla undanfarinna ára sýnir, svo ekki verður um villst, að heildin er ekki með öllu mjalla.  Nú verður hver maður að hugsa sinn gang, kanna stöðu sína í fortíð og nútíð og haga framtíðinni eftir því.


Þarft blogg Ingibjargar Hinriksdóttur

Bloggið hennar Ingibjargar Hinriksdóttur frá 11. þessa mánaðar, sem sjá má hér, er í senn gleðilegt og átakanlegt.  Það er ánægjuefni, að í hópi almennra Samfylkingarmanna skuli vera til fólk með sjálfstæða hugsun.  Það er ekki of mikið af slíku fólki í stjórnmálaflokkum.  Hitt er dapurlegt, að forysuliðið skuli ekki hlusta á þá, sem hófu þá til vegs.  Um virðinguna læt ég ósagt; hana verða menn að skapa sér sjálfir.

Eins og fram kemur í skrifum Ingibjargar, er Jóhanna Sigurðardóttir eini stjórnmálamaðurinn, sem hugsanlega gæti leitt þjóðina út úr þeim ógöngum, sem hún er nú stödd í.  En til þess að svo megi verða, verður hún að hlusta á ákall Ingibjargar og fjölda annarra jafnaðarmanna, innan og utan Samfylkingarinnar.  Hún verður að hætta pukrinu og kynna þjóðinni stöðuna, eins og hún er.  Og hún verður að að sjá til þess, að eignir glæpaklíkunnar, sem ber höfuð ábyrgð á núverandi ástandi verði frystar.  Hver hefði t.d. getað ímyndað sér, að Ólafur Elton Ólafsson yrði látinn komast upp með það, að selja Icland Seafood úr landi?  Ég veit, að löggan er í fjársvelti, en er búið að selja handjárnin?

 


Hagfræðistofnun í hafnarhverfum?

Háskólar eru brjóstvörn framfara í nútímaþjóðfélagi, eða það ættu þeir að minnsta kosti að vera, ef allt væri með felldu.  En þeir sem þar starfa, verða að vera vandir að virðingu sinni og lúta þeim lögmálum, sem fræðin setja þeim.  Á þessu hefur því miður orðið misbrestur á undanförnum árum.

Skýrsla sú, er Hagfræðistofnun Háskóla Íslands lét vinna fyrir Viðskiptaráð árið 2006 er dæmi um þetta.  Sá sem gerði skýrsluna, bandarískur hagfræðingur að nafni Mishkin þáði litlar 17.000.000 króna fyrir viðvikið.  Sér til aðstoðar hafði hann forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Tryggva Þór Herbertsson, síðar sérlegan efnahagsráðgjafa Geirs Haarde, þáverandi forsætisráðherra.  Tryggvi Þór er sem kunnugt er, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Nú skríður Mishkin úr greni sínu og lætur sem útilokað hafi verið að sjá fyrir hrunið, þegar skýrslan var gerð árið 2006.  Samt höfðu ýmsir varað við því.  Og hann lætur sem sér komi á óvart, hversu veikar eftirlitsstofnanir, eins og Fjármálaeftirlitið voru.  Við hvað var Tryggvi Þór að aðstoða manninn, fyrst hann benti honum ekki á þetta?

Sannleikurinn er sá, að skýrsla þeirra félaga var kattaþvottur á gjörspilltu fjármálakerfi og það mátti þeim báðum vera ljóst.  Hún var svo notuð af íslensku bankamafíunni, til að komast enn frekar inn á erlenda fjármálamarkaði.  Til þess naut hún aðstoðar forseta Íslands og ráðherra, sem og fleiri minni spámanna.

Það er hlutverk háskólastofnanna, að vinna á vísindalegum grunni, en ekki selja sig á markaðstorgum græðginnar, eins og Hagfræðistofnun gerði í þessu tilfelli.  Í þeirri taumlausu græðgi, sem ríkt hefur í heiminum undanfarna áratugi, hefur margur fræðimaðurinn svipt sig hempu fræðanna og íklæðst þeim léttúðarfulla klæðnaði, sem hæfa þykir gleðihúsum hafnarhverfa.  Það er íhugunarefni út af fyrir sig.  Hitt er öllu lakara, ef þeir freista þess, að klæðst aftur hempu fræðanna


Lævísi refsins og bolabröð tuddans

Það er dulítið undarlegt, að hlusta á formann Sjálfstæðisflokksins hreykja sér af því, að flokkurinn hafi stuðlað að breyttum skilyrðum fyrir ríkisábyrgð á Icesave-samningnum.  Allir eru sammála um, að þarna sé í raun ekki um samninga jafn rétthárra aðila  að ræða, heldur nauðungarsamninga, þar sem knésett þjóð verður að taka því, sem að höndum ber.  Bjarni Benediktsson virðist hins vegar ekki skilja, hvað kom okkur í þessa stöðu.

Á föstudaginn birtist svo grein í Morgunblaðinu eftir einhvern Kjartan Gunnarsson lögfræðing.  Enda þótt með grein þessari fylgi ljósmynd af Kjartani Gunnarssyni fyrrum varaformanni bankaráðs Landsbankans og framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, er því líkast, sem þar sé um tvo menn að ræða.  Í lok greinarinnar gengur Kjartan svo langt, að fullyrða, að ríkisstjórnin gangi „erinda Breta af meiri hörku og óbilgirni en dæmi eru til".

Enda þótt það sé Kjartani Gunnarssyni lögfræðingi hulið, þá veit Kjartan Gunnarsson fyrrum varaformaður bankaráðs Landsbankans og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins það mæta vel, að núverandi staða þjóðarinnar er afleiðing botnlausrar græðgi, sem fegruð var með fáránlegri hugmyndafræði.  Það var sú hugmyndafræði, sem hann sjálfur vegsamaði og tróð ásamt félögum sínum upp á þjóðina, ýmist með lævísi refsins eða bolabrögðum tuddans.  Ekkert hæfir slíkum mönnum betur en þögnin.


Ísland - hæli fyrir glæpamenn?

Í vikunni átti ég erindi til Kaupmannahafnar.  Ég kom heim í dag og á leiðinni frá flugvellinum hlustaði ég auðvitað á fréttir Ríkisútvarpsins.  Þar var sagt frá brasilískum glæpamanni, sem sótt hefur um pólitískt hæli á Íslandi. 

Já, hvar skyldu glæpamenn leita skjóls, ef ekki hér, þar sem stórglæpamenn ganga enn lausir og eru jafnvel á fullu í viðskiptum, tæpu ári eftir að þeir urðu uppvísir af þvílíkum glæpum, að þjóðin er í raun gjaldþrota?


Ekki fleiri ímyndir, þökk fyrir

Ímyndunarveiki er einhver sú skaðlegasta pest, sem lagst getur á sálina.  Stundum birtist hún í því, að fólk telur sig þjakað af ýmsum kvillum, sem hrjá það í rauninni ekki.  Þess eru jafnvel dæmi, að fólk hafi verið skorið upp vegna ímyndunarveiki.

Það er nógu slæmt, þegar einstaklingar þjást af ímyndunarveiki.  En þá fyrst verður hún verulega alvarleg, þegar hún heltekur heilu þjóðirnar.  Frægt er ímyndunarkastið, sem Þjóðverjar fengu eftir fyrri heimsstyrjöldina.  Þeir læknuðust ekki af því kasti, fyrr en heimurinn lá í rústum í lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

„Útrás" íslenskra rugludalla og glæpamanna var í raun ímyndunarveikiskast.  Þeir ímynduðu sér, að þeir bæru svo af öðrum, að allt væri þeim mögulegt og um leið leyfilegt.  Ímyndunarveikin er bráðsmitandi, enda fór það svo, að stór hluti þjóðarinnar trúði þessum rugludöllum og pólitískum taglhnýtingum þeirra. 

Það var svolítið dapurlegt, að hlusta á fólkið í Kastljósi áðan, hamra á því, að við Íslendingar yrðum að skapa okkur ímynd; öðlast nýja ímynd eftir hrunið.  Ímynd er það síðasta sem þjóðin þarfnast; hún þarf spegil.  Það er hverjum manni hollt, að þekkja sitt eigið ástand og horfast i augu við það.  Ímyndarsmiðir eru blekkingameistarar.  Er ekki komið nóg af þeirra iðju?


Samræmi réttarríkis og réttlætis

Réttarríkið er grundvöllur eðlilegra samskipta í mannlegu samfélagi.  Ekki svo að skilja, að það geti talist eðlilegt, að menn geri alla jafna út um deilur fyrir dómstólum.  Eðlilegast er vitanlega, að til þess þurfi ekki að koma.  En fari svo, að ekki sé annarra lausna að leita, þarf að vera hægt, að treysta réttarkerfinu.

Réttarkerfið byggist vitanlega á þeim lögum, sem sett eru hverju sinni.  Í eðlilegu réttarríki, tryggja lögin jafnan rétt þegnanna.  Slíkt kerfi hefur ekki ríkt á Íslandi undanfarin ár.  Sannleikurinn er sá, að undanfarin fimmtán ár og jafnvel lengur, hafa fjölmargir stjórnmálamenn litið á sig sem þjóna siðlausrar auðstéttar.  Lagasetning þeirra hefur ekki miðast við hag þjóðarinnar, heldur hagsmuni glæpagengis, sem nú hefur fært Íslendingum betlistaf í hönd, að þeir megi auðmjúkir kyssa þann vönd, sem bak þeirra strýkur á torgum.

Það er í ljósi þessarar staðreyndar, að ég fagna því heilshugar, þegar menn afhjúpa lygar, fals og ódrenglyndi í samfélaginu, eins þótt uppljóstranirnar gangi á svig við þau ólög, sem taglhnýtingar ræningjahyskisins hafa sett.

Ekkert réttarríki fær staðist án réttlætis!


Hneykslan Bjarna Ben.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var rætt við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins um lekann á gögnum um svindlið og svínaríið í gamla Kaupþingi.  Átti formaðurinn ekki orð til að lýsa hneykslan sinni á því, að ýmsum og þ.á.m. ráðherrum, þætti þarflegt, að þessar upplýsingar væru gerðar lýðum ljósar.  Vísaði hann í því sambandi til laga um bankaleynd, sem hefðu verið þverbrotin með lekanum.

Já, rétt er nú það hjá Bjarna Ben.  En lögin um bankavernd voru ekki sett til að standa vörð um glæpamenn og þeirra myrkraverk.   Það eru einmitt viðbrögð, eins og þau, sem Bjarni Ben. sýndi í dag, sem fá mig til að efast um, að íslenska ríkið geti af eigin rammleik, rakið þá glæpastarfsemi, sem hér hefur átt sér stað undanfarin ár og tryggt réttláta dóma yfir glæpamönnunum.

Tengsl stjórnmálamanna við vægast sagt vafasama viðskiptahætti eru yfirþyrmandi á Íslandi.  Skoða verður viðbrögð formanns Sjálfstæðisflokksins við uppljóstrunum um hrunadans Kaupþings í ljósi þess.


Enn er von; en ekki lengi

Stjórnkerfi ríkisins rétti dulítið úr kútnum í dag, þegar skilanefnd gamla Kaupþings og stjórn þess nýja, runnu á rassinn með lögbannið á umfjöllun Ríkisútvarpsins um glæpaverk fyrrum eiganda Kaupþings.  Eigi að síður varpar þetta mál ljósi á það, að ríkinu er ekki stjórnað styrkri hendi.  Skilanefnd gamla Kaupþings er opinber nefnd og nýja Kaupþing er ríkiseign.  Hvernig má það vera, að skilanefndin og bankastjórn Kaupþings vinni gegn vilja ríkisstjórnarinnar?   

Nú veit ég, að því er til að svara, að bankinn starfi sjálfstætt.  En það á aðeins við um viðskiptahliðina; lögbannskrafan var stórpólitískt hneyksli.  Viðskiptaráðherra á því þann einn kost, að láta bankastjóra Kaupþings víkja.  Á sama hátt verður dómsmálaráðherrann að losa sýslumannsembættið í Reykjavík við þann einstakling, sem nú gegnir því. 

Þær raddir gerast æ hávæarari, sem segja allt stjórnkerfi ríkisins og fjármálakerfið, eins og það var á tímum frjálshyggjuglæpamannanna, svo samansúrrað, að þar verði tæpast greint milli hagsmunaaðila.  Eina ráðið sé, að fá hingað erlenda rannsóknaraðila og jafnvel dómara, til að hreinsa ærlega til í kerfinu. 

Ég vil ekki trúa því, fyrr en í lengstu lög, að þess sé þörf.  Vera má, að sú afstaða mín sér rómantískur kjánaskapur.  En á ég að trúa því, að á örfáum árum, hafi harðsvírðuð glæpaklíka gert sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar að engu?  Að þrældómi alþýðu þessa lands, kynslóðum saman, hafi verið kastað fyrir róða fyrir græðgi örfárra glæpamanna?  Og er mér ætlað að trúa því, að þjóðin ætli að hrekja fjölda afkomenda sinna úr landi og leggja óheyrilegan skuldaklafa á herðar hinna, sem eftir verða í landinu og það um ókomnar aldir?

Það er enn von, en ekki lengi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband