"Félagsleg geðveiki" þjóðar

Myndskeið það frá Kaupþingi, sem nú fer ljósum logum um netheima, vekur óneitanlega þanka um það, sem ég kalla "félagslega geðveiki".  Þótt ég þekki ekki fræðilegt orð yfir fyrirbærið, er það síður en svo nýtt.  Hroðalegasta dæmið um þetta er andlegt heilsufar Þjóðverja á tímum nasista.  Engum dettur í hug, að halda því fram, að verulegur hluti (meirihluti) þýsku þjóðarinnar hafi verið geðveikur á þessum tíma.  En sem heild var þjóðin það.  Þess vegna tók hún ýmist þátt í óhæfuverkum nasista eða lokaði augunum fyrir þeim.  Þrátt fyrir þetta voru glæpamennirnir, sem sköpuðu þetta ástand látnir gjalda fyrir það, að stríði loknu, enda annað ekki hægt.

Kaupþingsmyndskeiðið sýnir, að sem heild voru a.m.k. yfirmenn Kaupþings haldnir þessari "félagslegu geðveiki".  En þeir voru ekki einir um það.  Ég hef rætt þetta við almennan bankastarfsmann.  Hann sagði einfaldlega: "Okkur var talin trú um, að allt væri í stakasta lagi, þótt við hefðum átt að vita betur".  Sama sögðu óbreyttir hermenn þýska hersins eftir stríð.

En þessi "félagslega geðveiki" bankamanna náði víðar.  Hún heltók allt viðskiptalífið, stjórnmálaflokkanna, félagasamtök, fjölmiðla og opinberar stofnanir.  Það síðast nefnda birtist í því, að farið var að greiða yfirmönnum ríkisfyrirtækja ofurlaun og er enn gert, sbr. skilanefndir bankanna og laun bankastjóra.  Rökin fyrir þessu er engin!

"Félagsleg geðveiki" fjölmiðlamanna er sérstakt athugunarefni, enda sér ekki fyrir endann á henni.  Um daginn gekk t.d. ónefndur þingmaður í hjónaband og var haldin veisla að því tilefni.  Meðal veislugesta var rithöfundur nokkur, sem tapaði þarna hatti sínum.  Ýmsir fjölmiðlar fjölluðu um brúðkaupið, eins og um merkisatburð í sögu þjóðarinnar væri að ræða og hatthvarfið vakti slíka athygli, að minnti einna helst á Heklugos.  Slíkt fár er dæmi um "félagslega geðveiki" fjölmiðlamanna.

Því miður er það ekki svo, að þessi "félagslega geðveiki" hafi takmarkast við ákveðna hópa;  stór hluti þjóðarinnar hefur í raun verið viti sínu fjær í áraraðir.  Þetta birtist m.a. í kaupæði og innfluttu amerísku óraunveruleika þrugli, sem sjónvarpið dengir yfir okkur dag hvern; allar stöðvarnar.  Það er eins og stöðugt sé verið að sprauta eiturlyfjum í eiturlyfjasjúkling, til að viðhalda ruglinu.  Og þetta er ekki smáatriði.  Þjóð, sem að stórum hluta sækir sér fyrirmyndir í verksmiðjuframleiddan óraunveruleika, er ekki með sjálfri sér.  Þetta er ekki eina skýringin á því, hvernig komið er fyrir þessari guðs voluðu þjóð.  En þetta er hluti hennar og ekki svo smár, sem ætla mætti í fljótu bragði.

Eins og fyrr segir, þýðir þetta ekki, að stór hluti einstaklinga á Íslandi sé geðveikur.  En reynsla undanfarinna ára sýnir, svo ekki verður um villst, að heildin er ekki með öllu mjalla.  Nú verður hver maður að hugsa sinn gang, kanna stöðu sína í fortíð og nútíð og haga framtíðinni eftir því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Gíslason

Ég er hjartanlega sammála þér eins og t.d. með Straum fyrirtækið er í raun gjaldþrota en þeir vilja fá hundruð milljóna, hvar er vitið hjá þeim. Maður fer nú bráðum að kaupa Valíum og send þessum herrum.

Ómar Gíslason, 24.8.2009 kl. 03:25

2 identicon

Þetta er kallað að sjá hugmyndafræðina með sínum sólgleraugum, þ.e. þú einblínir á eigin hugmyndafræði og sérð ekkert annað. Það er ekki hægt að rökræða við slíka einstaklingu og þeir breyta ekki um kúrs þó hugmyndafræðin hrynji eins og gerst hefur með frjálshyggju Sjálfstæðisflokksins. Þetta las ég einhvers staðar.

Valsól (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband