Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
6.9.2009 | 23:33
Nafnlaust persónuníð er árás á lýðræðislegar umræður
Það var heldur dapurlegt að lesa grein Björgvins G. Sigurðssonar alþingismanns í Pressunni í dag. Þar segir hann frá nafnlausu níði, sem beitt er gegn honum á netinu.
Vissulega er það eðlilegt, að fólk sé biturt út í manninn, sem var viðskiptaráðherra þegar Landsbankinn hóf Icesavebraskið í Hollandi, ekki síst í ljósi þess, að ráðherrann þáverandi mátti vart vatni halda af ánægju með störf" útrásarvíkinganna og fór ekki dult með þá aðdáun sína.
En þar var Björgvin að viðra skoðanir sínar, skoðanir sem ég og ýmsir aðrir töldum ámælisverðar, ekki síst í ljósi þess, að maðurinn er jafnaðarmaður. Það á að gagnrýna stjórnmálamenn, þegar þeim verður á í messunni. En sú gagnrýni verður að vera málefnaleg. Það er ekki aðeins heiðarlegt gagnvart þeim stjórnmálamönnum, sem gagnrýndir eru, heldur er það beinlínis forsenda lýðræðislegrar umræðu. Persónuníð og upplognar sakir um einkalíf manna eða annað, eiga einfaldlega ekki að þekkjast. Þær eru ekki pólitískt baráttutæki, frekar en bílabrennur og málningaslettur á húsveggi, heldur skrílsæði. Svo geta menn velt því fyrir sér, hvað kalli fram slíkt athæfi. En það er önnur saga.
6.9.2009 | 00:20
Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu
Ekki fer milli mála, að nauðsynlegt er að spara í heilbrigðiskerfinu, eins og svo víða þjóðfélaginu. En þar ber að fara með gát; óvíða er eins líklegt, að menn spari eyrinn en sói um leið krónunni. Lenging biðtíma eftir skurðaðgerðum, þýðir t.d. aukna þörf á eftirmeðferð. Sé dregið úr heilbrigðisþjónustu við geðsjúka eykst kosnaður félagsþjónustunnar að sama skapi.
En er verjandi að ræða heilbrigðismál út frá fjárhagslegri hagkvæmni? Grundvallaratriðið er náttúrulega, að sá fái hjálp, sem hennar þarfnist. En það verður að vera fjárhagslega mögulegt, að veita þá aðstoð, sem þörf er á.
Ýmsum er ljóst, að launakostnaður í heilbrigðiskerfinu er oft óraunhæfur. Og vissulega er þetta blessaða kerfi ekki laust við spillingu. En það verður að taka á hverju máli fyrir sig, áður en farið er út í almennar sparnaðaraðgerðir með bundið fyrir bæði augun.
Og meðal annarra orða, hvernig ætlar ríkisstjórnin að verja það, að á sama tíma og spara á milljarða í heilbrigðiskerfinu, er haldið áfram að reisa tónlistarhöll niður við höfn? Þar eiga a.m.k. 14 milljarðar króna eftir að fara í steypu.
Ég er ekki í þeirra hópi, sem fárast yfir hverri krónu, sem fer til lista á landi hér. En miðað við efnahagsástandið, þá eru frekari framkvæmdir við tónlistarhöllina árás á heilbrigða skynsemi. Menn reisa einfaldlega ekki hallir á sama tíma og fé skortir til að reka heilbrigðisþjónustu svo mynd sé á.
4.9.2009 | 22:08
Á að skerða háskólamenntaða stjórnarráðsmenn?
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag, bárust þau skelfilegu tíðindi, að háskólamenntaðir starfsmenn stjórnarráðsins yrðu, í sparnaðarskyni, skertir um frá 3% og allt upp í 10%.
Ekki var þess getið í hverju skerðingin yrði fólgin. En þegar talað er um skerðingu fólks, er jafnan átt við andlegu hliðina. Ég hugsaði til þess með hryllingi, hvort fækka ætti heilasellum í mannskapnum með vísindalegum hætti. Þykir nú ýmsum satt best að segja, sem þar sé ekki af miklu að taka.
Í lok fréttarinnar kom þó í ljós, að hér er um að ræða skerðingu á launum þessa fólks, en ekki á því sjálfu. Vitsmunaskerðing á háskólamenntuðum stjórnarráðsmönnum er því ekki á dagskrá.
En skyldu vera uppi áform á Ríkisútvarpinu, um að gera málfarskröfur til fréttamanna?
4.9.2009 | 00:01
Þrælahald á Íslandi - sjálfsmynd draumóraþjóðar
Upplýsingar þær, sem nú hafa verið lagðar fram um mansal á Íslandi eru ógnvænlegar. Ólíkt því, sem flestir hafa vafalaust ætlað, er mansalið ekki bundið við kynlífsþrælkun; hingað til lands er flutt inn ófrjálst fólk til starfa í byggingariðnaði, við ræstingar o.s.frv., fyrir utan konur, sem hingað eru vélaðar og síðan neyddar í vændi. Á mannamáli heitir þetta einfaldlega þrælahald.
59 tilfelli hafa komið til kasta Alþjóðahússins. Þar er vafalaust aðeins um að ræða brot af vandanum. Sjálfsmynd okkar Íslendinga hefur lengi verið barnaleg. Við höfum ímyndað okkur, að við búum í stéttlausu og óspilltu þjóðfélagi. Í okkar augum hefur Ísland verið sannkallað gósensland sakleysisins. Við erum svo heiðarleg! Og til bragðbætis höfum við talið okkur trú um, að við værum í senn hamingjusamasta og gáfaðasta þjóð í heimi!
Vitanlega er sjálfsmynd þjóða gjarnan máluð nokkuð sterkum litum og útlínur oft óljósar. En sjálfsdýrkun Íslendinga er á því stigi, að stórum hluta þjóðarinnar virðist tæpast vera sjálfrátt, heldur lifa í upphöfnum draumórum. Þannig er ég, því miður, viss um, að þessar upplýsingar um þrælahald á Íslandi verða flestum gleymdar fyrir helgi.
Þeir erlendu þræla, sem leita sér hjálpar, snúa sér til Alþjóðahússins. Nú hefur öllu starfsfólki þess verið sagt upp. Er það að vonum; engum skal lýðast, að afhjúpa lífslygi Íslendinga.
1.9.2009 | 20:44
Björgúlfsfeðgar og styrktarsjóðir
Mikið var hjartnæmt að sjá Björgúlf Guðmundsson klappa vinalega á öxl fulltrúa frá Styrktarsjóði hjartveikra barna í sjónvaprsfréttum í kvöld. En því miður; hér var veriða að endursýna gamla frétt, frá því þessi sjóður samdi við Landsbankann um ávöxtun fjármuna sjóðsins.
Nú hefur komið í ljós, að þessir samningar voru þverbrotnir af hálfu Björgúlfs og bankans hans. Í stað þess að ávaxta féð í viðskiptum, sem nutu ábyrgðar opinberra aðila, var braskað með fé hans, fyrst og fremst af fyrirtækjum í eigu Björgúlfsfeðga og félaga þeirra. Málið var dómtekið í dag og gerir sjóðurinn kröfu um 21.000.000 króna í bætur.
Þetta er því miður ekki eina dæmið, slíkrar gerðar í brasksögu Björgúlfsfeðga. Sjóðir, svipaðir þessum, eru meðal fórnarlamba þeirra í Bretlandi og Hollandi.
Styrktarsjóður hjartveikra barna hefur veitt foreldrum barna, sem í hlut eiga, fjárhagslega aðstoð, til að börnin geti leitað læknishjálpar í útlöndum. Nú er sú aðstoð í uppnámi. Viðskipti snúast um fólk", sagði í auglýsingu ónefnds braskarafyrirtækis. Það eru orð að sönnu. En það eru ekki aðeins heiðarleg viðskipti, sem snúast um fólk; glæpir gera það líka, jafnvel um lítil hjartveik börn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.8.2009 | 22:22
Hótfyndni örlaganna
Hótfyndni örlaganna er lítil takmörk sett. Í dag fór fram afhending á áskorun 10.000 manna. Þar var skorað á forseta Íslands, að vísa Icesave-frumvarpinu til þjóðarinnar.
Hver var það aftur, sem í takmarkalausri aðdáun á útrásarvíkingunum" sagði hin fleygu orð: You ain't seen nothing yet"?
Má ekki teljast heldur ólíklegt, að sá hinn sami standi í vegi fyrir því, að þjóðin taki á sig skuldir vina hans og ferðafélaga á einkaþotum um himinloftin fagurblá?
30.8.2009 | 21:25
Bitruvirkjun enn og aftur
Enn hefur bæjarstjórn Þorlákshafnar risið upp á afturlappirnar og ætlar enn eina ferðina, að heimila virkjunarframkvæmdir við Bitru. Sá staður er í u.þ.b. 4 km fjarlægð frá Hveragerði en 25 km fjarlægð frá Þorlákshöfn. En lögin gera ráð fyrir því, að mörk milli sveitafélaga ákvarði vald til framkvæmda, hvernig svo sem öllu háttar til.
Þetta eru vitanlega arfavitlaus lög. Þeim þarf að breyta, annað hvort til þess vegar, að ríkið taki þessi völd af sveitafélögum, eða þá, að sveitafélög hafi neitunarvald á framkvæmdir í næsta nágrenni, að nú ekki sé talað um, þegar viðkomandi framkvæmdir snerta ekki það sveitafélag, sem valdið hefur, nema hvað varðar fjárhagslegan ábata en veldur verulegri umhverfisröskun í næsta sveitafélagi.
Ég hef heyrt marga Þorlákshafnarbúa mótmæla fyrirhugaðri virkjun. Hér er því ekki um hrepparíg að ræða, heldur skammsýni í sveitastjórn Þorlákshafnar eða Ölfuss, eins og það heitir á opinberu máli.
28.8.2009 | 23:20
Hugleiðingar á tímamótum
Enginn fær risið hátt, nema hafa áður lotið lágt, ef ekki gagnvart öðrum, þá sjálfum sér eða guði sínum. Þetta á jafnt við einstaklinga sem þjóðir.
Ábyrgð sú, sem Alþingi staðfesti i dag fyrir hönd þjóðarinnar á Icesave-samningnum, er upphaf þess, að Íslendingar rísi úr kútnum. Við höfum viðurkennt smæð okkar, þess vegna getum við vaxið. Nú er bara að vona, að við vöxum ekki sjálfum okkur yfir höfuð, eins og á undanförnum árum. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að styrkur okkar felst ekki aðeins í afli, heldur enn frekar í þekkingu og skynjun á takmörkum þessa afls.
27.8.2009 | 15:28
Eru stjórnmál helber loddaraháttur?
Sé það rétt, sem fram kemur á bloggi Egils Helgasonar á eyjan.is í gær, að Gunnar Steinn Pálsson, sem Egill segir almannatengil Samfylkingar og forseta Íslands, hafi þjálfað þá Lýð Guðmundsson, Bakkavararbróður og Hreiðar Má Sigurðsson fyrrum forstjóra Kaupþings í því, hvernig koma beri fram í sjónvarpi, er það grafalvarlegt mál.
Það eitt út af fyrir sig, að forseta Íslands og stjórnmálamönnum sé það svo fjarri, að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir, að þeir láta temja sig til verksins eins og hunda, er ömurlegt. Sé svo komið, fer best á því, að þingmenn mæti fullir á fundi Alþingis, a.m.k. sé tekið tillit til hins fornkveðja: "Öl er innri maður".
En hvað um það; eigi fullyrðingar Egils Helgasonar við rök að styðjast, sýnir það glöggt, að stjórnmál samtímans snúast ekki um hugsjónir heldur heldur helberan loddarahátt.
Megi almættið gefa, að Egill Helgason hafi hér á röngu að standa; að öðrum kosti er þessari voluðu þjóð tæpast viðbjargandi.
25.8.2009 | 21:17
Kattaþvottur stjórnmálaflokkanna
Þá hafa þingflokkarnir komið sér saman um upplýsingaskyldu stjórnmálaflokka og frambjóðenda þeirra, varðandi fjárhagslega aðstoð, sem þeir þiggja héðan og þaðan til að fjármagna kosningastarfsemi sína. Sá böggull fylgir þó skammrifi, að upplýsingaskyldan skal vera bundin við samþykki þeirra, sem lagt hafa fjármagnið fram.
Nú vill svo til, að stjórnmálamenn, hvort heldur þeir starfa í sveitastjórnum eða á Alþingi, njóta síður en svo trausts almennings. Er það að vonum, þó ekki væri nema vegna þess, að sú aðferð, sem oftast er notuð við val á framboðslista, þ.e. prófkjörin, býður beinlínis upp á, að hagsmunapotarar, innlendir sem erlendir, kaupi sér leiguþý til til setu í stjórnkerfi ríkis og sveitafélaga. Þess vegna verður að gera mun róttækari breytingar á lögum um upplýsingaskyldu í þessu sambandi. Það verður að liggja ljóst fyrir, hvaðan hver einasta króna, sem notuð er til stjórnmálastarfsemi komi.
Prófkjörin voru í upphafi talin skref í átt til aukins lýðræðis. Rökin voru þau, að almennum stuðningsmönnum einstakra flokka gæfist með þeim tækifæri til áhrifa á fulltrúaval flokkanna. Tíminn hefur afsannað þá kenningu. Prófkjörin hamla lýðræðinu, vegna þess, að þau bjóða heim þeirri hættu, að menn kjafti sig til pólitískra áhrifa í gegnum auglýsingaskrum. Þannig fer nú mjög fjölgandi dæmum þess, að fólk sé kosið á Alþingi út á það eitt, að almenningur viti hvernig það lítur út á sjónvarpsskjánum. Þetta er ekki lýðræði, heldur skrílræði. Það er löngu tímabært að leggja niður prófkjörin. Vitanlega komu færri að niðurröðun á framboðslista, þegar slíkt var í verkahring kjördæmaráða eða sérstakra nefnda. En það tryggði þó, að þeir sem á listana röðuðu, þekktu deili á þeim, sem í framboði voru. Þekking á mönnum og málefnum er hornsteinn lýðræðisins.