Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Jóhanna á blindgötum

Jóhanna Sigurðardóttir er einlægur jafnaðarmaður; um það efast enginn.  En jafnræðismaður er hún ekki, til þess er hún of mikil kerfismanneskja, rétt eins og Steingrímur J. Sigfússon.  Þess vegna vefst það fyrir þeim, að hafni Bretar og Hollendingar þeim skilyrðum, sem Alþingi hefur sett varðandi Icesavemálið, verður málið að fara aftur fyrir þingið. 

Það er hvorki í valdi forsætisráðherra né fjármálaráðherra, að krefjast þess, að allir séu sammála þeim; ekki einu sinni í ríkisstjórn.  Að ætla að hindra það, að Icesevemálið fari aftur fyrir Alþingi, nema trygging sé fyrir því, að stefna formanna stjórnarflokkanna njóti þar meirihluta, er einfaldlega krafa um, að þingræði verði aflagt á Íslandi.  Fyrir því er ekki vilji meðal þjóðarinnar.

Jóhanna Sigurðardóttir á því þann kost einan, að brjóta odd af oflæti sínu, og óska þess, að Ögmundur Jónasson taki aftur sæti í ríkisstjórn.  Að öðrum kosti verður hún annað hvort að biðjast lausnar fyrir sig og ríkisstjórnina, eða leggjast auðmjúk á kné frammi fyrir leiðtogum stjórnarandstöðuflokkanna.  Hennar er valið.


Össur og viska þagnarinnar

Jæja, þá er ár liðið frá þeirri merku stundu, þegar Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra uppgötvaði það, að jafnvel væri til máttugra afl en Davíð Oddson.  Þann dag snéri hann sér milliliðalaust til Guðs almáttugs í beinni sjónvarpsútsendingu og bað hann blessa Ísland.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.  Ríkisstjórn Geirs Haarde, þ.e. samsteypustjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar var í bókstaflegri merkingu barin frá völdum með pottahlemmum og sleifum.  En áður en að því kom, hafði hún sótt um lán til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.  Það lán erfði svo ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, enda þótt síðar nefndi flokkurinn hafi frá upphafi verið andvígur þessari lántöku.

Nú eru verulega líkur á því, að ríkisstjórnin springi vegna Icesavemálsins og því, hvernig Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn tengir það mál láni sjóðsins til Íslendinga.  Í fréttum í gær mátti sjá og heyra, að Össur Skarphéðinsson á orðið erfitt með að hemja sig vegna þessa máls.  Megi Guð gefa honum visku þagnarinnar.


Rannsókn á bréfaskriftum forsetans

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson bauð sig fram til forseta, óttuðust margir, að næði hann kosningu, mundi honum seint lærast, að forsetaembættið er sameiningartákn en ekki valdastaða.  Sá ótti hefur því miður reynst á rökum reistur.

Nú hefur rannsóknarnefnd Alþingis krafist aðgangs að bréfum forsetans til erlendra valda- og áhrifamanna.  Þar kemur m.a. í ljós, að hann hefur þjónað sem vikapiltur útrásarvíkinga.  Út af fyrir sig eru það ekki tíðindi; sendlahjólið hefur lengið hallast upp að vegg á Bessastöðum, milli þess, sem Ólafur Ragnar hefur rennt úr hlaði með úttroðna axlatösku.  En þetta er dropinn, sem fyllir mælinn.  Annað hvort verður Ólafur Ragnar Grímsson að segja af sér, eða setja verður forsetaembættið undir eftirlit Alþingis og ríkisstjórnar fram að næstu forsetakosningum. 


Jöfnun skatts af launum og fjármagnstekjum

Ég verð að játa, að ég hef ekki orðið mér úti um fjárlagafrumvarpið.  En mikið líst mér vel á þær fréttir, að til standi, að draga verulega úr þeim mun, sem verið hefur á tekjuskatti, eftir því hvort um er að ræða launatekjur eða fjármagnstekjur.

Vitanlega ber ekki að ganga að takmörkuðum sparnaði fólks.  En það er glórulaust rugl, sem viðgengist hefur allt of lengi, að jafnvel fólk, sem lifir á fjármagnstekjum greiði aðeins 10% tekjskatt af vöxtum þess fjármagns, meðan launafólk greiðir hátt í 40% launa sinna í skatta, að persónufrádrætti slepptum.

Grundvallarreglan hlýtur að vera sú, að sem jafnastir skattar séu lagðir á tekjur, hvernig sem þeirra er aflað. Þó geta legið viss rök að því, að skattar af fjármagnstekjum, séu svo sem 5% til 10% lægri en almennir tekjuskattar og skattleysirmörkum af lágum fjármagnstekjum, verði fundinn sérstakur farvegur.

Rökin fyrir óverulegum sköttum af fjármagnstekjum voru m.a. þau, að fólk mundi þá ekki aðeins spara peninga, heldur auka þjóðarhag, með því að leggja þá í hlutabréf í fyrirtækjum, sem sköpuðu arð og atvinnu.  Þetta hljómaði mjög gáfulega samkvæmt kokkabókum frjálshyggjunnar.  Þær skruddur lentu sem kunnugt er á funheitu grilli Hannesar Hólmsteins.


Afsögn Ögmundar

Afsögn Ögmundar Jónassonar úr ríkisstjórninni er að því leyti heillaspor í íslenskum stjórnmálum, að  loksins hefur íslenskur ráðherra sagt af sér, vegna þess, að hann tekur sannfæringu sína fram yfir skammtíma hagsmuni flokks og ríkisstjórnar.

Í nýlegri blaðagrein Björgvins G. Sigurðssonar fyrrverandi viðskiptaráðherra og núverandi formanns þingflokks Samfylkingarinnar notar hann tvívegis orðið „stjórnmálastétt", án athugasemdar.  Þannig túlkar hann, ómeðvitað að vísu, sjálfsmat flestra íslenskra stjórnmálamanna.  Þeir líta ekki á sig sem fulltrúa og þar með þjóna þjóðarinnar, heldur sem sérstaka stétt, nánar tiltekið yfirstétt, sem sé hafin yfir fólkið í landinu.  Það er nákvæmlega þetta, sem skapað hefur vantrú þjóðarinnar á stjórnmálamönnum, að ekki sé sagt skömm á öllu þeirra hátterni.

Með afsögn sinni hafnar Ögmundur Jónasson „stéttarvitund" stjórnmálamanna.  Hann kemur fram sem einstaklingur, er starfar í umboði þjóðarinnar, ekki „stjórnmálastéttarinnar".  Þetta er virðingarverð afstaða.


„Sameiningartáknið" hefur talað

Nú hefur Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, sem heilt prósent þjóðarinnar lítur á sem sameiningartákn sitt, lýst því yfir í símaviðtali í amerískri útvarpsstöð, að gömlu bankarnir á Íslandi hafi haldið sig innan evrópskra reglna áður en þeir fóru á hausinn.

Ef mark væri á manninum takandi, þýddi þetta einfaldlega, að allir þeir, sem nú rannsaka lagalega hlið hrunsins, gætu pakkað saman; „sameiningartáknið" hefur jú talað!

 


Brauð og leikar í heimi listarinnar

Eftirfarandi grein mín birtist í Morgunblaðinu í dag:  

Fyrir mörgum árum skrifaði rithöfundur einn og þjóðfélagsrýnir merka grein í dagblað, þar sem hann gagnrýndi kollega sína, fyrir afskiptaleysi af þjóðfélagsmálum.  Nefndi hann nokkur nöfn, máli sínu til stuðnings.  Einn þessara höfunda, svaraði því aðspurður í sama blaði, nokkru síðar, að það væri ekki hlutverk rithöfunda, að skipta sér af stjórnmálum; þeir ættu einfaldlega að skrifa sögur.

Þetta hygg ég, að hafi verið hið almenna viðhorf, jafnt almennings sem rithöfunda á „frjálshyggjutímanum”.  Rithöfundar voru þar með orðnir hluti af skemmtanaiðnaðinum, rétt eins og hverjir aðrir popparar.  Eini munurinn var sá, að poppararnir urðu sjálfir að sjá sér fyrir salti í grautinn, meðan Launasjóður rithöfunda hélt upp þeim rithöfundum, sem fyndnastir þóttu á hverjum tíma.

Skömmu eftir hrun Sovétríkjanna kom hingað til lands rússneskur rithöfundur.  Honum var haldin veisla í húsakynnum Rithöfundasambands Íslands.  Þegar veislugestir voru orðnir nokkuð hreifir af víni, spurði heiðursgesturinn, hvernig menn færu að því, lifa af ritstörfum í svo fámennu landi.  Honum var svarað, að hér væri til ritlaunasjóður.  „Og hver borgar í hann”? spurði Rússinn.  Þegar honum var sagt, að ríkið sæi um þá hlið mála, sagði sá rússneski: „Já, einmitt, svo þið skrifið eftir pöntun”.

Auðvitað reyndu viðstaddir að sverja slíka háttsemi af sér.  En Rússanum varð ekki hnikað: „Verið þið ekki með þetta fjandans kjaftæði”, sagði hann, „ég starfaði í svona kerfi í þrjátíu ár og veit nákvæmlega hvernig það virkar”.

Fjarri sé mér, að halda því fram, að þeir rithöfundar, sem ríkið hefur haldið á floti hér á landi, skrifi samkvæmt beinni pöntun.  Hins vegar leyfi ég mér að fullyrða, að flestir þeirra séu svo lítilsigldir, að það hafi ekki einu sinni þurft að segja þeim, hvað til þeirra friðar heyrði.  Og þurfi ekki enn.

Því miður gildir þetta ekki aðeins um rithöfunda, heldur listamenn yfirleitt og einnig fræðimenn á ótrúlegustu sviðum vísinda.  Það er að vísu ekki önnur saga, en annar kafli, sem ekki verður fjallað um hér, enda stendur það öðrum nær en mér.

Hlutverk lista?

Hvert er hlutverk lista?  Sumir segja, að listin eigi að hafa skemmtanagildi.  Og víst er um það, að ekkert verk verður listaverk, af því einu, að vera leiðinlegt; síður en svo.  En það verður heldur ekkert verk listaverk, vegna þess eins, að af því megi hlæja.

Segja má, að skipta megi list í þrjá megin flokka. Fyrst skal nefna list augnabliksins; hermilistina.  Hún nýtist mönnum gjarnan til nokkurrar gleði, meðan á henni stendur, sjaldnast lengur. Þá er það frásagnalistin. Henni er ætlað að varðveita andblæ liðinna tíma; vera eins konar skuggsjá inn í fortíðina.  Fljótt á litið virðist frásagnalistin einungis tilheyra bókmenntum.  En sé betur að gætt, kemur annað í ljós.  Þannig getur t.d. góður listmálari eða ljósmyndari sagt sögu með myndum sínum, jafnvel kallað fram hljóma í hugum áhorfenda. Loks er nefna framsækna list; list, sem varpar ljósi inn í hið ókomna.  Það er sú list, sem mestu varðar.  En hún verður aldrei pöntuð.  Tekið skal fram, að í vissum tilfellum, liggja mörkin milli frásagnalistar og framsækinnar listar ekki endilega ljós fyrir.

Framsækin list setur menn í þá stöðu, að verða að hugsa; hver er ég, hvaðan ber mig að, hvar er ég staddur og hvert stefni ég?  Mörgum þykir þess háttar list óþægileg; hún þrengir að þeim.  Hún neyðir menn beinlínis til að hugsa, meta hlutina í nýju ljósi.  Þetta er ekki list þeirra, sem vilja „vinna á daginn og grilla á kvöldin”, svo vitnað sé til eftirminnilegra, en ef til vill ekki mjög  fleygra orða.  Þetta er list þeirra, sem leita.

Það gefur auga leið, að list þeirra, sem leita, á aldrei upp á pallborðið hjá valdhöfum, hvort heldur þeir verma ráðherrastóla eða fara með peningavöld eða völd á sviði menningarmála.  Þar þykir það best, sem þegar er fundið.  Eðlilega!          Framsækin list er ekki og verður aldrei list fjöldans.  Ekki svo að skilja, að hún sé list hinna útvöldu.  Hún er einfaldlega list þeirra, sem vilja notfæri sér listina, til að staðsetja sig í tilverunni og leita leiða inn í framtíðina.  Margir nota trú í sama tilgangi, aðrir heimspeki og enn fleiri blanda þessu öllu saman.  Framsækin list vekur m.ö.o spurningar; svara við þeim verður hver og einn að leita sjálfur.

Afstaða valdsins

Valdið, hverju nafni, sem það nefnist, vill ekki, að fólk leiti sér svara við spurningum um rök tilverunnar.  Það telur sig sjálft hafa svör á reiðum höndum, við hvaða spurningum, sem vera skal.  Og það ætlast til þess, að almenningur taki þau svör gild.  Annarrs er voðinn vís.

Stundum tryggja valdhafar völd sín yfir listum og annarri mannlegri hugsun, með vopnum og frelsissviptingu þeirra, sem hugsa á öðrum brautum, en þeim eru þóknanlegar.  Í slíkum tilfellum er talað um einræði eða jafnvel alræði.  En oft þurfa valdhafarnir ekki á þess háttar meðulum að halda.  Þá nægir þeim að kasta beini fyrir þann hundskjaftinn, sem hæst geltir, klappa kjölturakkanum undir kverkina o.s.frv.  Slíkar aðferðir eru vopn valdsins í lýðræðisríkjum, sérstaklega þar sem lýðræðið stendur á brauðfótum.

Lýðræðið á Íslandi hefur lengi verið veikt.  Síðasta birtingarmynd þeirrar veiklunar var, þegar valdhafarnir töldu þjóðinni trú um, að henni mundi vegna þeim mun betur, eftir því, sem hún hefði minna með sín eigin mál að gera.  Fólki var talin trú um, að best væri, að selja sem mest af þeim stofnunum, sem það átti og gat, þrátt fyrir allt, haft nokkur áhrif á með lýðræðislegum hætti.  Því næst voru þessar stofnanir að vísu ekki seldar, heldur gefnar, en það er annar handleggur.

Þetta blasti við öllum hugsandi mönnum.  Öllum mátti ljóst vera, hver endirinn yrði.  En um það mátti ekki tala.  Og því fór sem fór.  Því miður verður að segjast eins og er, að listamenn eiga þar stóra skuld að gjalda þjóðinni.  Ég er ekki að tala um alla listamenn, ef til vill ekki einu sinni marga.  En ég er að tala um þá listamenn, sem valdhafarnir hafa helst haldið að þjóðinni, m.a. með dyggri aðstoð fjölmiðla og fræðslukerfis.

Sumum þessara listamanna er nokkur vorkunn; þeir höfðu einfaldlega ekki þann kjark, sem þurfti, til að standa á eigin fótum.  Það er erfitt, að ásaka menn fyrir hugleysi; það er þeim eðlislægt.    Aðrir höfðu „frægð” sína að verja.  Er hægt að ásaka menn fyrir hégómaskap?  Ef til vill ekki.  En listin á að vera vígvöllur hugsunarinnar og huglausir menn eiga ekki erindi á vígvöll.  Sama gildir um hina hégómafullu; þeim hæfir best, að standa fyrir framan spegil og dásama sína eigin mynd.

Listin gerir kröfur, bæði til þeirra, sem skapa hana og hinna sem njóta hennar.  Þær kröfur verða menn m.a. að setja í þjóðfélagslegt samhengi.                

Kært vegna meintra tengsla í lífeyrissjóði

Það gefur auga leið, að tengslanet þéttist í hverju þjóðfélagi, eftir því, sem það er fámennara.  Þetta er ein skýring þess, hvernig komið er fyrir okkur Íslendingum.  Að vísu verður, segjum t.d. bankastjóri ekki spilltur af því einu, að eiga frænda, sem vantar lán, umfram það, sem hann er borgunarmaður fyrir.  En hættan er fyrir hendi.  Og í öðru eins spillingardýki og íslenskt viðskiptalíf og stjórnkerfi er, liggur við, að taka þurfi upp hið forna germanska dómskerfi, að ákærðum mönnum sé skylt að sanna sakleysi sitt, í stað þess, að ákærandi þurfi að sanna sekt hins ákærða.  Reyndar þekkist þetta kerfi enn, á lægri dómsstigum, m.a. í Svíþjóð.

Flestir eru sammála um þörfina á  siðbót á Íslandi.  Vissulega er full þörf að koma henni á, og vonandi eru það ekki dagdraumar einir, að það sé hægt.   Hættunni á óeðlilegum hagsmunatengslum sökum fámennis, verður ekki bægt frá í einni svipan.  Það þarf almenna hugarfarsbreytingu, til að losa þjóðina undan þessum álögum.

Nú hafa tveir fulltrúar í stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur lagt fram kæru, vegna meintra óeðlilegra tengsla í rekstri lífeysissjóðs þeirra ágæta stéttarfélags.  Hér er í raun um prófmál að ræða. 

Ekki veit ég, hvort hinir ákærðu eru sekir eða saklausir.  Hitt er ljóst, að í þessu máli verður ekki aðeins felldur dómur yfir einstaklingum, heldur þjóðfélagsskipan, sem óneitanlega minnir á rotið epli í Bónus.


Hvað veldur frestun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins?

Þegar Bandaríkjamenn voru að freista þess, að tryggja sér hernaðarlega aðstöðu á Íslandi til frambúðar, eftir lok síðari heimstyrjaldar, reyndu þeir að múta einstaklingum innan stjórnkerfisins og í viðskiptalífinu.  Það gekk treglega.  Á þessum árum voru Íslendingar svo „undarlega" þenkjandi, að þeir lágu illa við mútum.  Þá var farið að ráðum sendiherra þeirra í Reykjavík og keyptur fiskur til að senda til sveltandi Þjóðverja.  Verðið, sem greitt var fyrir fiskinn, var mun hærra en það, sem áður hafði fengist í Rússlandi, en þangað seldum við fisk fyrstu misserin eftir stríð.  M.ö.o., einstaklingum var ekki mútað, heldur heilli atvinnugrein, í þessu tilfelli sjávarútvegnum.  Um þetta má lesa í skýrslum bandarísku utanríkisþjónustunnar, sem birtar voru hálfri öld eftir stríð.

Hvað vekur þessa þanka?  Jú, sú bið, sem orðið hefur á því, að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn skenki oss allra náðasamlegast gull úr sínum greipum vekur spurningar.   Efnahagsátandið hér á landi hlýtur að vera forráðamönnum sjóðsins ljóst.  Þeim ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði, skyldi maður ætla.  Hvers bíða þeir þá?

Það er alkunna, að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er í raun ekkert annað en vestisvasi Sáms frænda og annarra vestrænna stórvelda.  Úr þessum vasa er ausið fjármunum til efnahagslega illra staddra ríkja, sem þó hafa yfir auðlindum að ráða.  Skilyrðin eru, að þær auðlindir séu látnar í hendur Bandaríkjamanna og nánustu bandamanna þeirra og þá ekki síst Breta.  Þannig skila aurarnir sér aftur í sjóðinn og það margfaldlega.

Það skyldi þó ekki vera, að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra væru einfaldlega að bíða þess, að þeim auðsveipnir menn komist til valda á Íslandi, svo auðvelt sé að múta þeim, til að láta orkulindir og fiskimið þjóðarinnar af hendi? 

Að vísu þurfa þeir tæpast að óttast núverandi stjórnarflokka.   En þessir flokkar mega eiga það, að þeir óttast þjóðina.  Það er meira en sagt verður um flokkana, sem gáfu vildarvinum sínum bankana, símakerfið o.s.frv.  Þess vegna er, þrátt fyrir allt, betra fyrir Sám frænda og vini hans, að hafa í stjórnarráðinu, menn, sem eru í nánum tengslum við gjörspillt fjármálaöfl, ekki vegna þess, að milli þeirra ríki traust og trúnaður, heldur vegna hins, að þeir deila með sér hugmyndafræði.  Og ef til vill eru þeir auðkeyptir að auki.


Hrunadans Borgarahreyfingarinnar

Það er gömul saga og ný, að stjórnmálaflokkar, sem til verða utan gamla fjórflokksins eigi erfitt uppdráttar.  Margt kemur þar til.  Stundum hafa félagar þessara flokka of fátt að sameinast um.  Stjórnmálalegar forsendur eru fólks eru þá ólíkar.  Þessum flokkum er það gjarnan sameiginlegt, að þeir eru stofnaðir á neikvæðum forsendum, í þeim skilningi, að þeim er stefnt gegn einhverju tilteknu þjóðfélagsástandi, sem augljóslega má bæta, en ekki til stuðnings ákveðnu þjóðfélagsafli, eins og deildirnar í fjórflokknum.

Nú um helgina hefur Borgarahreyfingin sýnilega liðið undir lok.  Hún náði óánægjufylgi í síðustu Alþingiskosningum.  Það virðist ekki hafa dugað henni til hugmyndafræðilegrar festu.

En dropinn holar steininn.  Ég var á sínum tíma stofnfélagi í Samtökum frjálslyndra og vinstrimanna.  Þau tórðu lengur en Borgarahreyfingin, en örlög þeirra urðu hin sömu.  Eigi að síður náðu þau að sá fræjum, sem síðar hafa sprottið víða í stjórnmálunum.  Það er ekki að vita, nema Borgarahreyfingin geri slíkt hið sama, enda þótt skammur líftími hennar dragi úr líkum þess.

Ég er ekki félagi í Borgarahreyfingunni og tek þar af leiðandi ekki þátt í innanhúsátökum þar á bæ.  En undarlegt þótti mér að  heyra það í fréttum, að samþykkt hefði verið, að fulltrúar hreyfingarinnar  út á við, skyldu sverja henni trúnaðareiða.  Vonandi hefur mér misheyrst.  Eða á ég ef til vill að reikna með því, að næst þegar ég bregð mér í bæinn, rekist ég á stöku mann í brúnni skyrtu með borða á hægri handlegg?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband